Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað veldur jökulhlaupum og hvaða hætta stafar af þeim?

Tómas Jóhannesson

Jökulhlaup eru flóð sem falla frá jöklum og stafa af því að lón við eða undir jöklinum tæmast. Þau geta líka átt sér stað af völdum eldgosa undir jökli. Lónin geta verið svokölluð jaðarlón sem jökull stíflar upp, til dæmis í hliðardal og eru Grænalón við Skeiðarárjökul og Vatnsdalslón við Heinabergsjökul dæmi um slík lón. Lónin geta einnig verið við jökulbotninn hulin jökulís og eru Grímsvötn og Skaftárkatlar í Vatnajökli þekktustu dæmi um það.

Lón undir jöklum myndast í mörgum tilvikum hér á landi af völdum jarðhita og eldgosa sem ekki ná upp úr jöklinum. Einnig eru dæmi um að vatn safnist fyrir undir jöklum af öðrum ástæðum, svo sem þegar jöklar ganga fram og miklar breytingar verða á vatnsrásum undir ísnum af þeim sökum. Þekktustu jökulhlaup eru Grímsvatnahlaup og hafa rannsóknir á þeim leitt til helstu kenninga um eðli jökulhlaupa sem settar hafa verið fram.

Rennsli í jökulhlaupum hér á landi, sem ekki eru með beinum hætti af völdum eldgosa, getur verið allt frá nokkrum hundruðum rúmmetra á sekúndu upp í tugi þúsunda rúmmetra á sekúndu. Skemmst er að minnast Skeiðarárhlaupsins í nóvember 1996 en rennsli þess er talið hafa náð um 50 þúsund rúmmetrum á sekúndu. Til samanburðar er meðalrennsli Ölfusár við Selfoss um 400 rúmmetrar á sekúndu. Skeiðarárhlaupið 1996 olli miklu tjóni, meðal annars á brúm, vegum og raflínum, og nam tjónið alls um einum og hálfum milljarði króna, á verðlagi ársins 2007.

Skeiðarárhlaupið 1996. Skömmu eftir að þessi mynd var tekin skemmdist brúin yfir Skeiðará.

Jökulhlaup af völdum eldgosa geta verið miklu stærri en önnur hlaup sem sögulegar heimildir eru um hér á landi. Þekktust þeirra eru Kötluhlaup en rennsli í hlaupinu samfara Kötlugosinu 1918 er talið hafa numið hundruðum þúsunda rúmmetra á sekúndu. Hlaup úr Öræfajökli samfara eldgosunum 1362 og 1727 voru einnig miklar hamfarir og ollu gífurlegu tjóni. Kötlugos eru talin geta valdið jökulhlaupum bæði til austurs niður á Mýrdalssand, eins og hlaupið 1918, til norðurs og vesturs sem færu niður Markarfljót, og til suðurs niður á Sólheimasand. Mikið tjón gæti orðið af slíkum hlaupum, sér í lagi hlaupum niður Markarfljót.

Jökulhlaup hafa orðið víða erlendis. Frægustu dæmi um stór hlaup frá lokum síðustu ísaldar eru Missoula-hlaupin í norðvestur Bandaríkjunum og hlaup sem kennd eru við Altayfjöll í Síberíu. Rennsli þeirra er talið hafa náð tæpum 20 milljónum rúmmetra á sekúndu! Slík hlaup hafa afar mikil áhrif á landmótun á stórum landsvæðum, rjúfa stór gljúfur, leggja af sér set í þykka bunka, gereyða gróðri og mynda sérstakt straumrofið landslag sem kallast "channeled scablands" á ensku.

Stór jökulhlaup eru einnig talin hafa orðið hér á landi í lok síðustu ísaldar, meðal annars úr jökulstífluðum vötnum á Kili, þó þau hafi ekki náð sömu stærð og hlaupin í Bandaríkjunum og Asíu. Þekktustu jökulhlaup á forsögulegum tíma hér á landi urðu í Jökulsá á Fjöllum og eru þau talin hafa náð allt að milljón rúmmetrum á sekúndu og myndað Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi. Ummerki um forsöguleg jökulhlaup á síðustu ísöld samfara eldgosum úr Grímsvötnum og Kötlu sjást í setlögum á hafsbotni langt suður af Íslandi og benda ummerkin til þess að sum þessara hlaupa hafi verið margfalt stærri en Skeiðarárhlaupið 1996.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:
  • Helgi Björnsson. 2002. Subglacial lakes and jökulhlaups in Iceland. Global and Planetary Change, 35, 255-271.
  • Nye, J. F. 1976. Water flow in glaciers: Jökulhlaups, tunnels and veins. Journal of Glaciology, 17(76), 181-207.
  • Pictures from the jökulhlaup - Myndir Magnúsar Tuma Guðmundssonar og Finns Pálssonar

Höfundur

Tómas Jóhannesson

jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands

Útgáfudagur

30.5.2007

Síðast uppfært

11.1.2024

Spyrjandi

Andrea Einarsdóttir, f. 1991

Tilvísun

Tómas Jóhannesson. „Hvað veldur jökulhlaupum og hvaða hætta stafar af þeim?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2007, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6660.

