Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvað gerist við kynþroska?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Vísindavefurinn hefur fengið töluvert af spurningum sem tengjast kynþroska á einn eða annan hátt. Til dæmis:
  • Hvenær verður venjulegur karlmaður kynþroska?
  • Hversu ungur kemst maður á kynþroskaskeið?
  • Getur maður flýtt kynþroska?
  • Er eitthvað sem hægt er að borða eða gera til að flýta kynþroska?
  • Er hægt að hafa áhrif á það hvenær maður byrjar á kynþroskaskeiðinu?

Kynþroskaskeið (e. puberty) er það tímabil á ævinni þegar fram koma líkamlegar breytingar, aðallega á kynfærum, sem leiða til þess að æxlun verður möguleg. Þessu fylgir vaxtarkippur og birting síðkominna kyneinkenna.

Unglingsár eða gelgjuskeið (e. adolescence) er gjarnan skilgreint sem tímabilið frá því að kynþroskaskeiðið hefst og þar til fullorðinsaldri er náð. Á þessu skeiði breytist barn í fullorðinn einstakling.

Þegar rætt er um kynþroskaskeiðið er yfirleitt eingöngu átt við líkamlegar breytingar en gelgjuskeiðið felur einnig í sér breytingar á andlegum þroska, tilfinninga- og félagsþroska.

Kynþroskaskeiðið hefst oftast á aldrinum 9 til 16 ára, en dæmi eru um að það hefjist fyrr. Ákveðnir þættir hafa áhrif á hvenær kynþroski hefst. Kyn ræður þar nokkru en að meðaltali hefst kynþroskaskeiðið tveimur árum fyrr hjá stelpum en strákum. Erfðaþættir hafa sömuleiðis mikið að segja. Næring er einnig áhrifaþáttur, sérstaklega hjá stelpum, þar sem vannæring getur seinkað kynþroska. Til eru lyf sem haft geta áhrif á kynþroska en almennt gildir þó að fólk getur lítið gert til að hraða eða seinka kynþroskaskeiðinu.



Sjáanlegar breytingar sem verða við kynþroska orsakast aðallega af kynhormónum sem framleidd eru í kynkirtlum.

Í upphafi kynþroskaskeiðs fer undirstúka heilans að seyta efni sem kallast losunarþáttur kynstýrihormóna (e. gonadotropin releasing factor). Efnið berst til heiladinguls og örvar hann til að mynda og seyta kynstýrihormónum.

Kynstýrihormónin eru tvenns konar, eggbússtýrihormón (ESH; e. FSH) og gulbússtýrihormón (GSH; e. LH). Þessi kynstýrihormón örva kynkirtla, það er eggjastokka og eistu, til að mynda kynfrumur og til að mynda og seyta kynhormónum. Kynhormónin berast um allan líkamann og valda þeim sjáanlegu líkamlegu breytingum sem einkenna kynþroskaskeiðið.

Þótt kynþroskinn undirstriki mismunandi útlit kynjanna þá eru ýmis einkenni kynþroskaskeiðs sameiginleg báðum kynjum, þó að þau komi fram á misáberandi hátt. Bæði strákar og stelpur taka vaxtarkipp, svitamyndun eykst og myndun húðfeiti verður meiri (sem er orsök unglingabóla); hárvöxtur eykst sömuleiðis og röddin dýpkar. Um þessi einkenni er nánar fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Hver eru helstu einkenni kynþroskaskeiðs?

Sum einkenni kynþroska koma þó eðli málsins samkvæmt aðeins fram hjá öðru kyninu. Þetta á við um stækkun brjósta, egglos og blæðingar hjá stelpum og stækkun kynfæra og myndun sáðfruma hjá strákum. Nánar er fjallað um þessa þætti kynþroskans í svari sama höfundar við spurningunum Hvernig breytist líkami stelpna við kynþroska? og Hvernig breytist líkami stráka við kynþroska?

