Hér er einnig svarað spurningu Örnu Bjargar Ágústsdóttur: Af hverju tala menn ekki sama tungumál?Ekkert er vitað með vissu um uppruna tungumála. Menn geta sér þess til að mannapar hafi notað einhver hljóð til tjáskipta en eiginlegt tungumál hafi ekki tekið að mótast fyrr en mun seinna eða fyrir um 100.000 árum þegar forfeður nútímamannsins komu fram á sjónarsviðið. Flestir málfræðingar gera ráð fyrir því að fyrstu orð hafi verið einhvers konar hljóðlíkingar af sama tagi og við í dag segjum plomp þegar eitthvað dettur í vatn eða uss þegar sussað er á einhvern. Í þýsku heitir gaukurinn Kuckuck og uglan Uhu eftir þeim hljóðum sem þau gefa frá sér og eru þessi orð dæmigerðar hljóðlíkingar. Sama er að segja um sögnina að dingla sem varð til hérlendis í nýrri merkingu þegar bjöllur í húsum gáfu frá sér hljóðið ding-dong í stað ring-ring áður. Margt bendir til að forfeður nútímamannsins hafi lifað í einangruðum flokkum og er því líklegt að mismunandi hljóðtákn og síðar orð hafi tekið að mótast innan flokkanna. Þegar mennirnir náðu smám saman hærra vitsmunastigi urðu málkerfi þjóðflokkanna flóknari og málfræðilegar reglur mynduðust, en ekki endilega hinar sömu innan fjarlægra hópa. Þannig urðu á löngum tíma til mismunandi uppbyggðar málaættir og innan þeirra fjölmörg tungumál sem þróuðust ýmist óháð hvert öðru eða fyrir áhrif hvert frá öðru. Sjá svar sama höfundar við spurningunni: Hvaða tungumál er talið það flóknasta í heimi og hvað eru tungumálin mörg?
Útgáfudagur
13.7.2000
Spyrjandi
Arnar Þórðarson, f. 1986
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Hvers vegna er ekki bara eitt tungumál í heiminum?“ Vísindavefurinn, 13. júlí 2000, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=643.
Guðrún Kvaran. (2000, 13. júlí). Hvers vegna er ekki bara eitt tungumál í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=643
Guðrún Kvaran. „Hvers vegna er ekki bara eitt tungumál í heiminum?“ Vísindavefurinn. 13. júl. 2000. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=643>.