Sólin Sólin Rís 07:09 • sest 19:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:39 • Síðdegis: 23:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 17:09 í Reykjavík

Hvaðan kemur hjátrúin að banka í við?

Símon Jón Jóhannsson

Það er mjög algeng og útbreidd hjátrú, einkum meðal kristinna manna, að banka (þrisvar) undir eða á viðarborð eða snerta tré. Um leið fara menn gjarnan með talnaþuluna 7 – 9 – 13, sem lesa má nánar um í svari sama höfundar við spurningunni Af hverju þykja tölurnar 7, 9 og 13 sérstaklega kynngimagnaðar? Þetta er gert eftir að menn hafa sagt eitthvað sem flokka má undir hroka eða oflátungshátt, eitthvað sem þykir ógætilega sagt eða þegar menn fullyrða nokkuð sem brugðið getur til beggja vona.

Vel þekkt trúarhugmynd er að mönnum hefnist fyrir að storka forlögunum eða almættinu með einhverjum hætti, til dæmis óvarlegu tali. Sú trú virðist einnig eiga sér djúpar rætur að hrósi menn sér af góðri heilsu eða góðu gengi yfirleitt þá missi þeir velgengnina, annað hvort af völdum öfundsjúkra, illra afla eða þess guðs sem menn ættu fremur að þakka. Hin kristna siðfræði gerir ráð fyrir að menn séu auðmjúkir og undirgefnir skapara sínum og hvers kyns ofmetnaður sé af hinu illa.

Þegar mönnum hefur orðið á að móðga máttarvöldin eða misbjóða þeim á einhvern hátt má í þjóðtrúnni finna ráð til að vinna á móti slæmum afleiðingum misgjörðanna. Þannig er hægt að sættast við almættið og milda reiði þess eða verja sig fyrir illum öflum. Til þessara hugmynda má rekja þá hjátrú að segja 7 - 9 - 13 um leið og bankað er í tré.

Umrædd hjátrú er að öllum líkindum ung hérlendis og hefur orðið til fyrir erlend áhrif. Ekki sér þess stað í íslenskum þjóðsagnasöfnum né öðrum heimildum að um gamla hjátrú sé að ræða.

Annars staðar á Norðurlöndum er þessi siður vel þekktur. Í stað þess að hafa yfir rununa 7 - 9 - 13 segja Danir stundum „sagt i en god tid“ þegar þeir banka undir borð. Með þessu er átt við að eitthvað sem ekki er öruggt sé sagt fullsnemma.

Í Svíþjóð er talað um að „ta´ i träd“ við sambærilegar aðstæður, Englendingar segja „touch wood“, Bandaríkjamenn „knock on wood“ og Frakkar segja „touchez du bois“. Alls staðar er merkingin sú sama, að banka í tré, snerta tré eða eitthvað áþekkt því. Þjóðverjar segja reyndar „unberufen“ og banka svo undir borð án þess að segja neitt frekar, en „unberufen“ merkir ósagt. Á þennan hátt tilkynna menn að þeir hefðu betur látið eitthvað ósagt og biðjast afsökunar á ummælum sínum.


Það er útbreidd hjátrú að snerta tré eða banka í við.

Fræðimenn hafa leitast við að skýra þessa hjátrú og hélt danski raunvísindamaðurinn Paul Bergsøe (1872 -1963) því til að mynda fram að siðinn mætti rekja til klausturreglna. Þegar einhver munkanna gerðist sekur um að raupa við matarborðið hafi príorinn bankað undir borðið til að halda aftur af honum, bent á krossinn í rósakransinum, bænabandinu sem munkarnir bera, og sagt: „Vertu lítillátur.“

Einnig hefur verið bent á önnur hugsanleg tengsl við kirkjuna og þá sérstaklega kross Krists (sjá nánar í svari Hjalta Hugasonar við spurningunni Hvers vegna er kross tákn kristninnar?). Trú á margvíslega helgigripi hefur um langt skeið notið mikilla vinsælda, einkum í kaþólskum sið. Sérstök helgi hefur hvílt yfir tréflísum sem menn trúa að komnar séu úr krossi Krists. Því er haldið fram að snerting við tré minni á krossinn og menn skynji það sem ígildi þess að snerta krossinn sjálfan. Með þessu móti sýni menn kristilega auðmýkt á táknrænan hátt.

