Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:29 • Síðdegis: 18:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:31 • Síðdegis: 12:34 í Reykjavík

Hver var Anaxagóras og hvað er merkilegt sem hann sagði eða gerði?

Geir Þ. Þórarinsson

Anaxagóras (500 – 428 f. Kr.) var grískur heimspekingur frá borginni Klazomenæ í Jóníu í Litlu-Asíu. Hann var auðugur maður en gaf ættingjum sínum eigur sínar og helgaði sig heimspekinni í staðinn. Um miðbik 5. aldar f. Kr. fluttist Anaxagóras til Aþenu þar sem hann bjó og starfaði í um tvo eða þrjá áratugi. Hann samdi eina bók, Náttúruspeki, en hún er ekki varðveitt nema í örfáum brotum.


Gríski heimspekingurinn Anaxagóras (500 – 428 f. Kr.).

Anaxagóras var fyrsti merki heimspekingurinn sem starfaði í Aþenu. Þaðan þurfti hann þó að lokum að flýja þegar hann var kærður fyrir guðlast. Kæruna átti Anaxagóras yfir höfði sér fyrir að hafa haldið því fram að sólin væri ekki guð heldur glóandi eldhnöttur sem væri sennilega stærri en Pelópsskagi. Þegar Anaxagóras frétti að í Aþenu hefði dómur fallið og að hann væri dæmdur til dauða sagði hann að náttúran hefði fyrir löngu síðan dæmt bæði sig og ákærendur sína til dauða. Anaxagóras flutti til borgarinnar Lampsakos þar sem hann bjó til æviloka. Að honum látnum fengu börnin í borginni árlegan frídag í minningu hans, eins og hann hafði óskað.

Anaxagóras var góður vinur Períklesar, merkasta stjórnmálamanns Aþenu. Ákæran á hendur Anaxagórasi kann því að hafa átt rætur sínar að rekja til óvildar pólitískra andstæðinga Períklesar. Sjálfur hafði Anaxagóras engin afskipti af stjórnmálum.

Anaxagóras var einn af fjölhyggjumönnunum svonefndu. Þeir voru náttúruspekingar á 5. öld f. Kr. sem voru allir á einn eða annan hátt undir áhrifum frá heimspekingnum Parmenídesi frá Eleu. Parmenídes færði rök fyrir því að heimurinn sem við skynjum væri einungis blekking en raunveruleikinn væri annar. Í raun væri veruleikinn einn og óskiptur og ekkert yrði til né eyddist, hreyfðist eða breyttist.

Fjölhyggjumennirnir féllust á rök Parmenídesar um tilurð og eyðingu og að það sem væri á endanum raunverulegt yrði að vera í einhverjum skilningi óbreytanlegt (Curd, 2007). Þeir tóku þó ekki undir þá niðurstöðu Parmenídesar að hreyfing og breyting væri eintóm blekking, heldur útskýrðu hreyfingu og breytingu í heiminum með tilvist margra frumefna og breytingarafla sem voru sjálf óbreytanleg og hvorki urðu til né eyddust. Þegar okkur virðast hlutir verða til eða breytast, þá er það vegna þess að frumefnin blandast saman og mynda hlutinn (brot 17).


Anaxagóras með vini sínum Períklesi, einum merkasta stjórnmálamanni Aþenu. Myndin er eftir Augustin-Louis Belle.

Anaxagóras gerði greinarmun á efni (gr. hyle) og anda eða hug (gr. nous). Efnið getur verið samkynja eða ósamkynja, eins og Aristóteles kallaði það síðar (sjá Hver var Aristóteles eftir Ólaf Pál Jónsson). Í samkynja efni eru eindirnar af sama tagi og heildin. Ósamkynja efni er á hinn bóginn blanda af samkynja efnum. Samkynja efni eru frumefni og þau eru óbreytanleg. Frumefnin eru óendanlega mörg og efniseindunum má skipta óendanlega oft í smærri eindir.

