Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hver skírði stjörnurnar og hvernig fór hann að, því að þær eru svo margar?

Sævar Helgi Bragason

Í fornöld litu menn upp í himinninn og greindu þar ýmsar stjörnur. Þessum stjörnum gáfu þeir nöfn úr umhverfi sínu eða nefndu þær eftir verum úr goðafræði sinni. Á síðari öldum þegar stjörnusjónaukar urðu betri sífellt og fleiri stjörnur uppgötvuðust varð að koma á skipulagðara nafnakerfi. Ýmsir hafa safnað listum yfir stjörnur en betri sjónaukar hafa sífellt sprengt þá lista. Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu nafnakerfum sem notast hefur verið við um aldirnar.


Allt frá fornöld hafa stjörnur, líkt og fólk, haft sín eigin nöfn eins og Síríus, Kanópus, Betelgás, Rígel og Vega. Í dag eru þess konar nöfn aðeins notuð fyrir björtustu stjörnur himinsins. Nöfn þessi eru oftar en ekki ljóðræn og endurspegla einnig forna stjörnumerkjafræði á afbakaðri arabísku, en ruglingurinn er mjög mikill. Fyrir flestum þeim sem áhuga hafa á stjörnufræði merkir orðið "Deneb" björtustu stjörnuna í Svaninum. En í raun hafa að minnsta kosti fimm aðrar stjörnur borið þetta heiti. Orðið sjálft merkir aðeins 'hali, stél', en það orð fylgir mörgum stjörnumerkjum.

Árið 1603 setti þýski lögfræðingurinn og stjörnufræðingurinn Johann Bayer (1572 - 1625) saman fallega stjörnuskrá, Uranometria, þar sem hann gaf hverri stjörnu sem hann sá innan tiltekins stjörnumerkis gríska stafi. Hann byrjaði ætíð á björtustu stjörnu hvers merkis og nefndi hana Alfa, því næst skipti hann hinum stjörnum merkisins í flokka eftir birtustigi og úthlutaði þeim stöfum innan hvers merkis í röð fyrst eftir birtu og svo eftir staðsetningu innan merkisins. Af því leiðir að til dæmis bjartasta stjarna Hörpumerkisins (Lyra), sem er Vega, heitir einnig Alfa Lyrae. Því næst tók hann næstbjörtustu stjörnu merkisins, Shelik, og nefndi hana Beta Lyrae. Þannig gekk þetta síðan koll af kolli að síðasta staf gríska stafrófsins Omega. Þetta nafnakerfi reyndist skilvirkt og er ennþá í notkun.

Kerfi Bayers varð strax vinsælt. Grísku stafirnir eru tengdir við nöfn stjörnumerkisins sem er ávallt haft í eignarfalli í latínunni. Þess vegna verður aðalstjarnan í Centaurus (Mannfáknum) Alfa Centauri. Það þýðir einfaldlega "fyrst úr Centaurus." Þegar fræðimenn kunnu latínu og grísku flugu þessi orð úr munnum manna en í dag þurfa stjörnuathugendur að læra gríska stafrófið og latneskar beygingarmyndir 88 stjörnumerkja.

Í hverju stjörnumerki er stjörnuskarinn mikill en grísku stafirnir eru aðeins 24. Stundum er einn stafur notaður aftur og aftur með hávísi við hlið sér til þess að komast yfir sem flestar samliggjandi stjörnur. Sem dæmi má nefna stjörnurnar π1 , π2 , π3 , π4 , π5 , π6 Orionis, en þessar stjörnur mynda skjöld Óríons. Með betri stjörnusjónaukum fundust hins vegar alltaf fleiri og fleiri stjörnur og þá fundu stjörnufræðingar upp á því að nota tölur til að nefna stjörnur.

Í kringum 1712 hóf konunglegi enski stjörnufræðingurinn John Flamsteed að tölusetja stjörnur innan hvers merkis frá vestri til austurs í samræmi við stjörnulengd. Þetta er mikil hjálp þegar maður er að leita að stjörnu á korti. Til dæmis er 80 Virginis (Virgo = Meyjan) austan við 79 Virginis (stjarnan Heze) og vestan við 81 Virginis. Allar stjörnur fengu númer, sama hvort þær höfðu grískan staf eður ei. Þess vegna er Alfa Lyrae, Vega, einnig 3 Lyrae. Þegar allt er komið til alls fengu 2682 stjörnur Flamsteed-tölu. Stærsta talan innan stjörnumerkis er í heitinu 140 Tauri (Taurus = Nautið).

