Fyrstu sögurnar sem fjalla um gralinn eru frá 12. og 13. öld. Samkvæmt sumum þeirra er gralinn sá bikar sem Jesús drakk úr við síðustu kvöldmáltíðina. Þessi bikar var svo sagður hafa verið notaður til að safna því blóði Krists sem draup af honum á krossinum. Gralnum er oft eignaðir yfirnáttúrulegir eiginleikar og er hann til að mynda stundum sagður geta veitt mönnum eilífa æsku og ódauðleika ef þeir drekka úr honum.
Á síðmiðöldum urðu vinsælar þær hugmyndir að 'san gral' (heilagi gralinn) ætti í raun að vera 'sang real' sem þýðir 'heilagt blóð'. Þetta virðist þó ekki vera réttur uppruni orðsins, en 'graal' er dregið af latneska orðinu 'gradale' sem merkir 'diskur'.
Gralinn tengist sögum af Artúri konungi og riddurum hans sterkum böndum. Sagt er að Artúr hafi ásamt riddurum hringborðsins leitað gralsins til að koma á friði í Englandi. Ekki eru þó allar sögur samdóma um að gralinn sé í raun bikar Krists. Í skáldsögunni Da Vinci lykillinn er því til að mynda haldið fram að gralinn sé María Magdalena, en þessi hugmynd á sér engar stoðir í elstu sögum af gralnum.
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni.
Heimildir og mynd
- Holy Grail. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Þórhallur Heimisson (2006). Hvað var gralinn? Trú.is.
- Mynd: Image:Holygrail.jpg. Wikimedia Commons. Höfundur myndar er Dante Gabriel Rossetti.