Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað gerðist eiginlega á Woodstockhátíðinni?

Arnar Eggert Thoroddsen

Woodstockhátíðin er vafalaust frægasta rokkhátíð sögunnar. Hún var haldin helgina 15.-17. ágúst 1969 en lauk reyndar ekki fyrr en mánudaginn 18. Hátíðin hefur alla tíð verið sveipuð miklum ljóma og þar komu fram frægustu popp- og rokktónlistarmenn þess tíma. Woodstock var ekki aðeins tónlistarhátíð, heldur sveif yfir henni andi ástar og samkenndar sem rann í gegnum merg og bein allra viðstaddra.

Veggspjaldið sem auglýsti hátíðina var hannað af Arnold Skolnick. Fuglinn og gítarinn þykja í dag ódauðleg tákn, auk setningarinnar „3 Days of Peace and Music“. Upprunaleg veggspjöld seljast nú á þúsundir dollara.

Á þessum nótum er iðulega rætt um hátíðina og hún hefur fengið ómælt pláss í tónlistarumfjöllun síðustu áratuga. Um hátíðina hefur verið fjallað frá öllum mögulegum og ómögulegum hliðum í ótal greinum, bókum, kvikmyndum og fleiri miðlum. Þeir sem voru á Woodstockhátíðinni eru jafnvel álitnir hafa höndlað einhvern ósnertanlegan kaleik og goðsagan í kringum hátíðina er bæði rík og bústin. En af hverju er þessi ofsalegi áhugi? Hvað skilur Woodstock frá öðrum svipuðum hátíðum sem voru haldnar bæði á undan henni og eftir? Hvað gerðist raunverulega þessa helgi?

Hugmyndina að Woodstockhátíðinni áttu fjórir menn. Tveir þeirra voru fjárfestar frá New York, Joel Rosenman og John P. Roberts, og hinir tveir voru hluti af tónlistariðnaði þess tíma, Michael Lang og Artie Kornfeld. Lang hafði komið lítillega að skipulagningu tónlistarhátíða áður og í heimildamynd um hátíðina sést hann oft, krullhærður og pollrólegur hippi. Viðhorf hans og „hippísk“ afstaða er órofa partur af því hvernig seinni kynslóðir hafa skynjað anda hátíðarinnar.

Michael Lang er þekktastur þeirra sem skipulögðu hátíðina. Hann var tuttugu og fimm ára þegar hún fór fram, þekktur fyrir rólegheit og hálfgildings værukærð, viðhorf sem rímuðu vel við yfirbragð hátíðarinnar.

Illa gekk að finna hátíðinni stað og ein athyglisverð staðreynd er að hátíðin var ekki haldin í Woodstock heldur hjá bænum Bethel sem er í 100 km fjarlægð. Þar leigði kúabóndinn Max B. Yasgur hluta af landi sínu undir hátíðina. Ágætlega gekk að bóka listamenn og eftir að Creedence Clearwater Revival samþykkti að spila, fylgdu fleiri vinsælir listamenn í kjölfarið. Sú sveit var hins vegar klippt úr heimildamyndinni um hátíðina, henni til armæðu seinna meir. Skipuleggjendur gerðu ráð fyrir um 200.000 gestum og seldu upprunalega 186.000 miða. Lokatala gesta varð hins vegar helmingi hærri, því til að forða slysum og öngþveiti neyddust aðstandendur til að hleypa fólki inn án greiðslu um miðbik hátíðarinnar. Skortur á matföngum, salernum og annarri þjónustu var í takt við þennan mikla ófyrirséða fjölda.

Skipuleggjendur gerðu ráð fyrir um 200.000 gestum en á endanum voru gestir um helming fleiri. Hér sést John Sebastian spila í fullum hippaskrúða.