Anaxagóras sagði þó að það sé eitthvað af öllu í öllu (brot 11, 12.3). Hann sá að fólk vex þegar það borðar, holdið eykst og hárið síkkar. Samt borðar fólk ekki hár og ekki alltaf kjöt. Þess vegna spurði Anaxagóras hvernig hár geti orðið til úr því sem er ekki hár eða hold úr því sem er ekki hold (brot 10). Hann taldi svarið vera á þá leið að eitthvað af öllu sé í öllu, til dæmis holdi, hári, beinum, viði, gulli, járni og svo framvegis. Í viðarbúti er til dæmis örlítið af gulli og hári en mest af viði, og í beinflís er örlítið af járni og holdi og svo framvegis en mest þó af beini. Í öllu er eitthvað af öllu.

Anaxagóras undanskildi huginn, sem er ómengaður af öllu efni, sjálfráður og óendanlegur, en hann sagði þó að hugurinn sé í sumu (brot 11). Hugurinn stjórnar lifandi verum (brot 12.6) og raunar heiminum öllum (brot 12.7) sem hann setti í gang (brot 13) og kom reglu á (brot 12.10). Í upphafi höfðu öll efnin verið saman í graut (brot 1) en greindust svo að þegar hugurinn kom hreyfingu á heiminn.

Samkvæmt kenningu Anaxagórasar er þess vegna til hugur og óendanlega mörg frumefni. Hugurinn setti heiminn í gang og stjórnar honum sem og einstökum lífverum. Hlutir í heiminum, eins og stólar og borð og fólk og dýr, eru blöndur frumefnanna og nýjar blöndur geta orðið til eða eyðst.

Platon (sjá Hver var Platon? eftir Geir Þ. Þórarinsson) og Aristóteles gagnrýndu Anaxagóras einkum fyrir að útskýra ekki tilgang eða markmið hluta. Kenning Anaxagórasar var ekki markhyggjukenning líkt og kenningar Platons og Aristótelesar.

Anaxagóras fékkst ekki bara við heimspeki heldur einnig stjörnufræði, veðurfræði, jarðfræði og líffræði. Hann taldi að líf væri að finna annars staðar í alheiminum (brot 4.3-6; McKirahan: 230) og ef til vill á tunglinu. Hann hélt að himintunglin væru úr grjóti og að loftsteinar væru þess vegna brot úr himintunglum sem hröpuðu til jarðar. Hann uppgötvaði að tunglið þáði ljós sitt frá sólu (brot 18) og varð að því er virðist fyrstur manna til þess að gefa rétta skýringu á tungl- og sólmyrkvum. Hann taldi að árekstur skýja ylli þrumum og eldingum. Hann áttaði sig einnig á því að regnboginn er afleiðing af endurkasti sólarljóss í röku lofti (brot 19; McKirahan: 229) og hann hélt því fram að skynjun færi fram í heilanum (McKirahan: 230). Um nútímaskýringar á þessum fyrirbærum má lesa í öðrum svörum á Vísindavefnum sem gefin eru upp hér fyrir neðan.

Kenningar Anaxagórasar voru töluvert flóknari en kenningar margra forvera hans. Þær hafa verið túlkaðar á ólíka vegu en ljóst er að hann var bæði frumlegur og fjölhæfur hugsuður sem skipar mikilvægan sess bæði í sögu grískrar heimspeki og sögu vísindanna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og frekari fróðleikur

 • Barnes, J., The Presocratic Philosophers (London: Routledge, 1979/1982).
 • Curd, P., „Presocratic Philosophy”, í Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007).
 • Eyjólfur Kjalar Emilsson og Patricia Kenig Curd, „Frumherjar grískrar heimspeki”, hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
 • Guthrie, W. K. C., A History of Greek Philosophy volume II: The Presocratic tradition from Parmenides to Democritus (Cambridge: Cambridge University Press, 1962).
 • Kirk, G. S., Raven, J. E. og Schofield, M., The Presocratic Philosophers, 2. útgáfa (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
 • McKirahan, R. D., Philosophy Before Socrates (Indianapolis: Hackett, 1994).
 • Wilbur, J. B. og Allen, H. J., The Worlds of the Early Greek Philosophers (Buffalo: Prometheus Books, 1979).

Myndir

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

11.6.2007

Spyrjandi

Rósa Guðgeirsdóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Anaxagóras og hvað er merkilegt sem hann sagði eða gerði?“ Vísindavefurinn, 11. júní 2007. Sótt 22. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6676.

