Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er elsta rúnarista sem hefur fundist á Íslandi?

Þórgunnur Snædal

Elst er án efa spýtubrot úr ýviði, sem fannst í byrjun árs 2010 við fornleifarannsóknir á Alþingisreitnum, í viðarsýnum úr IV. og elsta fasanum, sem er frá tímabilinu 871–1226 á svæði C. Spýtan fannst neðarlega í mýrarefju þar sem mikið var af náttúrulegum og unnum viði. Undir þessum sýnum í mýrarefjunni voru ekki mannvistarlög og bendir það til að spýtan gæti verið frá lokum 9. aldar eða upphafi þeirrar 10. Ef aldursgreiningin stenst eru þessar rúnir þær elstu á Íslandi og tæplega hægt að búast við að finna eldri ristur hér.

Keflið er flöt, þunn spýta, 11 cm löng, mesta breidd er 1,5 cm, þykktin 3 mm. Á báðum sléttu flötunum sést ógreinilegt krot en á hægri enda annars breiða flatarins eru ristur sem að mínu mati eru rúnir og sem mér virðist mega lesa:

Á þessari ýviðarspýtu eru elstu rúnir sem hingað til hafa fundist á Íslandi. Þjms. 2009-32-2924.

ᚢ ᚱ ᚾ

u r n ...
Rúnirnar eru ógreinilegar en sjást nokkuð vel í smásjá. r-rúnin er með beinan, en ekki skásettan neðri kvist, en sú mynd er ekki óalgeng í norskum rúnaristum frá 10. öld. Leifar af n-rúninni, neðri hluti leggsins og kvisturinn eru aðeins innan við brotkantinn, endann vantar á hægri kvistinn. Rúnin er með kvist báðum megin við legginn en það bendir einmitt til hás aldurs ristunnar. Rúnirnar virðast vera upphaf ristunnar sem að öllum líkindum hefur verið lengri.

Mjög merkilegt er að rúnirnar eru skornar í ývið, sem ekki vex á Íslandi og því er líklegt að þær hafi verið á viðnum þegar hann barst hingað með einhverjum af fyrstu íbúum Reykjavíkur. Spýtan er tálguð til og hefur sennilega, samkvæmt Völu Björgu Garðarsdóttur sem stjórnaði rannsókninni á Alþingisreitnum, verið stafur í gyrtu tréíláti. Algengt var í Skandinavíu að nota ývið í slík ílát að minnsta kosti frá 3. öld og fram á miðaldir. Hinn seigi og sveigjanlegi ýviður var einnig eftirsóttur í boga og voru ýviðarbogar notaðir í Bergen fram á 19. öld til að skjóta hval.1

Margt bendir til að ýviður hafi verið talinn heilagur, en barrið og berin eru eitruð. Stoðum hefur verið rennt undir þá kenningu að askurinn Yggdrasill hafi verið ýviður og einnig hið heilaga sígræna fórnartré sem stóð í Gömlu Uppsölum þar sem níu menn, hundar og hestar voru hengdir í miklum blótveislum 9. hvert ár.2 Einnig hefur ýmiskonar hjátrú tengst ýviði. Veiðiásinn Ullr bjó í Ýdölum, það er Ýviðardölum, samkvæmt Grímnismálum. Ein rún, síðasta rúnin í 16 stafa rúnastafrófinu heitir ýrr, það er bogi úr ýviði.3

Ekki hef ég fundið fleiri dæmi um rúnaristu á ýviði, hvorki hér né erlendis, enda eru afar fáar ristur á tré varðveittar frá þessu tímabili. Þetta er því mikilvægur fundur.

Tilvísanir:

1 Magerøy, Hallvard, 1957, bls. 345-346.

2 de Vries, Jan. 1957. Altgermanische Religionsgeschichte, II § 583, bls. 381. Adam af Bremen. Beskrivelse af Øerne i Norden, bls. 48, Wormianum 1978.

3 Nánar um heiti rúnanna má lesa í Runorna 1933, bls. 61-68, Moltke, E. 1986, bls. 36-38, Elliott, R. W. 1989, bls. 60-78.

Heimildir:
  • Adam af Bremen. Beskrivelse af Øerne i Norden, Wormianum 1978, bls. 48.
  • Elliott, Ralph, W.V., 1989: Runes. An Introduction. Manchester University Press.
  • Magerøy, Hallvard, 1957: Barlind. Kulturhistoriskt lexikon för nordisk medeltid 1. Oslo.
  • Moltke, Erik, 1986: Runes and their origin. Denmark and elsewhere. Copenhagen.
  • Runorna, Nordisk Kultur VI. 1933.
  • de Vries, Jan, 1956-1957. Altgermanische Religionsgeschichte, 2. Auflage. Berlin, New York, de Gruyter.

Texti þessa svars birtist áður í: Þórgunnur Snædal, 2011: „Rúnum ristir gripir frá Alþingisreitnum og Urriðakoti.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. Reykjavík. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. Myndin er fengin úr sömu grein.

Höfundur

Þórgunnur Snædal

rúnafræðingur

Útgáfudagur

4.2.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þórgunnur Snædal. „Hver er elsta rúnarista sem hefur fundist á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 4. febrúar 2013, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64253.