Hátíðin hófst klukkan 17.07 á föstudegi þegar söngvaskáldið Richie Havens tróð upp nauðugur viljugur, enda langaði engan að vera fyrstur á svið. Havens spilaði lengi og í dag þykir „sett“ hans vera goðsagnakennt. Sérstaklega hefur lagið „Freedom“ lifað, en það spann hann upp í lokin á staðnum. Tímaáætlanir áttu svo eftir að fara rækilega úr skorðum. Breska rokksveitin The Who lék til að mynda kl. 5.00 að nóttu. Þeir luku spilamennsku við sólupprás og þótti það með eindæmum fallegt augnablik. Joe Cocker varð heimsfrægur þessa helgi fyrir magnaðan flutning á lagi Bítlanna „With a Little Help from my Friends“. Jimi Hendrix lék klukkan 9.00 á mánudagsmorgni og þótti flutningur hans á þjóðsöng Bandaríkjanna táknrænn. Enn í dag er deilt um hvort Hendrix hafi verið að heiðra land sitt eða gagnrýna með flutningnum en rök hníga frekar að hinu síðastnefnda, jafnvel að hann hafi gert hvort tveggja í senn (Liu, 2014).

Eiturlyf voru áberandi á hátíðinni sem fór þó friðsamlega fram. Andófsmenning (e. counter-culture) þessa tíma var í hæstu hæðum og frjálsleg notkun eiturlyfja var meðal annars táknræn andstaða við kynslóðina á undan, en hún hefur stundum verið nefnd þögla kynslóðin. Notkun hippanna á eiturlyfjum var ekki aðeins þrá eftir því að hverfa í óminnið, heldur ein af mörgum leiðum til að marka sér stað og skapa sérstöðu (Kent, 2000). Þeir sem rifjað hafa upp hátíðina sjá hana margir í miklum dýrðarljóma. „Rennandi ástarfoss,“ sagði Kevin Rheden, þá átján ára, fyrir stuttu, og bætti við: „allir brosandi og mikill friður yfir.“ David Crosby, tónlistarmaður (eitt sinn í The Byrds, þá í Crosby, Stills, Nash & Young sem komu fram á hátíðinni) sagði að tónleikagestir hefðu gefið sér von, hann hefði séð fólk deila mat og í eina mínútu hafi vonarbirtan skinið skært. „Við höguðum okkur eins og ærlegar manneskjur, þó það væri ekki nema yfir eina helgi,“ sagði Crosby (Hill, 2019).

Eftir talsvert japl, jaml og fuður, þar eð enginn vildi opna hátíðina, steig Richie Havens loks á svið og hóf upp raust sína. Framkoma hans þykir afar eftirminnileg.

Eitt af því sem skýrir mikla umfjöllun og sterka stöðu hátíðarinnar er menningarlegt vald, eða með öðrum orðum skilgreiningarvaldið sem ráðandi kynslóðir hafa á hverjum tíma. Áhrifin voru það mikil að nafni hátíðarinnar hefur verið skeytt við heila kynslóð sem nefnd er Woodstock-kynslóðin, en það er fólk fætt á bilinu 1943 til 1964 eða þar um bil. Hér á landi er þessi kynslóð stundum kölluð '68-kynslóðin en formlega heitið er uppgangskynslóðin (e. „baby boomers“). Með mikilli einföldun má segja að þessi kynslóð stjórni heiminum í dag. Hún hefur því í krafti stöðu sinnar vald til að ákveða hvað sé merkilegt og hvað ekki. Við sem yngri erum (höfundur þessar svars er fæddur 1974) höfum gengist undir hálfgerða innrætingu (e. indoctrination) frá fyrstu tíð. Okkur er sagt að það hafi eitthvað stórkostlegt gerst á hátíðinni, tónlistarmenn þessarar kynslóðar séu svo gott sem heilagir og allt er þetta að sjálfsögðu mun betra en „draslið“ sem við framleiðum og njótum í dag.

Jefferson Airplane, með sírenuna sjarmerandi Grace Slick í broddi fylkingar, fóru á svið klukkan 8.00 að morgni sunnudags. Sveitin átti að vera aðalnúmerið á laugardeginum en miklar tafir ýttu þeim alveg fram á sunnudagsmorgun.

