Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svar við þessari spurningu birtist fyrst 27.2.2015. Það var skrifað án þess að tími gæfist til að kanna málið vel og þess vegna er hér önnur útgáfa af svarinu.
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Góðan dag, við erum nokkur ósammála um hvenær þessi fundur á að vera: Starfsmanna- og kennarafundurinn sem vera átti nk. föstudag 27. febrúar hefur verið færður FRAM um viku og verður haldinn föstudaginn 6. mars kl 15:15.
Ég vildi hafa þetta: Starfsmanna- og kennarafundurinn sem vera átti nk. föstudag 27. febrúar hefur verið færður AFTUR um viku og verður haldinn föstudaginn 6. mars kl 15:15.
Hvað er réttast í þessu? Bestu kveðjur og takk fyrir frábæran vef!
Mörg orðasambönd með orðinu fram fela í sér að eitthvað gerist eða verði síðar, að lengri tími hafi liðið, til dæmis sofa langt fram á dag, sjá fram í tímann. Ýmis samsett orð með orðliðinn fram- vísa til ókomins tíma, samanber framhald, framlengja, framtíð og fleiri. Því mætti ætla að ef eitthvað færðist fram hlyti það að tákna að atburðurinn yrði þegar lengri tími hefði liðið.
Staðreyndin er hins vegar sú – eins og spurningin bar með sér – að fólk skilur þetta á mismunandi hátt. Því var ákveðið að kanna lítillega skilning málnotenda á orðalaginu að færa fund fram um viku.
Skilningur málnotenda á orðalaginu 'að færa fund fram um viku' var kannaður. Helmingur þátttakenda sat á Kaffihúsi Vesturbæjar og helmingurinn var í anddyri Sundlaugar Vesturbæjar á leið í eða úr sundi.
Þátttakendur voru 34 fullorðnir einstaklingar með íslensku að móðurmáli. Athugunin var gerð í hádeginu 31. mars 2015. Helmingur þátttakenda sat á Kaffihúsi Vesturbæjar og helmingurinn var í anddyri Sundlaugar Vesturbæjar á leið í eða úr sundi. Enginn skoraðist undan að svara. Þátttakendur voru á aldrinum 20–60 ára en langflestir 20–40 ára. Af þátttakendunum 34 voru 27 konur og 7 karlar. Sú kynjaskipting var nánast eins á báðum stöðum: Af 17 kaffihússgestum voru 13 konur og 4 karlar; af 17 sundgestum voru 14 konur og 3 karlar. Þátttakendum var sýnt blað með eftirfarandi texta og þeir voru beðnir að segja til um hvort ætti að botna tilkynninguna með dagsetningunni 3. mars eða með dagsetningunni 17. mars:
Fundurinn, sem vera átti 10. mars, hefur verið færður fram um viku og verður:
3. mars
17. mars
Svarið átti að sýna hvaða skilning þátttakendur legðu í orðin færður fram.
Niðurstöður:
Fundurinn, sem átti að vera 10. mars, hefur verið færður fram um viku og verður:
Svör
Samtals
Staður
Kyn
n - %
KaffiVest
SundVest
Konur
Karlar
N - %
N - %
N - %
N - %
3. mars
8 - 24%
4 - 24%
4 - 24%
6 - 22%
2 - 29%
17. mars
26 - 76%
13 - 76%
13 - 76%
21 - 78%
5 - 71%
34 - 100%
17 - 100%
17 - 100%
27 - 100%
7 - 100%
Eins og ráða má af töflunni dreifðust svörin hnífjafnt eftir stöðunum tveimur þar sem fólk var spurt. Munur kynjanna er ekki marktækur. Aldursdreifing var ófullkomin en rétt er að taka fram að hinir örfáu þátttakendur yfir fertugu svöruðu ýmist 3. mars eða 17. mars rétt eins og hinir yngri.
Niðurstöður athugunarinnar benda til þess að ef breyttur fundartími er auglýstur með orðalaginu færa fram muni fjórði hver mæta viku fyrir áður boðaðan fundartíma en þrír af hverjum fjórum kæmu til fundar viku síðar en fyrst var auglýst.
Af þessari athugun má ráða að til að fundarboð misskiljist ekki væri heppilegast, þegar svona stendur á, að tilkynna að fundi hefði verið flýtt eða seinkað (eftir atvikum). Þá færi ekki á milli mála hvað átt væri við.
Því er svo við að bæta að nokkrir voru spurðir líka hvað það merkti þegar sagt er að klukkan hafi verið færð fram um 2 tíma. Þegar komnir voru 7 manns sem allir svöruðu á sama veg var hætt við að spyrja fleiri þar sem ekki virtist vera óvissa um svarið: Það að færa klukkuna fram um 2 tíma merkir að stilla klukkuna upp á nýtt og breyta úr til dæmis kl. 15.00 í kl. 13.00 – en ekki sem sé úr kl. 15.00 í kl. 17.00. Klukkan er í þessu dæmi færð ‘til baka’ en ekki ‘áfram’ í huga allra sem voru spurðir um það atriði.
Mynd:
Ari Páll Kristinsson. „Við í Tækniskólanum ætlum að fresta fundi en erum ósammála, getið þið hjálpað?“ Vísindavefurinn, 19. maí 2015, sótt 3. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70014.
Ari Páll Kristinsson. (2015, 19. maí). Við í Tækniskólanum ætlum að fresta fundi en erum ósammála, getið þið hjálpað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70014
Ari Páll Kristinsson. „Við í Tækniskólanum ætlum að fresta fundi en erum ósammála, getið þið hjálpað?“ Vísindavefurinn. 19. maí. 2015. Vefsíða. 3. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70014>.