Anna í Grænuhlíð segir frá munaðarleysingjanum Önnu Shirley sem ættleidd er af systkinunum Marillu og Matthíasi Cuthbert sem búa á bænum Grænuhlíð. Reyndar var það svo að systkinin ætluðu að ættleiða dreng sem gæti hjálpað þeim með bústörfin, en fyrir röð mistaka fengu þau í sinn hlut hina rauðhærðu Önnu og gátu ekki fengið það af sér að senda hana aftur á munaðarleysingjahælið.
Anna býr yfir auðugu ímyndunarafli og er sérlega málgefin stúlka. Hún talar við tré og læki og hrífst af öllu því sem er fallegt. Stundum finnst fósturmóður Önnu nóg um málæðið en undir niðri hafa Marilla og Matthías yndi af því að heyra barnið tala. Með komu Önnu birtir yfir lífinu í Grænuhlíð.
Að mati Önnu sjálfrar er útlitið hennar stærsti löstur. Hún er eldrauðhærð og horuð og er afskaplega upptekin af því hversu ófríð hún er. Heitasta óskin er að rauða hárið verði brúnt með aldrinum og er hún sérlega viðkvæm fyrir því að gert sé grín að háralitnum. Sjálfsöryggið vex þó með árunum og eignast Anna góða vini í nágrenninu. Henni semur vel við Matthías og Marillu og gengur vel í skólanum. Þau systkinin sjá ekki eftir að hafa tekið munaðarleysingjann litla að sér, jafnvel þótt Anna sé sífellt að lenda í vandræðum.
Sögusvið bókanna er bærinn Avonlea á Eðvarðseyju (e. Prince Edwards Island) við austurströnd Kanada. Höfundur sagnanna um Önnu í Grænuhlíð ólst upp á þessari sömu eyju og þekkti því vel til aðstæðna. Húsið í Grænuhlíð er til dæmis til í raun og veru og byggði höfundurinn lýsingu sína á því. Hugsanlega eru sögurnar um Önnu að einhverju leyti byggðar á æsku L.M. Montgomery en Anna sjálf er þó líklega ekki byggð á neinni ákveðinni persónu. Sögurnar eru að minnsta kosti ekki sannsögulegar þótt einhver atvik sem þar komi fram kunni höfundur að sækja til minninga sinna.

Hér sést hinn raunverulegi bær Grænahlíð sem Montgomery notar sem sögusvið í bókum sínum. Hann er að finna í grennd við þorpið Cavendish á Eðvarðseyju.