Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaðan er það komið að kalla stelpur 'fröken fix'?

Guðrún Kvaran

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Lýsingarorðið fix ‘fimur, laginn’ er tökuorð úr dönsku fiks ‘duglegur, flinkur, fljótur’ og þekkist í þessari merkingu frá því á 18. öld. Um miðja síðustu öld og lengur var gjarnan talað um að flík, til dæmis kjóll eða blússa, væri fix og að einhver, langoftast kona væri fix eða fix í sér: ,,Hún er alltaf svo fix, hún Sigga” eða ,,Hún getur saumað hvað sem er, hún er svo fix í sér hún Magga.”

Einnig var algengt að nota sambandið ,,fröken fix”, við ungar stelpur í hressilegum tón, til dæmis: ,,Hvað segirðu títt, fröken fix”, eða eitthvað í þá veru. Það heyrist sjaldan nú orðið, en er þó enn vel þekkt hjá miðaldra fólki og eldra.

Ávarpið fröken var einnig mjög algengt til dæmis þegar ná þurfti sambandi við þjónustustúlku á matsölustað eða kaffihúsi, en einnig þegar eldra fólk talaði í vinsamlegum tón við ungar stelpur: ,,Hvað segir frökenin nú?" eða ,,Jæja, fröken, eigum við ekki að taka einn ólsen, ólsen?”

Ekki hefur verið unnt að rekja tildrög þess að sambandið fröken fix fór á flot og ekki hefur fundist samsvörun í dönskum orðabókum. Sumir bæta við ,,…og madama strix” ef um tvær stelpur er að ræða: ,,Þarna koma fröken fix og maddama strix.” Þótt striks í dönsku merki ‘stífur’ var þetta ekki sagt í neikvæðri merkingu heldur var strix fremur notað sem rímorð við fix.

Húsmóðirin situr á stól og les Sjálfstætt fólk á meðan fröken Fix sér um þvottinn.

Orðið fröken er tökuorð úr dönsku og merkir 'ógift stúlka, ógift kona, ungfrú' eða sama og enski titillinn 'Miss', franska orðið 'mademoiselle' og þýska 'Fräulein'. Fröken var löngum skammstafað 'Frk.', til dæmis þegar skrifað var utan á bréf ('Frk. Jóna Jónsdóttir'), en einnig var þá notað 'ungfrú'.

Höfundi pistilsins barst nýlega kærkomin ábending. Þegar betur var að gáð má sjá á timarit.is að frá 1935 var farið að auglýsa þvottaefnið Fix. Það mun hafa verið innlend framleiðsla og varð fljótt afar vinsælt. Í sumum auglýsinganna er teikning af glaðlegri ,,fröken“ sem þvær þvottinn glöð á svip. Sérlega skemmtileg er auglýsing í Speglinum, 11. árg. 1936. Húsmóðirin situr á stól og les Sjálfstætt fólk á meðan fröken Fix sér um þvottinn. Þvottaefnið var til sölu að minnsta kosti fram á sjötta áratug síðustu aldar. Líklegt er að ávarpið til ungra stúlkna sé komið frá glaðlegu þvottastúlkunni.

Mynd:

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

2.5.2007

Síðast uppfært

18.9.2018

Spyrjandi

Guðrún Bjarkadóttir, Sigurjón Jónsson

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvaðan er það komið að kalla stelpur 'fröken fix'?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2007, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6619.

Guðrún Kvaran. (2007, 2. maí). Hvaðan er það komið að kalla stelpur 'fröken fix'? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6619

Guðrún Kvaran. „Hvaðan er það komið að kalla stelpur 'fröken fix'?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2007. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6619>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaðan er það komið að kalla stelpur 'fröken fix'?
Lýsingarorðið fix ‘fimur, laginn’ er tökuorð úr dönsku fiks ‘duglegur, flinkur, fljótur’ og þekkist í þessari merkingu frá því á 18. öld. Um miðja síðustu öld og lengur var gjarnan talað um að flík, til dæmis kjóll eða blússa, væri fix og að einhver, langoftast kona væri fix eða fix í sér: ,,Hún er alltaf svo fix, hún Sigga” eða ,,Hún getur saumað hvað sem er, hún er svo fix í sér hún Magga.”

Einnig var algengt að nota sambandið ,,fröken fix”, við ungar stelpur í hressilegum tón, til dæmis: ,,Hvað segirðu títt, fröken fix”, eða eitthvað í þá veru. Það heyrist sjaldan nú orðið, en er þó enn vel þekkt hjá miðaldra fólki og eldra.

Ávarpið fröken var einnig mjög algengt til dæmis þegar ná þurfti sambandi við þjónustustúlku á matsölustað eða kaffihúsi, en einnig þegar eldra fólk talaði í vinsamlegum tón við ungar stelpur: ,,Hvað segir frökenin nú?" eða ,,Jæja, fröken, eigum við ekki að taka einn ólsen, ólsen?”

Ekki hefur verið unnt að rekja tildrög þess að sambandið fröken fix fór á flot og ekki hefur fundist samsvörun í dönskum orðabókum. Sumir bæta við ,,…og madama strix” ef um tvær stelpur er að ræða: ,,Þarna koma fröken fix og maddama strix.” Þótt striks í dönsku merki ‘stífur’ var þetta ekki sagt í neikvæðri merkingu heldur var strix fremur notað sem rímorð við fix.

Húsmóðirin situr á stól og les Sjálfstætt fólk á meðan fröken Fix sér um þvottinn.

Orðið fröken er tökuorð úr dönsku og merkir 'ógift stúlka, ógift kona, ungfrú' eða sama og enski titillinn 'Miss', franska orðið 'mademoiselle' og þýska 'Fräulein'. Fröken var löngum skammstafað 'Frk.', til dæmis þegar skrifað var utan á bréf ('Frk. Jóna Jónsdóttir'), en einnig var þá notað 'ungfrú'.

Höfundi pistilsins barst nýlega kærkomin ábending. Þegar betur var að gáð má sjá á timarit.is að frá 1935 var farið að auglýsa þvottaefnið Fix. Það mun hafa verið innlend framleiðsla og varð fljótt afar vinsælt. Í sumum auglýsinganna er teikning af glaðlegri ,,fröken“ sem þvær þvottinn glöð á svip. Sérlega skemmtileg er auglýsing í Speglinum, 11. árg. 1936. Húsmóðirin situr á stól og les Sjálfstætt fólk á meðan fröken Fix sér um þvottinn. Þvottaefnið var til sölu að minnsta kosti fram á sjötta áratug síðustu aldar. Líklegt er að ávarpið til ungra stúlkna sé komið frá glaðlegu þvottastúlkunni.

Mynd:...