Sólin Sólin Rís 09:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:08 • Síðdegis: 19:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:57 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:08 • Síðdegis: 19:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:57 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju heitir Tröllaskagi þessu nafni?

Hallgrímur J. Ámundason

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Skaginn mikli milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar gengur undir nafninu Tröllaskagi á seinni tímum en nafnið er ekki ýkja gamalt. Merkilegt er að bæði Tröllaskagi og Flateyjarskagi hafa ekki haft sérstök nöfn frá fornu fari. Nafn Flateyjarskaga er raunar ekki nema nokkurra áratuga gamalt en nafn Tröllaskaga talsvert eldra. Þriðji norðlenski skaginn, sá milli Húnaflóa og Skagafjarðar, heitir Skagi, stutt og laggott.

Tröllaskagi er skaginn á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

Hannes Pétursson ritar stutta grein um upphaf nafnsins í Skagfirðingabók 17 (Rit Sögufélags Skagfirðinga) frá 1988. Þar segir:
Tröllaskagi heitir í máli margra hið hrikalega fjalllendi milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Eldri menn sem nú eru uppi þar um slóðir, heyrðu aldrei þetta örnefni í æsku sinni, né heldur virðist því bregða fyrir í gömlum heimildum. Helzt er að sjá sem skagi þessi hinn mikli hafi ekki borið neitt sérstakt nafn þar til síðustu áratugi, að farið er að nefna hann Tröllaskaga. Það örnefni er vissulega við hæfi og kemur líka í góðar þarfir ... (bls. 92).

Hannes telur Pálma Hannesson upphafsmann þessa nafns. Heimildarmaður hans fyrir því er Steindór Steindórsson frá Hlöðum sem hafði séð nafninu bregða fyrir í pappírum Pálma kringum 1927 í Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Steindór taldi fullvíst að nafnið væri smíðað af Pálma sjálfum.

Í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 2000, Í strandbyggðum norðanlands og vestra, telur Valgarður Egilsson nafnið stafa frá Helga Pjeturss jarðfræðingi (bls. 122-123). Það sé um hundrað ára gamalt, sem sé frá um 1900.

Steindór Steindórsson frá Hlöðum ritar um þetta efni í Morgunblaðinu 9. ágúst 1989. Hann ítrekar að hann telji nafnið komið frá Pálma en nefnir þó einnig að sú sögn sé til að nafnið stafi frá Helga. Steindór bendir þó á að nafnið komi ekki fyrir í ritum Helga sjálfs um þetta svæði, þar noti hann önnur nöfn, nefnilega Akureyrarskaga og Miðskaga. Hvorugt nafnið festist þó í sessi. Steindór er ekki fráhverfur því að nota nöfnin Skagi, Miðskagi og Austurskagi um norðlensku skagana þrjá. Á síðustu árum hafa þó nöfnin Tröllaskagi og Flateyjarskagi fest sig í sessi en nafnið á Skaga er fornt (enda er Skagafjörður kenndur við hann).

Matthías Jochumsson lýsti Tröllaskaga þannig að svo virtist sem „jötnahendur hefðu rótað þar öllu landslagi og bylt hverju ofan á annað, urðum, klaka og klungri“.

Í tímaritinu Stefni, 4. árg. 1896-1897 (15. tbl., bls. 58) lýsir Matthías Jochumsson landslaginu á Tröllaskaga og hefur sumt eftir Stefáni Stefánssyni skólameistara. „Eru þessi fjöll afar-hrikaleg að sjá þegar upp á þau er komið, og svo allur sá fjallgarður, sem deilir Skagafjörð og Eyjafjörð.“ Og þegar kæmi fram á fjöllin:

væri svo að sjá, sem jötnahendur hefðu rótað þar öllu landslagi og bylt hverju ofan á annað, urðum, klaka og klungri, og enginn væri þar gróður. Lítur svo út sem náttúran sjálf hafi þar nýlega gengið berserksgang og liggi nú berháttuð í rúminu af gigt og ofreynslu! En því indælla er blessað lífið og frjósemin niðri í dölunum; hvergi er náttúran fegri og dýrðlegri en þar sem mest er mótsetningin fyrir mannsauganu.

