Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða aðferðir henta best til að ala upp börn?

Sigurður J. Grétarsson og Sigrún Aðalbjarnardóttir

Bandaríski sálfræðingurinn Diana Baumrind hefur athugað samband þroska barna á forskólaaldri við uppeldishætti foreldra. Baumrind greindi börnin í þrjá hópa eftir sjálfsaga, sjálfstæði og sjálfstrausti þeirra og eftir því hversu athugul og vingjarnleg þau voru. Í fyrsta hópi voru börn sem voru bæði virk og lipur í samskiptum. Þau voru sjálfstæð, öguð og höfðu trú á sjálfum sér, auk þess sem þau voru að jafnaði vingjarnleg og samvinnufús. Í öðrum hópnum voru börn sem höfðu nokkra trú á sjálfum sér, en voru þó fremur bæld og vansæl. Einnig voru þau óvinveitt og vantreystu öðrum. Í þriðja hópnum voru börn sem höfðu minnsta tiltrú á sjálfum sér, sýndu skort á sjálfsaga og voru árásargjörn.

Í rannsókn Baumrinds voru athugaðir fjórir þættir: Hvernig foreldrar stjórnuðu barninu, hvers konar kröfur – félagslegar, tilfinningalegar og vitsmunalegar – foreldrar gerðu til þroska barnsins, hvernig foreldrar notuðu skýringar í samskiptum við barnið og hvort hlýja og hvatning einkenndi samskiptin. Baumrind greindi foreldrana í þrjá hópa eftir því hvaða uppeldishættir þeim voru tamastir: Í leiðandi foreldra, skipandi foreldra og eftirláta foreldra.

Uppeldishættir

Leiðandi foreldrar kröfðust þroskaðrar hegðunar af börnum sínum. Þeir settu greinileg mörk um hvað væri tilhlýðilegt og hvað ekki og notuðu til þess skýringar. Þeir hvöttu sömuleiðis börnin til að skýra út sjónarmið sín. Þannig lögðu þeir áherslu á að ræða við börnin þar sem fram komu bæði sjónarmið barna og foreldra, til dæmis þegar reglur voru settar. Þeir sýndu börnunum einnig mikla hlýju og uppörvun. Þessir uppeldishættir reyndust tamir foreldrum þeirra barna sem flokkuðust í fyrsta hópinn sem nefndur var hér að ofan.

Skipandi foreldrar stjórnuðu börnunum með boðum og bönnum. Orð þeirra voru lög sem ekki mátti efast um og þeir refsuðu börnunum fyrir misgjörðir. Þeir notuðu því sjaldan röksemdir eða sýndu börnunum hlýju og uppörvun. Þetta voru oftast foreldrar barna í öðrum hópi.

Eftirlátir foreldrar ólu börnin upp í miklu frjálsræði, jafnvel stjórnleysi, og skiptu sér hvorki mikið af börnum sínum né reyndu að örva sjálfstraust og sjálfstæði þeirra. Þeir settu fáar reglur og gengu lítt eftir því að börnin fylgdu þeim. Þeir gerðu líka litlar kröfur til barnanna um þroskaða hegðun, en sýndu þeim þó meiri hlýju en skipandi foreldrar sýndu börnum sínum. Þetta reyndust oftast vera foreldrar barnanna í þriðja hópi, þeirra sem voru þroskaminnst með tilliti til þeirra þátta sem athugaðir voru.

Fjölmargar rannsóknir, til dæmis rannsókn Baumrinds, benda þannig til þess að saman fari uppeldisaðferðir foreldra og tilteknir samskiptahættir barna í viðureign þeirra við umheiminn. Börn foreldra sem taka mildilega en með vökulli festu á uppeldi sýna mestan tilfinninga- og félagsþroska. Börn afskiptalausra foreldra eru að jafnaði fremur stjórnlaus og börn skipandi foreldra einnig.

Hvaða ályktanir má draga?

Niðurstöður úr rannsókn Baumrinds eru athyglisverðar fyrir uppalendur. Í fyrsta lagi, ef bornir eru saman uppeldishættir leiðandi foreldra og skipandi foreldra ættu niðurstöðurnar að hvetja stranga foreldra sem stjórna börnum sínum með boðum og bönnum til að nota frekar þá aðferð að skýra út fyrir barninu hvað því sé fyrir bestu. Þeir fá vísbendingu um að leit eftir sjónarmiðum barnanna sé vænlegri leið en valdboðið, að fá börnin til að skýra afstöðu sína og taka þannig sameiginlega ákvörðun. Þeir fá líka ábendingu um mikilvægi þess að sýna börnum hlýju og virðingu.

