Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig búa hafmeyjar til aðrar hafmeyjar?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Það leynist ýmislegt í þessari spurningu enda höfum við aldrei heyrt um hafmenn meðal hafmeyja og það er líklega ástæðan fyrir því að spyrjandi orðar spurninguna á þennan hátt.

Að vísu er rétt að geta þess að marbendla þekkjum við til dæmis úr íslenskum þjóðsögum. Marbendlunum er stundum lýst þannig að þeir voru menn að ofan en selir að neðan. Okkur þykir ekki líklegt að hafmeyjar hafi mikið samneyti við þannig marbendla. Meðal annars vegna þess að hafmeyjar eru í fisklíki en selir lifa meðal annars á fiskmeti. Marbendlar sem eru að hálfu leyti selir eru þess vegna líklegri til að útrýma hafmeyjum en fjölga þeim.

Til þess að hafmeyjar gætu fjölgað sér með kynæxlun hefðu einhvers konar hafmenn þurft að koma að málum. Þeir virðast hins vegar ekki koma fyrir í þeim sögum af hafmeyjum sem eru algengastar. Hvernig í ósköpunum verða þá hafmeyjar til? Gæti verið að hafmeyjar geti á einhvern hátt búið til aðrar hafmeyjar? Eða verða hafmeyjar til með meyfæðingu sem er þekkt úr ýmsum trúarbrögðum, eins og til dæmis kristni?

Við þessum spurningum vitum við ekki svarið en rétt er að velta upp ýmsu sem gæti varpað ljósi á spurninguna.

Fyrir það fyrsta er ýmislegt í sögnum um hafmeyjar sem bendir til þess að þær verði ekki til með kynæxlun.


Höfðu hafmeyjar æxlunarfæri? Málverk af hafmeyju eftir John William Waterhouse (1849-1917).

Í nokkrum frásögum af sírenum, sem eru náskyldar hafmeyjum og að ýmsu leyti fyrirrennarar þeirra, er sagt frá tilurð þeirra. Sírenurnar voru í fyrstu raddfagrar söngmeyjar í fuglslíki að neðan. Fuglshaminn höfðu þær hlotið sem refsingu. Í sögunni af Jasoni og gullreyfinu segir að sírenurnar hafi reynt að seiða Jason til sín en þegar hann lét frekar heillast af Orfeifi, köstuðu þær sér í bræði í hafið og fengu þá sporð í stað fuglhamsins.

Önnur saga segir að sírenurnar hafi orðið til af blóðdropum fljótaguðs sem Herakles glímdi við.

Frekari fróðleik um uppruna sírena er hægt að sækja sér í svari Símonar Jóns Jóhannssonar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um hafmeyjar?

Uppruni sírenanna og sögur af þeim benda ekki til annars en að þær hafi verið skapaðar á yfirnáttúrlegan hátt og það er ekkert sem gefur til kynna að þær þurfi á kynæxlun að halda til að viðhalda stofninum.

Í þessu felst reyndar svarið við spurningunni: Hafmeyjar eru tilbúnar persónur en ekki raunverulegar. Þær eiga sér þess vegna ekki stofn (population) í líffræðilegri merkingu þess hugtaks. Hugtakið stofn notum við um lífverur en ekki um bókmenntapersónur, nema þá á yfirfærðan hátt. Það er ekkert að því að skrifa sögu um tilbúnar lífverur sem lifa á tilteknu svæði og æxlast innbyrðist, svona rétt eins og aðrir stofnar í náttúrunni. En þá erum við að blanda saman tveimur hugtakaheimum, annars vegar hinum ímyndaða og hins vegar hinum raunverulega.

Svarið við spurningunni er þess vegna þetta: Eftir því sem við best vitum þurfa hafmeyjar ekki að búa til aðrar hafmeyjar, hvorki með kynæxlun eða á annan hátt. Þær þurfa þess ekki vegna þess að þær eru tilbúnar persónur.

