Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig smitast maður af kláðamaur?

Magnús Jóhannsson

Mannakláðamaur (Sarcoptes scabiei) eða bara kláðamaur er örsmár áttfætlumaur (um 0,2-0,4 mm) sem sést varla með berum augum. Hann þrífst bara á fólki og hefur fylgt mannkyninu í þúsundir ára. Menn hafa áætlað að um 300 milljónir manna smitist árlega í heiminum af kláðamaur og hér á landi smitast talsverður fjöldi á hverju ári. Talsvert af pöddum herjar á mannkynið og má þar nefna alls kyns flugur, bitmaura, flær, lýs og áttfætlumaura en af þeim sem lifa eingöngu á mönnum eru höfuðlýs og kláðamaur þekktust. Þau síðastnefndu smitast beint á milli manna og ekki virðist mögulegt að útrýma þeim.


Smásjármynd af mannakláðamaur.

Margir hafa tilhneigingu til að tengja lús og kláðamaur við sóðaskap og fátækt og finnst skammarlegt að smitast. Þetta hefur þó alls ekkert með sóðaskap að gera og allir geta smitast af lús eða kláðamaur, ungir sem gamlir, fátækir sem ríkir. Lús og kláðamaur smitast á svipaðan hátt, oftast við nána snertingu en slíkt þarf þó ekki að koma til því föt, handklæði og rúmföt geta borið dýrin eða egg þeirra á milli manna. Kláðamaur er talsvert smitandi og til dæmis er ekki óalgengt að heilu fjölskyldurnar smitist í einu.

Eftir smit getur liðið allt að því mánuður þar til viðkomandi verður var við óþægindi. Óþægindin stafa af því að kvendýrið grefur sig inn í húðina, myndar nokkurra millimetra löng hlykkjótt göng og verpir þar eggjum sínum. Dýrið gefur frá sér vökva sem veldur ofnæmi, kláða og útbrotum. Í byrjun má oft sjá göngin en þegar útbrotin stækka verður erfiðara að greina þau.

Kláðamaurinn sest að á stöðum sem margir eru svolítið varðir fyrir umhverfinu og má þar einkum nefna hliðar fingra, greipar, handarbök, úlnliði, olnboga, handarkrika, innanverð læri og mitti. Hjá fullorðnum sest kláðamaur hvorki að í hársverði né á höfði en það getur gerst hjá börnum. Ef dýrin fá að vera í friði halda þau áfram að verpa í 4-5 vikur, þá fara ný dýr að klekjast út og sýkingin breiðist út. Sumir hafa meira ofnæmi fyrir dýrunum en aðrir og fá þess vegna meiri útbrot. Stundum bætist bakteríusýking ofan á og gerir ástandið og óþægindin enn verri. Aðalóþægindin eru kláði sem er verstur á nóttunni og getur oft haldið vöku fyrir sjúklingnum hálfu og heilu næturnar.


Útbrot eftir mannakláðamaur. Kvendýrið grefur sig inn í húðina, myndar nokkurra millimetra löng hlykkjótt göng og verpir þar eggjum sínum.

Sjúkdómsgreiningin er stundum auðveld en getur líka verið mjög snúin. Oft er reynt að skrapa svolítið af húð og skoða undir smásjá í leit að kláðamaur eða eggjum hans. Ef slíkt finnst er greiningin fengin en takist það ekki er erfitt að vera viss. Stundum er ekki annað að gera en að reyna meðferð við kláðamaur og sjá hvort hún ber árangur.

Meðferð við kláðamaur er tiltölulega einföld og áhrifamikil en mikilvægt er að settum reglum sé fylgt nákvæmlega. Hér eru á markaði nokkur lyf við kláðamaur sem öll eru vel reynd og meðferð er árangursrík ef farið er nákvæmlega eftir leiðbeiningunum. Ef það er ekki gert er hætta á að meðferðin beri ekki árangur eða að endursmit eigi sér stað. Lyfin eru notuð á svolítið mismunandi hátt en notkunin byggist á því að bera þau á allan líkamann nema höfuð og láta þau verka yfir nótt eða jafnvel í heilan sólarhring. Oftast dugir ein slík meðferð og mikilvægt er að meðhöndla ekki að óþörfu vegna þess að lyfin geta haft aukaverkanir og eru meðal annars talsvert ertandi fyrir húðina. Ekki eru heldur öll lyfin örugg á meðgöngu eða við brjóstagjöf.

Þó svo að dýrin lifi einungis í stuttan tíma utan líkamans (í mesta lagi 2-3 daga) er talið mikilvægt að þvo föt, handklæði, sængurföt, greiður, bursta og annað sem kemst í snertingu við líkamann úr 50 gráðu heitu vatni í minnst 15 mínútur. Þetta á að gera samtímis lyfjagjöfinni.

Eitt af því sem veldur oft erfiðleikum er að jafnvel þó dýrin drepist öll við meðferðina halda þau áfram að erta húðina og geta valdið kláða í nokkrar vikur. Það er þess vegna full ástæða til að láta lækni fylgjast með og endurtaka meðferðina því aðeins að örugg merki séu um endursmit.

Mynd:

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

2.11.2007

Spyrjandi

Guðrún Pétursdóttir

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hvernig smitast maður af kláðamaur?“ Vísindavefurinn, 2. nóvember 2007, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6881.