Svona er gangur sögunnar, þeir sem eldri eru vita alltaf betur og ákveðin stífni í bland við hræðslu við hið nýja getur stýrt orðræðu ráðandi kynslóða. Goðsagan um Woodstock og árétting hennar með sífelldri umfjöllun um hálfrar aldar skeið, virðist því bara vaxa með tímanum og æ örðugra er fyrir nútíma menningar- og sagnfræðinga að greina hvað var rétt og hvað var rangt. Gagnrýnni raddir hafa þó komið fram á síðari tímum og allar frá yngri og „opnari“ höfundum. Tæknin hjálpaði líka til við að styrkja ímynd og sögu hátíðarinnar, en allt var tekið upp á kvikmyndavélar og tónleikarnir auk þess hljóðritaðir og prýddu plötur með upptökum frá hátíðinni heimili margra sem voru að vaxa úr grasi á áttunda áratugnum.

Uppgangskynslóðin er í dag íhaldssöm. Fólkið sem trúði áður fyrr á frjálsar ástir og raunverulega samfélagsbyltingu, fæst núna við borgaralegt brauðstrit og/eða er í jakkafataskrýddum stjórnunarstöðum. Andófsmenningin sem þessi kynslóð stóð að í lok sjöunda áratugarins hafði hins vegar töluverð áhrif og þau kristallast mörg hver í Woodstockhátíðinni (Fine, 2012; Gair, 2007). Sjöundi áratugurinn var áratugur mikilla samfélagshræringa, Kennedybræður og Martin Luther King Jr. voru myrtir, Bandaríkin voru í stríði í Víetnam sem fáir skildu og mótmælaöldur riðu yfir heilu samfélögin, sú viðamesta í París 1968. Kommúnulífsstíll var reyndur, andleg málefni og austurlensk speki komu inn í vestrænt samfélag af krafti og kynslóðabilið var óvenju breitt. Allur munur var óhemju skarpur og mikið bar á milli í hugmyndum kynslóða um það hvernig lifa skyldi lífinu. Birtingarmynd alls þessa mátti finna á Woodstockhátíðinni.

Hálfberir líkamar, bros, gleði, klapp og hlátur. Stemningin á Woodstock þykir hafa verið með öllu ólýsanleg og goðsagan um þessa frægustu rokkhátíð sögunnar lifir enn góðu lífi.

Ámóta hátíðir spruttu upp á næstu árum, til dæmis héldu Íslendingar hátíð í Saltvík árið 1971 sem var að sjálfsögðu kölluð „Saltstock“. Seinni hluta Woodstock-orðsins er gjarnan skeytt aftan við hátíðir af ýmsu tagi, til að mynda sótti þessi höfundur ráðstefnu til heiðurs breska tónlistarfélagsfræðingnum Simon Frith og kölluðu skipuleggjendur hana sín á milli Frithstock.

Afmæli Woodstock hefur verið fagnað reglulega með sérstökum hátíðum. Í ár (2019) ætlaði Michael Lang að halda 50 ára afmælishátíð en hún rann á endanum út í sandinn eftir ítrekaðar tilraunir til að tryggja fjármögnun og aðgengi að listamönnum. Sumir galdrar verða aldrei endurteknir svo vel sé.

Heimildir, ítarefni og myndir:

