Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:49 • Síðdegis: 18:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:55 • Síðdegis: 24:31 í Reykjavík

Hver var Charles Darwin?

Hrannar Baldursson og Þorsteinn Vilhjálmsson

Charles Robert Darwin fæddist 12. febrúar 1809 í Shrewsbury, Englandi. Hann er ætíð kenndur við náttúrufræði, en þekktastur er hann fyrir kenningu um þróun lífs á jörðu, sem á Íslandi er ávallt kölluð þróunarkenningin, en einnig tíðkast að kalla hana Darwinisma.

Kjarnann í kenningunni setti hann fram í bókinni Um uppruna tegundanna (1859) (On the Origin of Species) sem hefur haft djúptæk áhrif á vísindalega hugsun allar götur síðan hún kom út. Síðar gerði hann hugmyndum sínum um uppruna mannsins sérstök skil í bókinni Hvernig maðurnn kom til (1871) (The Descent of Man). Darwin sýndi fram á að allar lífverur á jörðinni eru komnar af sömu forfeðrum og hafa þróast á óratíma jarðsögunnar til að falla sífellt betur inn í ríkjandi umhverfi.

Charles var sonur Robert Waring Darwin, sem rak eina stærstu sjúkramiðstöð utan Lundúna. Afi Charles var læknirinn Erasmus Darwin, höfundur ritsins Zoonomia, eða Um lögmál lífvera þar sem skipulegar hugmyndir um þróun voru settar fram í fyrsta sinn. Darwin ólst upp í öruggu umhverfi hástéttarfagmanna og efnafólks sem gaf honum góða félagslega og faglega stöðu.

Móðir Charles lést þegar hann var átta ára. Fyrir utan þetta áfall naut hann góðrar barnæsku og stuðnings systra sinna og eldri bróður, auk stórrar fjölskyldu sem naut töluverðra valda í Englandi. Hann hafði sérstakan áhuga á að safna sýnum og rannsaka efnasambönd, en í Shrewsbury-skólanum, þar sem hann fékk klassíska menntun og líkaði illa, gerði skólameistarinn, Dr. Samuel Butler, opinberlega lítið úr grúski Charles og kallaði það tímasóun. Sextán ára gamall fór Charles í læknisfræðinám við Edinborgarháskóla, en honum ofbauð þegar hann varð vitni að skurðaðgerðum án deyfinga eins og þá var tíðkað. Meðan Charles dvaldist í Skotlandi kynntist hann dýrafræðingnum Robert Grant sem fræddi hann um sjávardýr, og landfræðingnum Robert Jameson sem ól upp í honum vaxandi áhuga á sögu jarðarinnar.

Faðir Charles var óánægður með áhugaleysi hans á lækningum og sendi hann til Cambridge-háskólans árið 1827 til að nema guðfræði. Á þeim tíma aðhylltist Charles kenningar ensku kirkjunnar. Árangur hans í guðfræðinni varð ívið meiri en í læknisfræðinni í Edinborg. Hann hafði þó meiri áhuga á veiðum, skotfærni, útreiðum og íþróttum. Cambridge bauð ekki upp á gráðu í náttúruvísindum á þeim tíma, en frændi Charles, skordýrafræðingurinn William Darwin Fox, efldi ævilangan áhuga hans á bjöllusöfnun. Í Cambridge kynntist Charles klerknum og grasafræðingnum John Stevens Henslow, varð fljótt góðkunningi hans og síðan þekktur sem "maðurinn sem gengur með Henslow." Henslow hvatti Darwin til vísindaiðkunnar og til að treysta á eigin getu.

Árið 1831 mælti Henslow með Darwin sem ólaunuðum náttúrufræðingi í leiðangur á HMS Beagle. Skipið átti að kanna austur- og vesturstrendur Suður-Ameríku og halda áfram að eyjum Kyrrahafsins. Faðir Charles vildi í fyrstu ekki gefa syni sínum fararleyfi, þar sem hann taldi ferðina bæði hættulega og gagnslausa, en Josiah Wedgwood II, móðurbróðir Charles, fékk föðurinn til að skipta um skoðun. Í þessari ferð gerði Darwin mikilvægar uppgötvanir sem hann ritaði um af nákvæmni og þekkingu sem vakti viðurkenningu meðal náttúrufræðinga.

