Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga?

Símon Jón Jóhannsson

Margar jurtir voru áður fyrr notaðar til lækninga og ýmis lyf nútímans njóta góðs af gamalli kunnáttu um lækningajurtir. Þá voru jurtir líka notaðar til athafna sem vel má flokka undir hjátrú og galdur. Það yrði efni í langan pistil að fjalla um öll þau grös sem notuð voru í þessum tilgangi en nokkur dæmi skulu hér nefnd.


Draumagras, eða klóelfting, er sagt vaxa allra grasa fyrst og á það að vera fullsprottið 16. maí. Þann dag skulu menn taka það, setja inn í Biblíuna og geyma í guðspalli 16. sunnudags eftir trínitatis. Því næst skal láta það í hársrætur sér fyrir svefninn og dreymir mann þá það sem maður vill vita. Einnig er hægt að mylja draumagrasið saman við messuvín og taka inn á fastandi maga á hverjum morgni. Þessi blanda ver menn gegn holdsveiki. Vilji menn aftur á móti verjast innvortis kveisum skal taka draumagrasið snemma morguns, bíta það úr hnefa og snúa sér á móti austri.

Baldursbráin er einnig til margra hluta nytsamleg. Vilji stúlka til að mynda komast að því hvort ástvinur hennar sé henni trúr getur hún lagt baldursbrá undir borðdúk án þess að hann viti og boðið honum síðan að þiggja góðgerðir. Gangi honum vel að kyngja því sem honum er boðið er hann stúlkunni trúr en svelgist honum á er hann svikull. Reynandi er að láta konu liggja eða sitja á baldursbrá gangi henni illa að fæða. Einnig er hægt að láta hana drekka baldursbrá í víni. Sé stúlka látin setjast á baldursbrá getur hún ekki staðið upp aftur nema hún sé hrein mey. Sú trú er líka til um baldursbrána, eins og um freyjugras og fjögurra blaða smára, að leggi maður jurtina undir höfuð sér fyrir svefn þá dreymi mann þann sem stolið hefur frá manni.

Baldursbráin er líka alþekkt lækningaplanta. Hún var aðallega notuð við kvensjúkdómum, átti að leiða tíðir kvenna og leysa dáið fóstur frá móður, eftirburð og staðið blóð. Þá var baldursbráin dugandi við tannpínu og áttu menn þá að leggja marða baldursbrá á eyrað þeim megin sem verkurinn var. Til að lækna höfuðverk var heillaráð að binda baldursbrá um höfuðið. Baldursbrárte var talið hjartastyrkjandi, svitadrífandi og ormdrepandi.

Þeir sem finna fjögurra blaða smára eru miklir gæfumenn og beri menn hann á sér fylgir því mikið lán. Sumir segja að það verði að borða smárann en aðrir að þeir sem finni fjögurra blaða smára megi óska sér.

Best er að geyma fjögurra blaða smára í sálmabók eða öðrum helgiritum því það eykur virkni hans. Sé hann settur í skó áður en lagt er af stað í ferðalag kemur hann ekki aðeins í veg fyrir að menn þreytist í fótunum heldur tryggir líka að ferðalagið verði áfallalaust.

Hér á landi hefur fjögurra blaða smári einnig verið nefndur lásagras og sagður hafa þá náttúru að geta lokið upp hverri læsingu. Til þess að finna lásagrasið hafa einkum verið nefndar tvær aðferðir. Önnur er sú að grafa kapalhildir (merarfylgju) í jörð nærri mýri á fardögum og tyrfa yfir. Lásagrasið verður þá sprottið á Jónsmessunótt. Þá á að taka það, þurrka í vindi, varast að láta sól skína á það og bera það svo um hálsinn í silkitvinna. Munu þá ljúkast upp allir lásar fyrir þeim sem ber lásagrasið.

Hin aðferðin er að smíða dyraumbúnað allan með hurð, skrá og lykli og setja fyrir maríuerluhreiður og læsa meðan maríuerlan er að heiman. Þegar hún kemur til baka og kemst ekki að ungum sínum fer hún og sækir fjögurra blaða smára, stingur honum í lásinn og opnar. Þegar maríuerlan er búin að nota fjögurra blaða smárann getur maður svo hirt hann.