Önnur niðurstaða, sem kemur ef til vill fleiri íslenskum foreldrum á óvart en hin fyrri, er sú hversu mikið skortir á að börn sem alin eru upp í miklu frjálsræði séu sjálfstæð, virk eða þroskuð. Svo virðist vera að samband sé á milli frjálsræðis, eftirlætis, umburðarlyndis, stjórnleysis eða afskiptaleysis foreldra, hvert svo sem réttnefnið er, og þess að börnin eigi erfitt með að setja sér mörk. Það kann að vera að vegna óskýrra leiðbeininga eigi börnin erfitt með að greina hvað sé viðeigandi og hvað ekki.

Áður en svona rannsóknarniðurstöður eru samt gerðar að uppeldisformúlu er rétt að benda á að þær sýna ekki með óyggjandi hætti að uppeldisaðferðirnar orsaki hegðun barnanna. Börn sem eru ólík í lund kunna að laða fram ólíkar uppeldisaðferðir. Þannig kann að vera að þeim börnum sem eru einstrengingsleg í lund, ef til vill frá náttúrunnar hendi eða vegna aðstæðna, sé erfitt að stjórna með lýðræðislegum samningaaðferðum. Athuga verður að þroski barns mótast ekki einvörðungu af uppeldisaðferðum, heldur af heildarskilyrðum í uppvexti og af upplagi barnsins. Þessi sannindi eru reyndar bæði gömul og ný. Í Njálu stendur til dæmis að fjórðungi bregði til fósturs.

Með þessi varnaðarorð í huga er sjálfsagt að gefa niðurstöðum rannsókna gaum og huga að því hvort ekki megi nýta sér slíkar niðurstöður til leiðbeiningar um uppeldi. En jafnframt er rétt að vara við því að alhæfa af of mikilli ákefð á grunni einnar rannsóknar og heimfæra upp á allt uppeldi. Ein rannsókn verður seint endanleg undirstaða alls uppeldisstarfs í skólum eða á heimilum.


Þetta svar er hluti greinar af vefsetrinu Persóna.is og birtist örlítið breytt á Vísindavefnum með góðfúslegu leyfi aðstandenda þess. Með því að smella hér er hægt að nálgast ítarlegri útgáfu af svarinu.


Frekara lesefni á Vísindavefnum

Höfundar

Sigurður J. Grétarsson

prófessor í sálarfræði við HÍ

prófessor í uppeldis- og menntunarfræði

Útgáfudagur

28.12.2006

Spyrjandi

Ragnheiður Smáradóttir, f. 1989

Tilvísun

Sigurður J. Grétarsson og Sigrún Aðalbjarnardóttir. „Hvaða aðferðir henta best til að ala upp börn?“ Vísindavefurinn, 28. desember 2006, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6446.

Sigurður J. Grétarsson og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2006, 28. desember). Hvaða aðferðir henta best til að ala upp börn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6446

Sigurður J. Grétarsson og Sigrún Aðalbjarnardóttir. „Hvaða aðferðir henta best til að ala upp börn?“ Vísindavefurinn. 28. des. 2006. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6446>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða aðferðir henta best til að ala upp börn?
Bandaríski sálfræðingurinn Diana Baumrind hefur athugað samband þroska barna á forskólaaldri við uppeldishætti foreldra. Baumrind greindi börnin í þrjá hópa eftir sjálfsaga, sjálfstæði og sjálfstrausti þeirra og eftir því hversu athugul og vingjarnleg þau voru. Í fyrsta hópi voru börn sem voru bæði virk og lipur í samskiptum. Þau voru sjálfstæð, öguð og höfðu trú á sjálfum sér, auk þess sem þau voru að jafnaði vingjarnleg og samvinnufús. Í öðrum hópnum voru börn sem höfðu nokkra trú á sjálfum sér, en voru þó fremur bæld og vansæl. Einnig voru þau óvinveitt og vantreystu öðrum. Í þriðja hópnum voru börn sem höfðu minnsta tiltrú á sjálfum sér, sýndu skort á sjálfsaga og voru árásargjörn.

Í rannsókn Baumrinds voru athugaðir fjórir þættir: Hvernig foreldrar stjórnuðu barninu, hvers konar kröfur – félagslegar, tilfinningalegar og vitsmunalegar – foreldrar gerðu til þroska barnsins, hvernig foreldrar notuðu skýringar í samskiptum við barnið og hvort hlýja og hvatning einkenndi samskiptin. Baumrind greindi foreldrana í þrjá hópa eftir því hvaða uppeldishættir þeim voru tamastir: Í leiðandi foreldra, skipandi foreldra og eftirláta foreldra.

Uppeldishættir

Leiðandi foreldrar kröfðust þroskaðrar hegðunar af börnum sínum. Þeir settu greinileg mörk um hvað væri tilhlýðilegt og hvað ekki og notuðu til þess skýringar. Þeir hvöttu sömuleiðis börnin til að skýra út sjónarmið sín. Þannig lögðu þeir áherslu á að ræða við börnin þar sem fram komu bæði sjónarmið barna og foreldra, til dæmis þegar reglur voru settar. Þeir sýndu börnunum einnig mikla hlýju og uppörvun. Þessir uppeldishættir reyndust tamir foreldrum þeirra barna sem flokkuðust í fyrsta hópinn sem nefndur var hér að ofan.