Eftir ferðir sínar vann Darwin aleinn heima hjá sér og lifði sem sjálfstæður vísindamaður, sem fáir gátu gert á Viktoríutímum Englands. Robert, faðir hans, borgaði uppihald Charles og allan kostnað og því þurfti Charles aldrei að leita sér að launaðri vinnu. Þegar hann sneri heim úr ferðum sínum vissi Darwin að hann yrði aldrei klerkur eins og lærifaðir hans, Henslow. Né heldur ætlaði hann sér að enda sem piparsveinn eins og bróðir hans, Erasmus. Eftir að hafa skrifað upp lista yfir kosti og galla hjónabands, bað hann frænku sinnar, Emmu Wedgwood, sem hann kvæntist síðan árið 1839. Hún færði honum hagsæld, umhyggju og húsmóðurhæfni sem gerði honum fært að vinna í friði næstu 40 árin. Fyrstu árin í hjónabandinu bjuggu þau í Lundúnum, en sökum slakrar heilsu Charles fluttu þau síðar úr borginni.

Charles og Emma eignuðust tíu börn, tvö þeirra létust við fæðingu og hið þriðja, Anne, lést tíu ára að aldri. Þau áttu fimm syni sem allir gengu í skóla. George, Francis og Horace urðu viðurkenndir vísindamenn og Leonard var majór í hernum og verkfræðingur. William Erasmus var ekki þekktur frekar en systur hans tvær sem undirbjuggu sig heima við til að fylgja í fótspor móður sinnar í hjónaband. Henrietta giftist en Elizabeth pipraði.

Charles var dyggur eiginmaður og faðir, en kom fram við konu sína eins og hún væri barn. Hann var andsnúinn þrælahaldi og hvers konar grimmd. Hins vegar virtist hann litla virðingu bera fyrir greind kvenna, en hann skrifaði grein í The Times 23. júní 1876 til stuðnings læknisfræðilegum tilraunum á lifandi skepnum og gagnrýndi konur fyrir að mótmæla slíkum tilraunum vegna hjartalags og djúprar fávisku, en hann taldi þessar tilraunar nauðsynlegar til að lina þjáningar þúsundir manna í náinni framtíð.

Charles leið vel í ensku samfélagi og mat mikils stöðu sína, en óttaðist einnig að styggja vini og ættingja með kenningum sínum. Hann hræddist fátt meira en útskúfun og það hélt aftur af honum við að gefa út kenningar sínar. Hann vildi einnig forðast að særa kæran vin sinn, Henslow, og eiginkonu sína, Emmu, sem bæði voru sannkristin, og í þeirra augum væru kenningar hans trúvilla.

Líklegt þykir að þessi ágreiningur hafi valdið honum miklum hugarkvölum, sem síðar brutust út sem líkamlegur sjúkleiki, en líkamlegri heilsu hans hrakaði mikið næstu áratugi. Það var ekki fyrr en hann hætti að velta fyrir sér þróun síðustu tíu ár ævi sinnar, að heilsa hans skánaði til muna. Hugsanlegt er þó talið að hann hafi gengið með langvinnan hitabeltissjúkdóm sem hann hafi fengið á ferðum sínum í Suður-Ameríku.

Þó að Charles Darwin hafi flust úr borg í sveit eyddi hann að minnsta kosti 2000 dögum milli áranna 1842 og 1881 að heiman. Hann var félagi í 57 alþjóðlegum rannsóknarhópum og sinnti að auki mörgum félagslegum skyldum í bæ sínum, Downe. Darwin sendi börn sín í þorpdansa og þó svo að hann hafi verið efasemdarmaður gagnvart trúarbrögðum sótti hann kirkjuathafnir sem voru hluti af þorpslífinu.

Charles Robert Darwin lést 19. apríl 1882. Innan fárra stunda bárust fréttirnar um lát hans til Lundúna og var ákveðið að hann skyldu jarðsettur í Westminster Abbey eins og mörg stórmenni Breta, þar á meðal Ísak Newton um það bil hálfri annarri öld fyrr.

Nú á dögum er þróunarkenning Darwins almennt viðurkennd. Hugmyndir hans hafa verið þróaðar áfram með frekari rannsóknum í erfðafræði og lífefnafræði og eru ómissandi þáttur í lífvísindum okkar daga.

Heimildir:

Britannica.com

Lucidcafé

Önnur svör á Vísindavefnum tengd Charles Darwin:

Hvað eru til margar tegundir af þróunarkenningunni og hvað kallast þær? (Einar Árnason).

Hvernig urðu litlu frumurnar í sjónum að mönnum og dýrum? (Einar Árnason).

Eru allir í heiminum skyldir? Hvers vegna? (ÞV).

Eru menn dýr? (Þorsteinn Vilhjálmsson).

Skoða vísindin hlutina þverfaglega til að leita svara í samsvörun? (Þorsteinn Vilhjálmsson).

Höfundar

uppeldisfræðingur og heimspekingur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

18.7.2000

Spyrjandi

Lilja Kr. Jónsdóttir, fædd 1988

Tilvísun

Hrannar Baldursson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var Charles Darwin?“ Vísindavefurinn, 18. júlí 2000. Sótt 21. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=670.