Að þessu leyti eru hafmeyjarnar ólíkar öðrum tilbúnum kynþætti kvenna úr bókmenntasögunni, en það eru svonefndar amasónur. Amasónurnar voru kvenþjóð, þekktar í fornöld fyrir hreysti í orustum og fyrir það að þeim var sérstaklega í nöp við karlmenn. Gríski sagnaritarinn Heródótos nefndi þær androktones sem merkir 'þær sem drepa menn'. Karlmenn fengu ekki að búa meðal amasónanna en einu sinni á ári fóru þær til nágrannaþjóðflokks og höfðu mök við karlmennina þar til að viðhalda stofninum. Þau sveinbörn sem fæddust síðan voru annað hvort drepin eða komið í hendur feðra sinna. Meybörnin voru hins vegar alin upp hjá mæðrum sínum.

Eitt umfjöllunarefni sagna af amasónunum er þess vegna einmitt hvernig samfélag sem samanstendur eingöngu af konum fer að því að viðhalda sér.

En þá vaknar auðvitað spurningin af hverju virðist ekkert vera fjallað um það í sögum um hafmeyjar? Við því er sennilega ekkert eitt rétt svar. Ein hugsanleg skýring er sú að hafmeyjarnar eru á mörkum mennskunnar. Þær eru hvorki dýr né menn. Efri hluti þeirra er í kvenmannslíki en sá neðri í fisklíki. Ekki er víst að menn hafi hugsað sér að þær hefðu mennsk æxlunarfæri. Kannski voru þær með gotrauf eins og aðrir fiskar? Og kannski hefðu sögurnar um hafmeyjar verið öðruvísi ef þeir hefðu verið í fisklíki að ofan en mennskar að neðan?

Heimildir og mynd:
  • John Block Friedman, The Monstrous Races in Medieval Art and Thought, Syracuse University Press, New York, 2000.
  • Greinin Mermaid á Wikipedia.org. Sótt 11.3.2008.
  • Greinin Amazons á Wikipedia.org. Sótt 11.3.2008.

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

11.3.2008

Spyrjandi

Margrét Finnbogadottir, f. 1995

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvernig búa hafmeyjar til aðrar hafmeyjar?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2008, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7219.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2008, 11. mars). Hvernig búa hafmeyjar til aðrar hafmeyjar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7219

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvernig búa hafmeyjar til aðrar hafmeyjar?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2008. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7219>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig búa hafmeyjar til aðrar hafmeyjar?
Það leynist ýmislegt í þessari spurningu enda höfum við aldrei heyrt um hafmenn meðal hafmeyja og það er líklega ástæðan fyrir því að spyrjandi orðar spurninguna á þennan hátt.

Að vísu er rétt að geta þess að marbendla þekkjum við til dæmis úr íslenskum þjóðsögum. Marbendlunum er stundum lýst þannig að þeir voru menn að ofan en selir að neðan. Okkur þykir ekki líklegt að hafmeyjar hafi mikið samneyti við þannig marbendla. Meðal annars vegna þess að hafmeyjar eru í fisklíki en selir lifa meðal annars á fiskmeti. Marbendlar sem eru að hálfu leyti selir eru þess vegna líklegri til að útrýma hafmeyjum en fjölga þeim.

Til þess að hafmeyjar gætu fjölgað sér með kynæxlun hefðu einhvers konar hafmenn þurft að koma að málum. Þeir virðast hins vegar ekki koma fyrir í þeim sögum af hafmeyjum sem eru algengastar. Hvernig í ósköpunum verða þá hafmeyjar til? Gæti verið að hafmeyjar geti á einhvern hátt búið til aðrar hafmeyjar? Eða verða hafmeyjar til með meyfæðingu sem er þekkt úr ýmsum trúarbrögðum, eins og til dæmis kristni?

Við þessum spurningum vitum við ekki svarið en rétt er að velta upp ýmsu sem gæti varpað ljósi á spurninguna.

Fyrir það fyrsta er ýmislegt í sögnum um hafmeyjar sem bendir til þess að þær verði ekki til með kynæxlun.


Höfðu hafmeyjar æxlunarfæri? Málverk af hafmeyju eftir John William Waterhouse (1849-1917).