  • Bennett, Andy (ritstj.) 2017. Remembering Woodstock. Aldershot: Ashgate.
  • Bowen, Heather E. og Daniels, Margaret J. 2005. “Does the Music Matter? Motivations for Attending a Music Festival” í Event Management. 9 (3): 155-164.
  • Dessner, Lawrence J. 1971. ““Woodstock,” A Nation at War” í Journal of Popular Culture. 4 (3): 769-776.
  • Fine, Gary Alan. 2012. Tiny Publics: A Theory of Group Action and Culture. New York: Russell Sage Foundation.
  • Gair, Christopher. 2007. The American Counterculture. Edinburgh, Scotland: Edinburgh University Press.
  • Goodman, Barak og Ephron, Jamila. 2019. Woodstock: Three Days That Defined A Generation. Bandaríkin: PBS Distribution.
  • Hill, Michael. 2019. “A waterfall of love’: Woodstock memories 50 years later” í AP News, 12. ág.
  • Kent, Ryan. 2000. Drugs at Woodstock. Lehigh University, May 2000.
  • Lang, Michael og George-Warren, Holly. 2010. The Road to Woodstock. New York: Ecco.
  • Liu, Jennifer. 2014. “Jimi Hendrix’s “Star-Spangled Banner”: The Epitome of the Countercultural Experience”. Í Medium, 26. okt.
  • Spitz, Bob og Nash, Graham. 2019. Barefoot in Babylon: The Creation of the Woodstock music festival, 1969. New York : Plume, an imprint of Penguin Random House.
  • Suleman, Nadia. 2019. “Woodstock Didn't Actually Take Place In The Town Of Woodstock. Here's Why” í Time, 13. ágú.
  • Woodstock – Back to the Garden: The Definitive 50th Anniversary Archive. 2019. Ath: Safnkassi með m.a., bók, heimildamynd og 38 geisladiskum. Rhino, Warner Music Group.
  • Veggspjald: Amazon.com. (Sótt 3.12.2019).
  • Woodstock Photo Gallery | Woodstock. (Sótt 5.12.2019).
  • Woodstock Is Planning 50th Anniversary Festival, But Is It A Good Idea? | Your EDM. (Sótt 3.12.2019).
  • Woodstock redmond havens.JPG. Höfundar myndar: Derek Redmond og Paul Campbell. Birt undir CC BY-SA 3.0. (Sótt 3.12.2019).
  • Woodstock redmond crowd.JPG - Wikimedia Commons. Höfundar myndar: Derek Redmond og Paul Campbell. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi. (Sótt 3.12.2019).

Upprunalega spurningin var:
Hvað getur þú sagt mér um Woodstock? Hvað gerðist í Woodstock í tónlistinni?

Höfundur

Arnar Eggert Thoroddsen

aðjúnkt á Félagsvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

6.12.2019

Spyrjandi

Íris Mist Björnsdóttir

Tilvísun

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hvað gerðist eiginlega á Woodstockhátíðinni?“ Vísindavefurinn, 6. desember 2019, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74901.

Arnar Eggert Thoroddsen. (2019, 6. desember). Hvað gerðist eiginlega á Woodstockhátíðinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74901

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hvað gerðist eiginlega á Woodstockhátíðinni?“ Vísindavefurinn. 6. des. 2019. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74901>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað gerðist eiginlega á Woodstockhátíðinni?
Woodstockhátíðin er vafalaust frægasta rokkhátíð sögunnar. Hún var haldin helgina 15.-17. ágúst 1969 en lauk reyndar ekki fyrr en mánudaginn 18. Hátíðin hefur alla tíð verið sveipuð miklum ljóma og þar komu fram frægustu popp- og rokktónlistarmenn þess tíma. Woodstock var ekki aðeins tónlistarhátíð, heldur sveif yfir henni andi ástar og samkenndar sem rann í gegnum merg og bein allra viðstaddra.

Veggspjaldið sem auglýsti hátíðina var hannað af Arnold Skolnick. Fuglinn og gítarinn þykja í dag ódauðleg tákn, auk setningarinnar „3 Days of Peace and Music“. Upprunaleg veggspjöld seljast nú á þúsundir dollara.

Á þessum nótum er iðulega rætt um hátíðina og hún hefur fengið ómælt pláss í tónlistarumfjöllun síðustu áratuga. Um hátíðina hefur verið fjallað frá öllum mögulegum og ómögulegum hliðum í ótal greinum, bókum, kvikmyndum og fleiri miðlum. Þeir sem voru á Woodstockhátíðinni eru jafnvel álitnir hafa höndlað einhvern ósnertanlegan kaleik og goðsagan í kringum hátíðina er bæði rík og bústin. En af hverju er þessi ofsalegi áhugi? Hvað skilur Woodstock frá öðrum svipuðum hátíðum sem voru haldnar bæði á undan henni og eftir? Hvað gerðist raunverulega þessa helgi?

