Þó að geirfuglinn hafi ekki verið fleygur var hann afburða sundfugl. Rannsóknir á fæðuleifum geirfuglsins á Funk-eyju undan ströndum Nýfundnalands sýna að hann hefur að mestu veitt sér fisk til matar. Helst voru það tegundir af ætt þorskfiska á stærðarbilinu 12-22 cm og stundum jafnvel enn stærri eða allt að 30 cm að lengd.
Geirfuglinn var sjálfur nokkuð stór eins og algengt er meðal fuglategunda sem hafa glatað flughæfileikanum. Hann var rúmlega 70 cm á lengd og vó sennilega um 5 kg. Þó að líkamsbygging geirfuglsins hafi óneitanlega minnt á mörgæs var hann af ætt svartfugla og einna skyldastur álku. Vistfræðilega séð var hann þó líkari mörgæsum.
Geirfuglinn lagði ekkert til hreiðurgerðar líkt og flestir aðrir bjargfuglar af svartfuglaætt. Hann verpti aðeins í einhvers konar klettaskál þar sem eggið gat ekki oltið úr stað.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Af hverju dó geirfuglinn út? Hve stór var stofninn við Ísland? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað getið þið sagt mér um köfun sjófugla? eftir Pál Marvin Jónsson
- Hvaða dýrategundir hefur maðurinn ofveitt eða ofnýtt þannig að þær hafa dáið út? eftir Jón Má Halldórsson
Einnig er vakin athygli á síðu Náttúrugripasafnsins í Hollandi. Þar er hægt að skoða þrívíða mynd af útliti fuglsins sem hægt er að snúa að vild. Til að kalla þetta fram þarf að smella á tenglana sem eru fyrir neðan myndina af geirfuglinum á síðunni.
Mynd: Iceland WorldWide. Höfundaréttur Jón Baldur Hlíðberg.