Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver var fyrsti leikari Íslands?

Magnús Þór Þorbergsson

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hver var fyrsti leikari Íslands og getur þú sagt mér eitthvað frá honum eða henni?

Hvað gerir einstakling að leikara? Er það sá sem hefur viðurværi sitt af leiklist? Eða sá sem hefur menntun á sviði leiklistar? Það er varla fyrr en með opnun Þjóðleikhússins árið 1950 sem leikarar gátu haft viðurværi af list sinni á Íslandi og fyrir þann tíma höfðu aðeins fáir einstaklingar öðlast formlega menntun á sviði leiklistar. Engu að síður höfðu allmargir öðlast viðurkenningu og aðdáun sem leikarar allt frá lokum nítjándu aldar, þrátt fyrir að þurfa að sinna list sinni í hjáverkum og hafa aldrei öðlast formlega menntun á sínu sviði.

Almennt má segja að leiksýningar hafi hafist á Íslandi undir lok átjándu aldar með herranætursýningum skólapilta í Hólavallaskóla. Þær sýningar voru þó ekki aðgengilegar almenningi heldur aðeins liður í skemmtanahaldi skólapilta og vart hægt að segja að þátttakendur í sýningunum hafi litið á sig sem leikara eða að þeir hafi séð fyrir sér frama á því sviði.

Svipaða sögu má segja af þátttakendum í fyrstu opinberu leiksýningum, sem fram fóru í Reykjavík um miðja nítjándu öld, og raunar í flestum sýningum fram undir lok aldarinnar. Þó leiksýningar hafi verið álitnar mikilvægar jafnt til skemmtunar, uppfræðslu og göfgunar áhorfenda, var leikara sjaldnast getið í umfjöllun blaða um þessar sýningar. Leiklistarstarfsemi var ekki í föstum skorðum og því vart um að ræða samfelldan feril einstakra þátttakenda, þó sumir hafi tekið þátt í sýningum um nokkurra ára skeið.

Þegar líða tók á nítjándu öldina færðist þó í vöxt að þeir sem fram úr þóttu skara í leiksýningum fengu svolitla umsögn í blöðum. Þannig var til dæmis sagt um Morten Hansen (1855-1923), prestaskólanema og síðar skólastjóra, í Þjóðólfi í júlí 1886 að það „vita allir, hve ljett hr. Morten Hansen á með að fá áhorfendur til að hlæja.“ Leikferill Mortens Hansen varð þó ekki langur. Eftir að hann var ráðinn skólastjóri árið 1890 steig hann aðeins stopult á leiksviðið.

Stefanía Guðmundsdóttir þótti strax í fyrstu hlutverkum sínum um sextán ára aldur sýna meiri leikhæfileika en íslenskir áhorfendur voru vanir að upplifa. Myndin er af Stefaníu og Árna Eiríkssyni í hlutverkum sínum úr Lénharði fógeta frá árinu 1913.

Upp úr því tók hins vegar að myndast nokkur hópur fólks sem bæði vakti athygli fyrir leik sinn og kom margt til með að eiga langan feril á leiksviðinu. Meðal þeirra má nefna Kristján Ó. Þorgrímsson (1857-1915) bóksala og bókaútgefanda, sem tekið hafði þátt í leiksýningum í Reykjavík frá árinu 1881, Árna Eiríksson (1869-1917) verslunarmann, sem fyrst steig á leiksvið árið 1886, og Stefaníu Guðmundsdóttur (1876-1926), en hún þótti strax í fyrstu hlutverkum sínum um sextán ára aldur sýna meiri leikhæfileika en íslenskir áhorfendur voru vanir að upplifa.

Þau Kristján, Árni og Stefanía voru meðal nítján stofnfélaga Leikfélags Reykjavíkur árið 1897, en strax á fyrstu árum þess var ljóst að það naut nokkurrar sérstöðu. Leikarar í sýningum félagsins fengu frá fyrstu tíð greitt fyrir sýningar, þó þær greiðslur dygðu hvergi nærri fyrir framfærslu. Eftir tvö leikár fékk Leikfélag Reykjavíkur árlegan styrk til starfseminnar frá ríki og borg og umfjöllun blaða um sýningar þess sýnir að Leikfélag Reykjavíkur öðlaðist nokkuð fljótt stöðu eins konar þjóðleikhúss. Helstu leikarar félagsins nutu viðurkenningar sem leikarar í samfélaginu en jafnframt voru gerðar til þeirra meiri kröfur en til þátttakenda í öðrum leikfélögum á landinu.