Hugmyndina að Woodstockhátíðinni áttu fjórir menn. Tveir þeirra voru fjárfestar frá New York, Joel Rosenman og John P. Roberts, og hinir tveir voru hluti af tónlistariðnaði þess tíma, Michael Lang og Artie Kornfeld. Lang hafði komið lítillega að skipulagningu tónlistarhátíða áður og í heimildamynd um hátíðina sést hann oft, krullhærður og pollrólegur hippi. Viðhorf hans og „hippísk“ afstaða er órofa partur af því hvernig seinni kynslóðir hafa skynjað anda hátíðarinnar.

Michael Lang er þekktastur þeirra sem skipulögðu hátíðina. Hann var tuttugu og fimm ára þegar hún fór fram, þekktur fyrir rólegheit og hálfgildings værukærð, viðhorf sem rímuðu vel við yfirbragð hátíðarinnar.

Illa gekk að finna hátíðinni stað og ein athyglisverð staðreynd er að hátíðin var ekki haldin í Woodstock heldur hjá bænum Bethel sem er í 100 km fjarlægð. Þar leigði kúabóndinn Max B. Yasgur hluta af landi sínu undir hátíðina. Ágætlega gekk að bóka listamenn og eftir að Creedence Clearwater Revival samþykkti að spila, fylgdu fleiri vinsælir listamenn í kjölfarið. Sú sveit var hins vegar klippt úr heimildamyndinni um hátíðina, henni til armæðu seinna meir. Skipuleggjendur gerðu ráð fyrir um 200.000 gestum og seldu upprunalega 186.000 miða. Lokatala gesta varð hins vegar helmingi hærri, því til að forða slysum og öngþveiti neyddust aðstandendur til að hleypa fólki inn án greiðslu um miðbik hátíðarinnar. Skortur á matföngum, salernum og annarri þjónustu var í takt við þennan mikla ófyrirséða fjölda.

Skipuleggjendur gerðu ráð fyrir um 200.000 gestum en á endanum voru gestir um helming fleiri. Hér sést John Sebastian spila í fullum hippaskrúða.

Hátíðin hófst klukkan 17.07 á föstudegi þegar söngvaskáldið Richie Havens tróð upp nauðugur viljugur, enda langaði engan að vera fyrstur á svið. Havens spilaði lengi og í dag þykir „sett“ hans vera goðsagnakennt. Sérstaklega hefur lagið „Freedom“ lifað, en það spann hann upp í lokin á staðnum. Tímaáætlanir áttu svo eftir að fara rækilega úr skorðum. Breska rokksveitin The Who lék til að mynda kl. 5.00 að nóttu. Þeir luku spilamennsku við sólupprás og þótti það með eindæmum fallegt augnablik. Joe Cocker varð heimsfrægur þessa helgi fyrir magnaðan flutning á lagi Bítlanna „With a Little Help from my Friends“. Jimi Hendrix lék klukkan 9.00 á mánudagsmorgni og þótti flutningur hans á þjóðsöng Bandaríkjanna táknrænn. Enn í dag er deilt um hvort Hendrix hafi verið að heiðra land sitt eða gagnrýna með flutningnum en rök hníga frekar að hinu síðastnefnda, jafnvel að hann hafi gert hvort tveggja í senn (Liu, 2014).

Eiturlyf voru áberandi á hátíðinni sem fór þó friðsamlega fram. Andófsmenning (e. counter-culture) þessa tíma var í hæstu hæðum og frjálsleg notkun eiturlyfja var meðal annars táknræn andstaða við kynslóðina á undan, en hún hefur stundum verið nefnd þögla kynslóðin. Notkun hippanna á eiturlyfjum var ekki aðeins þrá eftir því að hverfa í óminnið, heldur ein af mörgum leiðum til að marka sér stað og skapa sérstöðu (Kent, 2000). Þeir sem rifjað hafa upp hátíðina sjá hana margir í miklum dýrðarljóma. „Rennandi ástarfoss,“ sagði Kevin Rheden, þá átján ára, fyrir stuttu, og bætti við: „allir brosandi og mikill friður yfir.“ David Crosby, tónlistarmaður (eitt sinn í The Byrds, þá í Crosby, Stills, Nash & Young sem komu fram á hátíðinni) sagði að tónleikagestir hefðu gefið sér von, hann hefði séð fólk deila mat og í eina mínútu hafi vonarbirtan skinið skært. „Við höguðum okkur eins og ærlegar manneskjur, þó það væri ekki nema yfir eina helgi,“ sagði Crosby (Hill, 2019).

