Sólin Sólin Rís 02:58 • sest 23:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:00 • Sest 02:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:15 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík

Af hverju eru karlar yfirleitt stærri en konur?

HMS

Þegar kerfisbundinn kynjamunur er á útliti eða formgerð tiltekinnar dýra- eða plöntutegundar er talað um kynbundna tvíbreytni (e. sexual dimorphism). Mörg dæmi eru til að mynda um að kynin séu misskrautleg; þannig eru andarsteggir oft mun skrautlegri en kollurnar, og hjá páfuglum er það aðeins karlfuglinn sem hefur hið einkennandi tilkomumikla stél. Einnig er nokkuð algengt að annað kynið hafi stærri árásar- og varnarbúnað, svo sem horn, og á þetta til dæmis við um elgi.


Páhanar eru langtum skrautlegri en páhænur.

Kynbundin tvíbreytni getur einnig komið fram sem munur á líkamsstærð og slíkur munur er til staðar hjá mannfólki. Fullvaxnir karlar eru að meðaltali 10 hundraðshlutum hærri en fullvaxnar konur, auk þess sem almennt gildir að vöðvamassi karla er meiri en kvenna.

Kynbundin tvíbreytni kemur helst fram hjá dýrategundum þar sem karldýr makast við mörg kvendýr (fjölkvæni, e. polygyny) eða þar sem kvendýr makast við mörg karldýr (fjölveri, e. polyandry). Í fyrra tilfellinu er algengara að karldýrin séu skrautlegri og stærri en kvendýrin, og í hinu síðara er þessu öfugt farið. Hjá tegundum þar sem hver einstaklingur á aðeins einn maka (einkvæni, e. monogamy) gildir almennt að engin kynbundin tvíbreytni kemur fram.

Hvað veldur þessum tengslum makavals og kynbundinnar tvíbreytni? Helsta hugmyndin er að ástæðuna megi leita í því hversu mikið kynin tvö þurfa að koma að uppeldi afkvæma sinna. Hjá fuglum þurfa báðir foreldar oft að leggja talsvert á sig til að ungarnir komist á legg; annað þarf til dæmis að liggja á eggjunum á meðan hitt aflar fæðu. Um níu af hverjum tíu fuglategundum eru einkvænisdýr.

Hjá spendýrum er annað upp á teningnum. Eftir getnað þroskast fóstrið í legi móðurinnar (þetta gildir um legkökuspendýr) án hjálpar föðurins, og eftir fæðingu er það einungis móðirin sem framleiðir mjólk. Afkvæmið getur þannig komist af án hjálpar föðurins. Ólíkt karlfuglum þurfa karlspendýr tæknilega séð ekki að sinna afkvæmum sínum jafn vel til að þau komist á legg. Karlarnir hafa því hag af því að frjóvga egg margra kvenna, því þannig aukast líkur á að þeir eignist mörg afkvæmi. Þetta passar vel við þá staðreynd að fjölkvæni er venjan hjá níu af hverjum tíu tegundum spendýra.


Karlmenn eru að jafnaði um 10% hærri en kvenmenn.

Fjölkvæni skapar samt það vandamál fyrir karldýr að þeir þurfa að keppa við aðra karla um kvendýrin. Stærri og sterkari karlar eru að öllu jöfnu líklegri til að hrekja aðra vonbiðla á brott, frjóvga sjálfir egg margra kvendýra og koma þannig genum sínum áfram til næstu kynslóðar. Því er líklegt að stærri karldýr veljist fremur úr, og að slíkir eiginleikar verði brátt ríkjandi hjá karldýrum viðkomandi dýrategundar.

Fallist maður á skýringarnar hér fyrir ofan mætti búast við að karlmenn hafi öllu meiri tilhneigingu en kvenmenn til að vilja stunda kynlíf með mörgum af gagnstæðu kyni. Vísbendingar eru um að þetta sé að nokkru leyti rétt, en taka verður fram að málið er mjög umdeilt. Auk þess er deilt um orsakirnar; sumir halda því fram að ástæðuna megi rekja til kynbundins vals (e. sexual selection) en aðrir telja að skýringarinnar sé frekar að leita í mismunandi uppeldi karla og kvenna.


Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.


Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Evolution. Encyclopædia Britannica Online.
  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Sexual dimorphism. Wikipedia: The Free Encyclopedia.

Myndir

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

30.3.2007

Spyrjandi

Ólöf Októsdóttir, f. 1994, Sigurlaug Máney Hafliðadóttir, f. 1996

Tilvísun

HMS. „Af hverju eru karlar yfirleitt stærri en konur?“ Vísindavefurinn, 30. mars 2007. Sótt 13. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6571.