Hrannar Baldursson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 18. júlí). Hver var Charles Darwin? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=670

Hrannar Baldursson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var Charles Darwin?“ Vísindavefurinn. 18. júl. 2000. Vefsíða. 21. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=670>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Charles Darwin?
Charles Robert Darwin fæddist 12. febrúar 1809 í Shrewsbury, Englandi. Hann er ætíð kenndur við náttúrufræði, en þekktastur er hann fyrir kenningu um þróun lífs á jörðu, sem á Íslandi er ávallt kölluð þróunarkenningin, en einnig tíðkast að kalla hana Darwinisma.

Kjarnann í kenningunni setti hann fram í bókinni Um uppruna tegundanna (1859) (On the Origin of Species) sem hefur haft djúptæk áhrif á vísindalega hugsun allar götur síðan hún kom út. Síðar gerði hann hugmyndum sínum um uppruna mannsins sérstök skil í bókinni Hvernig maðurnn kom til (1871) (The Descent of Man). Darwin sýndi fram á að allar lífverur á jörðinni eru komnar af sömu forfeðrum og hafa þróast á óratíma jarðsögunnar til að falla sífellt betur inn í ríkjandi umhverfi.

Charles var sonur Robert Waring Darwin, sem rak eina stærstu sjúkramiðstöð utan Lundúna. Afi Charles var læknirinn Erasmus Darwin, höfundur ritsins Zoonomia, eða Um lögmál lífvera þar sem skipulegar hugmyndir um þróun voru settar fram í fyrsta sinn. Darwin ólst upp í öruggu umhverfi hástéttarfagmanna og efnafólks sem gaf honum góða félagslega og faglega stöðu.

Móðir Charles lést þegar hann var átta ára. Fyrir utan þetta áfall naut hann góðrar barnæsku og stuðnings systra sinna og eldri bróður, auk stórrar fjölskyldu sem naut töluverðra valda í Englandi. Hann hafði sérstakan áhuga á að safna sýnum og rannsaka efnasambönd, en í Shrewsbury-skólanum, þar sem hann fékk klassíska menntun og líkaði illa, gerði skólameistarinn, Dr. Samuel Butler, opinberlega lítið úr grúski Charles og kallaði það tímasóun. Sextán ára gamall fór Charles í læknisfræðinám við Edinborgarháskóla, en honum ofbauð þegar hann varð vitni að skurðaðgerðum án deyfinga eins og þá var tíðkað. Meðan Charles dvaldist í Skotlandi kynntist hann dýrafræðingnum Robert Grant sem fræddi hann um sjávardýr, og landfræðingnum Robert Jameson sem ól upp í honum vaxandi áhuga á sögu jarðarinnar.

Faðir Charles var óánægður með áhugaleysi hans á lækningum og sendi hann til Cambridge-háskólans árið 1827 til að nema guðfræði. Á þeim tíma aðhylltist Charles kenningar ensku kirkjunnar. Árangur hans í guðfræðinni varð ívið meiri en í læknisfræðinni í Edinborg. Hann hafði þó meiri áhuga á veiðum, skotfærni, útreiðum og íþróttum. Cambridge bauð ekki upp á gráðu í náttúruvísindum á þeim tíma, en frændi Charles, skordýrafræðingurinn William Darwin Fox, efldi ævilangan áhuga hans á bjöllusöfnun. Í Cambridge kynntist Charles klerknum og grasafræðingnum John Stevens Henslow, varð fljótt góðkunningi hans og síðan þekktur sem "maðurinn sem gengur með Henslow." Henslow hvatti Darwin til vísindaiðkunnar og til að treysta á eigin getu.

Árið 1831 mælti Henslow með Darwin sem ólaunuðum náttúrufræðingi í leiðangur á HMS Beagle. Skipið átti að kanna austur- og vesturstrendur Suður-Ameríku og halda áfram að eyjum Kyrrahafsins. Faðir Charles vildi í fyrstu ekki gefa syni sínum fararleyfi, þar sem hann taldi ferðina bæði hættulega og gagnslausa, en Josiah Wedgwood II, móðurbróðir Charles, fékk föðurinn til að skipta um skoðun. Í þessari ferð gerði Darwin mikilvægar uppgötvanir sem hann ritaði um af nákvæmni og þekkingu sem vakti viðurkenningu meðal náttúrufræðinga.