Eftir talsvert japl, jaml og fuður, þar eð enginn vildi opna hátíðina, steig Richie Havens loks á svið og hóf upp raust sína. Framkoma hans þykir afar eftirminnileg.

Eitt af því sem skýrir mikla umfjöllun og sterka stöðu hátíðarinnar er menningarlegt vald, eða með öðrum orðum skilgreiningarvaldið sem ráðandi kynslóðir hafa á hverjum tíma. Áhrifin voru það mikil að nafni hátíðarinnar hefur verið skeytt við heila kynslóð sem nefnd er Woodstock-kynslóðin, en það er fólk fætt á bilinu 1943 til 1964 eða þar um bil. Hér á landi er þessi kynslóð stundum kölluð '68-kynslóðin en formlega heitið er uppgangskynslóðin (e. „baby boomers“). Með mikilli einföldun má segja að þessi kynslóð stjórni heiminum í dag. Hún hefur því í krafti stöðu sinnar vald til að ákveða hvað sé merkilegt og hvað ekki. Við sem yngri erum (höfundur þessar svars er fæddur 1974) höfum gengist undir hálfgerða innrætingu (e. indoctrination) frá fyrstu tíð. Okkur er sagt að það hafi eitthvað stórkostlegt gerst á hátíðinni, tónlistarmenn þessarar kynslóðar séu svo gott sem heilagir og allt er þetta að sjálfsögðu mun betra en „draslið“ sem við framleiðum og njótum í dag.

Jefferson Airplane, með sírenuna sjarmerandi Grace Slick í broddi fylkingar, fóru á svið klukkan 8.00 að morgni sunnudags. Sveitin átti að vera aðalnúmerið á laugardeginum en miklar tafir ýttu þeim alveg fram á sunnudagsmorgun.

Svona er gangur sögunnar, þeir sem eldri eru vita alltaf betur og ákveðin stífni í bland við hræðslu við hið nýja getur stýrt orðræðu ráðandi kynslóða. Goðsagan um Woodstock og árétting hennar með sífelldri umfjöllun um hálfrar aldar skeið, virðist því bara vaxa með tímanum og æ örðugra er fyrir nútíma menningar- og sagnfræðinga að greina hvað var rétt og hvað var rangt. Gagnrýnni raddir hafa þó komið fram á síðari tímum og allar frá yngri og „opnari“ höfundum. Tæknin hjálpaði líka til við að styrkja ímynd og sögu hátíðarinnar, en allt var tekið upp á kvikmyndavélar og tónleikarnir auk þess hljóðritaðir og prýddu plötur með upptökum frá hátíðinni heimili margra sem voru að vaxa úr grasi á áttunda áratugnum.

Uppgangskynslóðin er í dag íhaldssöm. Fólkið sem trúði áður fyrr á frjálsar ástir og raunverulega samfélagsbyltingu, fæst núna við borgaralegt brauðstrit og/eða er í jakkafataskrýddum stjórnunarstöðum. Andófsmenningin sem þessi kynslóð stóð að í lok sjöunda áratugarins hafði hins vegar töluverð áhrif og þau kristallast mörg hver í Woodstockhátíðinni (Fine, 2012; Gair, 2007). Sjöundi áratugurinn var áratugur mikilla samfélagshræringa, Kennedybræður og Martin Luther King Jr. voru myrtir, Bandaríkin voru í stríði í Víetnam sem fáir skildu og mótmælaöldur riðu yfir heilu samfélögin, sú viðamesta í París 1968. Kommúnulífsstíll var reyndur, andleg málefni og austurlensk speki komu inn í vestrænt samfélag af krafti og kynslóðabilið var óvenju breitt. Allur munur var óhemju skarpur og mikið bar á milli í hugmyndum kynslóða um það hvernig lifa skyldi lífinu. Birtingarmynd alls þessa mátti finna á Woodstockhátíðinni.