Skipandi foreldrar stjórnuðu börnunum með boðum og bönnum. Orð þeirra voru lög sem ekki mátti efast um og þeir refsuðu börnunum fyrir misgjörðir. Þeir notuðu því sjaldan röksemdir eða sýndu börnunum hlýju og uppörvun. Þetta voru oftast foreldrar barna í öðrum hópi.

Eftirlátir foreldrar ólu börnin upp í miklu frjálsræði, jafnvel stjórnleysi, og skiptu sér hvorki mikið af börnum sínum né reyndu að örva sjálfstraust og sjálfstæði þeirra. Þeir settu fáar reglur og gengu lítt eftir því að börnin fylgdu þeim. Þeir gerðu líka litlar kröfur til barnanna um þroskaða hegðun, en sýndu þeim þó meiri hlýju en skipandi foreldrar sýndu börnum sínum. Þetta reyndust oftast vera foreldrar barnanna í þriðja hópi, þeirra sem voru þroskaminnst með tilliti til þeirra þátta sem athugaðir voru.

Fjölmargar rannsóknir, til dæmis rannsókn Baumrinds, benda þannig til þess að saman fari uppeldisaðferðir foreldra og tilteknir samskiptahættir barna í viðureign þeirra við umheiminn. Börn foreldra sem taka mildilega en með vökulli festu á uppeldi sýna mestan tilfinninga- og félagsþroska. Börn afskiptalausra foreldra eru að jafnaði fremur stjórnlaus og börn skipandi foreldra einnig.

Hvaða ályktanir má draga?

Niðurstöður úr rannsókn Baumrinds eru athyglisverðar fyrir uppalendur. Í fyrsta lagi, ef bornir eru saman uppeldishættir leiðandi foreldra og skipandi foreldra ættu niðurstöðurnar að hvetja stranga foreldra sem stjórna börnum sínum með boðum og bönnum til að nota frekar þá aðferð að skýra út fyrir barninu hvað því sé fyrir bestu. Þeir fá vísbendingu um að leit eftir sjónarmiðum barnanna sé vænlegri leið en valdboðið, að fá börnin til að skýra afstöðu sína og taka þannig sameiginlega ákvörðun. Þeir fá líka ábendingu um mikilvægi þess að sýna börnum hlýju og virðingu.

Önnur niðurstaða, sem kemur ef til vill fleiri íslenskum foreldrum á óvart en hin fyrri, er sú hversu mikið skortir á að börn sem alin eru upp í miklu frjálsræði séu sjálfstæð, virk eða þroskuð. Svo virðist vera að samband sé á milli frjálsræðis, eftirlætis, umburðarlyndis, stjórnleysis eða afskiptaleysis foreldra, hvert svo sem réttnefnið er, og þess að börnin eigi erfitt með að setja sér mörk. Það kann að vera að vegna óskýrra leiðbeininga eigi börnin erfitt með að greina hvað sé viðeigandi og hvað ekki.

Áður en svona rannsóknarniðurstöður eru samt gerðar að uppeldisformúlu er rétt að benda á að þær sýna ekki með óyggjandi hætti að uppeldisaðferðirnar orsaki hegðun barnanna. Börn sem eru ólík í lund kunna að laða fram ólíkar uppeldisaðferðir. Þannig kann að vera að þeim börnum sem eru einstrengingsleg í lund, ef til vill frá náttúrunnar hendi eða vegna aðstæðna, sé erfitt að stjórna með lýðræðislegum samningaaðferðum. Athuga verður að þroski barns mótast ekki einvörðungu af uppeldisaðferðum, heldur af heildarskilyrðum í uppvexti og af upplagi barnsins. Þessi sannindi eru reyndar bæði gömul og ný. Í Njálu stendur til dæmis að fjórðungi bregði til fósturs.

Með þessi varnaðarorð í huga er sjálfsagt að gefa niðurstöðum rannsókna gaum og huga að því hvort ekki megi nýta sér slíkar niðurstöður til leiðbeiningar um uppeldi. En jafnframt er rétt að vara við því að alhæfa af of mikilli ákefð á grunni einnar rannsóknar og heimfæra upp á allt uppeldi. Ein rannsókn verður seint endanleg undirstaða alls uppeldisstarfs í skólum eða á heimilum.


Þetta svar er hluti greinar af vefsetrinu Persóna.is og birtist örlítið breytt á Vísindavefnum með góðfúslegu leyfi aðstandenda þess. Með því að smella hér er hægt að nálgast ítarlegri útgáfu af svarinu.


Frekara lesefni á Vísindavefnum

...