Á nítjándu öld sprungu öll nafnakerfi enn einu sinni. Sjónaukar urðu sífellt betri og fleiri stjörnur fundust og hver ein og einasta varð að fá heiti. Árið 1859 hóf þýski stjörnufræðingurinn F.W.A. Argelander við stjörnuathugunarstöðina í Bonn að mæla staðsetningar stjarnanna með 3-tommu linsusjónauka til þess að safna saman í risastóra skrá, Bonner Durchmusterung (Bonn-könnunin). BD-skráin innihélt 324,188 stjörnur upp að birtustigi 9,5. Argelander og samstarfsmenn hans skiptu himninum niður í mjóar ræmur. Hver þeirra tók yfir 1° í stjörnubreidd og 24 klst í stjörnulengd. Stjörnur innan hverrar ræmu voru tölusettar í röð eftir stjörnulengd; stjörnumerkin voru hunsuð. Af því leiðir að táknið fyrir Vegu, BD+38°3238 þýðir að hún var stjarna númer 3238, talið frá 0 klst stjörnulengd á svæðinu milli stjörnubreiddar +38° og +39°.

Mun færri töflur eru til um stjörnur sem eru það sunnarlega að þær sjást ekki frá Englandi. Stjörnur í suðlægum stjörnumerkjum voru auðkenndar með rómverskum lágstöfum og hástöfum stafi, eins og g Carinae og L Puppis. Ýmsir kortagerðarmenn notuðu þess konar tákn um allan himininn, en því hefur verið nánast hætt aftur á norðurhimninum.

Svonefndar breytistjörnur (stjörnur sem breyta birtu sinni) hafa einnig sérstök nafnakerfi. Hinn ötuli Argelander átti einnig upptökin að því kerfir. Hann merkti fyrstu breytistjörnuna sem fannst í hverju stjörnumerki með stóru R með eignarfalli nafns stjörnumerkisins, þar sem stafurinn á undan, Q, var síðasti latneski hástafurinn sem Bayer notaði. Næsta breytistjarna stjörnumerkisins fékk stafinn S, og svo framvegis allt fram til Z. Eftir Z komu RR, RS, o. s. frv. til RZ, þá SS til SZ, upp til ZZ. Ef breytistjarna hafði þegar fengið grískan staf lét Argelander hana vera.

En nýjar breytistjörnur voru alltaf að uppgötvast! Eftir ZZ ákváðu stjörnufræðingar að halda áfram með AA, AB, og aftur að AZ (en sleppa J þar sem að stafurinn gæti ruglast við I í nokkrum tungumálum), þá BB til BZ, að QZ.

Jafnvel þessi 334 heiti voru ófullnægjandi fyrir breytistjörnurnar í sumum stjörnuskörum stjörnmerkjanna. Stjörnufræðingar ákváðu því næst, í stað þess að útbúa enn asnalegra þriggja stafa kerfi, að nýuppgötvaðar breytistjörnur í stjörnumerki myndu einfaldlega fá heitin V335, V336, og svo óendanlega framvegis. Það var góð framkvæmd. Um 1990 var hæsta tölusetningin á breytistjörnunni V4513 Sagittarii.

Stærsta stjörnuskráin í dag er Guide Star Catalog Hubblesjónaukans. Sú skrá er alltof stór til útprentunar; í stað þess er hún á tveimur geisladiskum. GSC-skráin inniheldur 18,819,291 fyrirbæri frá 9. birtustigi til 15. birtustigs. Af öllum þessum næstum 19 milljónum eru 15.169.873 fyrirbæri skráð sem stjörnur. Flest fyrirbærin sem eftir eru, eru litlar og daufar vetrarbrautir. Flestar eru svo daufar að auga mannsins hefur aldrei rannsakað þær með neinum hætti; þær voru greindar sjálfvirkt af ljósmyndaplötum.

Sjá einnig svar höfundar við spurningunni Er það satt að leikmenn hafi fengið að gefa stjörnum og öðrum fyrirbærum í geimnum nöfn?


Heimild: www.skypub.com

Mynd: HB

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

30.7.2000

Spyrjandi

Bríet Guðmundsdóttir, f. 1989

Efnisorð

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Hver skírði stjörnurnar og hvernig fór hann að, því að þær eru svo margar?“ Vísindavefurinn, 30. júlí 2000. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=701.