Brönugras var talið einkar notadrjúgt til þess að örva ástir manna og losta. Einnig er sagt að það geti stillt ósamlyndi hjóna sofi þau á því. Brönugrasið hefur gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem hjónagras, friggjargras, vinagras, elskugras eða graðrót og segja nöfnin sína sögu.

Gott þykir að drekka seyðið af brönugrasi. Annars er aðalkrafturinn í rótinni og verður því að gæta vel að því að hún sé heil þegar jurtin er tekin upp. Rótin er tvískipt og sagt að þykkari helmingurinn, eða sá hvati, hafi þá náttúru að auka losta og gleði manna en hinn grennri, sá blauði, auki hreinlífi. Öðrum helmingi brönugrasrótar skal lauma undir kodda þess sem maður vill ná ástum hjá án þess að hann viti. Sá hinn sami skal síðan látinn sofa með rótina undir höfðinu en sjálfir eiga menn að sofa með hinn helminginn.

Margvísleg trú er til um lækjasóley. Sé hún lauguð lambsblóði, úlfstönn lögð við hana og lárviður vafinn utan um getur enginn mælt til manns styggðaryrði. Sé jurtin lögð við auga sér maður þann sem stolið hefur frá manni. Hún dugar líka vel leiki grunur á því að konur haldi fram hjá eiginmönnum sínum. Þá er lækjasóley komið fyrir í húsinu þar sem ástarleikurinn fer fram og festist konan þá þar inni og kemst ekki út fyrr en lækjasóleyin er tekin burt.

Áður fyrr var burnirót talin nýtileg til verndar. Um hana segir Jónas frá Hrafnagili (1856-1918) í þjóðháttasafni sínu:

Skal halda um hana með hreinum dúk, meðan hún er grafin upp, og skera grasið frá, því að það er illrar náttúru. Eigi má rótin koma undir bert loft; geyma skal hana í vígðri mold. Maður á að bera hana á sér um daga, en láta hana liggja við rúmstokk sinn um nætur, og mun manni þá ekkert ama. (Jónas Jónasson: Ísl. þjóðh., 409)

Gengi konu illa að fæða var reynandi að leggja burnirót í rúmið hjá henni svo að jurtin snerti hana bera.

Burnirótin er einnig gamalkunnug lækningajurt. Af stönglinum var soðið seyði og smyrsl. Seyðið var talið gott við hausverk, lífsýki (niðurgangi), nýrnaveiki, blóðsótt, gulu og öðrum innvortis meinum en smyrslin þóttu græðandi. Auk þessa var burnirótin talin gott meðal við hárroti eins og önnur nöfn hennar, greiðurót og höfuðrót, benda til.

maríuvöndur, eða kveisuskúfur, borinn í lófa varnar hann því að reiðhestur manns þreytist. Einnig er frá því greint í þjóðsögum að maríuvöndurinn, sem sumir kalla hulinshjálmsgras, vaxi í kirkjugörðum. Taka skal jurtina um messutíma en skvetta fyrst yfir hana vígðu vatni. Gæta verður þess að snerta ekki maríuvöndinn með berum höndum og láta ekki sól skína á hann. Geyma skal jurtina í hvítu silki og helguðu messuklæði. Þegar menn vilja svo varpa yfir sig hulinshjálmi skulu þeir gera krossmark umhverfis sig í fjórar áttir, bregða svo maríuvendinum yfir sig og mun þá enginn sjá þá.

Annars var maríuvöndurinn áður fyrr talinn alhliða lækningajurt. Hann þótti duga vel við hjartveiki, matarólyst, vindgangi og uppþembingi, ormum, blóðláti, sinateygjum, köldu og gikt.

Þjófarót er rót holtasóleyjarinnar og var einna helst talin vaxa þar sem þjófur hafði verið hengdur og þá af náfroðunni úr vitum hans eða upp af gröf hans. Hún var sögð hafa þá náttúru að draga að sér fé úr jörðu. Fyrst urðu menn þó að stela peningi og setja undir rótina. Peningnum þurfti að stela frá bláfátækri ekkju meðan á messu stóð á einhverri af þremur stórhátíðum ársins. Þjófarótin dregur alltaf til sín sams konar peninga og settir eru undir hana og því var mönnum akkur í að stela sem stærstum peningum til þessara nota.

