Forliðurinn kas- er notaður í fáeinum orðum samkvæmt ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. Þessi orð eru kasbomm, kasheitur, kashlaðinn og kasmekktur, auk kasóléttur.
Kasbomm er notað í sömu merkingu og kasóléttur, það er um konu sem komin er langt á leið, en bomm er í óformlegu tali notað um barnshafandi konu.
Kasheitur og kashlaðinn eru bæði úr sjómannamáli. Hið fyrra er notað um fiskikös sem farin er að hitna, hið síðara um fisk sem hlaðinn er í kös.
Kasmekktur er fengið úr Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness (1902-1998). Þar lýsir hann veðri svona: ,,Hann var kasmekktur á Bláfjöll, með brunagaddi og hægu skafroki, fé á innistöðu” (1952:125). Þarna er líklegast verið að lýsa þykkum skýjakúf á fjöllum sem minnir á makka á hesti.
Kas- er dregið af nafnorðinu kös ‘hrúga, dyngja’ og af því orði er aftur leidd sögnin kasa ‘setja í kös eða hrúgu’. Líkingin í kasóléttur vísar til kúlunnar á konunni framanverðri sem minnir einhvern ef til vill á kös í fyrrgreindri merkingu.
Mynd:
Spurningin hljóðaði upphaflega svona:
Hvað merkir forskeytið "kas" í kasólétt? Hver er uppruni þess? Er það notað með einhverjum öðrum orðum?