Sævar Helgi Bragason. (2000, 30. júlí). Hver skírði stjörnurnar og hvernig fór hann að, því að þær eru svo margar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=701

Sævar Helgi Bragason. „Hver skírði stjörnurnar og hvernig fór hann að, því að þær eru svo margar?“ Vísindavefurinn. 30. júl. 2000. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=701>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver skírði stjörnurnar og hvernig fór hann að, því að þær eru svo margar?
Í fornöld litu menn upp í himinninn og greindu þar ýmsar stjörnur. Þessum stjörnum gáfu þeir nöfn úr umhverfi sínu eða nefndu þær eftir verum úr goðafræði sinni. Á síðari öldum þegar stjörnusjónaukar urðu betri sífellt og fleiri stjörnur uppgötvuðust varð að koma á skipulagðara nafnakerfi. Ýmsir hafa safnað listum yfir stjörnur en betri sjónaukar hafa sífellt sprengt þá lista. Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu nafnakerfum sem notast hefur verið við um aldirnar.


Allt frá fornöld hafa stjörnur, líkt og fólk, haft sín eigin nöfn eins og Síríus, Kanópus, Betelgás, Rígel og Vega. Í dag eru þess konar nöfn aðeins notuð fyrir björtustu stjörnur himinsins. Nöfn þessi eru oftar en ekki ljóðræn og endurspegla einnig forna stjörnumerkjafræði á afbakaðri arabísku, en ruglingurinn er mjög mikill. Fyrir flestum þeim sem áhuga hafa á stjörnufræði merkir orðið "Deneb" björtustu stjörnuna í Svaninum. En í raun hafa að minnsta kosti fimm aðrar stjörnur borið þetta heiti. Orðið sjálft merkir aðeins 'hali, stél', en það orð fylgir mörgum stjörnumerkjum.

Árið 1603 setti þýski lögfræðingurinn og stjörnufræðingurinn Johann Bayer (1572 - 1625) saman fallega stjörnuskrá, Uranometria, þar sem hann gaf hverri stjörnu sem hann sá innan tiltekins stjörnumerkis gríska stafi. Hann byrjaði ætíð á björtustu stjörnu hvers merkis og nefndi hana Alfa, því næst skipti hann hinum stjörnum merkisins í flokka eftir birtustigi og úthlutaði þeim stöfum innan hvers merkis í röð fyrst eftir birtu og svo eftir staðsetningu innan merkisins. Af því leiðir að til dæmis bjartasta stjarna Hörpumerkisins (Lyra), sem er Vega, heitir einnig Alfa Lyrae. Því næst tók hann næstbjörtustu stjörnu merkisins, Shelik, og nefndi hana Beta Lyrae. Þannig gekk þetta síðan koll af kolli að síðasta staf gríska stafrófsins Omega. Þetta nafnakerfi reyndist skilvirkt og er ennþá í notkun.

Kerfi Bayers varð strax vinsælt. Grísku stafirnir eru tengdir við nöfn stjörnumerkisins sem er ávallt haft í eignarfalli í latínunni. Þess vegna verður aðalstjarnan í Centaurus (Mannfáknum) Alfa Centauri. Það þýðir einfaldlega "fyrst úr Centaurus." Þegar fræðimenn kunnu latínu og grísku flugu þessi orð úr munnum manna en í dag þurfa stjörnuathugendur að læra gríska stafrófið og latneskar beygingarmyndir 88 stjörnumerkja.

Í hverju stjörnumerki er stjörnuskarinn mikill en grísku stafirnir eru aðeins 24. Stundum er einn stafur notaður aftur og aftur með hávísi við hlið sér til þess að komast yfir sem flestar samliggjandi stjörnur. Sem dæmi má nefna stjörnurnar π1 , π2 , π3 , π4 , π5 , π6 Orionis, en þessar stjörnur mynda skjöld Óríons. Með betri stjörnusjónaukum fundust hins vegar alltaf fleiri og fleiri stjörnur og þá fundu stjörnufræðingar upp á því að nota tölur til að nefna stjörnur.

Í kringum 1712 hóf konunglegi enski stjörnufræðingurinn John Flamsteed að tölusetja stjörnur innan hvers merkis frá vestri til austurs í samræmi við stjörnulengd. Þetta er mikil hjálp þegar maður er að leita að stjörnu á korti. Til dæmis er 80 Virginis (Virgo = Meyjan) austan við 79 Virginis (stjarnan Heze) og vestan við 81 Virginis. Allar stjörnur fengu númer, sama hvort þær höfðu grískan staf eður ei. Þess vegna er Alfa Lyrae, Vega, einnig 3 Lyrae. Þegar allt er komið til alls fengu 2682 stjörnur Flamsteed-tölu. Stærsta talan innan stjörnumerkis er í heitinu 140 Tauri (Taurus = Nautið).

