Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Var Ísland einhvern tímann tæknilega undir Svíþjóð?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Var Ísland einhvern tímann tæknilega undir Svíþjóð? Kannski í gegnum Kalmarsambandið eða eitthvað álíka?

Varla er hægt að segja að Ísland hafi nokkurn tímann verið undir Svíþjóð. Þó höfðu Svíar og Íslendingar stundum sama konung á 14., 15. og 16. öld. Fyrst varð Ísland skattland eða hjálenda Noregskonungs á árunum 1262–64. Síðan gerðist það árið 1319 að Magnús Eiríksson, sem hafði viðurnefnið smek, erfði krúnur Norðmanna og Svía, þá þriggja ára gamall. Norsku krúnuna, og þar með þjóðhöfðingjavald yfir Íslendingum, erfði hann vegna þess að hann var dóttursonur Noregskonungs, en í föðurætt var hann af sænskum aðalsmönnum og mun jafnan hafa haft aðsetur í Svíþjóð. Stóð svo til 1343 eða 1344, en þá knúðu Norðmenn það fram að Hákon, sonur Magnúsar, var gerður að konungi í Noregi, kallaður Hákon sjötti. Magnús hélt eftir valdi yfir skattlöndum Noregs, sem töldust vera Hálogaland, Ísland, Færeyjar og Hjaltland. Grænland er ekki nefnt í gögnum um þetta, en væntanlega hefur það fylgt hinum skattlöndunum. Við þessa ráðstöfun slitnaði í bili konungssamband Noregs og Íslands og hefur líklega ekki komist á aftur fyrr en Magnús konungur lést árið 1374. Þó er sagt frá því í íslenskum annál, Gottskálksannál, að árið 1366 hafi Hákoni konungi sjötta verið dæmt land allt. Það kann að hafa verið ráðstöfun Íslendinga til að verða sér úti um konung vegna þess að Magnús sat þá í fangelsi þýsks aðalsmanns sem þóttist eiga rétt á konungdæmi í Svíþjóð. Ekki er vitað annað en að Magnús hafi tekið við konungsvaldi yfir Íslendingum aftur eftir að hann losnaði úr haldi árið 1371.

Eftir dauða Magnúsar smeks varð Hákon sjötti Noregskonungur konungur yfir skattlöndunum, en Svíþjóð komst í hendur Þjóðverjans Albrechts af Mecklenburg. Árið 1380 féll Hákon frá, og tók þá við konungdómi í Noregi Ólafur sonur hans sem hafði erft krúnu Dana fjórum árum fyrr. Árið 1387 andaðist Ólafur konungur, aðeins 17 ára gamall. Móðir hans, Margrét, dóttir Valdimars Danakonungs, hafði farið með stjórn ríkjanna meðan Ólafur var í bernsku, og tók hún nú formlega við þjóðhöfðingjavaldi í Danmörku og Noregi. Árið eftir kusu Svíar hana til ríkisstjóra af því að þeim líkaði ekki við Albrecht.

Undir stjórn Margrétar þróaðist þetta ríkjasamband yfir í Kalmarsambandið árið 1397. Svíar voru stundum með í því en höfðu stundum sérstaka konunga allt til 1521 þegar þeir yfirgáfu sambandið fyrir fullt og allt. Íslendingar og Svíar voru því iðulega í konungssambandi á 15. öld og fram á 16. öld, en konungarnir höfðu jafnan aðsetur í Danmörku. Konungssamband Noregs og Íslands hélt áfram óslitið til 1814 þegar Svíakonungur náði valdi yfir Noregi en Danakonungur hélt skattlöndum hans eftir. Konungssamband Dana og Íslendinga hélst svo fram að lýðveldisstofnun Íslendinga árið 1944.

Margrét Valdimarsdóttir (1353-1412) var fyrsta og eina drottningin sem Ísland hefur heyrt undir.

Lítið mun um að greina megi áhrif Svía á Íslandi meðan þeir höfðu sama konung. Þó má benda á eitt. Talið er að það hafi verið að sænskri fyrirmynd þegar Magnús konungur smek tók að leigja hirðstjórum Ísland fyrir ákveðið afgjald, en þeir hirtu síðan þá skatta sem þeir innheimtu af landsmönnum. Þetta var óvinsælt á Íslandi því að leiguhirðstjórar þóttu harðdrægir í skattheimtu. Sambandið við Svía hefur því líklega aldrei verið talinn neinn happafengur í sögu Íslendinga.

Heimildir og mynd
  • Björn Þorsteinsson og Guðrún Ása Grímsdóttir: „Norska öldin“ með viðaukum eftir Sigurð Líndal. Saga Íslands IV (Reykjavík, Bókmenntafélag, 1989), 59–258.
  • Paul Holt og Mikael Holt: Historiske årstal. København, P. Haase & Søns Forlag, 1997.
  • Jón Jóhannesson: Íslendinga saga II. Fyrirlestrar og ritgerðir um tímabilið 1262–1550. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1958.
  • Mynd: Margrete 1.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 3. 11. 2015).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

19.11.2015

Spyrjandi

Elvar Karel Jóhannesson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Var Ísland einhvern tímann tæknilega undir Svíþjóð?“ Vísindavefurinn, 19. nóvember 2015, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70523.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2015, 19. nóvember). Var Ísland einhvern tímann tæknilega undir Svíþjóð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70523

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Var Ísland einhvern tímann tæknilega undir Svíþjóð?“ Vísindavefurinn. 19. nóv. 2015. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70523>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Var Ísland einhvern tímann tæknilega undir Svíþjóð?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Var Ísland einhvern tímann tæknilega undir Svíþjóð? Kannski í gegnum Kalmarsambandið eða eitthvað álíka?

