Lengsta orð, sem vitað er um í samanlögðum bókmenntum heimsins, er í gríska leikritinu Þingkonunum eftir Aristófanes (448-380 fyrir Krist), í frumtextanum 170 stafir. Orðið merkir mat sem er samsettur úr 17 hlutum, súrum og sætum, meðal annars hunangi og ediki, gúrkum, merg og heila, og loks bragðbættur með ouzo, grísku anís-brennivíni. Í íslenskri umritun eru 180 stafir í orðinu: lopadotemakkoselakkogaleokranioleipsanodrimhypototrimmato- silfioparaomeelitokatakekkymenokikklepikossyfofattoperisstera- lektryonoptekefalliokigklopeleiolagoiosiraiobafetraganopterygon.Þó að þetta orð sé lengsta þekkta orð heimsbókmenntanna skal haft í huga að tungumálið gefur kost á myndun nýrra samsettra orða eftir þörfum og löngunum og í raun réttri ekki önnur takmörk fyrir lengd orðs en þau sem notagildi setur. Þannig hefur orðið Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúrs-lyklakippuhringur (57 stafir) verið tekið til dæmis um mögulega lengsta orð á íslensku. En þetta orð má auðveldlega lengja svo: Vaðlaheiðar ... lyklakippuleðurbuddusaumur. Og á fleiri vegu. Örðugt er þó að sjá notagildi slíkrar langloku og verður hún sjálfsagt ekki til annars nýt en sem dæmi um afar langt orð. Sjá einnig svar Guðrúnar Kvaran við spurningunni Er "vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúraútidyralyklakippuhringur" lengsta orð í heimi?
Hvert er lengsta þekkta orð í heimi og úr hvaða tungumáli er það?
Útgáfudagur
20.7.2000
Spyrjandi
Halldór Þormar
Tilvísun
HMH. „Hvert er lengsta þekkta orð í heimi og úr hvaða tungumáli er það?“ Vísindavefurinn, 20. júlí 2000, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=677.
HMH. (2000, 20. júlí). Hvert er lengsta þekkta orð í heimi og úr hvaða tungumáli er það? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=677
HMH. „Hvert er lengsta þekkta orð í heimi og úr hvaða tungumáli er það?“ Vísindavefurinn. 20. júl. 2000. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=677>.