Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Eru bæði orðin 'valkvæmur' og 'valkvæður' til í íslenskri tungu og er einhver munur á merkingu þeirra?

Bæði orðin eru fremur ný í málinu og hafa ekki komist í Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Örfá dæmi fundust um valkvæður í textasafni Orðabókarinnar, hið elsta frá 1994, en ekkert um valkvæmur. Valkvæður er þó talsverð eldra því að í safninu Tímarit.is er elst dæmi úr dagblaðinu Tímanum frá 1978. Um valkvæmur fannst ekkert dæmi þar. Valkvæður er að finna í Íslenskri orðabók Eddu frá 2002 í merkingunni 'valfrjáls' og á Snöru.is en valkvæmur er þar ekki fletta. Dæmi finnast um bæði orðin við leit í Google.is og er valkvæmur tiltölulega nýtt orð og hliðarmynd við valkvæður.

Bæði orðin valkvæmur og valkvæður eru fremur ný í málinu. Þau eru meðal annars notuð á ýmsum eyðublöðum og umsóknum þar sem ekki er nauðsynlegt að fylla allt út. Þær upplýsingar eru þá valkvæmar, valkvæðar eða valfrjálsar.

Valkvæður hefur verið nýtt sem þýðing á enska orðinu 'optional'. Síðari liðurinn -kvæður er notað til dæmis í hraðkvæður, einkvæður og er skyldur sögninni að kveða í merkingunni 'segja, mæla, yrkja' en er einnig notaður í merkingunni 'sem unnt er að krefjast' og sú merking er að baki orðinu valkvæður. Síðari liðurinn -kvæmur er notaður til dæmis í orðunum hagkvæmur og gestkvæmt og er af sama toga og sögnin að koma. Valfrjáls og valkvæður ættu að nægja til að ná merkingu orðsins 'optional' en ekkert er athugavert við nýmyndunina valkvæmur.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svo:
Eru bæði orðin valkvæmur og valkvæður til í íslenskri tungu? Ef svo er, hver er þá munurinn á notkun orðanna? Bæði orðin virðast notuð þegar fyllt er út í reiti á Netinu, svo sem heimilisfang, netfang og fleira.

Útgáfudagur

26.2.2013

Spyrjandi

Snorri Páll Einarsson

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Eru bæði orðin 'valkvæmur' og 'valkvæður' til í íslenskri tungu og er einhver munur á merkingu þeirra?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2013. Sótt 20. janúar 2018. http://visindavefur.is/svar.php?id=64016.

Guðrún Kvaran. (2013, 26. febrúar). Eru bæði orðin 'valkvæmur' og 'valkvæður' til í íslenskri tungu og er einhver munur á merkingu þeirra? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=64016

Guðrún Kvaran. „Eru bæði orðin 'valkvæmur' og 'valkvæður' til í íslenskri tungu og er einhver munur á merkingu þeirra?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2013. Vefsíða. 20. jan. 2018. <http://visindavefur.is/svar.php?id=64016>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Plástur

Plástur sem margir þekkja undir heitinu Band-Aid var fundinn upp árið 1920. Thomas Anderson og Earle Dickson þróuðu hann handa eiginkonu Dicksons. Hún átti það til að skera sig við eldamennsku og með plástrinum gat hún lokað litlum sárum án aðstoðar. Árið 1924 bjó fyrirtækið Johnson & Johnson til vél sem fjöldaframleiddi sótthreinsaða plástra og þeir voru mikið notaðir í seinni heimsstyrjöldinni.