
Jökulhlaup af völdum eldgosa geta verið miklu stærri en önnur hlaup sem sögulegar heimildir eru um hér á landi. Þekktust þeirra eru Kötluhlaup en rennsli í hlaupinu samfara Kötlugosinu 1918 er talið hafa numið hundruðum þúsunda rúmmetra á sekúndu. Hlaup úr Öræfajökli samfara eldgosunum 1362 og 1727 voru einnig miklar hamfarir og ollu gífurlegu tjóni. Kötlugos eru talin geta valdið jökulhlaupum bæði til austurs niður á Mýrdalssand, eins og hlaupið 1918, til norðurs og vesturs sem færu niður Markarfljót, og til suðurs niður á Sólheimasand. Mikið tjón gæti orðið af slíkum hlaupum, sér í lagi hlaupum niður Markarfljót. Jökulhlaup hafa orðið víða erlendis. Frægustu dæmi um stór hlaup frá lokum síðustu ísaldar eru Missoula-hlaupin í norðvestur Bandaríkjunum og hlaup sem kennd eru við Altayfjöll í Síberíu. Rennsli þeirra er talið hafa náð tæpum 20 milljónum rúmmetra á sekúndu! Slík hlaup hafa afar mikil áhrif á landmótun á stórum landsvæðum, rjúfa stór gljúfur, leggja af sér set í þykka bunka, gereyða gróðri og mynda sérstakt straumrofið landslag sem kallast "channeled scablands" á ensku. Stór jökulhlaup eru einnig talin hafa orðið hér á landi í lok síðustu ísaldar, meðal annars úr jökulstífluðum vötnum á Kili, þó þau hafi ekki náð sömu stærð og hlaupin í Bandaríkjunum og Asíu. Þekktustu jökulhlaup á forsögulegum tíma hér á landi urðu í Jökulsá á Fjöllum og eru þau talin hafa náð allt að milljón rúmmetrum á sekúndu og myndað Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi. Ummerki um forsöguleg jökulhlaup á síðustu ísöld samfara eldgosum úr Grímsvötnum og Kötlu sjást í setlögum á hafsbotni langt suður af Íslandi og benda ummerkin til þess að sum þessara hlaupa hafi verið margfalt stærri en Skeiðarárhlaupið 1996. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er vatnsrof? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvers vegna er suðurströnd Íslands sandströnd eða sandeyrar frá Djúpavogi að Þorlákshöfn? eftir Sigurð Steinþórsson
- Er hugsanlegt að stór uppistöðulón gerð af mönnum geti komið af stað eldgosum? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hver eru dýpstu stöðuvötn á Íslandi? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Helgi Björnsson. 2002. Subglacial lakes and jökulhlaups in Iceland. Global and Planetary Change, 35, 255-271.
- Nye, J. F. 1976. Water flow in glaciers: Jökulhlaups, tunnels and veins. Journal of Glaciology, 17(76), 181-207.
- Pictures from the jökulhlaup - Myndir Magnúsar Tuma Guðmundssonar og Finns Pálssonar