Magnús Jóhannsson. (2007, 2. nóvember). Hvernig smitast maður af kláðamaur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6881

Magnús Jóhannsson. „Hvernig smitast maður af kláðamaur?“ Vísindavefurinn. 2. nóv. 2007. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6881>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig smitast maður af kláðamaur?
Mannakláðamaur (Sarcoptes scabiei) eða bara kláðamaur er örsmár áttfætlumaur (um 0,2-0,4 mm) sem sést varla með berum augum. Hann þrífst bara á fólki og hefur fylgt mannkyninu í þúsundir ára. Menn hafa áætlað að um 300 milljónir manna smitist árlega í heiminum af kláðamaur og hér á landi smitast talsverður fjöldi á hverju ári. Talsvert af pöddum herjar á mannkynið og má þar nefna alls kyns flugur, bitmaura, flær, lýs og áttfætlumaura en af þeim sem lifa eingöngu á mönnum eru höfuðlýs og kláðamaur þekktust. Þau síðastnefndu smitast beint á milli manna og ekki virðist mögulegt að útrýma þeim.


Smásjármynd af mannakláðamaur.

Margir hafa tilhneigingu til að tengja lús og kláðamaur við sóðaskap og fátækt og finnst skammarlegt að smitast. Þetta hefur þó alls ekkert með sóðaskap að gera og allir geta smitast af lús eða kláðamaur, ungir sem gamlir, fátækir sem ríkir. Lús og kláðamaur smitast á svipaðan hátt, oftast við nána snertingu en slíkt þarf þó ekki að koma til því föt, handklæði og rúmföt geta borið dýrin eða egg þeirra á milli manna. Kláðamaur er talsvert smitandi og til dæmis er ekki óalgengt að heilu fjölskyldurnar smitist í einu.

Eftir smit getur liðið allt að því mánuður þar til viðkomandi verður var við óþægindi. Óþægindin stafa af því að kvendýrið grefur sig inn í húðina, myndar nokkurra millimetra löng hlykkjótt göng og verpir þar eggjum sínum. Dýrið gefur frá sér vökva sem veldur ofnæmi, kláða og útbrotum. Í byrjun má oft sjá göngin en þegar útbrotin stækka verður erfiðara að greina þau.

Kláðamaurinn sest að á stöðum sem margir eru svolítið varðir fyrir umhverfinu og má þar einkum nefna hliðar fingra, greipar, handarbök, úlnliði, olnboga, handarkrika, innanverð læri og mitti. Hjá fullorðnum sest kláðamaur hvorki að í hársverði né á höfði en það getur gerst hjá börnum. Ef dýrin fá að vera í friði halda þau áfram að verpa í 4-5 vikur, þá fara ný dýr að klekjast út og sýkingin breiðist út. Sumir hafa meira ofnæmi fyrir dýrunum en aðrir og fá þess vegna meiri útbrot. Stundum bætist bakteríusýking ofan á og gerir ástandið og óþægindin enn verri. Aðalóþægindin eru kláði sem er verstur á nóttunni og getur oft haldið vöku fyrir sjúklingnum hálfu og heilu næturnar.


Útbrot eftir mannakláðamaur. Kvendýrið grefur sig inn í húðina, myndar nokkurra millimetra löng hlykkjótt göng og verpir þar eggjum sínum.

Sjúkdómsgreiningin er stundum auðveld en getur líka verið mjög snúin. Oft er reynt að skrapa svolítið af húð og skoða undir smásjá í leit að kláðamaur eða eggjum hans. Ef slíkt finnst er greiningin fengin en takist það ekki er erfitt að vera viss. Stundum er ekki annað að gera en að reyna meðferð við kláðamaur og sjá hvort hún ber árangur.

Meðferð við kláðamaur er tiltölulega einföld og áhrifamikil en mikilvægt er að settum reglum sé fylgt nákvæmlega. Hér eru á markaði nokkur lyf við kláðamaur sem öll eru vel reynd og meðferð er árangursrík ef farið er nákvæmlega eftir leiðbeiningunum. Ef það er ekki gert er hætta á að meðferðin beri ekki árangur eða að endursmit eigi sér stað. Lyfin eru notuð á svolítið mismunandi hátt en notkunin byggist á því að bera þau á allan líkamann nema höfuð og láta þau verka yfir nótt eða jafnvel í heilan sólarhring. Oftast dugir ein slík meðferð og mikilvægt er að meðhöndla ekki að óþörfu vegna þess að lyfin geta haft aukaverkanir og eru meðal annars talsvert ertandi fyrir húðina. Ekki eru heldur öll lyfin örugg á meðgöngu eða við brjóstagjöf.

Þó svo að dýrin lifi einungis í stuttan tíma utan líkamans (í mesta lagi 2-3 daga) er talið mikilvægt að þvo föt, handklæði, sængurföt, greiður, bursta og annað sem kemst í snertingu við líkamann úr 50 gráðu heitu vatni í minnst 15 mínútur. Þetta á að gera samtímis lyfjagjöfinni.

Eitt af því sem veldur oft erfiðleikum er að jafnvel þó dýrin drepist öll við meðferðina halda þau áfram að erta húðina og geta valdið kláða í nokkrar vikur. Það er þess vegna full ástæða til að láta lækni fylgjast með og endurtaka meðferðina því aðeins að örugg merki séu um endursmit.

Mynd: