Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:29 • Síðdegis: 18:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:31 • Síðdegis: 12:34 í Reykjavík

Hvað unnu Gracchusarbræður sér helst til frægðar?

Geir Þ. Þórarinsson

Bræðurnir Tiberius Sempronius Gracchus (164 – 133 f.Kr.) og Gaius Sempronius Gracchus (153 – 121 f.Kr.) voru rómverskir stjórnmálamenn sem reyndu að koma á ýmsum umbótum en fengu upp á móti sér íhaldssama stjórnmálamenn úr röðum yfirstéttarinnar og létust báðir í átökum við andstæðinga sína.

Tiberius Gracchus var kjörinn alþýðuforingi (tribunus plebis) árið 133 f.Kr. Hann sá að mikill skortur á jarðnæði ógnaði stöðugleika og mælti því fyrir lögum sem áttu að vinna gegn fátækt með því að takmarka nýtingu einstaklinga á landi í eigu almennings (agri publici), gera upptækt land sem var umfram mörkin og gefa það fátækum. Raunar höfðu lög sem takmörkuðu nýtingarrétt þessa lands verið í gildi frá 367 f.Kr. en þeim hafði ekki verið framfylgt.

Frumvarpið var ekki róttækt en ríkir landeigendur, sem höfðu lengi nýtt þetta land og nánast slegið eign sinni á það, snerust þá öndverðir gegn Gracchusi enda þótt hann hefði í fyrstu lagt til að þeim yrðu greiddar bætur fyrir það land sem af þeim yrði tekið en það land sem ekki yrði tekið fengju þeir að eiga til frambúðar. Þau ákvæði voru tekin úr frumvarpinu þegar öldungaráðið snerist gegn því. Gracchus lagði svo fram frumvarpið án þess að það hefði verið rætt í öldungaráðinu. Slíkt var ekki ólöglegt en stríddi þó gegn ríkjandi venju. En meðal öldungaráðsmanna voru einmitt fjölmargir landeigendur sem höfðu hag af því að lögin yrðu ekki samþykkt.

Þegar frumvarpið var borið fram beitti alþýðuforinginn Marcus Octavius neitunarvaldi. Þá lagði Gracchus frumvarpið fram að nýju og þegar Octavius beitti neitunarvaldi sínu í annað sinn fékk Gracchus hann settan af og annan kosinn í hans stað. Að því búnu lagði hann frumvarpið fram í þriðja sinn og fékk það loks samþykkt. Nefnd var sett á laggirnar sem hafði umsjón með útbýtingu jarða. Í nefndinni sátu auk Gracchusar sjálfs, Gaius Gracchus bróðir hans og Appius Claudius Pulcher tengdafaðir hans. Öldungaráðið viðurkenndi lögin eftir að þau voru sett en reyndi í staðinn að fjársvelta nefndina. Gracchus lagði þá til að eigur Attalosar III af Pergamon, sem arfleiddi Róm að ríki sínu, yrðu nýttar til að standa straum af rekstri nefndarinnar og til að styrkja fátæka landeigendur. Þetta stríddi gegn þeirri venju að öldungaráðið færi með fjármál og utanríkismál. Þegar kjörtímabil hans var á enda sóttist Gracchus eftir endurkjöri. Slíkt var ekki óþekkt en braut samt sem áður í bága við ríkjandi venju. Öldungaráðsmenn héldu því fram að Gracchus hygði á harðstjórn og söfnuðu liði „til varnar ríkinu" undir forystu Publiusar Corneliusar Scipios Nasicas Seripios, frænda Gracchusar. Ráðist var að Gracchusi á útifundi á Rómartorgi (Forum Romanum) og var hann drepinn ásamt um 300 fylgjendum hans.


Olíumynd franska málarans Jean-Baptiste Topino-Lebrun (1764-1801) af dauða Gaiusar Gracchusar.

Tiltölulega lítið hafði farið fyrir stjórnmálaþátttöku Gaiusar Gracchusar fram að þessu. Hann var staddur á Spáni þegar bróðir hans var drepinn en sneri þá heim til Rómar. Hann var kjörinn alþýðuforingi árið 123 f.Kr. og aftur árið 122 f.Kr. Gracchus setti ýmis lög sem miðuðu að því að hefna bróður hans, bæta stöðu fátækra og tryggja þeim korn á hagstæðu eða niðursettu verði, stofnun nýlendna, endurskipulagningu dómstóla sem fjölluðu um spillingu og að því að takmarka völd öldungaráðsins. Umbætur hans voru róttækari en umbætur Tiberiusar bróður hans. Gracchus mælti einnig fyrir lögum um að veita Latverjum rómverskan ríkisborgararétt og bandamönnum Rómverja á Ítalíu sams konar réttindi og Latverjar höfðu áður haft en lögin voru ekki samþykkt.

