Sólin Sólin Rís 06:50 • sest 20:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 11:14 • Sest 07:57 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:31 • Síðdegis: 15:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:13 • Síðdegis: 21:36 í Reykjavík

Í skandínavískri þjóðtrú koma fyrir verur sem kallast nisse eða tomte. Eru til samsvarandi verur í íslenskri þjóðtrú?

Símon Jón Jóhannsson

Nissarnir eru afar vinsæl fyrirbæri í skandínavískri þjóðtrú og tengjast sérstaklega jólunum. Þeir eru eins konar húsálfar sem halda aðallega til í útihúsum á bændabýlum og gæta búsins sé vel við þá gert. Þess vegna þarf til dæmis alltaf að gefa þeim jólagraut á jólum. Nissinn með jólagrautinn sinn er orðinn eitt af einkennistáknum jólanna á Norðurlöndum og birtist þannig í ýmsum myndum á jólakortum og jólaskrauti. Oftast er nissinn í mannsmynd: Lítill, ófríður, gráklæddur með rauða topphúfu og sítt skegg.

Orðið 'nissi' er ungt orð í sænsku og norsku, gæluorð dregið af nafni jólasveinsins, heilags Nikulásar. Fyrirbærið sjálft á sér samt mun eldri rætur í þjóðtrúnni. Ýmis önnur nöfn eru notuð yfir þennan húsálf í norsku svo sem: Gardsvorden, gardsbonden, tunvorden, tunkallen og tomten. Svipuð nöfn eru til í sænsku.


Nissar eru gjarnan gráklæddir með rauða topphúfu og sítt skegg.

Meginverkefni nissanna er að halda öllu í röð og reglu á bændabýlunum, sérstaklega í gripahúsum og úti við. Þeir eru reglufastir og strangir og þola ekki óreglu af neinu tagi. Vinnuaðstaða þeirra er gjarnan í fjósinu en rúmbæli eiga þeir inni í bæ. Í það getur enginn lagst nema hljóta verra af. Í Noregi og Svíþjóð eru til margar sagnir um hvernig þeim hefnist fyrir sem gleyma að gefa nissanum jólagraut eða borða hann sjálfir.

Nissarnir eiga sér rætur í þeirri trú að sá sem upphaflega byggði býlið og gjarnan er heygður í bæjarlandinu sé enn á stjáki; hann vaki yfir býlinu og sé annt um velferð þess. Eins og nissunum voru haugbúunum líka gefnar gjafir á jólum eða öðrum árstímum, til dæmis jólagrautur eða jólaöl.

Nissarnir eins og þeir birtast í þjóðtrú á hinum Norðurlöndunum eru ekki til í íslenskri þjótrú. Sagnir eru þó til um að býlum fylgi landnámsmenn eða fyrri ábúendur, sömuleiðis að sérstakir staðir séu fornmannagrafir eða haugar og við þeim megi ekki hrófla. Sú trú hefur stundum fylgt slíkum stöðum að í þeim sé fólgið fé eða önnur verðmæti; reyni menn að nálgast þetta góss elti óhappið þá eða mönnum missýnist, svo sem að bæjarhús standi í ljósum logum. Til er líka í íslenskum þjóðsögum að huldufólki sé færður matur, svo sem á jólum.

Rétt er að taka fram að íslensku jólasveinarnir eru af öðru sauðahúsi en skandinavísku nissarnir. Í seinni tíð hafa þeir þó allir starfað á sama vettvangi ásamt heilögum Nikulási og margt af þessari gömlu þjóðtrú runnið saman við nýrri siði á jólum.

Heimildir og mynd

  • Bø, Olav. 1984. Vår norske jul. Oslo. Det norske samlaget.
  • Schön, Ebbe. 1998. Svensk folketro A-Ö. Stockholm. Prisma.
  • Mynd: Image:Tomte by Jenny Nyström.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.

Höfundur

Símon Jón Jóhannsson

þjóðfræðingur

Útgáfudagur

18.12.2006

Spyrjandi

Jón Júlíus Filippusson

Tilvísun

Símon Jón Jóhannsson. „Í skandínavískri þjóðtrú koma fyrir verur sem kallast nisse eða tomte. Eru til samsvarandi verur í íslenskri þjóðtrú?“ Vísindavefurinn, 18. desember 2006. Sótt 31. mars 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=6439.

