Sólin Sólin Rís 09:01 • sest 18:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:51 • Sest 10:05 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:59 • Síðdegis: 24:01 í Reykjavík

Eru til svör við öllu?

Erlendur Jónsson

Þessa spurningu mætti skilja á tvo vegu, eftir því hvort áherslan er á "svör" eða á "öllu". Í fyrra tilfellinu er vandinn: "Hvað er svar?", en í því seinna er hann: "Ef við vitum hvað 'allt' er, og við vitum hvað telst fullnægjandi 'svar' við því, er þá til svar við hverju atriði úr þessu "öllu"?".

Fyrst skulum við skoða hvað er "svar". Svar er væntanlega viðbragð af ákveðnu tæi við ákveðinni áskorun. Oftast er áskorunin í formi spurningar, en getur líka verið meira óbein í formi vandamáls sem sett er fram (til dæmis krossgátu) eða öðru formi. Gerum ráð fyrir að alltaf sé um að ræða spurningu. Hvað er svar við spurningu? Spurning getur haft mörg svör. Segjum til dæmis að ég lyfti upp vinstri hendi og kveiki á lampa og við spyrjum: "Hvað gerði ég?" Eitt svar gæti verið: "Ég lyfti upp hendinni og hreyfði fingurinn á ákveðinn hátt", annað gæti verið: "Ég kveikti á lampanum" og hið þriðja: "Ég bætti lýsinguna á skrifborðinu mínu". Í þessu tilfelli er sennilega ekki til neitt eitt rétt svar, hvert hið rétta svar er fer eftir því hvað beðið er um, eftir samhenginu. Svarið fer sem sagt eftir því hvað beðið er um, og til þess að unnt sé að finna svar, þá verður að vera skýrt skilgreint hvað beðið er um; ef maður er beðinn um eitthvað getur hann ekki uppfyllt óskina nema hann viti hver hún er. Svar er þannig viðbragð af réttu tæi við spurningu, og það hvort svar er til við spurningu fer eftir því hvort það er skýrt skilgreint, hvers konar svars er vænst.

Nú skulum við snúa okkur að seinni áherslu spurningarinnar og ímynda okkur að allar hugsanlegar spurningar séu fyrir framan okkur og líka öll hugsanleg svör, og spyrja: "Er til að minnsta kosti eitt svar úr mengi hugsanlegra svara fyrir hverja spurningu úr mengi hugsanlegra spurninga?" Foreldrar þurfa oft að svara spurningum barna sinna, sem þeim finnst kjánalegar eða furðulegar, eins og: "Af hverju er grasið grænt?", "Hvaðan kemur vindurinn?" Og oft getum við látið okkur detta í hug skrýtnar spurningar í daglegu lífi, eins og til dæmis þessa: "Eru til svör við öllu?" Getum við búið til spurningu, sem ekkert svar er til við?

Það er auðvelt að raða saman orðum sem líta út eins og spurningar á yfirborðinu, en hafa samt ekki merkingu, til dæmis: "Er eiginleikinn 'góður' búinn að klifra upp á Esju?" Við þeim er ekkert svar nema kannski: "Þetta er bull!" Það er mjög erfitt verkefni að afmarka þær spurningar sem hafa merkingu, frá þeim sem hafa enga merkingu eins og þær sem nefndar voru. Svarið myndi ef til vill felast í því að flokka orð og segja hver þeirra eigi saman, til dæmis að "klifra" sé aðeins hægt að nota með orðum er tákna lífverur. Þá myndi vakna sá vandi að við notum stundum orð í myndrænni merkingu, eins og þegar við segjum að flugvél "klifri" þegar hún hækkar flugið, og ótal aðrar erfiðar spurningar blasa líka við.

