Sólin Sólin Rís 05:58 • sest 21:00 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:27 • Síðdegis: 22:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:15 • Síðdegis: 16:24 í Reykjavík

Hver er siðferðisgrundvöllur ríkisrekinna fjölmiðla og skylduáskriftar?

Þorbjörn Broddason

Engin algild rök mæla með skylduáskrift að fjölmiðlum, heldur verður að leita sögulegra skýringa til að átta sig á því að hún tíðkast hjá allmörgum þjóðum í okkar heimshluta. Í svarinu eru rakin helstu rök þeirra sem takast á um þessi mál og í lokin er farið yfir líklegustu kosti í þróuninni á næstu árum.


Reyndar er heppilegra í þessari umræðu að nota orð eins og afnotagjald eða leyfisgjald fremur en skylduáskrift vegna þess að eigendur viðtækja eru ekki skyldaðir til að nýta sér þjónustu Ríkisútvarpsins (svo nærtækt dæmi sé tekið) heldur eingöngu að greiða afnotagjald af tækinu. Þessi gjaldtaka verður ekki skýrð með góðu móti nema í ljósi þess einokunarréttar til útvarps og sjónvarps sem fylgdi henni til skamms tíma.

Þegar litið er til þess, hversu tjáningarfrelsið er í miklum metum hjá okkur og flestum þjóðum kringum okkur og hversu nátengt það er hugmyndum okkar um frjálsa hugsun og lýðræðislegt starf, þá kann það að virðast undarlegt að þessi grundvallarréttur skuli ekki frá upphafi hafa tekið til útvarps og síðar sjónvarps. Sú mikla bylting sem varð í fjölmiðlun þegar útvarp breiddist út um heiminn á örfáum árum upp úr 1920, féll í flestum löndum í þann farveg að ríkisvaldið hefði yfirumsjón með öllu útvarpi; enginn fékk að útvarpa nema með sérstakri heimild og víðast var þetta verkefni falið opinberum eða hálfopinberum aðilum og þeim þannig sköpuð einokunaraðstaða. Frá þessu voru nokkrar undantekningar, til dæmis hafa markaðsöflin ætíð ráðið ríkjum í bandarískum ljósvakamiðlum.

Ástæður þess að stjórnvöld um alla Norður- og Vestur-Evrópu komust upp með að stofna til einokunar í ljósvakanum má annars vegar rekja til þess að við upphaf útvarps voru hagsmunahópar sem gerðu tilkall til þessarar nýju tækni mjög veikburða. Útvarpið bætti ekki úr augljósri og sterkri þörf, líkt og prentlistin gerði þegar hún kom til sögunnar hálfu árþúsundi fyrr, heldur var mjög óvíst til hverra nota það yrði tekið. Hins vegar voru ýmsir hugsjónamenn sem gerðu sér grein fyrir hinum gífurlegu framtíðarmöguleikum og líklegum áhrifamætti þessa nýja miðils og litu svo á að hagsmunir fjöldans yrðu best tryggðir með því að fela fulltrúum almennings, það er stjórnvöldum, að fara með þetta vald. Þetta viðhorf er í mjög nánum tengslum við hugmyndina um velferðarþjóðfélagið, þar sem öllum ber jafn réttur til ákveðinna gæða, svo sem skólagöngu eða heilbrigðisþjónustu, án tillits til efnahags eða aðstæðna að öðru leyti.

Nú eru breyttir tímar. Einokun í ljósvakanum er úr sögunni í okkar heimshluta og Íslendingar hafa búið við samkeppni í útvarpi og sjónvarpi frá árinu 1986. Frá þeim tíma hafa umræður og deilur um gjaldtöku Ríkisútvarpsins eðlilega magnast og fengið nýjan svip.

Stuðningsmenn áframhaldandi gjaldtöku vísa í öryggisatriði og til þess að Ríkisútvarpinu séu að lögum og samkvæmt langri hefð lagðar sérstakar menningarlegar skyldur á herðar sem réttlæti að almannavaldið tryggi afkomu þess. Í þessum hópi gætir einnig þeirra sjónarmiða að útvarp og sjónvarp séu svo voldugir og áhrifaríkir miðlar að varasamt sé að láta markaðs- og sérhagsmunaöflin ráðskast með þá óheft. Þeir líta með öðrum orðum á Ríkisútvarpið sem verndara lýðræðislegrar og opinnar umræðu í landinu.

