Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Snýst tunglið um möndul sinn eða ekki?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Spurningin í heild var sem hér segir:
Nú hef ég heyrt að tunglið snúi alltaf sömu hlið að jörðinni, þ.e. snúist ekki um möndul sinn. Einnig hef ég heyrt að einn sólarhringur á tunglinu sé 29 dagar, sem þýðir að tunglið snýst um möndul sinn. Getur verið að sú saga hafi komist á kreik að tunglið sneri alltaf sömu hliðinni að jörðu vegna þess hve sólarhringurinn þar er langur? Hvað er satt og rétt í þessu máli?
Stutta svarið við spurningunni er bæði já og nei; tunglið snýst eða snýst ekki um möndul sinn allt eftir því við hvað er miðað. Samt er kjarni máls ekki flókinn.

Aðalatriðið er að öll hreyfing er afstæð sem kallað er, það er að segja að hún miðast við afstöðu annarra hluta eða svokallað viðmiðunarkerfi (e. system of reference). Þegar sagt er að maður sé kyrr þarf að tiltaka við hvað er miðað: Jörðina, bílinn, lestina, flugvélina, sólina og svo framvegis. Þegar við segjumst vera á hreyfingu þurfum við á sama hátt að tiltaka viðmiðið, nema þá að það sé greinilega undirskilið. Þetta á bæði við um hreyfingu úr stað og snúning hlutar um sjálfan sig án þess að hann hreyfist úr stað sem heild. Þá getur verið að hann snúist miðað við tiltekinn annan hlut, en ekki miðað við þann þriðja.


Myndin sýnir hvernig „snúningi“ tunglsins er háttað. Við sjáum athuganda sem stendur á þeim stað á tunglinu sem snýr sífellt að jörðinni, en hreyfingin er einmitt þannig að þessi staður er ávallt hinn sami. Manninum sýnist jörðin alltaf vera í hvirfilpunkti (e. zenith), það er að segja lóðrétt fyrir ofan sig. Okkur sem horfum á þetta ofan frá, eins og myndin gefur til kynna, virðist tunglið snúast um möndul um leið og það færist eftir brautinni. Athuganda á jörðinni sýnist tunglið í rauninni ekki snúast; Það snýr alltaf sömu hlið að honum. Hreyfing af þessu tagi kallast bundinn snúningur (e. synchronous rotation).

Þegar við segjum að við séum kyrr og nefnum ekkert viðmið, þá er merkingin yfirleitt að við séum kyrr miðað við jörðina. Engu að síður fylgjum við jörðinni í snúningi hennar um möndul sinn. Við hér á Íslandi förum eina umferð um hann á sólarhring eftir hring sem hefur um það bil 3.000 km geisla (e. radius). Jafnframt fylgjum við jörðinni á hreyfingu hennar eftir braut sinni um sól, en þar er hraðinn hvorki meiri né minni en 30 km á sekúndu.

Tunglið snýst ekki miðað við jörð, það er að segja að það snýr alltaf sömu hliðinni að jörðinni. Hins vegar er það á hreyfingu eftir braut um jörðina og snýr því alls ekki alltaf sömu hlið að sól eins og myndin sýnir (við getum hugsað okkur að sólin sé langt í burtu til vinstri á myndinni).

Þegar tunglið er fjærst sól á braut sinni um jörð snýr það sömu hlið að bæði sól og jörð og við segjum að það sé fullt; við sjáum þá einmitt alla hliðina sem sólin lýsir upp. Eftir 29,53 sólarhringa frá fullu tungli er tunglið aftur fullt og snýr þá aftur sömu hlið að sólinni. Athuganda á sólinni sýnist því tunglið hafa snúist einn hring um möndul sinn á þessum tíma, en athuganda á jörðinni sýnist það ekki. Tunglið hefur alltaf snúið sömu hliðinni að hinum síðarnefnda og það er einungis birta þess sem breytist í tunglmánuðinum.