En segjum að við höfum komið okkur saman um slíka afmörkun. Sumir heimspekingar myndu samt segja að fullyrðingar og þar af leiðandi spurningar hafi ekki merkingu nema þær tengist reynslu, það er að segja að við getum sagt hvers konar reynsla myndi sanna eða afsanna fullyrðinguna. Þeir myndu til dæmis segja, að fullyrðingin "Guð er til" hafi enga merkingu nema við getum tilgreint hvers konar reynsla myndi sanna eða afsanna að Guð sé til. Til dæmis gæti sú reynsla, að mannkynið yrði fyrir ótrúlegum hremmingum, kannski náttúruhamförum, vera talin afsanna að Guð sé til, og þá höfum við fengið fram ákveðna reynslumerkingu í setningunni "Guð er til". Aðrir hafna þessum reynslumælikvarða og vilja beita öðrum mælikvörðum á merkingu eða jafnvel engum (en við verðum samt að hafa einhvern málfræðilegan mælikvarða, eins og nefnt var áður).

Segjum nú að við séum búin að koma okkur saman um einhvern mælikvarða á það hvað það er fyrir spurningu að hafa merkingu, og að við séum því að tala um alvöru spurningu samkvæmt þessum mælikvarða, meira að segja erfiða spurningu, eins og "hvað er tími?" (samanber svar við spurningunni Hver er erfiðasta spurningin í heiminum?). Er endilega gefið, að svar sé til við henni? Hér vaknar aftur sú spurning, hvers konar svar við viljum fá. Myndi til dæmis svar eins og "Tíminn er fjórða víddin, eins og hún er skilgreind í afstæðiskenningunni" nægja? Eða viljum við fá svar sem tekur frekar tillit til innri upplifunar tímans, hvernig tíminn birtist okkur og hvaða áhrif hann hefur á líf okkar? Eða eitthvað annað? Til þess að vita það þarf að gera spurninguna nákvæmari, tiltaka hvers konar svari óskað er eftir. En hversu nákvæm þarf spurning að vera? Ef hún er of nákvæm, þá verður hún í sjálfu sér óþörf, þar sem hún felur í sér svarið við sjálfri sér. Spurning verður sem sagt að vera hæfilega nákvæm, en samt ekki of nákvæm, sá sem svarar verður að hafa eitthvert svigrúm til að láta ljós sitt skína.

Líta má á samskipti spyrjanda og svaranda (þess sem spurningunni er beint til) sem samskiptaform sem lýtur ákveðnum lögmálum, sé nokkur konar "leikur" þar sem ákveðnar leikreglur gilda. Ein reglan er sú að spyrjandinn setji fram skýra spurningu, sem skýrt svar sé til við. Önnur er sú að svarandinn bregðist rétt við, til dæmis svari ekki út í hött, afli sér góðra raka fyrir svari sínu og svo framvegis. Svarið mótast þannig af spurningunni og öfugt, þau mynda eina óaðskiljanlega heild, það er ekkert svar til óháð þeirri spurningu sem það er svar við. Það hefur því í rauninni enga merkingu að spyrja hvort svar sé til við öllu nema um leið sé sagt við hverju það er svar. Maðurinn er síspyrjandi, leitandi að svörum við hinu og þessu. Eru til svör við öllum þessum spurningum? Það fer eftir því hverjar spurningarnar eru, sem þau eiga að svara. Því eru ekki til nein svör óháð spurningunum.

Svo að dregið sé saman, þá er svar mitt við spurningunni "Eru til svör við öllu?" eftirfarandi. Í fyrsta lagi er auðvelt að búa til málfræðilega réttar spurningar sem hafa samt enga merkingu og því er ekkert svar til við þeim. Í öðru lagi telja sumir að spurning verði að vera tengjanleg við reynslu til að hún hafi merkingu og unnt sé að svara henni. Í þriðja lagi má líta svo á að spurning og svar séu svo nátengd að engin leið er að ímynda sér svörin óháð spurningunum, og það er ekki satt að svör við öllu "séu til".


Mynd: HB

Höfundur

prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

24.7.2000

Spyrjandi

Eiríkur Smith

Tilvísun

Erlendur Jónsson. „Eru til svör við öllu?“ Vísindavefurinn, 24. júlí 2000. Sótt 22. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=685.

