Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Gula pressan dregur nafn sitt af skopmyndapersónu sem kölluð var The Yellow Kid og birtist í bandarískum dagblöðum í lok 19. aldar.
Árið 1895 teiknaði Richard Felton Outcault teiknimyndaseríu fyrir dagblaðið New York World sem var í eigu Joseph Pulitzer. Serían hét Hogan's Alley og þar mátti sjá fremur ófríðan, nauðasköllóttan krakka með útstæð eyru sem alltaf gekk um á náttserk. Náttserkurinn var upphaflega í mismunandi litum en í janúar 1896 varð hann gulur og frá þeim tíma var krakkinn kallaður The Yellow Kid þó Outcault gæfi honum nafnið Mickey Dugan.
Skopmyndapersónan The Yellow Kid sem gula pressan dregur heiti sitt af.
Samkeppnin á milli dagblaða í New York var harðvítug á þessum árum og öllum brögðum var beitt til að auka söluna. Í október 1896 náði William Randolph Hearst að laða Outcault yfir á dagblað sitt, New York Journal. Annar teiknari hélt áfram að teikna Hogan's Alley fyrir New York World um tíma en seríur með The Yellow Kid juku vinsældir New York Journal. Á þessum árum voru jafnvel markaðsettir hlutir, til dæmis lyklakippur, með myndum af The Yellow Kid.
Tímabil gulu pressunnar stóð frá 1890 til 1900 en sumir telja gulu pressuna hafa verið ríkjandi frá dögum bandarísku borgarastyrjaldarinnar, 1861-1865, til 1914 er fyrri heimstyrjöldin hófst. Blaðamennska á þessum árum einkenndist af æsifréttum, og jafnvel upplognum fréttum. Greinar um framhjáhöld, kynlíf og glæpi voru allsráðandi.
Um aldamótin 1900 var fólk búið að fá nóg af æsifréttum og krafðist aukinnar fagmennsku á dagblöðunum. Í kjölfarið hófst kennsla í blaðamennsku við bandaríska háskóla, meðal annars við Wisconsin-háskóla og Missouri-háskóla, og Joseph Pulitzer fjármagnaði sjálfur hinn virta blaðamannaskóla í New York, Columbia University Graduate School of Journalism.
Mynd:
Guðbjörg Hildur Kolbeins. „Af hverju er talað um gulu pressuna?“ Vísindavefurinn, 7. apríl 2008, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7330.
Guðbjörg Hildur Kolbeins. (2008, 7. apríl). Af hverju er talað um gulu pressuna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7330
Guðbjörg Hildur Kolbeins. „Af hverju er talað um gulu pressuna?“ Vísindavefurinn. 7. apr. 2008. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7330>.