Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er manndómsvígsla?

Helga Björnsdóttir

Í mörgum samfélögum eru það talin mikil tímamót þegar unglingur er tekinn í tölu fullorðinna. Þá verður hann fullgildur meðlimur viðkomandi samfélags. Slíkt er gert á táknrænan hátt í athöfn sem meðal annars er kölluð manndómsvígsla (e. initiation rite). Manndómsvígslur eiga sér oftast stað þegar unglingurinn kemst á kynþroskaaldur og ganga margar þeirra út á að fræða unglinginn um þær skyldur sem bíða hans sem fullorðins einstaklings.

Í sumum samfélögum eru manndómsvígslur aðeins fyrir drengi, í öðrum eru það eingöngu stúlkur sem eru vígðar inn í heim fullorðinna. Enn önnur samfélög hafa vígsluathafnir fyrir bæði drengi og stúlkur en þó í sitt hvoru lagi. Mannfræðingar hafa bent á þetta síðasta atriði sem vísbendingu um að tilgangur manndómsvígslna sé ekki eingöngu að taka unglingana í tölu fullorðinna heldur einnig að viðhalda og styrkja viðtekin kynhlutverk í viðkomandi samfélagi. Þannig snúast vígsluathafnir stúlkna gjarnan um að gera þær að konum og kenna þeim hlutverk þeirra og skyldur. Að sama skapi er markmið drengjavígslna að búa til karlmenn sem eiga að takast á við viðurkennd karlmannshlutverk. Í mörgum samfélögum tíðkast að umskera drengi og stúlkur í slíkum manndómsvígslum (sjá nánar í svari Ragnheiðar Eiríksdóttur við spurningunni Til hvers er umskurður?).


Sársaukafull manndómsvígsluathöfn í Papúa Nýju-Gíneu. Franz Luthi tók myndina árið 1975.

Mannfræðingurinn Victor Turner stundaði rannsóknir hjá Ndembu-fólkinu í Sambíu á árunum 1950 – 1954. Hann skoðaði meðal annars manndómsvígsluathafnir karlmanna Ndembu og komst að því að slíkri athöfn mátti nær alltaf skipta í þrjú stig sem hann kallaði aðskilnað (e. separation), jaðartímabil (e. liminality) og enduraðlögun (e. reincorporation). Á fyrsta stigi vígslunnar eru drengirnir færðir, oft með valdi, frá heimilum sínum og konum í fjölskyldunni og á stað þar sem þeir bíða þess að athöfnin fari fram. Annað stigið einkennist af nokkurs konar biðtíma. Þá þurfa drengirnir oft að þola ýmiss konar harðræði og þeir eru prófaðir á ýmsa lund. Þeir fasta og fá ekki vatn að drekka svo dögum skiptir áður en þeir eru umskornir. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að herða þá og gera að alvöru karlmönnum. Á þriðja stiginu snúa þeir svo aftur til samfélagsins og fá stöðu fullorðinna manna. Þeir eiga þá að vera tilbúnir að takast á við hinar ýmsu skyldur sem fylgja því að vera fullorðinn. Manndómsvígslan sameinar þann hóp sem gekk saman í gegnum hana og hún markar einnig sjálfstæði drengjanna frá mæðrum sínum.

Manndómsvígslur eru að sjálfsögðu margs konar, allt eftir því hvar í heiminum þær eru framkvæmdar. Manndómsvígslur marka þó allar upphafið að nýju tímabili fyrir þá sem ganga í gegnum þær. Hér á landi hefur fermingin oft verið tekin sem dæmi um nokkurs konar manndómsvígslu þó svo að hún sé að sjálfsögðu mjög frábrugðin því sem gerist þegar Ndembu-drengir fullorðnast. Hér áður fyrr þótti fermingin marka ákveðið upphaf að nýju tímabili hjá einstaklingnum en í dag er hún fyrst og fremst táknræn (sjá nánar í svari Péturs Péturssonar við spurningunni Hver er uppruni fermingarinnar?).

Kjartan Jónsson guðfræðingur og mannfræðingur hefur lýst manndómsvígslum drengja hjá Pókót-fólkinu í Kenía í bók sinni Pokot Masculinity: The Role of Rituals in Forming Men, og gefur þar góða innsýn í slíka athafnir.

Heimildir, frekara lesefni og mynd

  • Peoples, James og Bailey, Garrick. 2003. Humanity; An Introduction to Cultural Anthropology. Belmont: Thomson, Wadsworth.
  • Sveinn Eggertsson. 1997. Skinn og þekking meðal Kwermin á Papúa Nýju Gíneu. Í Gísli Pálsson, Haraldur Ólafsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir (ritstj.), Við og hinir. Reykjavík, Mannfræðistofnun Íslands, 192-206.
  • Turner, Victor. 1969. The Ritual Process, Structure and Anti- Structure. New York: Aldine De Gruyer.
  • Image:Sepik River initiation - crocodile scarification 1975, 2.JPG. Wikipedia: The Free Encyclopedia. Höfundur myndar er Franz Luthi. Myndin er birt undir GNU leyfi.

Höfundur

doktorsnemi í mannfræði

Útgáfudagur

12.6.2007

Spyrjandi

Sigríður Hauksdóttir

Tilvísun

Helga Björnsdóttir. „Hvað er manndómsvígsla?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2007. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6678.