Tómas Jóhannesson. (2007, 30. maí). Hvað veldur jökulhlaupum og hvaða hætta stafar af þeim? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6660

Tómas Jóhannesson. „Hvað veldur jökulhlaupum og hvaða hætta stafar af þeim?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2007. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6660>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað veldur jökulhlaupum og hvaða hætta stafar af þeim?
Jökulhlaup eru flóð sem falla frá jöklum og stafa af því að lón við eða undir jöklinum tæmast. Þau geta líka átt sér stað af völdum eldgosa undir jökli. Lónin geta verið svokölluð jaðarlón sem jökull stíflar upp, til dæmis í hliðardal og eru Grænalón við Skeiðarárjökul og Vatnsdalslón við Heinabergsjökul dæmi um slík lón. Lónin geta einnig verið við jökulbotninn hulin jökulís og eru Grímsvötn og Skaftárkatlar í Vatnajökli þekktustu dæmi um það.

Lón undir jöklum myndast í mörgum tilvikum hér á landi af völdum jarðhita og eldgosa sem ekki ná upp úr jöklinum. Einnig eru dæmi um að vatn safnist fyrir undir jöklum af öðrum ástæðum, svo sem þegar jöklar ganga fram og miklar breytingar verða á vatnsrásum undir ísnum af þeim sökum. Þekktustu jökulhlaup eru Grímsvatnahlaup og hafa rannsóknir á þeim leitt til helstu kenninga um eðli jökulhlaupa sem settar hafa verið fram.

Rennsli í jökulhlaupum hér á landi, sem ekki eru með beinum hætti af völdum eldgosa, getur verið allt frá nokkrum hundruðum rúmmetra á sekúndu upp í tugi þúsunda rúmmetra á sekúndu. Skemmst er að minnast Skeiðarárhlaupsins í nóvember 1996 en rennsli þess er talið hafa náð um 50 þúsund rúmmetrum á sekúndu. Til samanburðar er meðalrennsli Ölfusár við Selfoss um 400 rúmmetrar á sekúndu. Skeiðarárhlaupið 1996 olli miklu tjóni, meðal annars á brúm, vegum og raflínum, og nam tjónið alls um einum og hálfum milljarði króna, á verðlagi ársins 2007.

Skeiðarárhlaupið 1996. Skömmu eftir að þessi mynd var tekin skemmdist brúin yfir Skeiðará.

Jökulhlaup af völdum eldgosa geta verið miklu stærri en önnur hlaup sem sögulegar heimildir eru um hér á landi. Þekktust þeirra eru Kötluhlaup en rennsli í hlaupinu samfara Kötlugosinu 1918 er talið hafa numið hundruðum þúsunda rúmmetra á sekúndu. Hlaup úr Öræfajökli samfara eldgosunum 1362 og 1727 voru einnig miklar hamfarir og ollu gífurlegu tjóni. Kötlugos eru talin geta valdið jökulhlaupum bæði til austurs niður á Mýrdalssand, eins og hlaupið 1918, til norðurs og vesturs sem færu niður Markarfljót, og til suðurs niður á Sólheimasand. Mikið tjón gæti orðið af slíkum hlaupum, sér í lagi hlaupum niður Markarfljót.

Jökulhlaup hafa orðið víða erlendis. Frægustu dæmi um stór hlaup frá lokum síðustu ísaldar eru Missoula-hlaupin í norðvestur Bandaríkjunum og hlaup sem kennd eru við Altayfjöll í Síberíu. Rennsli þeirra er talið hafa náð tæpum 20 milljónum rúmmetra á sekúndu! Slík hlaup hafa afar mikil áhrif á landmótun á stórum landsvæðum, rjúfa stór gljúfur, leggja af sér set í þykka bunka, gereyða gróðri og mynda sérstakt straumrofið landslag sem kallast "channeled scablands" á ensku.

Stór jökulhlaup eru einnig talin hafa orðið hér á landi í lok síðustu ísaldar, meðal annars úr jökulstífluðum vötnum á Kili, þó þau hafi ekki náð sömu stærð og hlaupin í Bandaríkjunum og Asíu. Þekktustu jökulhlaup á forsögulegum tíma hér á landi urðu í Jökulsá á Fjöllum og eru þau talin hafa náð allt að milljón rúmmetrum á sekúndu og myndað Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi. Ummerki um forsöguleg jökulhlaup á síðustu ísöld samfara eldgosum úr Grímsvötnum og Kötlu sjást í setlögum á hafsbotni langt suður af Íslandi og benda ummerkin til þess að sum þessara hlaupa hafi verið margfalt stærri en Skeiðarárhlaupið 1996.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:
  • Helgi Björnsson. 2002. Subglacial lakes and jökulhlaups in Iceland. Global and Planetary Change, 35, 255-271.
  • Nye, J. F. 1976. Water flow in glaciers: Jökulhlaups, tunnels and veins. Journal of Glaciology, 17(76), 181-207.
  • Pictures from the jökulhlaup - Myndir Magnúsar Tuma Guðmundssonar og Finns Pálssonar
...