Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Spurning þessi er í raun ein af grundvallarspurningum þroskunarfræðinnar og hafa margir leitað svara við henni. Einn vísindamaður hefur sagt að hann mundi fórna hægri handlegg sínum fyrir að vita hvernig útlimir geta endurnýjast.
Myndun útlima er flókið ferli sem fer fram á ákveðnum stað og tíma í þroskun einstaklingsins. Í ferli þessu er ákveðið hvað snýr fram, hvað aftur, hvað upp og hvað niður og myndast þannig til dæmis tær af mismunandi stærð, hæll og il á hverjum fæti. Talsvert er nú vitað um hvernig þetta ferli fer af stað og hvaða gen og sameindir stjórna fyrstu skrefum í myndun útlima.
Í fyrstu eru frumurnar sem mynda útlimina fremur ósérhæfðar en eftir því sem á líður sérhæfast frumurnar og verða að húðfrumum, vöðvafrumum, beinfrumum og svo framvegis, og hefja myndun eiginlegra vefja útlimanna svo sem vöðva, húðar og beins. Einnig á sér stað sérhæfing vefjanna í upphandlegg, framhandlegg, höndum, fingrum og þar fram eftir götunum. Sérhæfing þessi er oftast óafturkræf, það er að segja að vöðvafruma getur ekki snúið við og orðið aftur að ósérhæfðri útlimafrumu en slíkt væri í raun forsenda þess að útlimir gætu endurnýjast. Frá þessu eru þó athyglisverðar undantekningar sem læra má af.
Sum froskdýr búa yfir þeim eiginleika að geta endurnýjað útlimi sína. Ef útlimur er skorinn af salamöndru, þá geta frumurnar sem eftir verða myndað nýjan útlim. Það sem meira er, hinir mismunandi hlutar útlimanna verða til á réttum stað. Ef skorið er af við fót endurnýjast einungis fóturinn en ef skorið er við hné endurnýjast bæði leggurinn og fóturinn og tærnar snúa rétt og eru á réttum stað. Fyrst eftir að útlimur salamöndru hefur verið skorinn af vex þunnt lag af útlagsfrumum yfir sárið og lokar því. Eftir nokkra fjölgun þessara fruma hefst afsérhæfing frumanna beint undir sárinu, þær losna frá hver annarri og genatjáning þeirra breytist. Frumurnar hafa í raun fengið aftur einkenni fósturfrumanna og geta því hafið myndun vefja á ný.
Ljóst er að ákveðinn fjöldi taugafruma verður að vera til staðar til að endurmyndun vefja geti átt sér stað en minna er vitað um það hvernig þessu ferli er stjórnað. Enn minna er vitað um það af hverju froskdýr búa yfir þessum eiginleika en ekki önnur hryggdýr. Ljóst er þó að rannsóknir á endurmyndun útlima í salamöndrum munu hjálpa til við að skýra þetta ferli og hugsanlega leiða í ljós hvers vegna það gerist ekki í öðrum hryggdýrum.
Mynd: Newt and Salamander´s Homepage
Eiríkur Steingrímsson. „Hvers vegna vaxa ekki nýir útlimir á menn?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2000, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=655.
Eiríkur Steingrímsson. (2000, 17. júlí). Hvers vegna vaxa ekki nýir útlimir á menn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=655
Eiríkur Steingrímsson. „Hvers vegna vaxa ekki nýir útlimir á menn?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2000. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=655>.