Önnur skýring er að þegar bankað er í tré eða það snert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir áhrif illra anda þá séu menn í rauninni að koma öndunum fyrir inni í trénu. Slík „millifærsla“ eða kyrrsetning illra afla inni í hlutum er víða þekkt í þjóðtrú. Sömuleiðis er til trú um að koma megi sjúkdómum og sársauka yfir í hluti, til dæmis hluti úr tré.

Þetta kemur meðal annars fram hér á landi í þeirri trú að hægt sé að ginna drauga inn í leggi, ýmist sauðarleggi eða hrossleggi, setja tappa í opið og binda svo fyrir allt saman með líknarbelg. Þar mega draugarnir dúsa um aldur og eilífð, en beri það við að leggurinn sé opnaður aftur, þá kemur fjandinn úr sauðarleggnum. Frá þessu segir meðal annars í þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Víðast hvar er lögð áhersla á að banka í tré en ekki annað efni. Því má telja líklegt að skýringa á uppruna þessarar hjátrúar sé að leita í trúnni á krossinn eða annarri tiltrú á tré, enda er trjádýrkun af ýmsu tagi ævagömul. Nú á dögum getur stundum reynst erfitt að finna tréborð til að banka í, en þá er ráð að grípa blað af einhverju tagi og hafa það á milli, því pappír er, eins og flestir vita, unninn úr trjákvoðu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Piø, Iørn. 1973. Den lille overtro. Håndbog om hverdagens magi. Kaupmannahöfn.
  • Símon Jón Jóhannsson. 1999. Stóra hjátrúarbókin. Vaka-Helgafell.
  • Mynd: Touch Wood 2. Flickr.com. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.

Höfundur

Símon Jón Jóhannsson

þjóðfræðingur

Útgáfudagur

16.11.2006

Spyrjandi

Guðlaugur Árnason

Tilvísun

Símon Jón Jóhannsson. „Hvaðan kemur hjátrúin að banka í við?“ Vísindavefurinn, 16. nóvember 2006. Sótt 22. september 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=6384.

Símon Jón Jóhannsson. (2006, 16. nóvember). Hvaðan kemur hjátrúin að banka í við? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6384

Símon Jón Jóhannsson. „Hvaðan kemur hjátrúin að banka í við?“ Vísindavefurinn. 16. nóv. 2006. Vefsíða. 22. sep. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6384>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaðan kemur hjátrúin að banka í við?
Það er mjög algeng og útbreidd hjátrú, einkum meðal kristinna manna, að banka (þrisvar) undir eða á viðarborð eða snerta tré. Um leið fara menn gjarnan með talnaþuluna 7 – 9 – 13, sem lesa má nánar um í svari sama höfundar við spurningunni Af hverju þykja tölurnar 7, 9 og 13 sérstaklega kynngimagnaðar? Þetta er gert eftir að menn hafa sagt eitthvað sem flokka má undir hroka eða oflátungshátt, eitthvað sem þykir ógætilega sagt eða þegar menn fullyrða nokkuð sem brugðið getur til beggja vona.

Vel þekkt trúarhugmynd er að mönnum hefnist fyrir að storka forlögunum eða almættinu með einhverjum hætti, til dæmis óvarlegu tali. Sú trú virðist einnig eiga sér djúpar rætur að hrósi menn sér af góðri heilsu eða góðu gengi yfirleitt þá missi þeir velgengnina, annað hvort af völdum öfundsjúkra, illra afla eða þess guðs sem menn ættu fremur að þakka. Hin kristna siðfræði gerir ráð fyrir að menn séu auðmjúkir og undirgefnir skapara sínum og hvers kyns ofmetnaður sé af hinu illa.

Þegar mönnum hefur orðið á að móðga máttarvöldin eða misbjóða þeim á einhvern hátt má í þjóðtrúnni finna ráð til að vinna á móti slæmum afleiðingum misgjörðanna. Þannig er hægt að sættast við almættið og milda reiði þess eða verja sig fyrir illum öflum. Til þessara hugmynda má rekja þá hjátrú að segja 7 - 9 - 13 um leið og bankað er í tré.

