Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvers vegna eru flestir sveitabæir á Íslandi hvítir með rauðu þaki?

Pétur H. Ármannsson og Hjörleifur Stefánsson

Málun þaka í sterkum lit á húsum hér á landi tengist án vafa almennri notkun bárujárns sem þakefnis. Galvanhúðað, bárótt þakjárn (bárujárn) var fyrst sett á húsþök í Reykjavík á árunum 1874-76. Notkun þess sem klæðningar á þök og veggi timburhúsa varð þó ekki almenn fyrr en eftir 1880.

Þessu annars hentuga þakefni fylgdi sá annmarki að nauðsynlegt er að mála það með reglulegu millibili til að hindra ryðmyndun. Í grein sem Valgarður Breiðfjörð smiður og kaupmaður ritaði í blaðið Reykvíking 1894 (Bárótta járnið) segir hann meðal annars nauðsynlegt „... að farfa járnið með sama farfa og lit og merkin á járninu eru. Það er einkennilegt, að allt bárótt þakjárn sem fyrst fluttist hingað, var merkt með rauðum stöfum.“[1]

Galvanhúðað, bárótt þakjárn (bárujárn) var fyrst sett á húsþök í Reykjavík á árunum 1874-76.

Það efni sem í lok 19. aldar og byrjun þeirra 20. sem best þótti verja járn gegn ryðmyndun var blýmenja sem var rauð á lit eða appelsínugul. Fljótlegast, ódýrast og einfaldast var að mála yfir blýmenju með svipuðum lit og þar sem áletrun á járninu var rauð hlaut rauður litur að vera svarið.

Vera kann að ofangreind ástæða sé skýring á útbreiðslu rauðs þaklitar á fyrstu árum bárujárns hér á landi og þar með kveikja að þeirri hefð sem smám saman festi sig í sessi. Um það verður þó ekkert fullyrt. Fleira kann að hafa haft áhrif, svo sem takmarkað framboð á litum í verslunum fram eftir 20. öld. Einnig geta efnafræðilegir eiginleikar rauða litarins haft sitt að segja, talið er að hann haldi sér betur en aðrir litir.

Bárujárn þurfti að verja gegn ryðmyndun. Undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. var blýmenja notuð til þess. Hún var rauð á lit eða appelsínugul. Einfaldast var að mála yfir blýmenju með svipuðum lit og þar sem áletrun á járninu var rauð hlaut rauður litur að vera svarið. Á myndinni sést bærinn Ytri-Hólmur.

Á sama hátt tengist hvítur litur á steyptum útveggjum því að ómáluð steypan þótti ekki fögur sem yfirborðsefni í óbreyttri mynd. Því var snemma farið að múrhúða og mála steinsteypuna og var þá hvíti liturinn algengastur.

Fram yfir miðja 20. öldina var svokallað snjósement notað til litunar á steinsteypu eða málunar. Það var sement með hvítu, duftkenndu litarefni, sem hrært var út í vatn og borið á steinsteypta veggi eins og málning. Þetta efni var flutt til landsins frá Englandi þar sem það kallaðist „Snowcement“.

Snjósement fékk nafn sitt af því að það var hvítt en nú á dögum fæst það í nokkrum litabrigðum. Skýringin á því hve mikið snjósement var notað liggur vafalítið í því hve ódýrt það var í samanburði við málningu.

Snjósement auglýst í tímaritinu Faxa árið 1953.

Húsameisturum og arkitektum á fyrri hluta 20. aldar þótti sóun að vera sífellt að mála steypuna og því leituðu þeir að varanlegri lausn sem í senn myndaði fallegt og viðhaldslítið yfirborð. Kunnasta dæmið er svonefnd steining, gerð úr kornóttum mulningi úr íslensku bergi, sem fyrst var notuð utan á Þjóðleikhúsið árið 1933 og var uppfinning Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Kannski er einfaldast að segja að sú hefð að mála hús að utan eigi sér rætur í eðli þeirra byggingarefna sem algengust voru hér á landi á 20. öld, bárujárns og steinsteypu, sem kölluðu á yfirborðmeðhöndlun til að verja þau gegn tæringu og ágangi vatns og vinda. Ekki eru einhlítar skýringar á því litavali sem algengast var fram eftir 20. öld.

Hvítir litir og rauð þök mynda skýra andstæðu við græna og brúna litatóna jarðar og draga því athygli að viðkomandi mannvirkjum. Mögulega hafa þessir litir öðlast gildi sem tákn um framfarir og velmegun á fyrri hluta 20. aldar í samanburði við dökka jarðarliti torfhúsa. Þannig tákn voru einnig hvítmáluð og glæsileg bæjarþil burstabæja frá 19. öld, svo sem prestsetrin að Laufási í Eyjafirði og Grenjaðarstað í Aðaldal.

Tilvísun:
  1. ^ Hjörleifur Stefánsson (ritstj.), Bárujárn: verkmenning og saga (Reykjavík, Minjavernd 1995), bls. 11.

Myndir:

Ólöf spurði:
Á ferðum mínum um landið hef ég tekið eftir því að afar algengt er að sveitabæir séu málaðir hvítir með rauðu þaki. Er einhver sérstök ástæða fyrir þessari litasamsetningu, eða er þetta einhvers konar hefð?

Höfundar

Pétur H. Ármannsson

arkitekt og sviðsstjóri á Minjastofnun Íslands

Útgáfudagur

2.9.2016

Spyrjandi

Auður Eggertsdóttir, Ragnar Sigurðarson, Ólöf Ingólfsdóttir

Tilvísun

Pétur H. Ármannsson og Hjörleifur Stefánsson. „Hvers vegna eru flestir sveitabæir á Íslandi hvítir með rauðu þaki?“ Vísindavefurinn, 2. september 2016. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=72361.

