Til sérhverrar fullyrðingar, F, svarar önnur, nefnilega fullyrðingin "Það er ekki satt að F" (eða einfaldlega "ekki-F"), sem er sönn þá og því aðeins að F sé ósönn, það er að segja ef F er sönn, þá er ekki-F ósönn, og ef ekki-F er sönn, þá er F ósönn. Því hljóta sannar fullyrðingar að vera nákvæmlega jafnmargar og ósannar. Þetta ætti að svara fyrstu tveimur spurningunum.
Snúum okkur nú að þeirri þriðju. Væntanlega er spurt um hvort einhver, sem við skulum kalla A, geti við ákveðnar aðstæður sett fram fleiri ósannar fullyrðingar en sannar. Segjum til dæmis að mengi sannra fullyrðinga hans við þetta tækifæri sé kallað S og mengi ósannra fullyrðinga hans við sama tækifæri sé kallað Ó. Þá er spurningin: Getur Ó verið stærra mengi en S? Ég sé ekkert því til fyrirstöðu. Þannig gæti ég til dæmis sagt: "2+2=5", "Ísland er skagi", "Jörðin er næst sólu af reikistjörnunum" og "Osló er höfuðborg Noregs". Þá eru fyrstu þrjár fullyrðingar mínar lygi, en sú síðasta sönn, og mengið Ó er því stærra en mengið S í þessu tilfelli.
Mynd: HB