Andstæðingar gjaldtöku halda því fram að ljósvakinn sé nú vettvangur harðrar samkeppni þar sem einstaklingar og fyrirtæki leggi fram vinnu og fjármagn og eigi afkomu sína undir því að vel gangi. Telja þeir ekki ná nokkurri átt að ríkisvaldið veiti sjálfu sér ríkulega forgjöf í samkeppni við eigin þegna. Ekki bætir úr skák frá sjónarmiði þessa hóps að frjáls samkeppni ríkir á auglýsingamarkaði sem Ríkisútvarpið tekur fullan þátt í. Hann spyr hvers vegna allt aðrar leikreglur gildi í ljósvakanum en á vettvangi prentmiðlanna. Hvers vegna er ekki stofnað ríkisdagblað með lögum frá Alþingi og öllum heimilum í landinu gert að kaupa áskrift?

Lyktir þessa ágreinings eru ekki sjálfgefnar en einhverjar breytingar á ríkjandi ástandi gætu verið framundan. Núverandi menntamálaráðherra stefnir að því að "með endurskipulagningu Ríkisútvarpsins fái kröfur einkarekstrar notið sín meira en nú í starfsemi stofnunarinnar" (Menntun og menning fyrir alla).

Mesta breytingin væri að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og selja það síðan almenningi eða hæstbjóðanda. Annars er hugsanlegt að Ríkisútvarpinu yrði gert að draga mjög saman seglin án þess að það hyrfi úr eigu almennings. Til dæmis mætti svipta það rétti til auglýsinga. Einnig væri hugsanlegt að afnema afnotagjöldin en taka í staðinn upp beina fjármögnun af fjárlögum, líkt og gildir um ýmsa aðra menningar- og fræðslustarfsemi. Það þyrfti ekki í sjálfu sér að leiða til verri fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins, en hins vegar óttast stuðningsmenn þess að slík ráðstöfun mundi skaða sjálfstæði þess gagnvart ríkisvaldinu. Loks má vel vera að engin markverð breyting verði gerð á núverandi sambúð þjóðarinnar við ljósvakamiðlana.

Það Alþingi sem nú situr virðist ekki vera í neinum byltingarham í þessum efnum, enda liggur höfuðstyrkur Ríkisútvarpsins í hinu mikla trausti sem almenningur ber til þess og kannanir leiða jafnan í ljós.

Höfundur

Þorbjörn Broddason

prófessor emeritus í félagsfræði við HÍ

Útgáfudagur

1.8.2000

Spyrjandi

Birgir Smári Ársælsson

Tilvísun

Þorbjörn Broddason. „Hver er siðferðisgrundvöllur ríkisrekinna fjölmiðla og skylduáskriftar?“ Vísindavefurinn, 1. ágúst 2000. Sótt 14. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=709.

Þorbjörn Broddason. (2000, 1. ágúst). Hver er siðferðisgrundvöllur ríkisrekinna fjölmiðla og skylduáskriftar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=709

Þorbjörn Broddason. „Hver er siðferðisgrundvöllur ríkisrekinna fjölmiðla og skylduáskriftar?“ Vísindavefurinn. 1. ágú. 2000. Vefsíða. 14. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=709>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er siðferðisgrundvöllur ríkisrekinna fjölmiðla og skylduáskriftar?
Engin algild rök mæla með skylduáskrift að fjölmiðlum, heldur verður að leita sögulegra skýringa til að átta sig á því að hún tíðkast hjá allmörgum þjóðum í okkar heimshluta. Í svarinu eru rakin helstu rök þeirra sem takast á um þessi mál og í lokin er farið yfir líklegustu kosti í þróuninni á næstu árum.


Reyndar er heppilegra í þessari umræðu að nota orð eins og afnotagjald eða leyfisgjald fremur en skylduáskrift vegna þess að eigendur viðtækja eru ekki skyldaðir til að nýta sér þjónustu Ríkisútvarpsins (svo nærtækt dæmi sé tekið) heldur eingöngu að greiða afnotagjald af tækinu. Þessi gjaldtaka verður ekki skýrð með góðu móti nema í ljósi þess einokunarréttar til útvarps og sjónvarps sem fylgdi henni til skamms tíma.

Þegar litið er til þess, hversu tjáningarfrelsið er í miklum metum hjá okkur og flestum þjóðum kringum okkur og hversu nátengt það er hugmyndum okkar um frjálsa hugsun og lýðræðislegt starf, þá kann það að virðast undarlegt að þessi grundvallarréttur skuli ekki frá upphafi hafa tekið til útvarps og síðar sjónvarps. Sú mikla bylting sem varð í fjölmiðlun þegar útvarp breiddist út um heiminn á örfáum árum upp úr 1920, féll í flestum löndum í þann farveg að ríkisvaldið hefði yfirumsjón með öllu útvarpi; enginn fékk að útvarpa nema með sérstakri heimild og víðast var þetta verkefni falið opinberum eða hálfopinberum aðilum og þeim þannig sköpuð einokunaraðstaða. Frá þessu voru nokkrar undantekningar, til dæmis hafa markaðsöflin ætíð ráðið ríkjum í bandarískum ljósvakamiðlum.

