Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er orðið fyrirfram/fyrir fram skrifað í einu eða tveimur orðum? Íslenskukennarar í MR og Orðabók Háskólans virðast ekki vera sammála um það.
Í auglýsingu um íslenska stafsetningu, sem birt var í Stjórnartíðindum B, nr. 132/1974, stendur í 37. grein:
Þegar atviksorð er til orðið úr smáorðum, skal farið eftir uppruna, þ. e. hvert „orð“ ritað út af fyrir sig. Dæmi: enn þá, enn fremur, hér með, á milli, í kringum, með fram, fyrir fram.
Þarna er tekið fram að fyrir fram skuli ritað í tveimur orðum.
Í Réttritunarorðabók Námsgagnastofnunar og Íslenskrar málnefndar, sem gefin var út í fyrsta sinn 1989, er tekið mið af fyrrnefndri auglýsingu. Á blaðsíðu 38 er flettiorðið fyrir fram og aftan við stendur: „skal rita sem tvö orð.“
Í söfnum Orðabókar Háskólans eru dæmi um fyrir fram bæði í einu og tveimur orðum. Það er vegna þess að Orðabókin safnar dæmum um orð og notkun þeirra eins og þau birtast á prenti en tekur ekki afstöðu til stafsetningar þeirra.
Þótt skýrt sé tekið fram í auglýsingunni að rita skuli fyrir fram í tveimur orðum er rithátturinn á því orði og öðrum af svipuðu tagi mjög á reiki. Í Íslenskri orðabók, sem gefin var út af Menningarsjóði 1983, er fyrirfram til dæmis skrifað í einu orði (bls. 255). Réttara er þó að halda sig við auglýstar stafsetningarreglur.
Guðrún Kvaran. „Hvort á að skrifa fyrirfram eða fyrir fram?“ Vísindavefurinn, 8. ágúst 2000, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=739.
Guðrún Kvaran. (2000, 8. ágúst). Hvort á að skrifa fyrirfram eða fyrir fram? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=739
Guðrún Kvaran. „Hvort á að skrifa fyrirfram eða fyrir fram?“ Vísindavefurinn. 8. ágú. 2000. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=739>.