Geir Þ. Þórarinsson. (2007, 11. júní). Hver var Anaxagóras og hvað er merkilegt sem hann sagði eða gerði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6676

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Anaxagóras og hvað er merkilegt sem hann sagði eða gerði?“ Vísindavefurinn. 11. jún. 2007. Vefsíða. 22. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6676>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Anaxagóras og hvað er merkilegt sem hann sagði eða gerði?
Anaxagóras (500 – 428 f. Kr.) var grískur heimspekingur frá borginni Klazomenæ í Jóníu í Litlu-Asíu. Hann var auðugur maður en gaf ættingjum sínum eigur sínar og helgaði sig heimspekinni í staðinn. Um miðbik 5. aldar f. Kr. fluttist Anaxagóras til Aþenu þar sem hann bjó og starfaði í um tvo eða þrjá áratugi. Hann samdi eina bók, Náttúruspeki, en hún er ekki varðveitt nema í örfáum brotum.


Gríski heimspekingurinn Anaxagóras (500 – 428 f. Kr.).

Anaxagóras var fyrsti merki heimspekingurinn sem starfaði í Aþenu. Þaðan þurfti hann þó að lokum að flýja þegar hann var kærður fyrir guðlast. Kæruna átti Anaxagóras yfir höfði sér fyrir að hafa haldið því fram að sólin væri ekki guð heldur glóandi eldhnöttur sem væri sennilega stærri en Pelópsskagi. Þegar Anaxagóras frétti að í Aþenu hefði dómur fallið og að hann væri dæmdur til dauða sagði hann að náttúran hefði fyrir löngu síðan dæmt bæði sig og ákærendur sína til dauða. Anaxagóras flutti til borgarinnar Lampsakos þar sem hann bjó til æviloka. Að honum látnum fengu börnin í borginni árlegan frídag í minningu hans, eins og hann hafði óskað.

Anaxagóras var góður vinur Períklesar, merkasta stjórnmálamanns Aþenu. Ákæran á hendur Anaxagórasi kann því að hafa átt rætur sínar að rekja til óvildar pólitískra andstæðinga Períklesar. Sjálfur hafði Anaxagóras engin afskipti af stjórnmálum.

Anaxagóras var einn af fjölhyggjumönnunum svonefndu. Þeir voru náttúruspekingar á 5. öld f. Kr. sem voru allir á einn eða annan hátt undir áhrifum frá heimspekingnum Parmenídesi frá Eleu. Parmenídes færði rök fyrir því að heimurinn sem við skynjum væri einungis blekking en raunveruleikinn væri annar. Í raun væri veruleikinn einn og óskiptur og ekkert yrði til né eyddist, hreyfðist eða breyttist.

Fjölhyggjumennirnir féllust á rök Parmenídesar um tilurð og eyðingu og að það sem væri á endanum raunverulegt yrði að vera í einhverjum skilningi óbreytanlegt (Curd, 2007). Þeir tóku þó ekki undir þá niðurstöðu Parmenídesar að hreyfing og breyting væri eintóm blekking, heldur útskýrðu hreyfingu og breytingu í heiminum með tilvist margra frumefna og breytingarafla sem voru sjálf óbreytanleg og hvorki urðu til né eyddust. Þegar okkur virðast hlutir verða til eða breytast, þá er það vegna þess að frumefnin blandast saman og mynda hlutinn (brot 17).


Anaxagóras með vini sínum Períklesi, einum merkasta stjórnmálamanni Aþenu. Myndin er eftir Augustin-Louis Belle.

Anaxagóras gerði greinarmun á efni (gr. hyle) og anda eða hug (gr. nous). Efnið getur verið samkynja eða ósamkynja, eins og Aristóteles kallaði það síðar (sjá Hver var Aristóteles eftir Ólaf Pál Jónsson). Í samkynja efni eru eindirnar af sama tagi og heildin. Ósamkynja efni er á hinn bóginn blanda af samkynja efnum. Samkynja efni eru frumefni og þau eru óbreytanleg. Frumefnin eru óendanlega mörg og efniseindunum má skipta óendanlega oft í smærri eindir.