Umrædd hjátrú er að öllum líkindum ung hérlendis og hefur orðið til fyrir erlend áhrif. Ekki sér þess stað í íslenskum þjóðsagnasöfnum né öðrum heimildum að um gamla hjátrú sé að ræða.

Annars staðar á Norðurlöndum er þessi siður vel þekktur. Í stað þess að hafa yfir rununa 7 - 9 - 13 segja Danir stundum „sagt i en god tid“ þegar þeir banka undir borð. Með þessu er átt við að eitthvað sem ekki er öruggt sé sagt fullsnemma.

Í Svíþjóð er talað um að „ta´ i träd“ við sambærilegar aðstæður, Englendingar segja „touch wood“, Bandaríkjamenn „knock on wood“ og Frakkar segja „touchez du bois“. Alls staðar er merkingin sú sama, að banka í tré, snerta tré eða eitthvað áþekkt því. Þjóðverjar segja reyndar „unberufen“ og banka svo undir borð án þess að segja neitt frekar, en „unberufen“ merkir ósagt. Á þennan hátt tilkynna menn að þeir hefðu betur látið eitthvað ósagt og biðjast afsökunar á ummælum sínum.


Það er útbreidd hjátrú að snerta tré eða banka í við.

Fræðimenn hafa leitast við að skýra þessa hjátrú og hélt danski raunvísindamaðurinn Paul Bergsøe (1872 -1963) því til að mynda fram að siðinn mætti rekja til klausturreglna. Þegar einhver munkanna gerðist sekur um að raupa við matarborðið hafi príorinn bankað undir borðið til að halda aftur af honum, bent á krossinn í rósakransinum, bænabandinu sem munkarnir bera, og sagt: „Vertu lítillátur.“

Einnig hefur verið bent á önnur hugsanleg tengsl við kirkjuna og þá sérstaklega kross Krists (sjá nánar í svari Hjalta Hugasonar við spurningunni Hvers vegna er kross tákn kristninnar?). Trú á margvíslega helgigripi hefur um langt skeið notið mikilla vinsælda, einkum í kaþólskum sið. Sérstök helgi hefur hvílt yfir tréflísum sem menn trúa að komnar séu úr krossi Krists. Því er haldið fram að snerting við tré minni á krossinn og menn skynji það sem ígildi þess að snerta krossinn sjálfan. Með þessu móti sýni menn kristilega auðmýkt á táknrænan hátt.

Önnur skýring er að þegar bankað er í tré eða það snert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir áhrif illra anda þá séu menn í rauninni að koma öndunum fyrir inni í trénu. Slík „millifærsla“ eða kyrrsetning illra afla inni í hlutum er víða þekkt í þjóðtrú. Sömuleiðis er til trú um að koma megi sjúkdómum og sársauka yfir í hluti, til dæmis hluti úr tré.

Þetta kemur meðal annars fram hér á landi í þeirri trú að hægt sé að ginna drauga inn í leggi, ýmist sauðarleggi eða hrossleggi, setja tappa í opið og binda svo fyrir allt saman með líknarbelg. Þar mega draugarnir dúsa um aldur og eilífð, en beri það við að leggurinn sé opnaður aftur, þá kemur fjandinn úr sauðarleggnum. Frá þessu segir meðal annars í þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Víðast hvar er lögð áhersla á að banka í tré en ekki annað efni. Því má telja líklegt að skýringa á uppruna þessarar hjátrúar sé að leita í trúnni á krossinn eða annarri tiltrú á tré, enda er trjádýrkun af ýmsu tagi ævagömul. Nú á dögum getur stundum reynst erfitt að finna tréborð til að banka í, en þá er ráð að grípa blað af einhverju tagi og hafa það á milli, því pappír er, eins og flestir vita, unninn úr trjákvoðu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Piø, Iørn. 1973. Den lille overtro. Håndbog om hverdagens magi. Kaupmannahöfn.
  • Símon Jón Jóhannsson. 1999. Stóra hjátrúarbókin. Vaka-Helgafell.
  • Mynd: Touch Wood 2. Flickr.com. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.
...