Árið 122 f.Kr. hélt Gracchus til Afríku þar sem hann hafði umsjón með stofnun nýlendu þar sem Karþagó hafði áður staðið. Á meðan dró úr vinsældum hans heima fyrir og andstæðingar hans sóttu í sig veðrið. Gracchus sneri aftur til Rómar en náði ekki kjöri sem alþýðuforingi fyrir árið 121 f.Kr. Átök brutust út í kjölfarið en öldungaráðið lýsti yfir neyðarástandi (senatus consultum ultimum) í fyrsta sinn en það heimilaði ræðismönnunum að gera það sem þurfti til varnar ríkinu. Ræðismaðurinn Opimius kallaði Gracchus fyrir öldungaráðið en Gracchusi var ljóst að hann fengi ekki sanngjarna meðferð og mætti því ekki. Þá réðst vígbúið lið öldungaráðsins að honum og fylgjendum hans þar sem þeir héldu til á Aventínusarhæð. Þegar Gracchus sá að staða hans var vonlaus skipaði hann þræl sínum að drepa sig. Um 3000 fylgjendur hans voru handteknir og líflátnir. Þar með var fylking Gracchusarbræðra úr sögunni.

Með Gracchusarbræðrum hófst nýtt tímabil í sögu rómverskra stjórnmála. Í kjölfarið varð æ mikilvægara að taka til greina hagsmuni lægri stéttanna og spurningin um réttindi og ríkisborgararétt bandamanna varð æ áleitnari. Árið 91 f.Kr. braust út Bandamannastríðið svonefnda en því lauk þremur árum síðar með því að allir bandamenn Rómverja á Ítalíu sunnan við ána Pó fengu fullan ríkisborgararétt. Þá urðu átök í stjórnmálum sífellt ofbeldisfyllri. Árið 88 hófst borgarastríð þegar ræðismaðurinn Lucius Cornelius Sulla (138 – 78 f.Kr.) hélt inn í Rómaborg með sex herdeildir (legiones). Það var í fyrsta sinn sem Rómaborg var hertekin af rómverskum ræðismanni en ekki í síðasta sinn. Átök brutust aftur út þremur árum síðar en þeim lauk með því að Sulla hertók Rómaborg aftur árið 82 f.Kr. Árið 49 f.Kr. hófst svo borgarastríð enn á ný þegar Julius Caesar hélt með her sinn yfir ána Pó í átt til Rómar.

Frekari fróðleikur:
  • Stockton, David, The Gracchi (Oxford: Clarendon Press, 1979).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

13.11.2007

Spyrjandi

Berglind Hermannsdóttir, f. 1989

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað unnu Gracchusarbræður sér helst til frægðar?“ Vísindavefurinn, 13. nóvember 2007. Sótt 22. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6901.

Geir Þ. Þórarinsson. (2007, 13. nóvember). Hvað unnu Gracchusarbræður sér helst til frægðar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6901

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað unnu Gracchusarbræður sér helst til frægðar?“ Vísindavefurinn. 13. nóv. 2007. Vefsíða. 22. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6901>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað unnu Gracchusarbræður sér helst til frægðar?
Bræðurnir Tiberius Sempronius Gracchus (164 – 133 f.Kr.) og Gaius Sempronius Gracchus (153 – 121 f.Kr.) voru rómverskir stjórnmálamenn sem reyndu að koma á ýmsum umbótum en fengu upp á móti sér íhaldssama stjórnmálamenn úr röðum yfirstéttarinnar og létust báðir í átökum við andstæðinga sína.

Tiberius Gracchus var kjörinn alþýðuforingi (tribunus plebis) árið 133 f.Kr. Hann sá að mikill skortur á jarðnæði ógnaði stöðugleika og mælti því fyrir lögum sem áttu að vinna gegn fátækt með því að takmarka nýtingu einstaklinga á landi í eigu almennings (agri publici), gera upptækt land sem var umfram mörkin og gefa það fátækum. Raunar höfðu lög sem takmörkuðu nýtingarrétt þessa lands verið í gildi frá 367 f.Kr. en þeim hafði ekki verið framfylgt.

Frumvarpið var ekki róttækt en ríkir landeigendur, sem höfðu lengi nýtt þetta land og nánast slegið eign sinni á það, snerust þá öndverðir gegn Gracchusi enda þótt hann hefði í fyrstu lagt til að þeim yrðu greiddar bætur fyrir það land sem af þeim yrði tekið en það land sem ekki yrði tekið fengju þeir að eiga til frambúðar. Þau ákvæði voru tekin úr frumvarpinu þegar öldungaráðið snerist gegn því. Gracchus lagði svo fram frumvarpið án þess að það hefði verið rætt í öldungaráðinu. Slíkt var ekki ólöglegt en stríddi þó gegn ríkjandi venju. En meðal öldungaráðsmanna voru einmitt fjölmargir landeigendur sem höfðu hag af því að lögin yrðu ekki samþykkt.