Sýkisgras má nota til að ná ástum stúlku sé hún til þess treg. Gæta verður þess að tína jurtina milli Jónsmessu og Maríumessu, snemma morguns, áður en fuglar fljúga upp. Því næst verða menn sér úti um lokk úr hári stúlkunnar, saxa hann smátt saman við grasið, blanda með hunangi og gera úr deig og baka við eld. Þá á að gefa stúlkunni að borða baksturinn og mun hún við það fá óslökkvandi ást á manni.

Sama gagn gerir umfeðmingur því sé hann látinn undir höfuð sofandi stúlku fær hún gríðarlega ást á þeim sem það gerir.

Hér hafa einungis verið nefnd nokkur dæmi um jurtir sem notaðar hafa verið til lækninga og galdra en mun fleiri dæmi mætti taka.

Menn hafa til dæmis lengi haft trú á lækningamætti blóðbergstes, það er seyði af blóðbergi, og vissulega hefur það hressandi áhrif. Sumir telja það gott við timburmönnum, höfuðverk, tíðateppu, þvagstemmu, flogaveiki, kvefi, harðlífi, hjartveiki og svefnleysi. Fjandafæla var, eins og nafnið bendir til, talin góð jurt til varnar draugum og djöflum og þess vegna þótti gott að hafa hana í húsum eða bera hana í húfu sinni. Sortulyng ver mann fyrir öllum illum öflum, mjaðjurt getur hjálpað manni að komast að því hver hefur frá manni stolið og áður fyrr var því trúað að væri fjallafoxgras saumað í kviðarull sauðfjár yrði því ekki grandað af refum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og myndir

  • Í þessum pistli er einkum stuðst við Stóru hjátrúarbókina en þar er vísað til annarra heimilda. Símon Jón Jóhannsson (1999). Stóra hjátrúarbókin: Aðgengilegt uppflettirit um margvíslega hjátrú Íslendinga í hinu daglega lífi fyrr og nú. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
  • Myndirnar eru af vefsetrinu Flóra Íslands og eru birtar hér með leyfi Harðar Kristinssonar.

Höfundur

Símon Jón Jóhannsson

þjóðfræðingur

Útgáfudagur

21.12.2006

Spyrjandi

Ágústa Grétarsdóttir

Tilvísun

Símon Jón Jóhannsson. „Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga?“ Vísindavefurinn, 21. desember 2006. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6444.

Símon Jón Jóhannsson. (2006, 21. desember). Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6444

Símon Jón Jóhannsson. „Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga?“ Vísindavefurinn. 21. des. 2006. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6444>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga?
Margar jurtir voru áður fyrr notaðar til lækninga og ýmis lyf nútímans njóta góðs af gamalli kunnáttu um lækningajurtir. Þá voru jurtir líka notaðar til athafna sem vel má flokka undir hjátrú og galdur. Það yrði efni í langan pistil að fjalla um öll þau grös sem notuð voru í þessum tilgangi en nokkur dæmi skulu hér nefnd.


Draumagras, eða klóelfting, er sagt vaxa allra grasa fyrst og á það að vera fullsprottið 16. maí. Þann dag skulu menn taka það, setja inn í Biblíuna og geyma í guðspalli 16. sunnudags eftir trínitatis. Því næst skal láta það í hársrætur sér fyrir svefninn og dreymir mann þá það sem maður vill vita. Einnig er hægt að mylja draumagrasið saman við messuvín og taka inn á fastandi maga á hverjum morgni. Þessi blanda ver menn gegn holdsveiki. Vilji menn aftur á móti verjast innvortis kveisum skal taka draumagrasið snemma morguns, bíta það úr hnefa og snúa sér á móti austri.

Baldursbráin er einnig til margra hluta nytsamleg. Vilji stúlka til að mynda komast að því hvort ástvinur hennar sé henni trúr getur hún lagt baldursbrá undir borðdúk án þess að hann viti og boðið honum síðan að þiggja góðgerðir. Gangi honum vel að kyngja því sem honum er boðið er hann stúlkunni trúr en svelgist honum á er hann svikull. Reynandi er að láta konu liggja eða sitja á baldursbrá gangi henni illa að fæða. Einnig er hægt að láta hana drekka baldursbrá í víni. Sé stúlka látin setjast á baldursbrá getur hún ekki staðið upp aftur nema hún sé hrein mey. Sú trú er líka til um baldursbrána, eins og um freyjugras og fjögurra blaða smára, að leggi maður jurtina undir höfuð sér fyrir svefn þá dreymi mann þann sem stolið hefur frá manni.