Á nítjándu öld sprungu öll nafnakerfi enn einu sinni. Sjónaukar urðu sífellt betri og fleiri stjörnur fundust og hver ein og einasta varð að fá heiti. Árið 1859 hóf þýski stjörnufræðingurinn F.W.A. Argelander við stjörnuathugunarstöðina í Bonn að mæla staðsetningar stjarnanna með 3-tommu linsusjónauka til þess að safna saman í risastóra skrá, Bonner Durchmusterung (Bonn-könnunin). BD-skráin innihélt 324,188 stjörnur upp að birtustigi 9,5. Argelander og samstarfsmenn hans skiptu himninum niður í mjóar ræmur. Hver þeirra tók yfir 1° í stjörnubreidd og 24 klst í stjörnulengd. Stjörnur innan hverrar ræmu voru tölusettar í röð eftir stjörnulengd; stjörnumerkin voru hunsuð. Af því leiðir að táknið fyrir Vegu, BD+38°3238 þýðir að hún var stjarna númer 3238, talið frá 0 klst stjörnulengd á svæðinu milli stjörnubreiddar +38° og +39°.

Mun færri töflur eru til um stjörnur sem eru það sunnarlega að þær sjást ekki frá Englandi. Stjörnur í suðlægum stjörnumerkjum voru auðkenndar með rómverskum lágstöfum og hástöfum stafi, eins og g Carinae og L Puppis. Ýmsir kortagerðarmenn notuðu þess konar tákn um allan himininn, en því hefur verið nánast hætt aftur á norðurhimninum.

Svonefndar breytistjörnur (stjörnur sem breyta birtu sinni) hafa einnig sérstök nafnakerfi. Hinn ötuli Argelander átti einnig upptökin að því kerfir. Hann merkti fyrstu breytistjörnuna sem fannst í hverju stjörnumerki með stóru R með eignarfalli nafns stjörnumerkisins, þar sem stafurinn á undan, Q, var síðasti latneski hástafurinn sem Bayer notaði. Næsta breytistjarna stjörnumerkisins fékk stafinn S, og svo framvegis allt fram til Z. Eftir Z komu RR, RS, o. s. frv. til RZ, þá SS til SZ, upp til ZZ. Ef breytistjarna hafði þegar fengið grískan staf lét Argelander hana vera.

En nýjar breytistjörnur voru alltaf að uppgötvast! Eftir ZZ ákváðu stjörnufræðingar að halda áfram með AA, AB, og aftur að AZ (en sleppa J þar sem að stafurinn gæti ruglast við I í nokkrum tungumálum), þá BB til BZ, að QZ.

Jafnvel þessi 334 heiti voru ófullnægjandi fyrir breytistjörnurnar í sumum stjörnuskörum stjörnmerkjanna. Stjörnufræðingar ákváðu því næst, í stað þess að útbúa enn asnalegra þriggja stafa kerfi, að nýuppgötvaðar breytistjörnur í stjörnumerki myndu einfaldlega fá heitin V335, V336, og svo óendanlega framvegis. Það var góð framkvæmd. Um 1990 var hæsta tölusetningin á breytistjörnunni V4513 Sagittarii.

Stærsta stjörnuskráin í dag er Guide Star Catalog Hubblesjónaukans. Sú skrá er alltof stór til útprentunar; í stað þess er hún á tveimur geisladiskum. GSC-skráin inniheldur 18,819,291 fyrirbæri frá 9. birtustigi til 15. birtustigs. Af öllum þessum næstum 19 milljónum eru 15.169.873 fyrirbæri skráð sem stjörnur. Flest fyrirbærin sem eftir eru, eru litlar og daufar vetrarbrautir. Flestar eru svo daufar að auga mannsins hefur aldrei rannsakað þær með neinum hætti; þær voru greindar sjálfvirkt af ljósmyndaplötum.

Sjá einnig svar höfundar við spurningunni Er það satt að leikmenn hafi fengið að gefa stjörnum og öðrum fyrirbærum í geimnum nöfn?


Heimild: www.skypub.com

Mynd: HB...