Erlendur Jónsson. (2000, 24. júlí). Eru til svör við öllu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=685

Erlendur Jónsson. „Eru til svör við öllu?“ Vísindavefurinn. 24. júl. 2000. Vefsíða. 22. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=685>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru til svör við öllu?
Þessa spurningu mætti skilja á tvo vegu, eftir því hvort áherslan er á "svör" eða á "öllu". Í fyrra tilfellinu er vandinn: "Hvað er svar?", en í því seinna er hann: "Ef við vitum hvað 'allt' er, og við vitum hvað telst fullnægjandi 'svar' við því, er þá til svar við hverju atriði úr þessu "öllu"?".

Fyrst skulum við skoða hvað er "svar". Svar er væntanlega viðbragð af ákveðnu tæi við ákveðinni áskorun. Oftast er áskorunin í formi spurningar, en getur líka verið meira óbein í formi vandamáls sem sett er fram (til dæmis krossgátu) eða öðru formi. Gerum ráð fyrir að alltaf sé um að ræða spurningu. Hvað er svar við spurningu? Spurning getur haft mörg svör. Segjum til dæmis að ég lyfti upp vinstri hendi og kveiki á lampa og við spyrjum: "Hvað gerði ég?" Eitt svar gæti verið: "Ég lyfti upp hendinni og hreyfði fingurinn á ákveðinn hátt", annað gæti verið: "Ég kveikti á lampanum" og hið þriðja: "Ég bætti lýsinguna á skrifborðinu mínu". Í þessu tilfelli er sennilega ekki til neitt eitt rétt svar, hvert hið rétta svar er fer eftir því hvað beðið er um, eftir samhenginu. Svarið fer sem sagt eftir því hvað beðið er um, og til þess að unnt sé að finna svar, þá verður að vera skýrt skilgreint hvað beðið er um; ef maður er beðinn um eitthvað getur hann ekki uppfyllt óskina nema hann viti hver hún er. Svar er þannig viðbragð af réttu tæi við spurningu, og það hvort svar er til við spurningu fer eftir því hvort það er skýrt skilgreint, hvers konar svars er vænst.

Nú skulum við snúa okkur að seinni áherslu spurningarinnar og ímynda okkur að allar hugsanlegar spurningar séu fyrir framan okkur og líka öll hugsanleg svör, og spyrja: "Er til að minnsta kosti eitt svar úr mengi hugsanlegra svara fyrir hverja spurningu úr mengi hugsanlegra spurninga?" Foreldrar þurfa oft að svara spurningum barna sinna, sem þeim finnst kjánalegar eða furðulegar, eins og: "Af hverju er grasið grænt?", "Hvaðan kemur vindurinn?" Og oft getum við látið okkur detta í hug skrýtnar spurningar í daglegu lífi, eins og til dæmis þessa: "Eru til svör við öllu?" Getum við búið til spurningu, sem ekkert svar er til við?

Það er auðvelt að raða saman orðum sem líta út eins og spurningar á yfirborðinu, en hafa samt ekki merkingu, til dæmis: "Er eiginleikinn 'góður' búinn að klifra upp á Esju?" Við þeim er ekkert svar nema kannski: "Þetta er bull!" Það er mjög erfitt verkefni að afmarka þær spurningar sem hafa merkingu, frá þeim sem hafa enga merkingu eins og þær sem nefndar voru. Svarið myndi ef til vill felast í því að flokka orð og segja hver þeirra eigi saman, til dæmis að "klifra" sé aðeins hægt að nota með orðum er tákna lífverur. Þá myndi vakna sá vandi að við notum stundum orð í myndrænni merkingu, eins og þegar við segjum að flugvél "klifri" þegar hún hækkar flugið, og ótal aðrar erfiðar spurningar blasa líka við.