Pétur H. Ármannsson og Hjörleifur Stefánsson. (2016, 2. september). Hvers vegna eru flestir sveitabæir á Íslandi hvítir með rauðu þaki? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=72361

Pétur H. Ármannsson og Hjörleifur Stefánsson. „Hvers vegna eru flestir sveitabæir á Íslandi hvítir með rauðu þaki?“ Vísindavefurinn. 2. sep. 2016. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=72361>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna eru flestir sveitabæir á Íslandi hvítir með rauðu þaki?
Málun þaka í sterkum lit á húsum hér á landi tengist án vafa almennri notkun bárujárns sem þakefnis. Galvanhúðað, bárótt þakjárn (bárujárn) var fyrst sett á húsþök í Reykjavík á árunum 1874-76. Notkun þess sem klæðningar á þök og veggi timburhúsa varð þó ekki almenn fyrr en eftir 1880.

Þessu annars hentuga þakefni fylgdi sá annmarki að nauðsynlegt er að mála það með reglulegu millibili til að hindra ryðmyndun. Í grein sem Valgarður Breiðfjörð smiður og kaupmaður ritaði í blaðið Reykvíking 1894 (Bárótta járnið) segir hann meðal annars nauðsynlegt „... að farfa járnið með sama farfa og lit og merkin á járninu eru. Það er einkennilegt, að allt bárótt þakjárn sem fyrst fluttist hingað, var merkt með rauðum stöfum.“[1]

Galvanhúðað, bárótt þakjárn (bárujárn) var fyrst sett á húsþök í Reykjavík á árunum 1874-76.

Það efni sem í lok 19. aldar og byrjun þeirra 20. sem best þótti verja járn gegn ryðmyndun var blýmenja sem var rauð á lit eða appelsínugul. Fljótlegast, ódýrast og einfaldast var að mála yfir blýmenju með svipuðum lit og þar sem áletrun á járninu var rauð hlaut rauður litur að vera svarið.

Vera kann að ofangreind ástæða sé skýring á útbreiðslu rauðs þaklitar á fyrstu árum bárujárns hér á landi og þar með kveikja að þeirri hefð sem smám saman festi sig í sessi. Um það verður þó ekkert fullyrt. Fleira kann að hafa haft áhrif, svo sem takmarkað framboð á litum í verslunum fram eftir 20. öld. Einnig geta efnafræðilegir eiginleikar rauða litarins haft sitt að segja, talið er að hann haldi sér betur en aðrir litir.

Bárujárn þurfti að verja gegn ryðmyndun. Undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. var blýmenja notuð til þess. Hún var rauð á lit eða appelsínugul. Einfaldast var að mála yfir blýmenju með svipuðum lit og þar sem áletrun á járninu var rauð hlaut rauður litur að vera svarið. Á myndinni sést bærinn Ytri-Hólmur.

Á sama hátt tengist hvítur litur á steyptum útveggjum því að ómáluð steypan þótti ekki fögur sem yfirborðsefni í óbreyttri mynd. Því var snemma farið að múrhúða og mála steinsteypuna og var þá hvíti liturinn algengastur.

Fram yfir miðja 20. öldina var svokallað snjósement notað til litunar á steinsteypu eða málunar. Það var sement með hvítu, duftkenndu litarefni, sem hrært var út í vatn og borið á steinsteypta veggi eins og málning. Þetta efni var flutt til landsins frá Englandi þar sem það kallaðist „Snowcement“.

Snjósement fékk nafn sitt af því að það var hvítt en nú á dögum fæst það í nokkrum litabrigðum. Skýringin á því hve mikið snjósement var notað liggur vafalítið í því hve ódýrt það var í samanburði við málningu.

Snjósement auglýst í tímaritinu Faxa árið 1953.

Húsameisturum og arkitektum á fyrri hluta 20. aldar þótti sóun að vera sífellt að mála steypuna og því leituðu þeir að varanlegri lausn sem í senn myndaði fallegt og viðhaldslítið yfirborð. Kunnasta dæmið er svonefnd steining, gerð úr kornóttum mulningi úr íslensku bergi, sem fyrst var notuð utan á Þjóðleikhúsið árið 1933 og var uppfinning Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Kannski er einfaldast að segja að sú hefð að mála hús að utan eigi sér rætur í eðli þeirra byggingarefna sem algengust voru hér á landi á 20. öld, bárujárns og steinsteypu, sem kölluðu á yfirborðmeðhöndlun til að verja þau gegn tæringu og ágangi vatns og vinda. Ekki eru einhlítar skýringar á því litavali sem algengast var fram eftir 20. öld.

Hvítir litir og rauð þök mynda skýra andstæðu við græna og brúna litatóna jarðar og draga því athygli að viðkomandi mannvirkjum. Mögulega hafa þessir litir öðlast gildi sem tákn um framfarir og velmegun á fyrri hluta 20. aldar í samanburði við dökka jarðarliti torfhúsa. Þannig tákn voru einnig hvítmáluð og glæsileg bæjarþil burstabæja frá 19. öld, svo sem prestsetrin að Laufási í Eyjafirði og Grenjaðarstað í Aðaldal.

Tilvísun:
  1. ^ Hjörleifur Stefánsson (ritstj.), Bárujárn: verkmenning og saga (Reykjavík, Minjavernd 1995), bls. 11.

Myndir:

Ólöf spurði:
Á ferðum mínum um landið hef ég tekið eftir því að afar algengt er að sveitabæir séu málaðir hvítir með rauðu þaki. Er einhver sérstök ástæða fyrir þessari litasamsetningu, eða er þetta einhvers konar hefð?

...