Segja má að lítill kjarni félaga í Leikfélagi Reykjavíkur hafi myndað fyrstu kynslóð leikara á Íslandi. Af stofnendum félagsins áttu, auk þeirra Árna, Stefaníu og Kristjáns, þau Gunnþórunn Halldórsdóttir (1872-1959) og Friðfinnur Guðjónsson (1870-1955) langan feril sem leikarar og voru þau einu úr þessari fyrstu kynslóð leikara sem tóku þátt í opnunarsýningum Þjóðleikhússins árið 1950. Á fyrstu árum Leikfélagsins bættist í þennan fyrsta hóp leikara og meðal þeirra helstu mætti nefna Jens B. Waage (1873-1938), Helga Helgason (1876-1950) og systurnar Emilíu (1884-1939) og Guðrúnu (1882-1968) Indriðadætur.

Friðfinnur Guðjónsson lék hátt í 150 hlutverk á sínum 60 ára leikferli. Úr myndasafni frá starfi Leikfélags Reykjavíkur í tímaritinu Vikunni árið 1947.

Þessir helstu leikarar félagsins léku fjölda hlutverka á sínum ferli. Kristján Ó. Þorgrímsson lék um 50 hlutverk og Helgi Helgason um 60, Stefanía Guðmundsdóttir, Gunnþórunn Halldórsdóttir og Jens Waage léku ríflega 70 hlutverk, Emilía og Guðrún Indriðadætur yfir 80 og hlutverk Árna Eiríkssonar urðu nálægt 90. Metið á þó tvímælalaust Friðfinnur Guðjónsson, sem lék hátt í 150 hlutverk á sínum 60 ára leikferli.

Þessi hlutverkafjöldi er ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að þessi fyrsta kynslóð leikara hafði viðurværi sitt af öðrum störfum og sinnti leiklist aðeins í hjáverkum. Fulltrúar vaxandi borgarastéttar voru áberandi meðal félaga í Leikfélagi Reykjavíkur, sem margir voru verslunarmenn, bankamenn, embættismenn eða húsfreyjur. Sumir þeirra hurfu af leiksviðinu vegna annarra starfa. Til dæmi hætti Kristján Ó. Þorgrímsson nær alfarið að leika eftir að hann var útnefndur konsúll Svíþjóðar árið 1907, Jens B. Waage hvarf af leiksviðinu 1920, sama ár og hann tók við stöðu bankastjóra Íslandsbanka, og Helgi Helgason sneri sér alfarið að verslunarrekstri árið 1923.

Að námi loknu hélt Anna kyrru fyrir í Danmörku og starfaði þar sem leikkona, meðal annars við Konunglega leikhúsið. Myndin er úr verkinu Heilög Jóhanna, sem sett var á svið í Þjóðleikhúsinu 1951.

Enginn úr þessari fyrstu kynslóð leikara sótti sér formlega menntun í list sinni, þó sum þeirra, til dæmis Stefanía Guðmundsdóttir og Guðrún Indriðadóttir, hafi sótt tíma hjá dönskum leikurum í Kaupmannahöfn. Það var ekki fyrr en 1925 sem fyrstu Íslendingarnir héldu utan og hófu nám við skóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn, þau Haraldur Björnsson (1891-1967) og Anna Borg (1903-1963). Anna var dóttir Stefaníu Guðmundsdóttur og hafði svo að segja alist upp innan Leikfélags Reykjavíkur, en Haraldur bjó á Akureyri og hafði starfað með Leikfélagi Akureyrar, sem stofnað hafði verið 1917. Þau luku námi 1927 og var lokaverkefni þeirra atriði úr Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar. Að námi loknu hélt Anna kyrru fyrir í Danmörku og starfaði þar sem leikkona, meðal annars við Konunglega leikhúsið, en Haraldur hélt heim og varð eftir nokkur átök við Leikfélag Reykjavíkur lykilmaður í starfi Leikfélagins næstu tvo áratugina og síðan við Þjóðleikhúsið, bæði sem leikari og leikstjóri.

Þessir einstaklingar sem hér hafa verið nefndir teljast óneitanlega til fyrstu íslensku leikaranna.

Heimildir og frekara lesefni:
  • Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist II: Listin (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1996).
  • Magnús Þór Þorbergsson, ‘A Stage for the Nation: Nation, Class, Identity and the Shaping of a Theatrical Field in Iceland 1850-1930’, doktorsritgerð, Háskóli Íslands, 2017.
  • Jón Viðar Jónsson, Leyndarmál frú Stefaníu: Stefanía Guðmundsdóttir leikkona, samtíð og samferðamenn (Reykjavík: Mál og menning, 1997).

Myndir:

Höfundur

Magnús Þór Þorbergsson

doktor í almennri bókmenntafræði

Útgáfudagur

30.10.2017

Spyrjandi

Karen Dís Hafliðadóttir

Tilvísun

Magnús Þór Þorbergsson. „Hver var fyrsti leikari Íslands?“ Vísindavefurinn, 30. október 2017. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=74424.