En segjum að við höfum komið okkur saman um slíka afmörkun. Sumir heimspekingar myndu samt segja að fullyrðingar og þar af leiðandi spurningar hafi ekki merkingu nema þær tengist reynslu, það er að segja að við getum sagt hvers konar reynsla myndi sanna eða afsanna fullyrðinguna. Þeir myndu til dæmis segja, að fullyrðingin "Guð er til" hafi enga merkingu nema við getum tilgreint hvers konar reynsla myndi sanna eða afsanna að Guð sé til. Til dæmis gæti sú reynsla, að mannkynið yrði fyrir ótrúlegum hremmingum, kannski náttúruhamförum, vera talin afsanna að Guð sé til, og þá höfum við fengið fram ákveðna reynslumerkingu í setningunni "Guð er til". Aðrir hafna þessum reynslumælikvarða og vilja beita öðrum mælikvörðum á merkingu eða jafnvel engum (en við verðum samt að hafa einhvern málfræðilegan mælikvarða, eins og nefnt var áður).

Segjum nú að við séum búin að koma okkur saman um einhvern mælikvarða á það hvað það er fyrir spurningu að hafa merkingu, og að við séum því að tala um alvöru spurningu samkvæmt þessum mælikvarða, meira að segja erfiða spurningu, eins og "hvað er tími?" (samanber svar við spurningunni Hver er erfiðasta spurningin í heiminum?). Er endilega gefið, að svar sé til við henni? Hér vaknar aftur sú spurning, hvers konar svar við viljum fá. Myndi til dæmis svar eins og "Tíminn er fjórða víddin, eins og hún er skilgreind í afstæðiskenningunni" nægja? Eða viljum við fá svar sem tekur frekar tillit til innri upplifunar tímans, hvernig tíminn birtist okkur og hvaða áhrif hann hefur á líf okkar? Eða eitthvað annað? Til þess að vita það þarf að gera spurninguna nákvæmari, tiltaka hvers konar svari óskað er eftir. En hversu nákvæm þarf spurning að vera? Ef hún er of nákvæm, þá verður hún í sjálfu sér óþörf, þar sem hún felur í sér svarið við sjálfri sér. Spurning verður sem sagt að vera hæfilega nákvæm, en samt ekki of nákvæm, sá sem svarar verður að hafa eitthvert svigrúm til að láta ljós sitt skína.

Líta má á samskipti spyrjanda og svaranda (þess sem spurningunni er beint til) sem samskiptaform sem lýtur ákveðnum lögmálum, sé nokkur konar "leikur" þar sem ákveðnar leikreglur gilda. Ein reglan er sú að spyrjandinn setji fram skýra spurningu, sem skýrt svar sé til við. Önnur er sú að svarandinn bregðist rétt við, til dæmis svari ekki út í hött, afli sér góðra raka fyrir svari sínu og svo framvegis. Svarið mótast þannig af spurningunni og öfugt, þau mynda eina óaðskiljanlega heild, það er ekkert svar til óháð þeirri spurningu sem það er svar við. Það hefur því í rauninni enga merkingu að spyrja hvort svar sé til við öllu nema um leið sé sagt við hverju það er svar. Maðurinn er síspyrjandi, leitandi að svörum við hinu og þessu. Eru til svör við öllum þessum spurningum? Það fer eftir því hverjar spurningarnar eru, sem þau eiga að svara. Því eru ekki til nein svör óháð spurningunum.

Svo að dregið sé saman, þá er svar mitt við spurningunni "Eru til svör við öllu?" eftirfarandi. Í fyrsta lagi er auðvelt að búa til málfræðilega réttar spurningar sem hafa samt enga merkingu og því er ekkert svar til við þeim. Í öðru lagi telja sumir að spurning verði að vera tengjanleg við reynslu til að hún hafi merkingu og unnt sé að svara henni. Í þriðja lagi má líta svo á að spurning og svar séu svo nátengd að engin leið er að ímynda sér svörin óháð spurningunum, og það er ekki satt að svör við öllu "séu til".


Mynd: HB...