Anaxagóras sagði þó að það sé eitthvað af öllu í öllu (brot 11, 12.3). Hann sá að fólk vex þegar það borðar, holdið eykst og hárið síkkar. Samt borðar fólk ekki hár og ekki alltaf kjöt. Þess vegna spurði Anaxagóras hvernig hár geti orðið til úr því sem er ekki hár eða hold úr því sem er ekki hold (brot 10). Hann taldi svarið vera á þá leið að eitthvað af öllu sé í öllu, til dæmis holdi, hári, beinum, viði, gulli, járni og svo framvegis. Í viðarbúti er til dæmis örlítið af gulli og hári en mest af viði, og í beinflís er örlítið af járni og holdi og svo framvegis en mest þó af beini. Í öllu er eitthvað af öllu.

Anaxagóras undanskildi huginn, sem er ómengaður af öllu efni, sjálfráður og óendanlegur, en hann sagði þó að hugurinn sé í sumu (brot 11). Hugurinn stjórnar lifandi verum (brot 12.6) og raunar heiminum öllum (brot 12.7) sem hann setti í gang (brot 13) og kom reglu á (brot 12.10). Í upphafi höfðu öll efnin verið saman í graut (brot 1) en greindust svo að þegar hugurinn kom hreyfingu á heiminn.

Samkvæmt kenningu Anaxagórasar er þess vegna til hugur og óendanlega mörg frumefni. Hugurinn setti heiminn í gang og stjórnar honum sem og einstökum lífverum. Hlutir í heiminum, eins og stólar og borð og fólk og dýr, eru blöndur frumefnanna og nýjar blöndur geta orðið til eða eyðst.

Platon (sjá Hver var Platon? eftir Geir Þ. Þórarinsson) og Aristóteles gagnrýndu Anaxagóras einkum fyrir að útskýra ekki tilgang eða markmið hluta. Kenning Anaxagórasar var ekki markhyggjukenning líkt og kenningar Platons og Aristótelesar.

Anaxagóras fékkst ekki bara við heimspeki heldur einnig stjörnufræði, veðurfræði, jarðfræði og líffræði. Hann taldi að líf væri að finna annars staðar í alheiminum (brot 4.3-6; McKirahan: 230) og ef til vill á tunglinu. Hann hélt að himintunglin væru úr grjóti og að loftsteinar væru þess vegna brot úr himintunglum sem hröpuðu til jarðar. Hann uppgötvaði að tunglið þáði ljós sitt frá sólu (brot 18) og varð að því er virðist fyrstur manna til þess að gefa rétta skýringu á tungl- og sólmyrkvum. Hann taldi að árekstur skýja ylli þrumum og eldingum. Hann áttaði sig einnig á því að regnboginn er afleiðing af endurkasti sólarljóss í röku lofti (brot 19; McKirahan: 229) og hann hélt því fram að skynjun færi fram í heilanum (McKirahan: 230). Um nútímaskýringar á þessum fyrirbærum má lesa í öðrum svörum á Vísindavefnum sem gefin eru upp hér fyrir neðan.

Kenningar Anaxagórasar voru töluvert flóknari en kenningar margra forvera hans. Þær hafa verið túlkaðar á ólíka vegu en ljóst er að hann var bæði frumlegur og fjölhæfur hugsuður sem skipar mikilvægan sess bæði í sögu grískrar heimspeki og sögu vísindanna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og frekari fróðleikur

 • Barnes, J., The Presocratic Philosophers (London: Routledge, 1979/1982).
 • Curd, P., „Presocratic Philosophy”, í Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007).
 • Eyjólfur Kjalar Emilsson og Patricia Kenig Curd, „Frumherjar grískrar heimspeki”, hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
 • Guthrie, W. K. C., A History of Greek Philosophy volume II: The Presocratic tradition from Parmenides to Democritus (Cambridge: Cambridge University Press, 1962).
 • Kirk, G. S., Raven, J. E. og Schofield, M., The Presocratic Philosophers, 2. útgáfa (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
 • McKirahan, R. D., Philosophy Before Socrates (Indianapolis: Hackett, 1994).
 • Wilbur, J. B. og Allen, H. J., The Worlds of the Early Greek Philosophers (Buffalo: Prometheus Books, 1979).

Myndir

...