Þórgunnur Snædal. (2013, 4. febrúar). Hver er elsta rúnarista sem hefur fundist á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64253

Þórgunnur Snædal. „Hver er elsta rúnarista sem hefur fundist á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 4. feb. 2013. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64253>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er elsta rúnarista sem hefur fundist á Íslandi?
Elst er án efa spýtubrot úr ýviði, sem fannst í byrjun árs 2010 við fornleifarannsóknir á Alþingisreitnum, í viðarsýnum úr IV. og elsta fasanum, sem er frá tímabilinu 871–1226 á svæði C. Spýtan fannst neðarlega í mýrarefju þar sem mikið var af náttúrulegum og unnum viði. Undir þessum sýnum í mýrarefjunni voru ekki mannvistarlög og bendir það til að spýtan gæti verið frá lokum 9. aldar eða upphafi þeirrar 10. Ef aldursgreiningin stenst eru þessar rúnir þær elstu á Íslandi og tæplega hægt að búast við að finna eldri ristur hér.

Keflið er flöt, þunn spýta, 11 cm löng, mesta breidd er 1,5 cm, þykktin 3 mm. Á báðum sléttu flötunum sést ógreinilegt krot en á hægri enda annars breiða flatarins eru ristur sem að mínu mati eru rúnir og sem mér virðist mega lesa:

Á þessari ýviðarspýtu eru elstu rúnir sem hingað til hafa fundist á Íslandi. Þjms. 2009-32-2924.

ᚢ ᚱ ᚾ

u r n ...
Rúnirnar eru ógreinilegar en sjást nokkuð vel í smásjá. r-rúnin er með beinan, en ekki skásettan neðri kvist, en sú mynd er ekki óalgeng í norskum rúnaristum frá 10. öld. Leifar af n-rúninni, neðri hluti leggsins og kvisturinn eru aðeins innan við brotkantinn, endann vantar á hægri kvistinn. Rúnin er með kvist báðum megin við legginn en það bendir einmitt til hás aldurs ristunnar. Rúnirnar virðast vera upphaf ristunnar sem að öllum líkindum hefur verið lengri.

Mjög merkilegt er að rúnirnar eru skornar í ývið, sem ekki vex á Íslandi og því er líklegt að þær hafi verið á viðnum þegar hann barst hingað með einhverjum af fyrstu íbúum Reykjavíkur. Spýtan er tálguð til og hefur sennilega, samkvæmt Völu Björgu Garðarsdóttur sem stjórnaði rannsókninni á Alþingisreitnum, verið stafur í gyrtu tréíláti. Algengt var í Skandinavíu að nota ývið í slík ílát að minnsta kosti frá 3. öld og fram á miðaldir. Hinn seigi og sveigjanlegi ýviður var einnig eftirsóttur í boga og voru ýviðarbogar notaðir í Bergen fram á 19. öld til að skjóta hval.1

Margt bendir til að ýviður hafi verið talinn heilagur, en barrið og berin eru eitruð. Stoðum hefur verið rennt undir þá kenningu að askurinn Yggdrasill hafi verið ýviður og einnig hið heilaga sígræna fórnartré sem stóð í Gömlu Uppsölum þar sem níu menn, hundar og hestar voru hengdir í miklum blótveislum 9. hvert ár.2 Einnig hefur ýmiskonar hjátrú tengst ýviði. Veiðiásinn Ullr bjó í Ýdölum, það er Ýviðardölum, samkvæmt Grímnismálum. Ein rún, síðasta rúnin í 16 stafa rúnastafrófinu heitir ýrr, það er bogi úr ýviði.3

Ekki hef ég fundið fleiri dæmi um rúnaristu á ýviði, hvorki hér né erlendis, enda eru afar fáar ristur á tré varðveittar frá þessu tímabili. Þetta er því mikilvægur fundur.

Tilvísanir:

1 Magerøy, Hallvard, 1957, bls. 345-346.

2 de Vries, Jan. 1957. Altgermanische Religionsgeschichte, II § 583, bls. 381. Adam af Bremen. Beskrivelse af Øerne i Norden, bls. 48, Wormianum 1978.

3 Nánar um heiti rúnanna má lesa í Runorna 1933, bls. 61-68, Moltke, E. 1986, bls. 36-38, Elliott, R. W. 1989, bls. 60-78.

Heimildir:
  • Adam af Bremen. Beskrivelse af Øerne i Norden, Wormianum 1978, bls. 48.
  • Elliott, Ralph, W.V., 1989: Runes. An Introduction. Manchester University Press.
  • Magerøy, Hallvard, 1957: Barlind. Kulturhistoriskt lexikon för nordisk medeltid 1. Oslo.
  • Moltke, Erik, 1986: Runes and their origin. Denmark and elsewhere. Copenhagen.
  • Runorna, Nordisk Kultur VI. 1933.
  • de Vries, Jan, 1956-1957. Altgermanische Religionsgeschichte, 2. Auflage. Berlin, New York, de Gruyter.

Texti þessa svars birtist áður í: Þórgunnur Snædal, 2011: „Rúnum ristir gripir frá Alþingisreitnum og Urriðakoti.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. Reykjavík. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. Myndin er fengin úr sömu grein.

...