Helga Björnsdóttir. (2007, 12. júní). Hvað er manndómsvígsla? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6678

Helga Björnsdóttir. „Hvað er manndómsvígsla?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2007. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6678>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er manndómsvígsla?
Í mörgum samfélögum eru það talin mikil tímamót þegar unglingur er tekinn í tölu fullorðinna. Þá verður hann fullgildur meðlimur viðkomandi samfélags. Slíkt er gert á táknrænan hátt í athöfn sem meðal annars er kölluð manndómsvígsla (e. initiation rite). Manndómsvígslur eiga sér oftast stað þegar unglingurinn kemst á kynþroskaaldur og ganga margar þeirra út á að fræða unglinginn um þær skyldur sem bíða hans sem fullorðins einstaklings.

Í sumum samfélögum eru manndómsvígslur aðeins fyrir drengi, í öðrum eru það eingöngu stúlkur sem eru vígðar inn í heim fullorðinna. Enn önnur samfélög hafa vígsluathafnir fyrir bæði drengi og stúlkur en þó í sitt hvoru lagi. Mannfræðingar hafa bent á þetta síðasta atriði sem vísbendingu um að tilgangur manndómsvígslna sé ekki eingöngu að taka unglingana í tölu fullorðinna heldur einnig að viðhalda og styrkja viðtekin kynhlutverk í viðkomandi samfélagi. Þannig snúast vígsluathafnir stúlkna gjarnan um að gera þær að konum og kenna þeim hlutverk þeirra og skyldur. Að sama skapi er markmið drengjavígslna að búa til karlmenn sem eiga að takast á við viðurkennd karlmannshlutverk. Í mörgum samfélögum tíðkast að umskera drengi og stúlkur í slíkum manndómsvígslum (sjá nánar í svari Ragnheiðar Eiríksdóttur við spurningunni Til hvers er umskurður?).


Sársaukafull manndómsvígsluathöfn í Papúa Nýju-Gíneu. Franz Luthi tók myndina árið 1975.

Mannfræðingurinn Victor Turner stundaði rannsóknir hjá Ndembu-fólkinu í Sambíu á árunum 1950 – 1954. Hann skoðaði meðal annars manndómsvígsluathafnir karlmanna Ndembu og komst að því að slíkri athöfn mátti nær alltaf skipta í þrjú stig sem hann kallaði aðskilnað (e. separation), jaðartímabil (e. liminality) og enduraðlögun (e. reincorporation). Á fyrsta stigi vígslunnar eru drengirnir færðir, oft með valdi, frá heimilum sínum og konum í fjölskyldunni og á stað þar sem þeir bíða þess að athöfnin fari fram. Annað stigið einkennist af nokkurs konar biðtíma. Þá þurfa drengirnir oft að þola ýmiss konar harðræði og þeir eru prófaðir á ýmsa lund. Þeir fasta og fá ekki vatn að drekka svo dögum skiptir áður en þeir eru umskornir. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að herða þá og gera að alvöru karlmönnum. Á þriðja stiginu snúa þeir svo aftur til samfélagsins og fá stöðu fullorðinna manna. Þeir eiga þá að vera tilbúnir að takast á við hinar ýmsu skyldur sem fylgja því að vera fullorðinn. Manndómsvígslan sameinar þann hóp sem gekk saman í gegnum hana og hún markar einnig sjálfstæði drengjanna frá mæðrum sínum.

Manndómsvígslur eru að sjálfsögðu margs konar, allt eftir því hvar í heiminum þær eru framkvæmdar. Manndómsvígslur marka þó allar upphafið að nýju tímabili fyrir þá sem ganga í gegnum þær. Hér á landi hefur fermingin oft verið tekin sem dæmi um nokkurs konar manndómsvígslu þó svo að hún sé að sjálfsögðu mjög frábrugðin því sem gerist þegar Ndembu-drengir fullorðnast. Hér áður fyrr þótti fermingin marka ákveðið upphaf að nýju tímabili hjá einstaklingnum en í dag er hún fyrst og fremst táknræn (sjá nánar í svari Péturs Péturssonar við spurningunni Hver er uppruni fermingarinnar?).

Kjartan Jónsson guðfræðingur og mannfræðingur hefur lýst manndómsvígslum drengja hjá Pókót-fólkinu í Kenía í bók sinni Pokot Masculinity: The Role of Rituals in Forming Men, og gefur þar góða innsýn í slíka athafnir.

Heimildir, frekara lesefni og mynd

  • Peoples, James og Bailey, Garrick. 2003. Humanity; An Introduction to Cultural Anthropology. Belmont: Thomson, Wadsworth.
  • Sveinn Eggertsson. 1997. Skinn og þekking meðal Kwermin á Papúa Nýju Gíneu. Í Gísli Pálsson, Haraldur Ólafsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir (ritstj.), Við og hinir. Reykjavík, Mannfræðistofnun Íslands, 192-206.
  • Turner, Victor. 1969. The Ritual Process, Structure and Anti- Structure. New York: Aldine De Gruyer.
  • Image:Sepik River initiation - crocodile scarification 1975, 2.JPG. Wikipedia: The Free Encyclopedia. Höfundur myndar er Franz Luthi. Myndin er birt undir GNU leyfi.
...