Hálfberir líkamar, bros, gleði, klapp og hlátur. Stemningin á Woodstock þykir hafa verið með öllu ólýsanleg og goðsagan um þessa frægustu rokkhátíð sögunnar lifir enn góðu lífi.

Ámóta hátíðir spruttu upp á næstu árum, til dæmis héldu Íslendingar hátíð í Saltvík árið 1971 sem var að sjálfsögðu kölluð „Saltstock“. Seinni hluta Woodstock-orðsins er gjarnan skeytt aftan við hátíðir af ýmsu tagi, til að mynda sótti þessi höfundur ráðstefnu til heiðurs breska tónlistarfélagsfræðingnum Simon Frith og kölluðu skipuleggjendur hana sín á milli Frithstock.

Afmæli Woodstock hefur verið fagnað reglulega með sérstökum hátíðum. Í ár (2019) ætlaði Michael Lang að halda 50 ára afmælishátíð en hún rann á endanum út í sandinn eftir ítrekaðar tilraunir til að tryggja fjármögnun og aðgengi að listamönnum. Sumir galdrar verða aldrei endurteknir svo vel sé.

Heimildir, ítarefni og myndir:

  • Bennett, Andy (ritstj.) 2017. Remembering Woodstock. Aldershot: Ashgate.
  • Bowen, Heather E. og Daniels, Margaret J. 2005. “Does the Music Matter? Motivations for Attending a Music Festival” í Event Management. 9 (3): 155-164.
  • Dessner, Lawrence J. 1971. ““Woodstock,” A Nation at War” í Journal of Popular Culture. 4 (3): 769-776.
  • Fine, Gary Alan. 2012. Tiny Publics: A Theory of Group Action and Culture. New York: Russell Sage Foundation.
  • Gair, Christopher. 2007. The American Counterculture. Edinburgh, Scotland: Edinburgh University Press.
  • Goodman, Barak og Ephron, Jamila. 2019. Woodstock: Three Days That Defined A Generation. Bandaríkin: PBS Distribution.
  • Hill, Michael. 2019. “A waterfall of love’: Woodstock memories 50 years later” í AP News, 12. ág.
  • Kent, Ryan. 2000. Drugs at Woodstock. Lehigh University, May 2000.
  • Lang, Michael og George-Warren, Holly. 2010. The Road to Woodstock. New York: Ecco.
  • Liu, Jennifer. 2014. “Jimi Hendrix’s “Star-Spangled Banner”: The Epitome of the Countercultural Experience”. Í Medium, 26. okt.
  • Spitz, Bob og Nash, Graham. 2019. Barefoot in Babylon: The Creation of the Woodstock music festival, 1969. New York : Plume, an imprint of Penguin Random House.
  • Suleman, Nadia. 2019. “Woodstock Didn't Actually Take Place In The Town Of Woodstock. Here's Why” í Time, 13. ágú.
  • Woodstock – Back to the Garden: The Definitive 50th Anniversary Archive. 2019. Ath: Safnkassi með m.a., bók, heimildamynd og 38 geisladiskum. Rhino, Warner Music Group.
  • Veggspjald: Amazon.com. (Sótt 3.12.2019).
  • Woodstock Photo Gallery | Woodstock. (Sótt 5.12.2019).
  • Woodstock Is Planning 50th Anniversary Festival, But Is It A Good Idea? | Your EDM. (Sótt 3.12.2019).
  • Woodstock redmond havens.JPG. Höfundar myndar: Derek Redmond og Paul Campbell. Birt undir CC BY-SA 3.0. (Sótt 3.12.2019).
  • Woodstock redmond crowd.JPG - Wikimedia Commons. Höfundar myndar: Derek Redmond og Paul Campbell. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi. (Sótt 3.12.2019).

Upprunalega spurningin var:
Hvað getur þú sagt mér um Woodstock? Hvað gerðist í Woodstock í tónlistinni?

...