Mynd: The Moon's Rotation. Jim Loy.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

7.11.2006

Spyrjandi

Þórhallur Hákonarson

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Snýst tunglið um möndul sinn eða ekki?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2006, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6365.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2006, 7. nóvember). Snýst tunglið um möndul sinn eða ekki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6365

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Snýst tunglið um möndul sinn eða ekki?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2006. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6365>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Snýst tunglið um möndul sinn eða ekki?
Spurningin í heild var sem hér segir:

Nú hef ég heyrt að tunglið snúi alltaf sömu hlið að jörðinni, þ.e. snúist ekki um möndul sinn. Einnig hef ég heyrt að einn sólarhringur á tunglinu sé 29 dagar, sem þýðir að tunglið snýst um möndul sinn. Getur verið að sú saga hafi komist á kreik að tunglið sneri alltaf sömu hliðinni að jörðu vegna þess hve sólarhringurinn þar er langur? Hvað er satt og rétt í þessu máli?
Stutta svarið við spurningunni er bæði já og nei; tunglið snýst eða snýst ekki um möndul sinn allt eftir því við hvað er miðað. Samt er kjarni máls ekki flókinn.

Aðalatriðið er að öll hreyfing er afstæð sem kallað er, það er að segja að hún miðast við afstöðu annarra hluta eða svokallað viðmiðunarkerfi (e. system of reference). Þegar sagt er að maður sé kyrr þarf að tiltaka við hvað er miðað: Jörðina, bílinn, lestina, flugvélina, sólina og svo framvegis. Þegar við segjumst vera á hreyfingu þurfum við á sama hátt að tiltaka viðmiðið, nema þá að það sé greinilega undirskilið. Þetta á bæði við um hreyfingu úr stað og snúning hlutar um sjálfan sig án þess að hann hreyfist úr stað sem heild. Þá getur verið að hann snúist miðað við tiltekinn annan hlut, en ekki miðað við þann þriðja.


Myndin sýnir hvernig „snúningi“ tunglsins er háttað. Við sjáum athuganda sem stendur á þeim stað á tunglinu sem snýr sífellt að jörðinni, en hreyfingin er einmitt þannig að þessi staður er ávallt hinn sami. Manninum sýnist jörðin alltaf vera í hvirfilpunkti (e. zenith), það er að segja lóðrétt fyrir ofan sig. Okkur sem horfum á þetta ofan frá, eins og myndin gefur til kynna, virðist tunglið snúast um möndul um leið og það færist eftir brautinni. Athuganda á jörðinni sýnist tunglið í rauninni ekki snúast; Það snýr alltaf sömu hlið að honum. Hreyfing af þessu tagi kallast bundinn snúningur (e. synchronous rotation).

Þegar við segjum að við séum kyrr og nefnum ekkert viðmið, þá er merkingin yfirleitt að við séum kyrr miðað við jörðina. Engu að síður fylgjum við jörðinni í snúningi hennar um möndul sinn. Við hér á Íslandi förum eina umferð um hann á sólarhring eftir hring sem hefur um það bil 3.000 km geisla (e. radius). Jafnframt fylgjum við jörðinni á hreyfingu hennar eftir braut sinni um sól, en þar er hraðinn hvorki meiri né minni en 30 km á sekúndu.

Tunglið snýst ekki miðað við jörð, það er að segja að það snýr alltaf sömu hliðinni að jörðinni. Hins vegar er það á hreyfingu eftir braut um jörðina og snýr því alls ekki alltaf sömu hlið að sól eins og myndin sýnir (við getum hugsað okkur að sólin sé langt í burtu til vinstri á myndinni).

Þegar tunglið er fjærst sól á braut sinni um jörð snýr það sömu hlið að bæði sól og jörð og við segjum að það sé fullt; við sjáum þá einmitt alla hliðina sem sólin lýsir upp. Eftir 29,53 sólarhringa frá fullu tungli er tunglið aftur fullt og snýr þá aftur sömu hlið að sólinni. Athuganda á sólinni sýnist því tunglið hafa snúist einn hring um möndul sinn á þessum tíma, en athuganda á jörðinni sýnist það ekki. Tunglið hefur alltaf snúið sömu hliðinni að hinum síðarnefnda og það er einungis birta þess sem breytist í tunglmánuðinum.

Mynd: The Moon's Rotation. Jim Loy....