Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Átti sögupersónan Svejk í "Góða dátanum Svejk" sér fyrirmynd eða er hún tómur skáldskapur höfundar?

Stella Soffía Jóhannesdóttir

Bókin Ævintýri góða dátans Svejks í heimsstyrjöldinni eftir tékkneska rithöfundinn Jaroslav Hasek (1883-1923) kom út á árunum 1921-1923. Bókin er í raun margar smásögur sem geta staðið einar og sér, en þær má einnig lesa sem heilsteypt verk enda segja þær allar frá sömu persónunni og ævintýrum hennar. Upphaflega ætlaði höfundur að gefa út sex bækur en honum entist ekki aldur til þess að skrifa nema fjórar. Eftir lát Haseks gekk vinur hans frá sögulokunum og er endirinn því svolítið snubbóttur.

Góði dátinn Svejk greinir frá ævintýrum hermannsins Josef Svejk í fyrri heimsstyrjöldinni. Svejk lendir þó aldrei í neinum bardögum sjálfur, en hann er einfeldningur og virðist vera annt um að bregðast ekki skyldum sínum gagnvart föðurlandinu. Jafnvel svo mjög að það verður beinlínis hlægilegt. Þá hagar Svejk sér svo undarlega að samferðarmenn hans eru ekki vissir um hvort hann sé einfaldlega fífl eða hvort hann beiti hegðun sinni á lævísan hátt til að grafa undan yfirmönnum og andæfa stríðinu. Hvort sem Svejk er fífl eða ekki tekst honum að koma yfirmönnum sínum í vandræði og snúa á alla í kringum sig.

Hasek var lengi að skrifa söguna af góða dátanum Svejk. Fyrstu sögurnar um hann birtust árið 1912, en það var svo í fyrri heimsstyrjöldinni sem Svejk fór að taka á sig mynd. Hasek var einmitt í hernum sjálfur, var á vígstöðvunum og var meira að segja handtekinn af Rússum. Jaroslev Hasek leitaði eflaust fanga víða þegar hann skapaði Svejk og notaði spaugileg atvik úr eigin lífi sem innblástur og yfirfærði á Svejk. Hvort persónan er hins vegar innblásin af einhverri ákveðinni manneskju sem Hasek þekkti er erfitt að segja til um. Hasek hefur eflaust notað svipmyndir af öðrum hermönnum og herforingjum í persónusköpun bókarinnar.

Sagan af góða dátanum Svejk er mikil ádeila á stríðið og hefur verið talin ein fyrsta skáldsagan sem er rituð gegn stríði. Þjóðremba styrjarldaráranna og upphafin hermennskan fá sinn skerf af háðulegri umfjöllun í bókinni. Sagan hefur verið talin minna á Don Kíkóta eftir spænska höfundinn Cervantes (1547-1616) og bækur eftir franska rithöfundinn Rabelais (1494-1553).

Sagan af góða dátanum Svejk kom út í íslenskri þýðingu Karls Ísfelds á árunum 1942-1943. Árið 1995 kom verkið út í hljóðbókarformi í upplestri leikarans Gísla Halldórssonar. Eru bæði þýðing Karls og upplestur Gísla svo vel úr garði gerð að sumir segja að það taki frumgerðinni fram.

Mynd: Wikimedia Commons

Höfundur

bókmenntafræðingur

Útgáfudagur

19.3.2007

Spyrjandi

Ragna Ragnarsdóttir

Tilvísun

Stella Soffía Jóhannesdóttir. „Átti sögupersónan Svejk í "Góða dátanum Svejk" sér fyrirmynd eða er hún tómur skáldskapur höfundar?“ Vísindavefurinn, 19. mars 2007. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6543.

Stella Soffía Jóhannesdóttir. (2007, 19. mars). Átti sögupersónan Svejk í "Góða dátanum Svejk" sér fyrirmynd eða er hún tómur skáldskapur höfundar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6543

Stella Soffía Jóhannesdóttir. „Átti sögupersónan Svejk í "Góða dátanum Svejk" sér fyrirmynd eða er hún tómur skáldskapur höfundar?“ Vísindavefurinn. 19. mar. 2007. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6543>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Átti sögupersónan Svejk í "Góða dátanum Svejk" sér fyrirmynd eða er hún tómur skáldskapur höfundar?
Bókin Ævintýri góða dátans Svejks í heimsstyrjöldinni eftir tékkneska rithöfundinn Jaroslav Hasek (1883-1923) kom út á árunum 1921-1923. Bókin er í raun margar smásögur sem geta staðið einar og sér, en þær má einnig lesa sem heilsteypt verk enda segja þær allar frá sömu persónunni og ævintýrum hennar. Upphaflega ætlaði höfundur að gefa út sex bækur en honum entist ekki aldur til þess að skrifa nema fjórar. Eftir lát Haseks gekk vinur hans frá sögulokunum og er endirinn því svolítið snubbóttur.

Góði dátinn Svejk greinir frá ævintýrum hermannsins Josef Svejk í fyrri heimsstyrjöldinni. Svejk lendir þó aldrei í neinum bardögum sjálfur, en hann er einfeldningur og virðist vera annt um að bregðast ekki skyldum sínum gagnvart föðurlandinu. Jafnvel svo mjög að það verður beinlínis hlægilegt. Þá hagar Svejk sér svo undarlega að samferðarmenn hans eru ekki vissir um hvort hann sé einfaldlega fífl eða hvort hann beiti hegðun sinni á lævísan hátt til að grafa undan yfirmönnum og andæfa stríðinu. Hvort sem Svejk er fífl eða ekki tekst honum að koma yfirmönnum sínum í vandræði og snúa á alla í kringum sig.

Hasek var lengi að skrifa söguna af góða dátanum Svejk. Fyrstu sögurnar um hann birtust árið 1912, en það var svo í fyrri heimsstyrjöldinni sem Svejk fór að taka á sig mynd. Hasek var einmitt í hernum sjálfur, var á vígstöðvunum og var meira að segja handtekinn af Rússum. Jaroslev Hasek leitaði eflaust fanga víða þegar hann skapaði Svejk og notaði spaugileg atvik úr eigin lífi sem innblástur og yfirfærði á Svejk. Hvort persónan er hins vegar innblásin af einhverri ákveðinni manneskju sem Hasek þekkti er erfitt að segja til um. Hasek hefur eflaust notað svipmyndir af öðrum hermönnum og herforingjum í persónusköpun bókarinnar.

Sagan af góða dátanum Svejk er mikil ádeila á stríðið og hefur verið talin ein fyrsta skáldsagan sem er rituð gegn stríði. Þjóðremba styrjarldaráranna og upphafin hermennskan fá sinn skerf af háðulegri umfjöllun í bókinni. Sagan hefur verið talin minna á Don Kíkóta eftir spænska höfundinn Cervantes (1547-1616) og bækur eftir franska rithöfundinn Rabelais (1494-1553).

Sagan af góða dátanum Svejk kom út í íslenskri þýðingu Karls Ísfelds á árunum 1942-1943. Árið 1995 kom verkið út í hljóðbókarformi í upplestri leikarans Gísla Halldórssonar. Eru bæði þýðing Karls og upplestur Gísla svo vel úr garði gerð að sumir segja að það taki frumgerðinni fram.

Mynd: Wikimedia Commons...