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

23.3.2007

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað gerist við kynþroska?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2007. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6554.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2007, 23. mars). Hvað gerist við kynþroska? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6554

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað gerist við kynþroska?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2007. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6554>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gerist við kynþroska?
Vísindavefurinn hefur fengið töluvert af spurningum sem tengjast kynþroska á einn eða annan hátt. Til dæmis:

  • Hvenær verður venjulegur karlmaður kynþroska?
  • Hversu ungur kemst maður á kynþroskaskeið?
  • Getur maður flýtt kynþroska?
  • Er eitthvað sem hægt er að borða eða gera til að flýta kynþroska?
  • Er hægt að hafa áhrif á það hvenær maður byrjar á kynþroskaskeiðinu?

Kynþroskaskeið (e. puberty) er það tímabil á ævinni þegar fram koma líkamlegar breytingar, aðallega á kynfærum, sem leiða til þess að æxlun verður möguleg. Þessu fylgir vaxtarkippur og birting síðkominna kyneinkenna.

Unglingsár eða gelgjuskeið (e. adolescence) er gjarnan skilgreint sem tímabilið frá því að kynþroskaskeiðið hefst og þar til fullorðinsaldri er náð. Á þessu skeiði breytist barn í fullorðinn einstakling.

Þegar rætt er um kynþroskaskeiðið er yfirleitt eingöngu átt við líkamlegar breytingar en gelgjuskeiðið felur einnig í sér breytingar á andlegum þroska, tilfinninga- og félagsþroska.

Kynþroskaskeiðið hefst oftast á aldrinum 9 til 16 ára, en dæmi eru um að það hefjist fyrr. Ákveðnir þættir hafa áhrif á hvenær kynþroski hefst. Kyn ræður þar nokkru en að meðaltali hefst kynþroskaskeiðið tveimur árum fyrr hjá stelpum en strákum. Erfðaþættir hafa sömuleiðis mikið að segja. Næring er einnig áhrifaþáttur, sérstaklega hjá stelpum, þar sem vannæring getur seinkað kynþroska. Til eru lyf sem haft geta áhrif á kynþroska en almennt gildir þó að fólk getur lítið gert til að hraða eða seinka kynþroskaskeiðinu.



Sjáanlegar breytingar sem verða við kynþroska orsakast aðallega af kynhormónum sem framleidd eru í kynkirtlum.

Í upphafi kynþroskaskeiðs fer undirstúka heilans að seyta efni sem kallast losunarþáttur kynstýrihormóna (e. gonadotropin releasing factor). Efnið berst til heiladinguls og örvar hann til að mynda og seyta kynstýrihormónum.

Kynstýrihormónin eru tvenns konar, eggbússtýrihormón (ESH; e. FSH) og gulbússtýrihormón (GSH; e. LH). Þessi kynstýrihormón örva kynkirtla, það er eggjastokka og eistu, til að mynda kynfrumur og til að mynda og seyta kynhormónum. Kynhormónin berast um allan líkamann og valda þeim sjáanlegu líkamlegu breytingum sem einkenna kynþroskaskeiðið.

Þótt kynþroskinn undirstriki mismunandi útlit kynjanna þá eru ýmis einkenni kynþroskaskeiðs sameiginleg báðum kynjum, þó að þau komi fram á misáberandi hátt. Bæði strákar og stelpur taka vaxtarkipp, svitamyndun eykst og myndun húðfeiti verður meiri (sem er orsök unglingabóla); hárvöxtur eykst sömuleiðis og röddin dýpkar. Um þessi einkenni er nánar fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Hver eru helstu einkenni kynþroskaskeiðs?

Sum einkenni kynþroska koma þó eðli málsins samkvæmt aðeins fram hjá öðru kyninu. Þetta á við um stækkun brjósta, egglos og blæðingar hjá stelpum og stækkun kynfæra og myndun sáðfruma hjá strákum. Nánar er fjallað um þessa þætti kynþroskans í svari sama höfundar við spurningunum Hvernig breytist líkami stelpna við kynþroska? og Hvernig breytist líkami stráka við kynþroska?

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:...