Ástæður þess að stjórnvöld um alla Norður- og Vestur-Evrópu komust upp með að stofna til einokunar í ljósvakanum má annars vegar rekja til þess að við upphaf útvarps voru hagsmunahópar sem gerðu tilkall til þessarar nýju tækni mjög veikburða. Útvarpið bætti ekki úr augljósri og sterkri þörf, líkt og prentlistin gerði þegar hún kom til sögunnar hálfu árþúsundi fyrr, heldur var mjög óvíst til hverra nota það yrði tekið. Hins vegar voru ýmsir hugsjónamenn sem gerðu sér grein fyrir hinum gífurlegu framtíðarmöguleikum og líklegum áhrifamætti þessa nýja miðils og litu svo á að hagsmunir fjöldans yrðu best tryggðir með því að fela fulltrúum almennings, það er stjórnvöldum, að fara með þetta vald. Þetta viðhorf er í mjög nánum tengslum við hugmyndina um velferðarþjóðfélagið, þar sem öllum ber jafn réttur til ákveðinna gæða, svo sem skólagöngu eða heilbrigðisþjónustu, án tillits til efnahags eða aðstæðna að öðru leyti.

Nú eru breyttir tímar. Einokun í ljósvakanum er úr sögunni í okkar heimshluta og Íslendingar hafa búið við samkeppni í útvarpi og sjónvarpi frá árinu 1986. Frá þeim tíma hafa umræður og deilur um gjaldtöku Ríkisútvarpsins eðlilega magnast og fengið nýjan svip.

Stuðningsmenn áframhaldandi gjaldtöku vísa í öryggisatriði og til þess að Ríkisútvarpinu séu að lögum og samkvæmt langri hefð lagðar sérstakar menningarlegar skyldur á herðar sem réttlæti að almannavaldið tryggi afkomu þess. Í þessum hópi gætir einnig þeirra sjónarmiða að útvarp og sjónvarp séu svo voldugir og áhrifaríkir miðlar að varasamt sé að láta markaðs- og sérhagsmunaöflin ráðskast með þá óheft. Þeir líta með öðrum orðum á Ríkisútvarpið sem verndara lýðræðislegrar og opinnar umræðu í landinu.

Andstæðingar gjaldtöku halda því fram að ljósvakinn sé nú vettvangur harðrar samkeppni þar sem einstaklingar og fyrirtæki leggi fram vinnu og fjármagn og eigi afkomu sína undir því að vel gangi. Telja þeir ekki ná nokkurri átt að ríkisvaldið veiti sjálfu sér ríkulega forgjöf í samkeppni við eigin þegna. Ekki bætir úr skák frá sjónarmiði þessa hóps að frjáls samkeppni ríkir á auglýsingamarkaði sem Ríkisútvarpið tekur fullan þátt í. Hann spyr hvers vegna allt aðrar leikreglur gildi í ljósvakanum en á vettvangi prentmiðlanna. Hvers vegna er ekki stofnað ríkisdagblað með lögum frá Alþingi og öllum heimilum í landinu gert að kaupa áskrift?

Lyktir þessa ágreinings eru ekki sjálfgefnar en einhverjar breytingar á ríkjandi ástandi gætu verið framundan. Núverandi menntamálaráðherra stefnir að því að "með endurskipulagningu Ríkisútvarpsins fái kröfur einkarekstrar notið sín meira en nú í starfsemi stofnunarinnar" (Menntun og menning fyrir alla).

Mesta breytingin væri að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og selja það síðan almenningi eða hæstbjóðanda. Annars er hugsanlegt að Ríkisútvarpinu yrði gert að draga mjög saman seglin án þess að það hyrfi úr eigu almennings. Til dæmis mætti svipta það rétti til auglýsinga. Einnig væri hugsanlegt að afnema afnotagjöldin en taka í staðinn upp beina fjármögnun af fjárlögum, líkt og gildir um ýmsa aðra menningar- og fræðslustarfsemi. Það þyrfti ekki í sjálfu sér að leiða til verri fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins, en hins vegar óttast stuðningsmenn þess að slík ráðstöfun mundi skaða sjálfstæði þess gagnvart ríkisvaldinu. Loks má vel vera að engin markverð breyting verði gerð á núverandi sambúð þjóðarinnar við ljósvakamiðlana.

Það Alþingi sem nú situr virðist ekki vera í neinum byltingarham í þessum efnum, enda liggur höfuðstyrkur Ríkisútvarpsins í hinu mikla trausti sem almenningur ber til þess og kannanir leiða jafnan í ljós....