Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:00 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:31 • Sest 02:09 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:23 • Síðdegis: 24:44 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:08 • Síðdegis: 18:28 í Reykjavík

Af hverju eru eldfjöll á Ítalíu?

Ármann Höskuldsson

Þótt Ítalía sé ekki ýkja stórt land er þar að finna nær allar tegundir eldvirkni og eldfjalla sem þekkjast á jörðinni. Íbúum Ítalíu stafar stöðug ógn af þessum eldfjöllum, en á sama tíma njóta þeir góðs af tilvist þeirra þar sem til eldfjallanna má rekja bæði frjósaman jarðveg og mikið streymi ferðamanna.

Aðgengi að ítölskum eldfjöllum er gott og því hafa þau í aldanna rás orðið til þess að auka skilning manna á eðli og hegðun eldfjalla. Þar má einkum nefna eldfjöllin Etnu og Vesúvíus, en meðal frægustu eldfjallarita fornaldar er lýsing Plíníusar yngri á eldgosinu í Vesúvíus árið 79, sem eyddi Pompei og Herculanum. Svo merk þykir lýsing hans að þessi gerð eldgosa hefur síðan verið nefnd plínísk gos.

Tvær aðrar gerðir eldgosa draga heiti sín af eldfjöllum á Ítalíu. Talað er um strombólsk eldgos ef sprengivirkni er væg og er þá vísað til eldfjallsins Strombólíns. Vestmannaeyjagosið 1973 er dæmi um slíkt eldgos. Hins vegar er talað um vúlkönsk gos þar sem að sprengivirkni er meiri og er það dregið af heiti eldfjallsins Vúlcanó. Til gamans má geta þess að orðið yfir eldfjall í mörgum erlendum málum er „volcano“, sem rekja má til eldfjallsins Vúlcanó.Ítölsk eldfjöll.

Það er forvitnilegt að velta fyrir sér hvers vegna það eru eldfjöll á Ítalíu og af hverju þau eru eins mismunandi og raun ber vitni. Flestir telja að eldvirkni á Ítalíu eigi rætur sínar að rekja til samgengis-flekamóta, þar sem hafsbotnsfleki hins forna Tethys-hafs þrýstist til norðurs inn undir Evrasíuflekann. Við það fer gamla úthafsskorpan ofan í möttulinn þar sem hún bráðnar. Kvikan sem verður til leitar síðan upp til yfirborðs og myndar eldfjöll. Við nánari skoðun kemur hins vegar í ljós að svo einföld er myndin ekki.

Þegar vensl eldfjalla við höggun og jarðfræði á Ítalíu eru skoðuð kemur í ljós að þau má tengja við allt að fimm aðalgerðir jarðfræðilegs umhverfis, sem eru eftirfarandi:

  1. Samrek Evrasíu- og Afríkuflekanna.
  2. Skorpugliðnun innan eyjaboga.
  3. Gliðnun innan meginlandsfleka.
  4. Gliðnun úthafsfleka.
  5. Möttulstrókur.

Í megindráttum er samrek Evrasíu- og Afríkuflekanna aðalorsök eldvirkni á Ítalíu. Hins vegar er samrek þessara fleka flókið og flekaskilin langt því frá að vera einsleit. Á takmörkuðu svæði við norðurmörk Afríkuflekans er enn hægt að finna leifar af úthafsskorpu sem stingst undir Evrasíuflekann. Annars staðar er úthafsskorpan horfin og meginlandsskorpur beggja flekanna rekast saman. Á slíkum flekamótum verður ekkert niðurstreymi Afríkuflekans heldur myndast fellingafjöll eins og Alparnir og Apennínafjöllin sem rekja má eftir öllum Ítalíuskaganum.Vesúvíus.

Eldvirkni Eolie-eyjanna norðan við Sikiley má rekja til samreks og niðurstreymis úthafsskorpu. Bergfræði flestra Eolie-eyjanna samræmist niðurstreymi úthafsskorpu, en þó eru nokkrar þeirra annarrar gerðar sem kallar á aðrar skýringar. Þetta hefur verið útskýrt á þann máta að úthafsskorpan sem hangir utan á Afríkuflekanum stingist nær lóðrétt niður undir eyjunum, en einnig eru uppi hugmyndir um margbreytilegt möttulefni undir þeim. Ekki verður tekin afstaða til réttmætis þessara hugmynda hér.