Magnús Þór Þorbergsson. (2017, 30. október). Hver var fyrsti leikari Íslands? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=74424

Magnús Þór Þorbergsson. „Hver var fyrsti leikari Íslands?“ Vísindavefurinn. 30. okt. 2017. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=74424>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var fyrsti leikari Íslands?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hver var fyrsti leikari Íslands og getur þú sagt mér eitthvað frá honum eða henni?

Hvað gerir einstakling að leikara? Er það sá sem hefur viðurværi sitt af leiklist? Eða sá sem hefur menntun á sviði leiklistar? Það er varla fyrr en með opnun Þjóðleikhússins árið 1950 sem leikarar gátu haft viðurværi af list sinni á Íslandi og fyrir þann tíma höfðu aðeins fáir einstaklingar öðlast formlega menntun á sviði leiklistar. Engu að síður höfðu allmargir öðlast viðurkenningu og aðdáun sem leikarar allt frá lokum nítjándu aldar, þrátt fyrir að þurfa að sinna list sinni í hjáverkum og hafa aldrei öðlast formlega menntun á sínu sviði.

Almennt má segja að leiksýningar hafi hafist á Íslandi undir lok átjándu aldar með herranætursýningum skólapilta í Hólavallaskóla. Þær sýningar voru þó ekki aðgengilegar almenningi heldur aðeins liður í skemmtanahaldi skólapilta og vart hægt að segja að þátttakendur í sýningunum hafi litið á sig sem leikara eða að þeir hafi séð fyrir sér frama á því sviði.

Svipaða sögu má segja af þátttakendum í fyrstu opinberu leiksýningum, sem fram fóru í Reykjavík um miðja nítjándu öld, og raunar í flestum sýningum fram undir lok aldarinnar. Þó leiksýningar hafi verið álitnar mikilvægar jafnt til skemmtunar, uppfræðslu og göfgunar áhorfenda, var leikara sjaldnast getið í umfjöllun blaða um þessar sýningar. Leiklistarstarfsemi var ekki í föstum skorðum og því vart um að ræða samfelldan feril einstakra þátttakenda, þó sumir hafi tekið þátt í sýningum um nokkurra ára skeið.

Þegar líða tók á nítjándu öldina færðist þó í vöxt að þeir sem fram úr þóttu skara í leiksýningum fengu svolitla umsögn í blöðum. Þannig var til dæmis sagt um Morten Hansen (1855-1923), prestaskólanema og síðar skólastjóra, í Þjóðólfi í júlí 1886 að það „vita allir, hve ljett hr. Morten Hansen á með að fá áhorfendur til að hlæja.“ Leikferill Mortens Hansen varð þó ekki langur. Eftir að hann var ráðinn skólastjóri árið 1890 steig hann aðeins stopult á leiksviðið.

Stefanía Guðmundsdóttir þótti strax í fyrstu hlutverkum sínum um sextán ára aldur sýna meiri leikhæfileika en íslenskir áhorfendur voru vanir að upplifa. Myndin er af Stefaníu og Árna Eiríkssyni í hlutverkum sínum úr Lénharði fógeta frá árinu 1913.

Upp úr því tók hins vegar að myndast nokkur hópur fólks sem bæði vakti athygli fyrir leik sinn og kom margt til með að eiga langan feril á leiksviðinu. Meðal þeirra má nefna Kristján Ó. Þorgrímsson (1857-1915) bóksala og bókaútgefanda, sem tekið hafði þátt í leiksýningum í Reykjavík frá árinu 1881, Árna Eiríksson (1869-1917) verslunarmann, sem fyrst steig á leiksvið árið 1886, og Stefaníu Guðmundsdóttur (1876-1926), en hún þótti strax í fyrstu hlutverkum sínum um sextán ára aldur sýna meiri leikhæfileika en íslenskir áhorfendur voru vanir að upplifa.

Þau Kristján, Árni og Stefanía voru meðal nítján stofnfélaga Leikfélags Reykjavíkur árið 1897, en strax á fyrstu árum þess var ljóst að það naut nokkurrar sérstöðu. Leikarar í sýningum félagsins fengu frá fyrstu tíð greitt fyrir sýningar, þó þær greiðslur dygðu hvergi nærri fyrir framfærslu. Eftir tvö leikár fékk Leikfélag Reykjavíkur árlegan styrk til starfseminnar frá ríki og borg og umfjöllun blaða um sýningar þess sýnir að Leikfélag Reykjavíkur öðlaðist nokkuð fljótt stöðu eins konar þjóðleikhúss. Helstu leikarar félagsins nutu viðurkenningar sem leikarar í samfélaginu en jafnframt voru gerðar til þeirra meiri kröfur en til þátttakenda í öðrum leikfélögum á landinu.