Rithöfundurinn Sjón tekur skýringu Matthíasar skrefinu lengra. Í upphafi bókarinnar Með titrandi tár frá 2001 (sem seinna er miðhlutinn af verkinu Codex 1962 sem kom út fyrir jólin 2016) er dálítil örnefnasaga. Þar er sagt frá berserki
sem var svo slæmur í skapi að hann þoldi ekkert kvikt nálægt sér. Fyrst í stað lét hann nægja sér að ráðast á lífið í kringum sig – þetta var í sunnanverðri Asíu – en þegar hann var búinn að drepa allt sem hann náði tilþá tók hann sig upp með það litla sem hann átti, klíputöng á stærð við fullvaxið eikartré og hænsnakofa á hjólum. ... Jæja, af ferðum berserksins er það að segja að hann ruddist yfir álfuna með hænsnakofann í eftirdragi og klíputöngina á lofti, lemjandi og kremjandi allt sem á vegi hans varð. Hann stökk yfir Bospórussund og klofaði upp Evrópu. (209)

Berserkurinn sést næst í grennd við ósa Saxelfar og vaknar einn morguninn á laukakri í Neðra-Saxlandi. Það rennur á hann æði þegar hann reynir að afhýða lauk og leikurinn berst norður á bóginn:

Berserkurinn trylltist. Hann tók til fótanna, á villtum flótta frá sínum innri manni, og spyrnti sér í loft upp af hæðinni og endasentist í stórum boga yfir kofaþyrpinguna, alla leið norður undir heimskaut þar sem hann magalenti svo harkalega að hvert einasta bein í honum brotnaði mélinu smærra. Þar lá hann hátt á fertugasta ár og rotnaði, dýralífi öllu til stórrar blessunar. Hryggurinn skagar upp úr hafinu og heitir þar Tröllaskagi. (Sjón. Codex 1962, bls. 215-216. JPV útgáfa, Reykjavík 2016.)

Það er skemmtilegt, og varla tilviljun, að lýsingar manna (Matthíasar og Sjóns) á skaganum séu báðar af berserkjakyni og tóni svona vel við nafnið sem að endingu hefur orðið ofan á, Tröllaskagi.

Myndir:


Þetta svar birtist fyrst sem pistill hjá Árnastofnun og er birt á Vísindavefnum með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Hallgrímur J.  Ámundason

fyrrverandi verkefnisstjóri nafnfræðisviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

29.5.2017

Síðast uppfært

1.6.2017

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Hallgrímur J. Ámundason. „Af hverju heitir Tröllaskagi þessu nafni?“ Vísindavefurinn, 29. maí 2017, sótt 3. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73499.

Hallgrímur J. Ámundason. (2017, 29. maí). Af hverju heitir Tröllaskagi þessu nafni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73499

Hallgrímur J. Ámundason. „Af hverju heitir Tröllaskagi þessu nafni?“ Vísindavefurinn. 29. maí. 2017. Vefsíða. 3. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73499>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju heitir Tröllaskagi þessu nafni?
Skaginn mikli milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar gengur undir nafninu Tröllaskagi á seinni tímum en nafnið er ekki ýkja gamalt. Merkilegt er að bæði Tröllaskagi og Flateyjarskagi hafa ekki haft sérstök nöfn frá fornu fari. Nafn Flateyjarskaga er raunar ekki nema nokkurra áratuga gamalt en nafn Tröllaskaga talsvert eldra. Þriðji norðlenski skaginn, sá milli Húnaflóa og Skagafjarðar, heitir Skagi, stutt og laggott.

Tröllaskagi er skaginn á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

Hannes Pétursson ritar stutta grein um upphaf nafnsins í Skagfirðingabók 17 (Rit Sögufélags Skagfirðinga) frá 1988. Þar segir:
Tröllaskagi heitir í máli margra hið hrikalega fjalllendi milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Eldri menn sem nú eru uppi þar um slóðir, heyrðu aldrei þetta örnefni í æsku sinni, né heldur virðist því bregða fyrir í gömlum heimildum. Helzt er að sjá sem skagi þessi hinn mikli hafi ekki borið neitt sérstakt nafn þar til síðustu áratugi, að farið er að nefna hann Tröllaskaga. Það örnefni er vissulega við hæfi og kemur líka í góðar þarfir ... (bls. 92).

Hannes telur Pálma Hannesson upphafsmann þessa nafns. Heimildarmaður hans fyrir því er Steindór Steindórsson frá Hlöðum sem hafði séð nafninu bregða fyrir í pappírum Pálma kringum 1927 í Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Steindór taldi fullvíst að nafnið væri smíðað af Pálma sjálfum.

Í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 2000, Í strandbyggðum norðanlands og vestra, telur Valgarður Egilsson nafnið stafa frá Helga Pjeturss jarðfræðingi (bls. 122-123). Það sé um hundrað ára gamalt, sem sé frá um 1900.