Samrek og niðurstreymi hafa líka verið talin aðalástæður eldvirkni á Tyrrenahafsströnd um miðbik Suður-Ítalíu, það er í eldfjöllum í Toscana-, Latíum- og Campania-héruðum Ítalíu, þar með talið í Colli Albani og Vesúvíus. Hins vegar eru þessi eldfjöll rík af kalíum og því mjög ólík eldfjöllum á samreks- og niðurstreymisbeltum. Hin sérkennilega efnasamsetning bergsins hefur verið útskýrð með uppbræðslu og blöndun við kalkberg. Seinni tíma hugmyndir hafa þó fjarlægst samreks-upprunann og telja nú margir að þessa eldvirkni megi rekja til gliðnunar bak við eyjaboga Eolie-eyjanna ásamt því að bráðin blandist kalkríku bergi í skorpunni.

Eldvirkni í Sikileyjarsundi, milli Sikileyjar og Norður-Afríku, má rekja til gliðnunar innan meginlandsskorpu. Sýnt hefur verið fram á að hafsbotninn í sundinu er gerður úr meginlandsskorpu sem hefur orðið fyrir gliðnun. Efnasamsetning gosbergs á þessu svæði er svipuð samsetningu bergs í Sigdalnum mikla í Austur-Afríku, það er kvikan er mjög alkalírík (peralkalísk) og nefnist bergið pantellerít eftir eldfjallinu Pantellería í Sikileyjarsundi.

Hið stóra og mikla neðansjávareldfjall Marsili í Suður-Tyrrenahafinu er aftur á móti mjög líkt þeim eldfjöllum sem einkenna úthafshryggi. Hér er álit manna að gliðnun úthafsskorpu hafi myndað Tyrrenahaf þegar Ítalíuskagi snerist rangsælis frá eyjunum Korsíku og Sardiníu en þær voru í eina tíð samtengdar Ítalíu.Etna.

Etna er stærsta og virkasta eldfjall Ítalíu en einna erfiðast er að útskýra tilvist hennar. Þrjár meginhugmyndir hafa komið fram. Fyrsta kenningin gerir ráð fyrir möttulstrók undir Sikiley. Samkvæmt annarri er eldvirknin óbein afleiðing samreks og niðurstreymis milli Evrasíu- og Afríkuflekanna. Þriðja kenningin rekur eldvirknina til óreglulegrar gliðnunar meðfram suðurströnd Sikileyjar. Ekki verður gert upp á milli þessara kenninga hér, en ljóst er að Etna er staðsett þar sem nokkur meginbrotabelti skerast og því á kvika hægar um vik að rísa til yfirborðs en ella. Eldvirkni hefur verið á þessu svæði í meira en 200 milljónir ára. Mestan hluta þessa tíma hefur hún verið í Hyblafjöllunum, nokkra tugi kílómetra suður af Etnu, en fyrir um 1,5 milljónum ára færðist eldvirknin yfir á Etnu-svæðið og var þar komin í fullan gang fyrir um hálfri milljón ára.

Eins og ljóst má vera af þessari lesningu er enn ekki fyllilega vitað hvers vegna eldvirkni á Ítalíu er eins mikil og raun ber vitni. Hins vegar eru menn vissir um að eldvirknina megi rekja til þeirra flóknu flekaskila sem eru á milli Evrasíu- og Afríkuflekanna. Raunar er Ítalía ekkert einsdæmi því að allt Miðjarðarhafssvæðið, að Tyrklandi meðtöldu, einkennist af mjög flóknu samspili þessara fleka og lokun hins mikla úthafs Tethys. Samfara þessu hefur myndast mikill fjöldi smárra fleka með mjög flóknum skilum á milli. Víða á þessum skilum hafa risið upp eldfjöll eins og þau á Ítalíu. Sambærileg eldfjöll er að finna í Grikklandi (til dæmis Santorini) og Tyrklandi (til dæmis Ararat). Hvort einhver eldvirkni verður á yfirborði ræðst fyrst og fremst af því hvort skilyrði til kvikumyndunar séu fyrir hendi og hvort spennuástand skorpunnar sé þannig að kvikan komist upp til yfirborðs. Fari þetta tvennt sama verða eldgos.

Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör um eldgos og/eða þá þætti sem hafa áhrif á eldvirkni, til dæmis:

Myndir:

Höfundur

Ármann Höskuldsson

eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans

Útgáfudagur

5.12.2006

Spyrjandi

Ásdís Björnsdóttir, f. 1989

Tilvísun

Ármann Höskuldsson. „Af hverju eru eldfjöll á Ítalíu?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2006. Sótt 14. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6422.

