Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvar er talað um trójuhestinn og fall Tróju ef ekkert er fjallað um þetta í Ilíonskviðu?

Geir Þ. Þórarinsson

Að öllum líkindum voru sögurnar um Trójustríðið ekki einungis þekktar úr kvæðum Hómers og annarra skálda. En í fornöld voru raunar til fleiri kvæði en einungis Ilíonskviða sem fjölluðu um Trójustríðið, til dæmis Eþíópíukviða (Aiþiopis en venjulega nefnd latneska titlinum Aethiopis), Litla Ilíonskviða (Ilias mikra en venjulega nefnd latneska titlinum Ilias parva) og Fall Tróju (Iliou persis eða Iliupersis). Þessi kvæði eru ekki varðveitt nema í örfáum brotum en efni þeirra er enn til í endursögn Prókloss. Sennilega er Próklos þessi nýplatonski heimspekingurinn Próklos sem var uppi 412 – 485 en hugsanlega er hér um að ræða samnefndan málfræðing sem var uppi á 2. öld.

Í Eþíópíukviðu segir meðal annars frá dauða hetjunnar Akkillesar. Í Litlu Ilíonskviðu má svo lesa um dauða Parísar Trójuprins, komu Neoptolemosar, sonar Akkillesar, til Tróju og smíði trójuhestsins. Þar kemur fram að hinn gríski Epeios hafi smíðað tréhestinn fyrir Ódysseif eftir að gyðjan Aþena birtist honum í draumi og sagði honum að svo skyldi hann gera.


Hér sjást sjávarsnákar drepa Laókóon og syni hans.

Í Falli Tróju segir frá rökræðum Trójumanna um hvað skyldi gera við hestinn. Presturinn Laókóon var því mótfallinn að færa hestinn inn í borgina. Af þessum sökum sendi sjávarguðinn Póseidon tvo snáka úr hafinu og drápu þeir Laókóon og syni hans. Trójumenn færðu þá hestinn inn fyrir borgarmúrana. Það sem þeir ekki vissu var að grískir hermenn höfðu falið sig inni í hestinum og laumuðust þeir út um nóttina. Hermennirnir opnuðu borgarhlið Tróju svo að gríski umsátursherinn komst inn í borgina og gat lagt hana í rúst. Neoptolemos drap Príamos, konung Tróju, og nam á brott Andrómökku, ekkju Hektors Trójuprins. Ódysseifur drap svo Astýanax, son Hektors og Andrómökku. Menelás Spörtukonungur vó Deífobos, son Príamosar, og endurheimti þannig Helenu fögru konu sína, sem París hafði áður numið á brott frá Spörtu. Grikkir fórnuðu Pólyxönu, dóttur Príamosar, við gröf Akkillesar.

Einnig er vísað til sögunnar um trójuhestinn í 4. og 8. bók Ódysseifskviðu og í 2. bók Eneasarkviðu Virgils. Þar segir frá því er Eneas flúði Tróju með Ankíses, föður sinn, á bakinu, soninn Ascanius (einnig nefndur Júlus) sér við hlið og konu sína, Kreúsu, á eftir sér en hún týndist raunar á flóttanum. Víða annars staðar er vísað til þessara sagna þótt þar sé sagan ekki beinlínis sögð.

Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

1.6.2007

Spyrjandi

Rakel Kristjánsdóttir, f. 1990

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvar er talað um trójuhestinn og fall Tróju ef ekkert er fjallað um þetta í Ilíonskviðu?“ Vísindavefurinn, 1. júní 2007. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6663.

Geir Þ. Þórarinsson. (2007, 1. júní). Hvar er talað um trójuhestinn og fall Tróju ef ekkert er fjallað um þetta í Ilíonskviðu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6663

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvar er talað um trójuhestinn og fall Tróju ef ekkert er fjallað um þetta í Ilíonskviðu?“ Vísindavefurinn. 1. jún. 2007. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6663>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar er talað um trójuhestinn og fall Tróju ef ekkert er fjallað um þetta í Ilíonskviðu?
Að öllum líkindum voru sögurnar um Trójustríðið ekki einungis þekktar úr kvæðum Hómers og annarra skálda. En í fornöld voru raunar til fleiri kvæði en einungis Ilíonskviða sem fjölluðu um Trójustríðið, til dæmis Eþíópíukviða (Aiþiopis en venjulega nefnd latneska titlinum Aethiopis), Litla Ilíonskviða (Ilias mikra en venjulega nefnd latneska titlinum Ilias parva) og Fall Tróju (Iliou persis eða Iliupersis). Þessi kvæði eru ekki varðveitt nema í örfáum brotum en efni þeirra er enn til í endursögn Prókloss. Sennilega er Próklos þessi nýplatonski heimspekingurinn Próklos sem var uppi 412 – 485 en hugsanlega er hér um að ræða samnefndan málfræðing sem var uppi á 2. öld.

Í Eþíópíukviðu segir meðal annars frá dauða hetjunnar Akkillesar. Í Litlu Ilíonskviðu má svo lesa um dauða Parísar Trójuprins, komu Neoptolemosar, sonar Akkillesar, til Tróju og smíði trójuhestsins. Þar kemur fram að hinn gríski Epeios hafi smíðað tréhestinn fyrir Ódysseif eftir að gyðjan Aþena birtist honum í draumi og sagði honum að svo skyldi hann gera.


Hér sjást sjávarsnákar drepa Laókóon og syni hans.

Í Falli Tróju segir frá rökræðum Trójumanna um hvað skyldi gera við hestinn. Presturinn Laókóon var því mótfallinn að færa hestinn inn í borgina. Af þessum sökum sendi sjávarguðinn Póseidon tvo snáka úr hafinu og drápu þeir Laókóon og syni hans. Trójumenn færðu þá hestinn inn fyrir borgarmúrana. Það sem þeir ekki vissu var að grískir hermenn höfðu falið sig inni í hestinum og laumuðust þeir út um nóttina. Hermennirnir opnuðu borgarhlið Tróju svo að gríski umsátursherinn komst inn í borgina og gat lagt hana í rúst. Neoptolemos drap Príamos, konung Tróju, og nam á brott Andrómökku, ekkju Hektors Trójuprins. Ódysseifur drap svo Astýanax, son Hektors og Andrómökku. Menelás Spörtukonungur vó Deífobos, son Príamosar, og endurheimti þannig Helenu fögru konu sína, sem París hafði áður numið á brott frá Spörtu. Grikkir fórnuðu Pólyxönu, dóttur Príamosar, við gröf Akkillesar.

Einnig er vísað til sögunnar um trójuhestinn í 4. og 8. bók Ódysseifskviðu og í 2. bók Eneasarkviðu Virgils. Þar segir frá því er Eneas flúði Tróju með Ankíses, föður sinn, á bakinu, soninn Ascanius (einnig nefndur Júlus) sér við hlið og konu sína, Kreúsu, á eftir sér en hún týndist raunar á flóttanum. Víða annars staðar er vísað til þessara sagna þótt þar sé sagan ekki beinlínis sögð.

Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd

...