Í nokkrum frásögum af sírenum, sem eru náskyldar hafmeyjum og að ýmsu leyti fyrirrennarar þeirra, er sagt frá tilurð þeirra. Sírenurnar voru í fyrstu raddfagrar söngmeyjar í fuglslíki að neðan. Fuglshaminn höfðu þær hlotið sem refsingu. Í sögunni af Jasoni og gullreyfinu segir að sírenurnar hafi reynt að seiða Jason til sín en þegar hann lét frekar heillast af Orfeifi, köstuðu þær sér í bræði í hafið og fengu þá sporð í stað fuglhamsins.

Önnur saga segir að sírenurnar hafi orðið til af blóðdropum fljótaguðs sem Herakles glímdi við.

Frekari fróðleik um uppruna sírena er hægt að sækja sér í svari Símonar Jóns Jóhannssonar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um hafmeyjar?

Uppruni sírenanna og sögur af þeim benda ekki til annars en að þær hafi verið skapaðar á yfirnáttúrlegan hátt og það er ekkert sem gefur til kynna að þær þurfi á kynæxlun að halda til að viðhalda stofninum.

Í þessu felst reyndar svarið við spurningunni: Hafmeyjar eru tilbúnar persónur en ekki raunverulegar. Þær eiga sér þess vegna ekki stofn (population) í líffræðilegri merkingu þess hugtaks. Hugtakið stofn notum við um lífverur en ekki um bókmenntapersónur, nema þá á yfirfærðan hátt. Það er ekkert að því að skrifa sögu um tilbúnar lífverur sem lifa á tilteknu svæði og æxlast innbyrðist, svona rétt eins og aðrir stofnar í náttúrunni. En þá erum við að blanda saman tveimur hugtakaheimum, annars vegar hinum ímyndaða og hins vegar hinum raunverulega.

Svarið við spurningunni er þess vegna þetta: Eftir því sem við best vitum þurfa hafmeyjar ekki að búa til aðrar hafmeyjar, hvorki með kynæxlun eða á annan hátt. Þær þurfa þess ekki vegna þess að þær eru tilbúnar persónur.

Að þessu leyti eru hafmeyjarnar ólíkar öðrum tilbúnum kynþætti kvenna úr bókmenntasögunni, en það eru svonefndar amasónur. Amasónurnar voru kvenþjóð, þekktar í fornöld fyrir hreysti í orustum og fyrir það að þeim var sérstaklega í nöp við karlmenn. Gríski sagnaritarinn Heródótos nefndi þær androktones sem merkir 'þær sem drepa menn'. Karlmenn fengu ekki að búa meðal amasónanna en einu sinni á ári fóru þær til nágrannaþjóðflokks og höfðu mök við karlmennina þar til að viðhalda stofninum. Þau sveinbörn sem fæddust síðan voru annað hvort drepin eða komið í hendur feðra sinna. Meybörnin voru hins vegar alin upp hjá mæðrum sínum.

Eitt umfjöllunarefni sagna af amasónunum er þess vegna einmitt hvernig samfélag sem samanstendur eingöngu af konum fer að því að viðhalda sér.

En þá vaknar auðvitað spurningin af hverju virðist ekkert vera fjallað um það í sögum um hafmeyjar? Við því er sennilega ekkert eitt rétt svar. Ein hugsanleg skýring er sú að hafmeyjarnar eru á mörkum mennskunnar. Þær eru hvorki dýr né menn. Efri hluti þeirra er í kvenmannslíki en sá neðri í fisklíki. Ekki er víst að menn hafi hugsað sér að þær hefðu mennsk æxlunarfæri. Kannski voru þær með gotrauf eins og aðrir fiskar? Og kannski hefðu sögurnar um hafmeyjar verið öðruvísi ef þeir hefðu verið í fisklíki að ofan en mennskar að neðan?

Heimildir og mynd:
  • John Block Friedman, The Monstrous Races in Medieval Art and Thought, Syracuse University Press, New York, 2000.
  • Greinin Mermaid á Wikipedia.org. Sótt 11.3.2008.
  • Greinin Amazons á Wikipedia.org. Sótt 11.3.2008.
...