Ármann Höskuldsson. (2006, 5. desember). Af hverju eru eldfjöll á Ítalíu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6422

Ármann Höskuldsson. „Af hverju eru eldfjöll á Ítalíu?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2006. Vefsíða. 14. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6422>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru eldfjöll á Ítalíu?
Þótt Ítalía sé ekki ýkja stórt land er þar að finna nær allar tegundir eldvirkni og eldfjalla sem þekkjast á jörðinni. Íbúum Ítalíu stafar stöðug ógn af þessum eldfjöllum, en á sama tíma njóta þeir góðs af tilvist þeirra þar sem til eldfjallanna má rekja bæði frjósaman jarðveg og mikið streymi ferðamanna.

Aðgengi að ítölskum eldfjöllum er gott og því hafa þau í aldanna rás orðið til þess að auka skilning manna á eðli og hegðun eldfjalla. Þar má einkum nefna eldfjöllin Etnu og Vesúvíus, en meðal frægustu eldfjallarita fornaldar er lýsing Plíníusar yngri á eldgosinu í Vesúvíus árið 79, sem eyddi Pompei og Herculanum. Svo merk þykir lýsing hans að þessi gerð eldgosa hefur síðan verið nefnd plínísk gos.

Tvær aðrar gerðir eldgosa draga heiti sín af eldfjöllum á Ítalíu. Talað er um strombólsk eldgos ef sprengivirkni er væg og er þá vísað til eldfjallsins Strombólíns. Vestmannaeyjagosið 1973 er dæmi um slíkt eldgos. Hins vegar er talað um vúlkönsk gos þar sem að sprengivirkni er meiri og er það dregið af heiti eldfjallsins Vúlcanó. Til gamans má geta þess að orðið yfir eldfjall í mörgum erlendum málum er „volcano“, sem rekja má til eldfjallsins Vúlcanó.Ítölsk eldfjöll.

Það er forvitnilegt að velta fyrir sér hvers vegna það eru eldfjöll á Ítalíu og af hverju þau eru eins mismunandi og raun ber vitni. Flestir telja að eldvirkni á Ítalíu eigi rætur sínar að rekja til samgengis-flekamóta, þar sem hafsbotnsfleki hins forna Tethys-hafs þrýstist til norðurs inn undir Evrasíuflekann. Við það fer gamla úthafsskorpan ofan í möttulinn þar sem hún bráðnar. Kvikan sem verður til leitar síðan upp til yfirborðs og myndar eldfjöll. Við nánari skoðun kemur hins vegar í ljós að svo einföld er myndin ekki.

Þegar vensl eldfjalla við höggun og jarðfræði á Ítalíu eru skoðuð kemur í ljós að þau má tengja við allt að fimm aðalgerðir jarðfræðilegs umhverfis, sem eru eftirfarandi:

  1. Samrek Evrasíu- og Afríkuflekanna.
  2. Skorpugliðnun innan eyjaboga.
  3. Gliðnun innan meginlandsfleka.
  4. Gliðnun úthafsfleka.
  5. Möttulstrókur.

Í megindráttum er samrek Evrasíu- og Afríkuflekanna aðalorsök eldvirkni á Ítalíu. Hins vegar er samrek þessara fleka flókið og flekaskilin langt því frá að vera einsleit. Á takmörkuðu svæði við norðurmörk Afríkuflekans er enn hægt að finna leifar af úthafsskorpu sem stingst undir Evrasíuflekann. Annars staðar er úthafsskorpan horfin og meginlandsskorpur beggja flekanna rekast saman. Á slíkum flekamótum verður ekkert niðurstreymi Afríkuflekans heldur myndast fellingafjöll eins og Alparnir og Apennínafjöllin sem rekja má eftir öllum Ítalíuskaganum.Vesúvíus.

Eldvirkni Eolie-eyjanna norðan við Sikiley má rekja til samreks og niðurstreymis úthafsskorpu. Bergfræði flestra Eolie-eyjanna samræmist niðurstreymi úthafsskorpu, en þó eru nokkrar þeirra annarrar gerðar sem kallar á aðrar skýringar. Þetta hefur verið útskýrt á þann máta að úthafsskorpan sem hangir utan á Afríkuflekanum stingist nær lóðrétt niður undir eyjunum, en einnig eru uppi hugmyndir um margbreytilegt möttulefni undir þeim. Ekki verður tekin afstaða til réttmætis þessara hugmynda hér.