HMS. (2007, 30. mars). Af hverju eru karlar yfirleitt stærri en konur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6571

HMS. „Af hverju eru karlar yfirleitt stærri en konur?“ Vísindavefurinn. 30. mar. 2007. Vefsíða. 13. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6571>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru karlar yfirleitt stærri en konur?
Þegar kerfisbundinn kynjamunur er á útliti eða formgerð tiltekinnar dýra- eða plöntutegundar er talað um kynbundna tvíbreytni (e. sexual dimorphism). Mörg dæmi eru til að mynda um að kynin séu misskrautleg; þannig eru andarsteggir oft mun skrautlegri en kollurnar, og hjá páfuglum er það aðeins karlfuglinn sem hefur hið einkennandi tilkomumikla stél. Einnig er nokkuð algengt að annað kynið hafi stærri árásar- og varnarbúnað, svo sem horn, og á þetta til dæmis við um elgi.


Páhanar eru langtum skrautlegri en páhænur.

Kynbundin tvíbreytni getur einnig komið fram sem munur á líkamsstærð og slíkur munur er til staðar hjá mannfólki. Fullvaxnir karlar eru að meðaltali 10 hundraðshlutum hærri en fullvaxnar konur, auk þess sem almennt gildir að vöðvamassi karla er meiri en kvenna.

Kynbundin tvíbreytni kemur helst fram hjá dýrategundum þar sem karldýr makast við mörg kvendýr (fjölkvæni, e. polygyny) eða þar sem kvendýr makast við mörg karldýr (fjölveri, e. polyandry). Í fyrra tilfellinu er algengara að karldýrin séu skrautlegri og stærri en kvendýrin, og í hinu síðara er þessu öfugt farið. Hjá tegundum þar sem hver einstaklingur á aðeins einn maka (einkvæni, e. monogamy) gildir almennt að engin kynbundin tvíbreytni kemur fram.

Hvað veldur þessum tengslum makavals og kynbundinnar tvíbreytni? Helsta hugmyndin er að ástæðuna megi leita í því hversu mikið kynin tvö þurfa að koma að uppeldi afkvæma sinna. Hjá fuglum þurfa báðir foreldar oft að leggja talsvert á sig til að ungarnir komist á legg; annað þarf til dæmis að liggja á eggjunum á meðan hitt aflar fæðu. Um níu af hverjum tíu fuglategundum eru einkvænisdýr.

Hjá spendýrum er annað upp á teningnum. Eftir getnað þroskast fóstrið í legi móðurinnar (þetta gildir um legkökuspendýr) án hjálpar föðurins, og eftir fæðingu er það einungis móðirin sem framleiðir mjólk. Afkvæmið getur þannig komist af án hjálpar föðurins. Ólíkt karlfuglum þurfa karlspendýr tæknilega séð ekki að sinna afkvæmum sínum jafn vel til að þau komist á legg. Karlarnir hafa því hag af því að frjóvga egg margra kvenna, því þannig aukast líkur á að þeir eignist mörg afkvæmi. Þetta passar vel við þá staðreynd að fjölkvæni er venjan hjá níu af hverjum tíu tegundum spendýra.


Karlmenn eru að jafnaði um 10% hærri en kvenmenn.

Fjölkvæni skapar samt það vandamál fyrir karldýr að þeir þurfa að keppa við aðra karla um kvendýrin. Stærri og sterkari karlar eru að öllu jöfnu líklegri til að hrekja aðra vonbiðla á brott, frjóvga sjálfir egg margra kvendýra og koma þannig genum sínum áfram til næstu kynslóðar. Því er líklegt að stærri karldýr veljist fremur úr, og að slíkir eiginleikar verði brátt ríkjandi hjá karldýrum viðkomandi dýrategundar.

Fallist maður á skýringarnar hér fyrir ofan mætti búast við að karlmenn hafi öllu meiri tilhneigingu en kvenmenn til að vilja stunda kynlíf með mörgum af gagnstæðu kyni. Vísbendingar eru um að þetta sé að nokkru leyti rétt, en taka verður fram að málið er mjög umdeilt. Auk þess er deilt um orsakirnar; sumir halda því fram að ástæðuna megi rekja til kynbundins vals (e. sexual selection) en aðrir telja að skýringarinnar sé frekar að leita í mismunandi uppeldi karla og kvenna.


Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.


Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Evolution. Encyclopædia Britannica Online.
  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Sexual dimorphism. Wikipedia: The Free Encyclopedia.

Myndir

...