Steindór Steindórsson frá Hlöðum ritar um þetta efni í Morgunblaðinu 9. ágúst 1989. Hann ítrekar að hann telji nafnið komið frá Pálma en nefnir þó einnig að sú sögn sé til að nafnið stafi frá Helga. Steindór bendir þó á að nafnið komi ekki fyrir í ritum Helga sjálfs um þetta svæði, þar noti hann önnur nöfn, nefnilega Akureyrarskaga og Miðskaga. Hvorugt nafnið festist þó í sessi. Steindór er ekki fráhverfur því að nota nöfnin Skagi, Miðskagi og Austurskagi um norðlensku skagana þrjá. Á síðustu árum hafa þó nöfnin Tröllaskagi og Flateyjarskagi fest sig í sessi en nafnið á Skaga er fornt (enda er Skagafjörður kenndur við hann).

Matthías Jochumsson lýsti Tröllaskaga þannig að svo virtist sem „jötnahendur hefðu rótað þar öllu landslagi og bylt hverju ofan á annað, urðum, klaka og klungri“.

Í tímaritinu Stefni, 4. árg. 1896-1897 (15. tbl., bls. 58) lýsir Matthías Jochumsson landslaginu á Tröllaskaga og hefur sumt eftir Stefáni Stefánssyni skólameistara. „Eru þessi fjöll afar-hrikaleg að sjá þegar upp á þau er komið, og svo allur sá fjallgarður, sem deilir Skagafjörð og Eyjafjörð.“ Og þegar kæmi fram á fjöllin:

væri svo að sjá, sem jötnahendur hefðu rótað þar öllu landslagi og bylt hverju ofan á annað, urðum, klaka og klungri, og enginn væri þar gróður. Lítur svo út sem náttúran sjálf hafi þar nýlega gengið berserksgang og liggi nú berháttuð í rúminu af gigt og ofreynslu! En því indælla er blessað lífið og frjósemin niðri í dölunum; hvergi er náttúran fegri og dýrðlegri en þar sem mest er mótsetningin fyrir mannsauganu.

Rithöfundurinn Sjón tekur skýringu Matthíasar skrefinu lengra. Í upphafi bókarinnar Með titrandi tár frá 2001 (sem seinna er miðhlutinn af verkinu Codex 1962 sem kom út fyrir jólin 2016) er dálítil örnefnasaga. Þar er sagt frá berserki
sem var svo slæmur í skapi að hann þoldi ekkert kvikt nálægt sér. Fyrst í stað lét hann nægja sér að ráðast á lífið í kringum sig – þetta var í sunnanverðri Asíu – en þegar hann var búinn að drepa allt sem hann náði tilþá tók hann sig upp með það litla sem hann átti, klíputöng á stærð við fullvaxið eikartré og hænsnakofa á hjólum. ... Jæja, af ferðum berserksins er það að segja að hann ruddist yfir álfuna með hænsnakofann í eftirdragi og klíputöngina á lofti, lemjandi og kremjandi allt sem á vegi hans varð. Hann stökk yfir Bospórussund og klofaði upp Evrópu. (209)

Berserkurinn sést næst í grennd við ósa Saxelfar og vaknar einn morguninn á laukakri í Neðra-Saxlandi. Það rennur á hann æði þegar hann reynir að afhýða lauk og leikurinn berst norður á bóginn:

Berserkurinn trylltist. Hann tók til fótanna, á villtum flótta frá sínum innri manni, og spyrnti sér í loft upp af hæðinni og endasentist í stórum boga yfir kofaþyrpinguna, alla leið norður undir heimskaut þar sem hann magalenti svo harkalega að hvert einasta bein í honum brotnaði mélinu smærra. Þar lá hann hátt á fertugasta ár og rotnaði, dýralífi öllu til stórrar blessunar. Hryggurinn skagar upp úr hafinu og heitir þar Tröllaskagi. (Sjón. Codex 1962, bls. 215-216. JPV útgáfa, Reykjavík 2016.)

Það er skemmtilegt, og varla tilviljun, að lýsingar manna (Matthíasar og Sjóns) á skaganum séu báðar af berserkjakyni og tóni svona vel við nafnið sem að endingu hefur orðið ofan á, Tröllaskagi.

Myndir:


Þetta svar birtist fyrst sem pistill hjá Árnastofnun og er birt á Vísindavefnum með góðfúslegu leyfi.

...