Eftir ferðir sínar vann Darwin aleinn heima hjá sér og lifði sem sjálfstæður vísindamaður, sem fáir gátu gert á Viktoríutímum Englands. Robert, faðir hans, borgaði uppihald Charles og allan kostnað og því þurfti Charles aldrei að leita sér að launaðri vinnu. Þegar hann sneri heim úr ferðum sínum vissi Darwin að hann yrði aldrei klerkur eins og lærifaðir hans, Henslow. Né heldur ætlaði hann sér að enda sem piparsveinn eins og bróðir hans, Erasmus. Eftir að hafa skrifað upp lista yfir kosti og galla hjónabands, bað hann frænku sinnar, Emmu Wedgwood, sem hann kvæntist síðan árið 1839. Hún færði honum hagsæld, umhyggju og húsmóðurhæfni sem gerði honum fært að vinna í friði næstu 40 árin. Fyrstu árin í hjónabandinu bjuggu þau í Lundúnum, en sökum slakrar heilsu Charles fluttu þau síðar úr borginni.

Charles og Emma eignuðust tíu börn, tvö þeirra létust við fæðingu og hið þriðja, Anne, lést tíu ára að aldri. Þau áttu fimm syni sem allir gengu í skóla. George, Francis og Horace urðu viðurkenndir vísindamenn og Leonard var majór í hernum og verkfræðingur. William Erasmus var ekki þekktur frekar en systur hans tvær sem undirbjuggu sig heima við til að fylgja í fótspor móður sinnar í hjónaband. Henrietta giftist en Elizabeth pipraði.

Charles var dyggur eiginmaður og faðir, en kom fram við konu sína eins og hún væri barn. Hann var andsnúinn þrælahaldi og hvers konar grimmd. Hins vegar virtist hann litla virðingu bera fyrir greind kvenna, en hann skrifaði grein í The Times 23. júní 1876 til stuðnings læknisfræðilegum tilraunum á lifandi skepnum og gagnrýndi konur fyrir að mótmæla slíkum tilraunum vegna hjartalags og djúprar fávisku, en hann taldi þessar tilraunar nauðsynlegar til að lina þjáningar þúsundir manna í náinni framtíð.

Charles leið vel í ensku samfélagi og mat mikils stöðu sína, en óttaðist einnig að styggja vini og ættingja með kenningum sínum. Hann hræddist fátt meira en útskúfun og það hélt aftur af honum við að gefa út kenningar sínar. Hann vildi einnig forðast að særa kæran vin sinn, Henslow, og eiginkonu sína, Emmu, sem bæði voru sannkristin, og í þeirra augum væru kenningar hans trúvilla.

Líklegt þykir að þessi ágreiningur hafi valdið honum miklum hugarkvölum, sem síðar brutust út sem líkamlegur sjúkleiki, en líkamlegri heilsu hans hrakaði mikið næstu áratugi. Það var ekki fyrr en hann hætti að velta fyrir sér þróun síðustu tíu ár ævi sinnar, að heilsa hans skánaði til muna. Hugsanlegt er þó talið að hann hafi gengið með langvinnan hitabeltissjúkdóm sem hann hafi fengið á ferðum sínum í Suður-Ameríku.

Þó að Charles Darwin hafi flust úr borg í sveit eyddi hann að minnsta kosti 2000 dögum milli áranna 1842 og 1881 að heiman. Hann var félagi í 57 alþjóðlegum rannsóknarhópum og sinnti að auki mörgum félagslegum skyldum í bæ sínum, Downe. Darwin sendi börn sín í þorpdansa og þó svo að hann hafi verið efasemdarmaður gagnvart trúarbrögðum sótti hann kirkjuathafnir sem voru hluti af þorpslífinu.

Charles Robert Darwin lést 19. apríl 1882. Innan fárra stunda bárust fréttirnar um lát hans til Lundúna og var ákveðið að hann skyldu jarðsettur í Westminster Abbey eins og mörg stórmenni Breta, þar á meðal Ísak Newton um það bil hálfri annarri öld fyrr.

Nú á dögum er þróunarkenning Darwins almennt viðurkennd. Hugmyndir hans hafa verið þróaðar áfram með frekari rannsóknum í erfðafræði og lífefnafræði og eru ómissandi þáttur í lífvísindum okkar daga.

Heimildir:

Britannica.com

Lucidcafé

Önnur svör á Vísindavefnum tengd Charles Darwin:

Hvað eru til margar tegundir af þróunarkenningunni og hvað kallast þær? (Einar Árnason).

Hvernig urðu litlu frumurnar í sjónum að mönnum og dýrum? (Einar Árnason).

Eru allir í heiminum skyldir? Hvers vegna? (ÞV).

Eru menn dýr? (Þorsteinn Vilhjálmsson).

Skoða vísindin hlutina þverfaglega til að leita svara í samsvörun? (Þorsteinn Vilhjálmsson)....