Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rúnar Unnþórsson er prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands og deildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar. Rannsóknir Rúnars eru á sviði hönnunar, þróunar og endurbóta á samþættum kerfum. Viðfangsefnin hafa verið fjölmörg en allflest falla þau í tvo flokka. Annars vegar lausnir sem snúa að betri nýtingu vélbúnaðar og auðlinda og hins vegar lausnir sem miða að því að auðvelda einstaklingum með skerta hreyfigetu og/eða skert skynfæri að sinna daglegum störfum og halda virðingu sinni.
Í einu verkefni Rúnars og samstarfsmanna hans er unnið að þróun aðferðafræði og vélbúnaðar til að gasa (e. gasification) lífrænan úrgang og framleiða varma og rafmagn. Gasið sem verður til við gösunina kallast Syngas og í verkefninu er það notað sem eldsneyti á sprengihreyfil sem knýr rafal og hitar vatn. Lausnin er samþætt varma- og raforkuvinnsla og eldsneytið lífrænn úrgangur.
Rannsóknir Rúnars eru á sviði hönnunar, þróunar og endurbóta á samþættum kerfum.
Rúnar stýrði Horizon 2020-verkefninu Sound of Vision (2015-2017) þar sem þróuð var lausn sem gerir blindum og sjónskertum einstaklingum auðveldara að skynja umhverfi sitt og ferðast um í því. Lausnin notar þrívíddarmyndavélar sem staðsettar eru á höfuðbúnaði. Myndavélarnar taka myndir af umhverfinu og gögnin frá þeim eru unnin í öflugri smátölvu. Notandinn fær upplýsingar um umhverfið í gegnum þrívíddarhljóð og titring. Rannsóknahópur Háskóla Íslands þróaði og smíðaði búnaðinn sem notandinn klæðist. Hópurinn þróaði einnig þrívíddarhljóðin og titringsmynstrin sem notuð voru til að miðla upplýsingum til notandans. Rannsóknahópurinn fékk 2. Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands árið 2017 fyrir beltið sem hannað var í verkefninu til að miðla titringsupplýsingum til notandans. Í lok ársins 2018 fékk Sound of Vision-rannsóknahópurinn svonefnd Innovation Radar-verðlaun frá Evrópusambandinu í flokknum „Tækni fyrir samfélag“.
Rúnar vinnur nú að frekari þróun og rannsóknum á beltinu sem hannað var í Sound of Vision-verkefninu. Hann rannsakar nú meðal annars hvort nýta megi beltið til að hjálpa einstaklingum með kuðungsígræðslur og mikla heyrnarskerðingu að upplifa tónlist.
Rúnar er fæddur árið 1971. Hann lauk CS-prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1997. Árinu áður, eða 1996, stofnaði hann ásamt Þórði Magnússyni, skólafélaga úr Verslunarskólanum og vélaverkfræðinni, fyrirtækið ONNO ehf. Meginhugmyndin að baki ONNO var að bjóða viðskiptavinum upp á að sjá byggingar og vélhluti í þrívídd og nota það fyrir kynningar og söluefni. Rúnar og Þórður byggðu saman upp fyrirtækið í fimm ár, eða til ársins 2001 þegar Rúnar ákvað að hefja frekara hám í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og seldi Þórði sinn hlut.
Rúnar lauk MS-prófi í vélaverkfræði árið 2002 þar sem hann þróaði útfærslu á styrkingarnámi (e. reinforcement learning) við lausn verkröðunarverkefna. Rúnar lauk doktorsnámi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2008. Doktorsverkefnið vann hann í samstarfi við stoðtækjafyrirtækið Össur. Í verkefninu þróaði Rúnar skaðlausa aðferðafræði til að fylgjast með og spá fyrir um endingu koltrefjagervifóta í margása þreytuprófunum. Aðferðin sem hann þróaði byggir á notkun hátíðni-hljóðþrýstibylgja (e. acoustic emissions) sem myndast við breytingar í efni og við núning.
Haustið 2008 tók Rúnar við stöðu forstöðumanns Orku- og tækniskóla Keilis. Meginviðfangsefni Rúnars var að skipuleggja, undirbúa og koma af stað tæknifræðinámi á vegum Háskóla Íslands en framkvæmt á vettvangi Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Fyrstu nemendurnir voru teknir inn haustið 2009.
Sumarið 2011, fékk Rúnar tímabundna ráðningu í Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands og ári seinna var hann skipaður lektor við námsbraut í iðnaðarverkfræði. Árið 2014 fékk hann framgang í stöðu dósents og 2016 í stöðu prófessors. Sumarið 2018 tók hann við stöðu deildarforseta iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideildar.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Rúnar Unnþórsson rannsakað?“ Vísindavefurinn, 2. janúar 2019, sótt 6. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76935.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2019, 2. janúar). Hvað hefur vísindamaðurinn Rúnar Unnþórsson rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76935
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Rúnar Unnþórsson rannsakað?“ Vísindavefurinn. 2. jan. 2019. Vefsíða. 6. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76935>.