Baldursbráin er líka alþekkt lækningaplanta. Hún var aðallega notuð við kvensjúkdómum, átti að leiða tíðir kvenna og leysa dáið fóstur frá móður, eftirburð og staðið blóð. Þá var baldursbráin dugandi við tannpínu og áttu menn þá að leggja marða baldursbrá á eyrað þeim megin sem verkurinn var. Til að lækna höfuðverk var heillaráð að binda baldursbrá um höfuðið. Baldursbrárte var talið hjartastyrkjandi, svitadrífandi og ormdrepandi.

Þeir sem finna fjögurra blaða smára eru miklir gæfumenn og beri menn hann á sér fylgir því mikið lán. Sumir segja að það verði að borða smárann en aðrir að þeir sem finni fjögurra blaða smára megi óska sér.

Best er að geyma fjögurra blaða smára í sálmabók eða öðrum helgiritum því það eykur virkni hans. Sé hann settur í skó áður en lagt er af stað í ferðalag kemur hann ekki aðeins í veg fyrir að menn þreytist í fótunum heldur tryggir líka að ferðalagið verði áfallalaust.

Hér á landi hefur fjögurra blaða smári einnig verið nefndur lásagras og sagður hafa þá náttúru að geta lokið upp hverri læsingu. Til þess að finna lásagrasið hafa einkum verið nefndar tvær aðferðir. Önnur er sú að grafa kapalhildir (merarfylgju) í jörð nærri mýri á fardögum og tyrfa yfir. Lásagrasið verður þá sprottið á Jónsmessunótt. Þá á að taka það, þurrka í vindi, varast að láta sól skína á það og bera það svo um hálsinn í silkitvinna. Munu þá ljúkast upp allir lásar fyrir þeim sem ber lásagrasið.

Hin aðferðin er að smíða dyraumbúnað allan með hurð, skrá og lykli og setja fyrir maríuerluhreiður og læsa meðan maríuerlan er að heiman. Þegar hún kemur til baka og kemst ekki að ungum sínum fer hún og sækir fjögurra blaða smára, stingur honum í lásinn og opnar. Þegar maríuerlan er búin að nota fjögurra blaða smárann getur maður svo hirt hann.

Brönugras var talið einkar notadrjúgt til þess að örva ástir manna og losta. Einnig er sagt að það geti stillt ósamlyndi hjóna sofi þau á því. Brönugrasið hefur gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem hjónagras, friggjargras, vinagras, elskugras eða graðrót og segja nöfnin sína sögu.

Gott þykir að drekka seyðið af brönugrasi. Annars er aðalkrafturinn í rótinni og verður því að gæta vel að því að hún sé heil þegar jurtin er tekin upp. Rótin er tvískipt og sagt að þykkari helmingurinn, eða sá hvati, hafi þá náttúru að auka losta og gleði manna en hinn grennri, sá blauði, auki hreinlífi. Öðrum helmingi brönugrasrótar skal lauma undir kodda þess sem maður vill ná ástum hjá án þess að hann viti. Sá hinn sami skal síðan látinn sofa með rótina undir höfðinu en sjálfir eiga menn að sofa með hinn helminginn.

Margvísleg trú er til um lækjasóley. Sé hún lauguð lambsblóði, úlfstönn lögð við hana og lárviður vafinn utan um getur enginn mælt til manns styggðaryrði. Sé jurtin lögð við auga sér maður þann sem stolið hefur frá manni. Hún dugar líka vel leiki grunur á því að konur haldi fram hjá eiginmönnum sínum. Þá er lækjasóley komið fyrir í húsinu þar sem ástarleikurinn fer fram og festist konan þá þar inni og kemst ekki út fyrr en lækjasóleyin er tekin burt.

Áður fyrr var burnirót talin nýtileg til verndar. Um hana segir Jónas frá Hrafnagili (1856-1918) í þjóðháttasafni sínu:

Skal halda um hana með hreinum dúk, meðan hún er grafin upp, og skera grasið frá, því að það er illrar náttúru. Eigi má rótin koma undir bert loft; geyma skal hana í vígðri mold. Maður á að bera hana á sér um daga, en láta hana liggja við rúmstokk sinn um nætur, og mun manni þá ekkert ama. (Jónas Jónasson: Ísl. þjóðh., 409)

Gengi konu illa að fæða var reynandi að leggja burnirót í rúmið hjá henni svo að jurtin snerti hana bera.