Samrek og niðurstreymi hafa líka verið talin aðalástæður eldvirkni á Tyrrenahafsströnd um miðbik Suður-Ítalíu, það er í eldfjöllum í Toscana-, Latíum- og Campania-héruðum Ítalíu, þar með talið í Colli Albani og Vesúvíus. Hins vegar eru þessi eldfjöll rík af kalíum og því mjög ólík eldfjöllum á samreks- og niðurstreymisbeltum. Hin sérkennilega efnasamsetning bergsins hefur verið útskýrð með uppbræðslu og blöndun við kalkberg. Seinni tíma hugmyndir hafa þó fjarlægst samreks-upprunann og telja nú margir að þessa eldvirkni megi rekja til gliðnunar bak við eyjaboga Eolie-eyjanna ásamt því að bráðin blandist kalkríku bergi í skorpunni.

Eldvirkni í Sikileyjarsundi, milli Sikileyjar og Norður-Afríku, má rekja til gliðnunar innan meginlandsskorpu. Sýnt hefur verið fram á að hafsbotninn í sundinu er gerður úr meginlandsskorpu sem hefur orðið fyrir gliðnun. Efnasamsetning gosbergs á þessu svæði er svipuð samsetningu bergs í Sigdalnum mikla í Austur-Afríku, það er kvikan er mjög alkalírík (peralkalísk) og nefnist bergið pantellerít eftir eldfjallinu Pantellería í Sikileyjarsundi.

Hið stóra og mikla neðansjávareldfjall Marsili í Suður-Tyrrenahafinu er aftur á móti mjög líkt þeim eldfjöllum sem einkenna úthafshryggi. Hér er álit manna að gliðnun úthafsskorpu hafi myndað Tyrrenahaf þegar Ítalíuskagi snerist rangsælis frá eyjunum Korsíku og Sardiníu en þær voru í eina tíð samtengdar Ítalíu.Etna.

Etna er stærsta og virkasta eldfjall Ítalíu en einna erfiðast er að útskýra tilvist hennar. Þrjár meginhugmyndir hafa komið fram. Fyrsta kenningin gerir ráð fyrir möttulstrók undir Sikiley. Samkvæmt annarri er eldvirknin óbein afleiðing samreks og niðurstreymis milli Evrasíu- og Afríkuflekanna. Þriðja kenningin rekur eldvirknina til óreglulegrar gliðnunar meðfram suðurströnd Sikileyjar. Ekki verður gert upp á milli þessara kenninga hér, en ljóst er að Etna er staðsett þar sem nokkur meginbrotabelti skerast og því á kvika hægar um vik að rísa til yfirborðs en ella. Eldvirkni hefur verið á þessu svæði í meira en 200 milljónir ára. Mestan hluta þessa tíma hefur hún verið í Hyblafjöllunum, nokkra tugi kílómetra suður af Etnu, en fyrir um 1,5 milljónum ára færðist eldvirknin yfir á Etnu-svæðið og var þar komin í fullan gang fyrir um hálfri milljón ára.

Eins og ljóst má vera af þessari lesningu er enn ekki fyllilega vitað hvers vegna eldvirkni á Ítalíu er eins mikil og raun ber vitni. Hins vegar eru menn vissir um að eldvirknina megi rekja til þeirra flóknu flekaskila sem eru á milli Evrasíu- og Afríkuflekanna. Raunar er Ítalía ekkert einsdæmi því að allt Miðjarðarhafssvæðið, að Tyrklandi meðtöldu, einkennist af mjög flóknu samspili þessara fleka og lokun hins mikla úthafs Tethys. Samfara þessu hefur myndast mikill fjöldi smárra fleka með mjög flóknum skilum á milli. Víða á þessum skilum hafa risið upp eldfjöll eins og þau á Ítalíu. Sambærileg eldfjöll er að finna í Grikklandi (til dæmis Santorini) og Tyrklandi (til dæmis Ararat). Hvort einhver eldvirkni verður á yfirborði ræðst fyrst og fremst af því hvort skilyrði til kvikumyndunar séu fyrir hendi og hvort spennuástand skorpunnar sé þannig að kvikan komist upp til yfirborðs. Fari þetta tvennt sama verða eldgos.

Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör um eldgos og/eða þá þætti sem hafa áhrif á eldvirkni, til dæmis:

Myndir:...