Segja má að lítill kjarni félaga í Leikfélagi Reykjavíkur hafi myndað fyrstu kynslóð leikara á Íslandi. Af stofnendum félagsins áttu, auk þeirra Árna, Stefaníu og Kristjáns, þau Gunnþórunn Halldórsdóttir (1872-1959) og Friðfinnur Guðjónsson (1870-1955) langan feril sem leikarar og voru þau einu úr þessari fyrstu kynslóð leikara sem tóku þátt í opnunarsýningum Þjóðleikhússins árið 1950. Á fyrstu árum Leikfélagsins bættist í þennan fyrsta hóp leikara og meðal þeirra helstu mætti nefna Jens B. Waage (1873-1938), Helga Helgason (1876-1950) og systurnar Emilíu (1884-1939) og Guðrúnu (1882-1968) Indriðadætur.

Friðfinnur Guðjónsson lék hátt í 150 hlutverk á sínum 60 ára leikferli. Úr myndasafni frá starfi Leikfélags Reykjavíkur í tímaritinu Vikunni árið 1947.

Þessir helstu leikarar félagsins léku fjölda hlutverka á sínum ferli. Kristján Ó. Þorgrímsson lék um 50 hlutverk og Helgi Helgason um 60, Stefanía Guðmundsdóttir, Gunnþórunn Halldórsdóttir og Jens Waage léku ríflega 70 hlutverk, Emilía og Guðrún Indriðadætur yfir 80 og hlutverk Árna Eiríkssonar urðu nálægt 90. Metið á þó tvímælalaust Friðfinnur Guðjónsson, sem lék hátt í 150 hlutverk á sínum 60 ára leikferli.

Þessi hlutverkafjöldi er ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að þessi fyrsta kynslóð leikara hafði viðurværi sitt af öðrum störfum og sinnti leiklist aðeins í hjáverkum. Fulltrúar vaxandi borgarastéttar voru áberandi meðal félaga í Leikfélagi Reykjavíkur, sem margir voru verslunarmenn, bankamenn, embættismenn eða húsfreyjur. Sumir þeirra hurfu af leiksviðinu vegna annarra starfa. Til dæmi hætti Kristján Ó. Þorgrímsson nær alfarið að leika eftir að hann var útnefndur konsúll Svíþjóðar árið 1907, Jens B. Waage hvarf af leiksviðinu 1920, sama ár og hann tók við stöðu bankastjóra Íslandsbanka, og Helgi Helgason sneri sér alfarið að verslunarrekstri árið 1923.

Að námi loknu hélt Anna kyrru fyrir í Danmörku og starfaði þar sem leikkona, meðal annars við Konunglega leikhúsið. Myndin er úr verkinu Heilög Jóhanna, sem sett var á svið í Þjóðleikhúsinu 1951.

Enginn úr þessari fyrstu kynslóð leikara sótti sér formlega menntun í list sinni, þó sum þeirra, til dæmis Stefanía Guðmundsdóttir og Guðrún Indriðadóttir, hafi sótt tíma hjá dönskum leikurum í Kaupmannahöfn. Það var ekki fyrr en 1925 sem fyrstu Íslendingarnir héldu utan og hófu nám við skóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn, þau Haraldur Björnsson (1891-1967) og Anna Borg (1903-1963). Anna var dóttir Stefaníu Guðmundsdóttur og hafði svo að segja alist upp innan Leikfélags Reykjavíkur, en Haraldur bjó á Akureyri og hafði starfað með Leikfélagi Akureyrar, sem stofnað hafði verið 1917. Þau luku námi 1927 og var lokaverkefni þeirra atriði úr Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar. Að námi loknu hélt Anna kyrru fyrir í Danmörku og starfaði þar sem leikkona, meðal annars við Konunglega leikhúsið, en Haraldur hélt heim og varð eftir nokkur átök við Leikfélag Reykjavíkur lykilmaður í starfi Leikfélagins næstu tvo áratugina og síðan við Þjóðleikhúsið, bæði sem leikari og leikstjóri.

Þessir einstaklingar sem hér hafa verið nefndir teljast óneitanlega til fyrstu íslensku leikaranna.

Heimildir og frekara lesefni:
  • Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist II: Listin (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1996).
  • Magnús Þór Þorbergsson, ‘A Stage for the Nation: Nation, Class, Identity and the Shaping of a Theatrical Field in Iceland 1850-1930’, doktorsritgerð, Háskóli Íslands, 2017.
  • Jón Viðar Jónsson, Leyndarmál frú Stefaníu: Stefanía Guðmundsdóttir leikkona, samtíð og samferðamenn (Reykjavík: Mál og menning, 1997).

Myndir:

...