Burnirótin er einnig gamalkunnug lækningajurt. Af stönglinum var soðið seyði og smyrsl. Seyðið var talið gott við hausverk, lífsýki (niðurgangi), nýrnaveiki, blóðsótt, gulu og öðrum innvortis meinum en smyrslin þóttu græðandi. Auk þessa var burnirótin talin gott meðal við hárroti eins og önnur nöfn hennar, greiðurót og höfuðrót, benda til.

maríuvöndur, eða kveisuskúfur, borinn í lófa varnar hann því að reiðhestur manns þreytist. Einnig er frá því greint í þjóðsögum að maríuvöndurinn, sem sumir kalla hulinshjálmsgras, vaxi í kirkjugörðum. Taka skal jurtina um messutíma en skvetta fyrst yfir hana vígðu vatni. Gæta verður þess að snerta ekki maríuvöndinn með berum höndum og láta ekki sól skína á hann. Geyma skal jurtina í hvítu silki og helguðu messuklæði. Þegar menn vilja svo varpa yfir sig hulinshjálmi skulu þeir gera krossmark umhverfis sig í fjórar áttir, bregða svo maríuvendinum yfir sig og mun þá enginn sjá þá.

Annars var maríuvöndurinn áður fyrr talinn alhliða lækningajurt. Hann þótti duga vel við hjartveiki, matarólyst, vindgangi og uppþembingi, ormum, blóðláti, sinateygjum, köldu og gikt.

Þjófarót er rót holtasóleyjarinnar og var einna helst talin vaxa þar sem þjófur hafði verið hengdur og þá af náfroðunni úr vitum hans eða upp af gröf hans. Hún var sögð hafa þá náttúru að draga að sér fé úr jörðu. Fyrst urðu menn þó að stela peningi og setja undir rótina. Peningnum þurfti að stela frá bláfátækri ekkju meðan á messu stóð á einhverri af þremur stórhátíðum ársins. Þjófarótin dregur alltaf til sín sams konar peninga og settir eru undir hana og því var mönnum akkur í að stela sem stærstum peningum til þessara nota.

Sýkisgras má nota til að ná ástum stúlku sé hún til þess treg. Gæta verður þess að tína jurtina milli Jónsmessu og Maríumessu, snemma morguns, áður en fuglar fljúga upp. Því næst verða menn sér úti um lokk úr hári stúlkunnar, saxa hann smátt saman við grasið, blanda með hunangi og gera úr deig og baka við eld. Þá á að gefa stúlkunni að borða baksturinn og mun hún við það fá óslökkvandi ást á manni.

Sama gagn gerir umfeðmingur því sé hann látinn undir höfuð sofandi stúlku fær hún gríðarlega ást á þeim sem það gerir.

Hér hafa einungis verið nefnd nokkur dæmi um jurtir sem notaðar hafa verið til lækninga og galdra en mun fleiri dæmi mætti taka.

Menn hafa til dæmis lengi haft trú á lækningamætti blóðbergstes, það er seyði af blóðbergi, og vissulega hefur það hressandi áhrif. Sumir telja það gott við timburmönnum, höfuðverk, tíðateppu, þvagstemmu, flogaveiki, kvefi, harðlífi, hjartveiki og svefnleysi. Fjandafæla var, eins og nafnið bendir til, talin góð jurt til varnar draugum og djöflum og þess vegna þótti gott að hafa hana í húsum eða bera hana í húfu sinni. Sortulyng ver mann fyrir öllum illum öflum, mjaðjurt getur hjálpað manni að komast að því hver hefur frá manni stolið og áður fyrr var því trúað að væri fjallafoxgras saumað í kviðarull sauðfjár yrði því ekki grandað af refum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og myndir

  • Í þessum pistli er einkum stuðst við Stóru hjátrúarbókina en þar er vísað til annarra heimilda. Símon Jón Jóhannsson (1999). Stóra hjátrúarbókin: Aðgengilegt uppflettirit um margvíslega hjátrú Íslendinga í hinu daglega lífi fyrr og nú. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
  • Myndirnar eru af vefsetrinu Flóra Íslands og eru birtar hér með leyfi Harðar Kristinssonar.
...