Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er í alvörunni til rétt mataræði fyrir mismunandi blóðflokka og þá hvers vegna?

Mjög ólíklegt verður að teljast að til sé eitthvert sérstakt mataræði sem höfðar til hvers blóðflokks fyrir sig. Ef svo væri þá er næringarfræðin sem vísindagrein langt frá því að finna nákvæmlega út hvernig slíkt mataræði eigi að vera. Hugmyndir næringarfræðinnar í dag eru þær að fólk neyti fjölbreyttrar fæðu úr öllum fæðuflokkum, en fæðuflokkarnir eru eftirfarandi:

  • mjólk og mjólkurafurðir
  • kjöt, fiskur og egg
  • feitmeti
  • brauð og aðrar kornvörur
  • grænmeti, kartöflur og baunir
  • ávextir og ber

Með því að skilja einhvern þessara fæðuflokka útundan þarf fólk að huga betur að þeim næringarefnum sem við það tapast úr fæðunni. Til dæmis þurfa grænmetisætur að fá fæði af nægum próteingæðum og sem inniheldur B12 vítamín, þeir sem ekki borða ávexti þurfa að fá C-vítamín annars staðar frá, þeir sem ekki fá mjólkurmat þurfa að huga að annarri kalkuppsprettu í mataræðinu og svona mætti áfram telja.

Reyndar er það svo að mikill hluti fullorðinna jarðarbúa er með mjólkursykuróþol og þolir þar af leiðandi illa mjólkurvörur. Allt ungviði þolir hins vegar yfirleitt mjólkursykur vel, samanber móðurmjólk sem inniheldur líka mjólkursykur, en þolið fer þverrandi með aldrinum. Það er aðeins fólk af hvíta kynstofninum sem þolir mjólkursykur vel fram á fullorðinsár og er það talið orsakast af ákveðnu geni.

Samkvæmt ABO-blóðflokkakerfinu geta einstaklingar innan sömu fjölskyldu verið af öllum blóðflokkum, það er að segja A, B, AB og O. Hugsum okkur þá kenningu að einstaklingar af einum blóðflokki, til dæmis A, eigi að drekka mikla mjólk. Reikna má með að um það bil jafnmiklar líkur séu á að einstaklingur sé af blóðflokki A í Norður-Evrópu og í Asíu. Einstaklingurinn í Asíu getur hins vegar einfaldlega ekki drukkið mjólk vegna óþolsins og kenningin fellur þar af leiðandi um sjálfa sig gagnvart honum.

Auk þess má velta fyrir sér af hverju mataræði ætti að fara eftir blóðflokkum yfirleitt og af hverju þá endilega eftir ABO-blóðflokkakerfinu? Önnur blóðflokkakerfi eru til, svo sem rhesus, MN, Xg og fleiri, og sömuleiðis ætti að vera hægt að styðjast við ýmis önnur vefjaflokkunarkerfi. Og því þá ekki að haga mataræði eftir háralit eða augnlit?

Útgáfudagur

9.8.2000

Spyrjandi

Karen Pálsdóttir

Höfundur

Björn Sigurður Gunnarsson

matvæla- og næringarfræðingur

Tilvísun

Björn Sigurður Gunnarsson. „Er í alvörunni til rétt mataræði fyrir mismunandi blóðflokka og þá hvers vegna?“ Vísindavefurinn, 9. ágúst 2000. Sótt 16. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=761.

Björn Sigurður Gunnarsson. (2000, 9. ágúst). Er í alvörunni til rétt mataræði fyrir mismunandi blóðflokka og þá hvers vegna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=761

Björn Sigurður Gunnarsson. „Er í alvörunni til rétt mataræði fyrir mismunandi blóðflokka og þá hvers vegna?“ Vísindavefurinn. 9. ágú. 2000. Vefsíða. 16. sep. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=761>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Daníel Þór Ólason

1967

Daníel Þór Ólason er prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands og deildarforseti Sálfræðideildar. Rannsóknir Daníels hafa fyrst og fremst verið á sviði hegðunarfíkna en einnig hefur hann fengist við rannsóknir í próffræði og persónuleikasálfræði.