Þegar frumvarpið var borið fram beitti alþýðuforinginn Marcus Octavius neitunarvaldi. Þá lagði Gracchus frumvarpið fram að nýju og þegar Octavius beitti neitunarvaldi sínu í annað sinn fékk Gracchus hann settan af og annan kosinn í hans stað. Að því búnu lagði hann frumvarpið fram í þriðja sinn og fékk það loks samþykkt. Nefnd var sett á laggirnar sem hafði umsjón með útbýtingu jarða. Í nefndinni sátu auk Gracchusar sjálfs, Gaius Gracchus bróðir hans og Appius Claudius Pulcher tengdafaðir hans. Öldungaráðið viðurkenndi lögin eftir að þau voru sett en reyndi í staðinn að fjársvelta nefndina. Gracchus lagði þá til að eigur Attalosar III af Pergamon, sem arfleiddi Róm að ríki sínu, yrðu nýttar til að standa straum af rekstri nefndarinnar og til að styrkja fátæka landeigendur. Þetta stríddi gegn þeirri venju að öldungaráðið færi með fjármál og utanríkismál. Þegar kjörtímabil hans var á enda sóttist Gracchus eftir endurkjöri. Slíkt var ekki óþekkt en braut samt sem áður í bága við ríkjandi venju. Öldungaráðsmenn héldu því fram að Gracchus hygði á harðstjórn og söfnuðu liði „til varnar ríkinu" undir forystu Publiusar Corneliusar Scipios Nasicas Seripios, frænda Gracchusar. Ráðist var að Gracchusi á útifundi á Rómartorgi (Forum Romanum) og var hann drepinn ásamt um 300 fylgjendum hans.


Olíumynd franska málarans Jean-Baptiste Topino-Lebrun (1764-1801) af dauða Gaiusar Gracchusar.

Tiltölulega lítið hafði farið fyrir stjórnmálaþátttöku Gaiusar Gracchusar fram að þessu. Hann var staddur á Spáni þegar bróðir hans var drepinn en sneri þá heim til Rómar. Hann var kjörinn alþýðuforingi árið 123 f.Kr. og aftur árið 122 f.Kr. Gracchus setti ýmis lög sem miðuðu að því að hefna bróður hans, bæta stöðu fátækra og tryggja þeim korn á hagstæðu eða niðursettu verði, stofnun nýlendna, endurskipulagningu dómstóla sem fjölluðu um spillingu og að því að takmarka völd öldungaráðsins. Umbætur hans voru róttækari en umbætur Tiberiusar bróður hans. Gracchus mælti einnig fyrir lögum um að veita Latverjum rómverskan ríkisborgararétt og bandamönnum Rómverja á Ítalíu sams konar réttindi og Latverjar höfðu áður haft en lögin voru ekki samþykkt.

Árið 122 f.Kr. hélt Gracchus til Afríku þar sem hann hafði umsjón með stofnun nýlendu þar sem Karþagó hafði áður staðið. Á meðan dró úr vinsældum hans heima fyrir og andstæðingar hans sóttu í sig veðrið. Gracchus sneri aftur til Rómar en náði ekki kjöri sem alþýðuforingi fyrir árið 121 f.Kr. Átök brutust út í kjölfarið en öldungaráðið lýsti yfir neyðarástandi (senatus consultum ultimum) í fyrsta sinn en það heimilaði ræðismönnunum að gera það sem þurfti til varnar ríkinu. Ræðismaðurinn Opimius kallaði Gracchus fyrir öldungaráðið en Gracchusi var ljóst að hann fengi ekki sanngjarna meðferð og mætti því ekki. Þá réðst vígbúið lið öldungaráðsins að honum og fylgjendum hans þar sem þeir héldu til á Aventínusarhæð. Þegar Gracchus sá að staða hans var vonlaus skipaði hann þræl sínum að drepa sig. Um 3000 fylgjendur hans voru handteknir og líflátnir. Þar með var fylking Gracchusarbræðra úr sögunni.

Með Gracchusarbræðrum hófst nýtt tímabil í sögu rómverskra stjórnmála. Í kjölfarið varð æ mikilvægara að taka til greina hagsmuni lægri stéttanna og spurningin um réttindi og ríkisborgararétt bandamanna varð æ áleitnari. Árið 91 f.Kr. braust út Bandamannastríðið svonefnda en því lauk þremur árum síðar með því að allir bandamenn Rómverja á Ítalíu sunnan við ána Pó fengu fullan ríkisborgararétt. Þá urðu átök í stjórnmálum sífellt ofbeldisfyllri. Árið 88 hófst borgarastríð þegar ræðismaðurinn Lucius Cornelius Sulla (138 – 78 f.Kr.) hélt inn í Rómaborg með sex herdeildir (legiones). Það var í fyrsta sinn sem Rómaborg var hertekin af rómverskum ræðismanni en ekki í síðasta sinn. Átök brutust aftur út þremur árum síðar en þeim lauk með því að Sulla hertók Rómaborg aftur árið 82 f.Kr. Árið 49 f.Kr. hófst svo borgarastríð enn á ný þegar Julius Caesar hélt með her sinn yfir ána Pó í átt til Rómar.

Frekari fróðleikur:
  • Stockton, David, The Gracchi (Oxford: Clarendon Press, 1979).

Mynd: