Sólin Sólin Rís 03:28 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:17 • Sest 03:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:40 • Síðdegis: 15:22 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:05 • Síðdegis: 21:33 í Reykjavík

Hvað merkir Þeista í nafninu Þeistareykir?

Svavar Sigmundsson

Í heild hljóðar spurningin svona:
Langar að vita merkingu Þeist eða þeista en þar á ég við hvernig nafnið Þeistareykir er komið til.

Nafnið er skrifað „þeistareykia land“ í máldaga Múlakirkju í Auðunarmáldögum 1318 (Ísl. fornbréfasafn II, 434) og er elsta dæmi um jörðina í heimildum. Nafnið er „Þeistar Reyker eður Þestar Reyker“ í Jarðabók Árna og Páls árið 1712 (XI:211). Það er talið dregið af orðinu þeista kv. eða þeisti k., sem er nafn á fugli af svartfuglaætt og heitir á nútímamáli teista. Ólíklegt er þó að fuglinn sá hafi verið á bæ þeim sem um ræðir, sem er alllangt frá sjó en jörðin er fornt eyðibýli í Suður-Þingeyjarsýslu, suður af Reykjaheiði, hálfa þingmannaleið (það er um 19 km) frá næstu byggð, samkvæmt Árna og Páli.

Þeistareykir.

Fleiri Þeista-örnefni eru til í landinu. Þeistavogur er nefndur undir Vallanesi í Norður-Múlasýslu (Ísl. fornbréfasafn III:238 (1367); IV:205 (1397), 271 (1419)), en ekki er vitað nákvæmlega hvar hann er, ef til vill á Héraðssandi. Þeisthólmur í Berufirði er nefndur 1370 í Ísl. fornbréfasafni (VIII:10), nefndur Þeisthólmi hjá Þorvaldi Thoroddsen (Ferðabók I:75nm). Sömuleiðis er að nefna Þeistá (Þeistuá) = Teistá í landi Karlskála í Reyðarfirði (Árbók Ferðafélagsins 2005:71). Líklegra er að nafn fuglsins sé í fyrri lið þessara örnefna en í bæjarnafninu Þeistareykir. Elof Hellquist nefndi þá skýringu á nafni fuglsins að það væri hljóðhermunafn (Svensk etymologisk ordbok, bls. 1172), og Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir þá skýringu hans í orðsifjabók sinni.

Örnefnið Þeistareykir hefur meðal annars verið talið dregið af nafni fugls sem heitir teista á nútímamáli. Ólíklegt er þó að sjófuglinn teista hafi sést á bænum Þeistareykjum, enda er hann alllangt frá sjó.

Í Noregi var til árheitið Þeista eða Þeist að fornu, og eru nú til nöfnin Teiste eða Tiste á Austfold, einnig Tistedal (Norsk stadnamnleksikon, 315). Því hefur verið haldið fram að orðið þeist gæti þar verið skylt orðunum þíða og þiðna og væri nafnið þá árheiti á forarsvæði eða í mýrlendi (Ásgeir Blöndal Magnússon, 1174). En ekki verður séð hvort það á við á Þeistareykjum.

Þessar upprunaskýringar eru óvissar en hvort jarðhitinn á Þeistareykjum með hljóðum sínum hefur minnt á hljóðið í teistunni skal ósagt látið. Í lýsingu jarðarinnar 1985 segir: „Í hverunum sýður og krakar leir og brennisteinn“ [það er krakkar ‚kraumar‘] (Byggðir og bú, 516). En hvað forliðurinn í nafninu Þeistareykir merkir í raun er því ekki með öllu ljóst.

Heimildir:

 • Árni Magnússon og Páll Vídalín. Jarðabók. XI. bindi. Kaupmannahöfn 1943.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
 • Byggðir og bú Suður-Þingeyinga. Húsavík 1985.
 • Hellquist, Elof. Svensk etymologisk ordbok. Tredje upplagan. Lund. 1966.
 • Hjörleifur Guttormsson. Árbók Ferðafélags Íslands. Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Reykjavík 2005.
 • Íslenzkt fornbréfasafn. I-XVI. Kaupmannahöfn – Reykjavík. 1857-1972.
 • Norsk stadnamnleksikon. Jørn Sandnes og Ola Stemshaug (útg.). Oslo 1976.
 • Þorvaldur Thoroddsen. Ferðabók. Skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898. I. Kaupmannahöfn 1913.

Myndir:

Höfundur

Svavar Sigmundsson

fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar

Útgáfudagur

18.5.2016

Spyrjandi

Hörður Jónasson

Tilvísun

Svavar Sigmundsson. „Hvað merkir Þeista í nafninu Þeistareykir?“ Vísindavefurinn, 18. maí 2016. Sótt 30. maí 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=71559.

Svavar Sigmundsson. (2016, 18. maí). Hvað merkir Þeista í nafninu Þeistareykir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71559

Svavar Sigmundsson. „Hvað merkir Þeista í nafninu Þeistareykir?“ Vísindavefurinn. 18. maí. 2016. Vefsíða. 30. maí. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71559>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað merkir Þeista í nafninu Þeistareykir?
Í heild hljóðar spurningin svona:

Langar að vita merkingu Þeist eða þeista en þar á ég við hvernig nafnið Þeistareykir er komið til.

Nafnið er skrifað „þeistareykia land“ í máldaga Múlakirkju í Auðunarmáldögum 1318 (Ísl. fornbréfasafn II, 434) og er elsta dæmi um jörðina í heimildum. Nafnið er „Þeistar Reyker eður Þestar Reyker“ í Jarðabók Árna og Páls árið 1712 (XI:211). Það er talið dregið af orðinu þeista kv. eða þeisti k., sem er nafn á fugli af svartfuglaætt og heitir á nútímamáli teista. Ólíklegt er þó að fuglinn sá hafi verið á bæ þeim sem um ræðir, sem er alllangt frá sjó en jörðin er fornt eyðibýli í Suður-Þingeyjarsýslu, suður af Reykjaheiði, hálfa þingmannaleið (það er um 19 km) frá næstu byggð, samkvæmt Árna og Páli.

Þeistareykir.

Fleiri Þeista-örnefni eru til í landinu. Þeistavogur er nefndur undir Vallanesi í Norður-Múlasýslu (Ísl. fornbréfasafn III:238 (1367); IV:205 (1397), 271 (1419)), en ekki er vitað nákvæmlega hvar hann er, ef til vill á Héraðssandi. Þeisthólmur í Berufirði er nefndur 1370 í Ísl. fornbréfasafni (VIII:10), nefndur Þeisthólmi hjá Þorvaldi Thoroddsen (Ferðabók I:75nm). Sömuleiðis er að nefna Þeistá (Þeistuá) = Teistá í landi Karlskála í Reyðarfirði (Árbók Ferðafélagsins 2005:71). Líklegra er að nafn fuglsins sé í fyrri lið þessara örnefna en í bæjarnafninu Þeistareykir. Elof Hellquist nefndi þá skýringu á nafni fuglsins að það væri hljóðhermunafn (Svensk etymologisk ordbok, bls. 1172), og Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir þá skýringu hans í orðsifjabók sinni.

Örnefnið Þeistareykir hefur meðal annars verið talið dregið af nafni fugls sem heitir teista á nútímamáli. Ólíklegt er þó að sjófuglinn teista hafi sést á bænum Þeistareykjum, enda er hann alllangt frá sjó.

Í Noregi var til árheitið Þeista eða Þeist að fornu, og eru nú til nöfnin Teiste eða Tiste á Austfold, einnig Tistedal (Norsk stadnamnleksikon, 315). Því hefur verið haldið fram að orðið þeist gæti þar verið skylt orðunum þíða og þiðna og væri nafnið þá árheiti á forarsvæði eða í mýrlendi (Ásgeir Blöndal Magnússon, 1174). En ekki verður séð hvort það á við á Þeistareykjum.

Þessar upprunaskýringar eru óvissar en hvort jarðhitinn á Þeistareykjum með hljóðum sínum hefur minnt á hljóðið í teistunni skal ósagt látið. Í lýsingu jarðarinnar 1985 segir: „Í hverunum sýður og krakar leir og brennisteinn“ [það er krakkar ‚kraumar‘] (Byggðir og bú, 516). En hvað forliðurinn í nafninu Þeistareykir merkir í raun er því ekki með öllu ljóst.

Heimildir:

 • Árni Magnússon og Páll Vídalín. Jarðabók. XI. bindi. Kaupmannahöfn 1943.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
 • Byggðir og bú Suður-Þingeyinga. Húsavík 1985.
 • Hellquist, Elof. Svensk etymologisk ordbok. Tredje upplagan. Lund. 1966.
 • Hjörleifur Guttormsson. Árbók Ferðafélags Íslands. Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Reykjavík 2005.
 • Íslenzkt fornbréfasafn. I-XVI. Kaupmannahöfn – Reykjavík. 1857-1972.
 • Norsk stadnamnleksikon. Jørn Sandnes og Ola Stemshaug (útg.). Oslo 1976.
 • Þorvaldur Thoroddsen. Ferðabók. Skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898. I. Kaupmannahöfn 1913.

Myndir:

...