Sólin Sólin Rís 08:54 • sest 18:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:18 • Sest 09:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:41 • Síðdegis: 19:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:33 • Síðdegis: 12:58 í Reykjavík

Er hægt að flokka íþróttir undir menningu eða listir?

Haukur Már Helgason

Já og nei.

Orðin íþrótt og þó enn fremur menning og list hafa hvert um sig nokkrar merkingar. Orðabók Menningarsjóðs veitir þessa skýringu meðal annarra á list: 'sú íþrótt að búa til e-ð fagurt eða eftirtektarvert' og flokkar þannig list undir íþróttir í einum skilningi.

Væntanlega hefur spyrjandi þó í huga þá merkingu orðsins 'íþróttir' sem mest tíðkast í dag, leiki og keppnir þar sem reynir á líkamlegan styrk og getu þátttakenda. Ljóst er að þessar íþróttir tilheyra menningu okkar í yfirgripsmesta skilningi þess orðs -- þær tilheyra því sem mennirnir taka sér fyrir hendur í samfélaginu.

'List' í samhenginu 'menning og listir' er sjálfsagt ætluð þessi fyrrnefnda merking úr Orðabók Menningarsjóðs, frekar en hin sem einnig er til og er að nokkru yfirgripsmeiri: 'leikni, færni, hæfileiki'.

Þá spyrjum við: Flokkast leikir og keppnir þar sem reynir á líkamlegan styrk og getu þátttakenda undir þá íþrótt að búa til eitthvað fagurt eða eftirtektarvert?

Þeirri spurningu myndu menn svara misjafnlega. Í höndum færustu íþróttamanna verður trúlega til eitthvað fagurt eða eftirtektarvert og því virðist samkvæmt inntaki orðanna ekkert því til fyrirstöðu að telja íþróttir til lista.

En hér verður mikilvægt að greina milli inntaks orða og umtaks þeirra. Inntak er fólgið í orðaskilgreiningum, venslum hugtaka sín á milli. Hér að ofan lýstum við mögulegu inntaki orðanna sem við skoðum. Umtak orðanna er svið þeirra einstöku fyrirbæra sem þau ná yfir. Listi yfir fyrirbæri sem orðið 'íþróttir' tekur yfir er: 'fótbolti, handbolti, blak, hjólreiðar, sund ...' Fyrirbæri sem heyra til umtaks 'lista' eru t.d. málaralist, höggmyndagerð, tónlist, bókmenntir og fleira.

Hér er torfundið nokkuð sameiginlegt. Þrátt fyrir að inntak orðsins 'íþróttir' í algengasta skilningi geti í mörgum tilfellum heyrt undir inntak orðsins 'listir' í algengum skilningi þess eru torfundin einstök fyrirbæri sem heyra til umtaks beggja.

Upphaflegu spurningunni verður því svarað í tvennu lagi. Íþróttir tilheyra menningu okkar í almennum skilningi, það er nokkuð óyggjandi. En hvort íþróttir sé hægt að flokka undir listir, eins og orðin eru almennt skilin, er ekki óyggjandi að sama skapi, að nokkru vegna þess að inntak og umtak orðanna virðast stangast á. Og þá getur menn greint á um hvort skuli halda og hvort víkja.

Höfundur

heimspekingur og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

13.7.2000

Spyrjandi

Hulda Elma Guðmundsdóttir

Tilvísun

Haukur Már Helgason. „Er hægt að flokka íþróttir undir menningu eða listir?“ Vísindavefurinn, 13. júlí 2000. Sótt 24. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=639.

Haukur Már Helgason. (2000, 13. júlí). Er hægt að flokka íþróttir undir menningu eða listir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=639

Haukur Már Helgason. „Er hægt að flokka íþróttir undir menningu eða listir?“ Vísindavefurinn. 13. júl. 2000. Vefsíða. 24. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=639>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er hægt að flokka íþróttir undir menningu eða listir?
Já og nei.

Orðin íþrótt og þó enn fremur menning og list hafa hvert um sig nokkrar merkingar. Orðabók Menningarsjóðs veitir þessa skýringu meðal annarra á list: 'sú íþrótt að búa til e-ð fagurt eða eftirtektarvert' og flokkar þannig list undir íþróttir í einum skilningi.

Væntanlega hefur spyrjandi þó í huga þá merkingu orðsins 'íþróttir' sem mest tíðkast í dag, leiki og keppnir þar sem reynir á líkamlegan styrk og getu þátttakenda. Ljóst er að þessar íþróttir tilheyra menningu okkar í yfirgripsmesta skilningi þess orðs -- þær tilheyra því sem mennirnir taka sér fyrir hendur í samfélaginu.

'List' í samhenginu 'menning og listir' er sjálfsagt ætluð þessi fyrrnefnda merking úr Orðabók Menningarsjóðs, frekar en hin sem einnig er til og er að nokkru yfirgripsmeiri: 'leikni, færni, hæfileiki'.

Þá spyrjum við: Flokkast leikir og keppnir þar sem reynir á líkamlegan styrk og getu þátttakenda undir þá íþrótt að búa til eitthvað fagurt eða eftirtektarvert?

Þeirri spurningu myndu menn svara misjafnlega. Í höndum færustu íþróttamanna verður trúlega til eitthvað fagurt eða eftirtektarvert og því virðist samkvæmt inntaki orðanna ekkert því til fyrirstöðu að telja íþróttir til lista.

En hér verður mikilvægt að greina milli inntaks orða og umtaks þeirra. Inntak er fólgið í orðaskilgreiningum, venslum hugtaka sín á milli. Hér að ofan lýstum við mögulegu inntaki orðanna sem við skoðum. Umtak orðanna er svið þeirra einstöku fyrirbæra sem þau ná yfir. Listi yfir fyrirbæri sem orðið 'íþróttir' tekur yfir er: 'fótbolti, handbolti, blak, hjólreiðar, sund ...' Fyrirbæri sem heyra til umtaks 'lista' eru t.d. málaralist, höggmyndagerð, tónlist, bókmenntir og fleira.

Hér er torfundið nokkuð sameiginlegt. Þrátt fyrir að inntak orðsins 'íþróttir' í algengasta skilningi geti í mörgum tilfellum heyrt undir inntak orðsins 'listir' í algengum skilningi þess eru torfundin einstök fyrirbæri sem heyra til umtaks beggja.

Upphaflegu spurningunni verður því svarað í tvennu lagi. Íþróttir tilheyra menningu okkar í almennum skilningi, það er nokkuð óyggjandi. En hvort íþróttir sé hægt að flokka undir listir, eins og orðin eru almennt skilin, er ekki óyggjandi að sama skapi, að nokkru vegna þess að inntak og umtak orðanna virðast stangast á. Og þá getur menn greint á um hvort skuli halda og hvort víkja....