Símon Jón Jóhannsson. (2006, 18. desember). Í skandínavískri þjóðtrú koma fyrir verur sem kallast nisse eða tomte. Eru til samsvarandi verur í íslenskri þjóðtrú? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6439

Símon Jón Jóhannsson. „Í skandínavískri þjóðtrú koma fyrir verur sem kallast nisse eða tomte. Eru til samsvarandi verur í íslenskri þjóðtrú?“ Vísindavefurinn. 18. des. 2006. Vefsíða. 31. mar. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6439>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Í skandínavískri þjóðtrú koma fyrir verur sem kallast nisse eða tomte. Eru til samsvarandi verur í íslenskri þjóðtrú?
Nissarnir eru afar vinsæl fyrirbæri í skandínavískri þjóðtrú og tengjast sérstaklega jólunum. Þeir eru eins konar húsálfar sem halda aðallega til í útihúsum á bændabýlum og gæta búsins sé vel við þá gert. Þess vegna þarf til dæmis alltaf að gefa þeim jólagraut á jólum. Nissinn með jólagrautinn sinn er orðinn eitt af einkennistáknum jólanna á Norðurlöndum og birtist þannig í ýmsum myndum á jólakortum og jólaskrauti. Oftast er nissinn í mannsmynd: Lítill, ófríður, gráklæddur með rauða topphúfu og sítt skegg.

Orðið 'nissi' er ungt orð í sænsku og norsku, gæluorð dregið af nafni jólasveinsins, heilags Nikulásar. Fyrirbærið sjálft á sér samt mun eldri rætur í þjóðtrúnni. Ýmis önnur nöfn eru notuð yfir þennan húsálf í norsku svo sem: Gardsvorden, gardsbonden, tunvorden, tunkallen og tomten. Svipuð nöfn eru til í sænsku.


Nissar eru gjarnan gráklæddir með rauða topphúfu og sítt skegg.

Meginverkefni nissanna er að halda öllu í röð og reglu á bændabýlunum, sérstaklega í gripahúsum og úti við. Þeir eru reglufastir og strangir og þola ekki óreglu af neinu tagi. Vinnuaðstaða þeirra er gjarnan í fjósinu en rúmbæli eiga þeir inni í bæ. Í það getur enginn lagst nema hljóta verra af. Í Noregi og Svíþjóð eru til margar sagnir um hvernig þeim hefnist fyrir sem gleyma að gefa nissanum jólagraut eða borða hann sjálfir.

Nissarnir eiga sér rætur í þeirri trú að sá sem upphaflega byggði býlið og gjarnan er heygður í bæjarlandinu sé enn á stjáki; hann vaki yfir býlinu og sé annt um velferð þess. Eins og nissunum voru haugbúunum líka gefnar gjafir á jólum eða öðrum árstímum, til dæmis jólagrautur eða jólaöl.

Nissarnir eins og þeir birtast í þjóðtrú á hinum Norðurlöndunum eru ekki til í íslenskri þjótrú. Sagnir eru þó til um að býlum fylgi landnámsmenn eða fyrri ábúendur, sömuleiðis að sérstakir staðir séu fornmannagrafir eða haugar og við þeim megi ekki hrófla. Sú trú hefur stundum fylgt slíkum stöðum að í þeim sé fólgið fé eða önnur verðmæti; reyni menn að nálgast þetta góss elti óhappið þá eða mönnum missýnist, svo sem að bæjarhús standi í ljósum logum. Til er líka í íslenskum þjóðsögum að huldufólki sé færður matur, svo sem á jólum.

Rétt er að taka fram að íslensku jólasveinarnir eru af öðru sauðahúsi en skandinavísku nissarnir. Í seinni tíð hafa þeir þó allir starfað á sama vettvangi ásamt heilögum Nikulási og margt af þessari gömlu þjóðtrú runnið saman við nýrri siði á jólum.

Heimildir og mynd

  • Bø, Olav. 1984. Vår norske jul. Oslo. Det norske samlaget.
  • Schön, Ebbe. 1998. Svensk folketro A-Ö. Stockholm. Prisma.
  • Mynd: Image:Tomte by Jenny Nyström.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
...