Varla er hægt að segja að Ísland hafi nokkurn tímann verið undir Svíþjóð. Þó höfðu Svíar og Íslendingar stundum sama konung á 14., 15. og 16. öld. Fyrst varð Ísland skattland eða hjálenda Noregskonungs á árunum 1262–64. Síðan gerðist það árið 1319 að Magnús Eiríksson, sem hafði viðurnefnið smek, erfði krúnur Norðmanna og Svía, þá þriggja ára gamall. Norsku krúnuna, og þar með þjóðhöfðingjavald yfir Íslendingum, erfði hann vegna þess að hann var dóttursonur Noregskonungs, en í föðurætt var hann af sænskum aðalsmönnum og mun jafnan hafa haft aðsetur í Svíþjóð. Stóð svo til 1343 eða 1344, en þá knúðu Norðmenn það fram að Hákon, sonur Magnúsar, var gerður að konungi í Noregi, kallaður Hákon sjötti. Magnús hélt eftir valdi yfir skattlöndum Noregs, sem töldust vera Hálogaland, Ísland, Færeyjar og Hjaltland. Grænland er ekki nefnt í gögnum um þetta, en væntanlega hefur það fylgt hinum skattlöndunum. Við þessa ráðstöfun slitnaði í bili konungssamband Noregs og Íslands og hefur líklega ekki komist á aftur fyrr en Magnús konungur lést árið 1374. Þó er sagt frá því í íslenskum annál, Gottskálksannál, að árið 1366 hafi Hákoni konungi sjötta verið dæmt land allt. Það kann að hafa verið ráðstöfun Íslendinga til að verða sér úti um konung vegna þess að Magnús sat þá í fangelsi þýsks aðalsmanns sem þóttist eiga rétt á konungdæmi í Svíþjóð. Ekki er vitað annað en að Magnús hafi tekið við konungsvaldi yfir Íslendingum aftur eftir að hann losnaði úr haldi árið 1371.

Eftir dauða Magnúsar smeks varð Hákon sjötti Noregskonungur konungur yfir skattlöndunum, en Svíþjóð komst í hendur Þjóðverjans Albrechts af Mecklenburg. Árið 1380 féll Hákon frá, og tók þá við konungdómi í Noregi Ólafur sonur hans sem hafði erft krúnu Dana fjórum árum fyrr. Árið 1387 andaðist Ólafur konungur, aðeins 17 ára gamall. Móðir hans, Margrét, dóttir Valdimars Danakonungs, hafði farið með stjórn ríkjanna meðan Ólafur var í bernsku, og tók hún nú formlega við þjóðhöfðingjavaldi í Danmörku og Noregi. Árið eftir kusu Svíar hana til ríkisstjóra af því að þeim líkaði ekki við Albrecht.

Undir stjórn Margrétar þróaðist þetta ríkjasamband yfir í Kalmarsambandið árið 1397. Svíar voru stundum með í því en höfðu stundum sérstaka konunga allt til 1521 þegar þeir yfirgáfu sambandið fyrir fullt og allt. Íslendingar og Svíar voru því iðulega í konungssambandi á 15. öld og fram á 16. öld, en konungarnir höfðu jafnan aðsetur í Danmörku. Konungssamband Noregs og Íslands hélt áfram óslitið til 1814 þegar Svíakonungur náði valdi yfir Noregi en Danakonungur hélt skattlöndum hans eftir. Konungssamband Dana og Íslendinga hélst svo fram að lýðveldisstofnun Íslendinga árið 1944.

Margrét Valdimarsdóttir (1353-1412) var fyrsta og eina drottningin sem Ísland hefur heyrt undir.

Lítið mun um að greina megi áhrif Svía á Íslandi meðan þeir höfðu sama konung. Þó má benda á eitt. Talið er að það hafi verið að sænskri fyrirmynd þegar Magnús konungur smek tók að leigja hirðstjórum Ísland fyrir ákveðið afgjald, en þeir hirtu síðan þá skatta sem þeir innheimtu af landsmönnum. Þetta var óvinsælt á Íslandi því að leiguhirðstjórar þóttu harðdrægir í skattheimtu. Sambandið við Svía hefur því líklega aldrei verið talinn neinn happafengur í sögu Íslendinga.

Heimildir og mynd
  • Björn Þorsteinsson og Guðrún Ása Grímsdóttir: „Norska öldin“ með viðaukum eftir Sigurð Líndal. Saga Íslands IV (Reykjavík, Bókmenntafélag, 1989), 59–258.
  • Paul Holt og Mikael Holt: Historiske årstal. København, P. Haase & Søns Forlag, 1997.
  • Jón Jóhannesson: Íslendinga saga II. Fyrirlestrar og ritgerðir um tímabilið 1262–1550. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1958.
  • Mynd: Margrete 1.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 3. 11. 2015).

...