Sólin Sólin Rís 07:52 • sest 18:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:56 • Sest 17:43 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:59 • Síðdegis: 20:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:51 • Síðdegis: 14:13 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:52 • sest 18:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:56 • Sest 17:43 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:59 • Síðdegis: 20:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:51 • Síðdegis: 14:13 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er tími?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Öll þekkjum við tímann og notum hann á einn eða annan hátt. Við nýtum hann vel eða sóum honum (jafnvel drepum hann!), mælum hann með töluverðri nákvæmni og vísum til þessara mælinga með reglulegu millibili, og eftirsóknarvert þykir að hafa nóg af honum. Þrátt fyrir þetta lendum við gjarnan í ýmsum flækjum þegar við hugsum um tímann. Flest teljum við það augljóst að tíminn líði en fátt verður um svör ef við spyrjum „Hversu hratt líður tíminn?"

Illa gengur að setja fram nákvæmar skilgreiningar á tímanum. Eitt vandamálið er að erfitt er að skilgreina tímann án þess að vísa á einhvern hátt til hans sjálfs í skilgreiningunni. Ef við segjum til dæmis að tíminn sé það sem leiðir okkur gegnum breytingar lendum við í vanda því illa gengur að skilgreina breytingar án vísunar til tíma eða hugtaka sem byggjast á honum (áður, seinna, fyrir, eftir, og svo framvegis). Líklega er spurningum um eðli tímans betur svarað með ýmsum lýsingum á honum en með beinum skilgreiningum (eða tilraunum til slíkra skilgreininga).

Þegar spurt er um eðli tímans þarf m.a. að svara því hvort tíminn sé einungis eitthvað sem upplifanir okkar fela í sér eða hvort hann sé til óháð þeim. Því hefur til dæmis verið haldið fram að runa, þar sem atburðum er raðað með tilliti til þess hvort þeir tilheyri fortíð, nútíð eða framtíð, leiði til þverstæðu og því geti tíminn ekki verið til. Þessum rökum hafa að sjálfsögðu margir andmælt. Flestir virðast telja að tíminn sé eitthvað umfram skynjun okkar á honum.

Þótt við hugsum okkur að tíminn sé til utan huga okkar er því samt ósvarað hvort og í hvaða skilningi hann sé afstæður. Newton leit á tímann sem algildan. Hann taldi að það hvort atburðir gerðust á sama tíma og lengd atburða í tíma væri óháð afstöðu við þá og að tímalengd milli atburða væri óháð afstöðu hluta í heiminum. Afstæðiskenning Einsteins hefur leitt í ljós að Newton hafði rangt fyrir sér um þetta. Hinsvegar dugar afstæðiskenningin ekki til að skera úr um afstæði tímans í tvennum öðrum skilningi. Newton taldi einnig að tímalengd fæli í sér ákveðinn „innri" mælikvarða og að tíminn væri til óháð þeim atburðum sem í honum gerðust. Leibniz leit aftur á móti svo á að tímalengd væri háð „ytri" mælikvarða og að tíminn væri ekkert umfram afstöðu atburðanna.

Enn í dag eru skiptar skoðanir um þessa deilu milli Newtons og Leibniz. Nútímakenningar um algildi tímans eru því ekki kenningar sem brjóta í bága við það sem afstæðiskenningin hefur leitt í ljós, heldur kenningar sem fela það í sér að tíminn sé til óháð þeim atburðum sem eiga sér stað, eða óháð afstöðu hluta í tímarúminu. Samkvæmt slíkum kenningum er tíminn einskonar vettvangur fyrir atburði. Tíminn gæti þá verið til þótt engir hlutir væru til í heiminum og þar með engir atburðir eða breytingar á hlutum. Samkvæmt afstæðiskenningum um tímann er tíminn ekkert annað en atburðir eða breytingar á hlutum í heiminum og innbyrðis afstöðu þeirra.

Gjarnan er sagt að tíminn sé fjórða víddin í tímarúminu. Með tímarúminu er átt við hinar þrjár víddir rúmsins ásamt tímanum; einskonar samfellu þar sem hlutir og atburðir eiga sér stað. Heimspekinga greinir hinsvegar á um það nákvæmlega hvernig þessi fjórða vídd tengist hinum þremur.

Þeir sem aðhyllast svokallaða eilífðarhyggju líta á tímann sem vídd sem ekki er svo ólík víddum rúmsins. Á sama hátt og rúmið er allt til á hverju augnabliki er tíminn allur til samkvæmt eilífðarsinnum. Alveg eins og fjarlægir staðir eiga sér jafnmikla tilvist og sá staður sem við erum stödd á hverju sinni, eiga augnablik og atburðir úr fortíð og framtíð sér jafnmikla tilvist og núið, segja eilífðarsinnar. „Núna" staðsetur okkur í tímavíddinni á sama hátt og „hérna" staðsetur okkur í rúminu en hvorugt felur í sér neina sérstöðu hvað varðar tilvist. „Þarna" og „þá" eru ekkert síður til þótt það vilji ekki svo til að við séum þar stödd.

Nútíðarsinnar álíta á hinn bóginn að fortíð og framtíð séu ekki til í sama skilningi og nútíð. Það sem er til er það sem er til núna og það sem er satt er það sem er satt núna. Það sem var í gær var til þá og það sem verður seinna verður til þá en það á ekki við núna. Ef Gunna er í grænum buxum í dag þá er það satt að hún sé í grænum buxum. Hafi hún verið í rauðum buxum í gær þá er það ekki lengur satt að hún sé í rauðum buxum þótt það hafi verið satt í gær. Gunna getur ekki bæði verið í rauðum buxum og grænum buxum (gefum okkur að hún sé ekki í tvennum buxum í einu) og því getur það ekki bæði verið satt að hún sé í rauðum og að hún sé í grænum buxum.

Eilífðarsinnar hafa tvær leiðir til að svara þessum rökum. Þeir geta tengt alla eiginleika við ákveðnar tímasetningar og sagt að það sé alltaf satt að Gunna sé í rauðum buxum 10. ágúst 2000 og jafnframt alltaf satt að Gunna sé í grænum buxum 11. ágúst og eru þar með lausir við mótsögnina en sitja hinsvegar uppi með fyrirferðarmiklar umsagnir. Hin leiðin er að segja að Gunna í gær sé ekki sama veran og Gunna í dag og þar með sé ekkert athugavert við að segja að önnur sé í rauðum buxum og hin í grænum.

Rafrænar heimildir um tímann:

Time úr Internet Encyclopedia of Philosophy

Britannica.com

Og sjá ennfremur svar Hrannars Baldurssonar við spurningu um tímann.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

11.8.2000

Spyrjandi

Bergur Sigfússon

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er tími?“ Vísindavefurinn, 11. ágúst 2000, sótt 6. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=777.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2000, 11. ágúst). Hvað er tími? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=777

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er tími?“ Vísindavefurinn. 11. ágú. 2000. Vefsíða. 6. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=777>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er tími?
Öll þekkjum við tímann og notum hann á einn eða annan hátt. Við nýtum hann vel eða sóum honum (jafnvel drepum hann!), mælum hann með töluverðri nákvæmni og vísum til þessara mælinga með reglulegu millibili, og eftirsóknarvert þykir að hafa nóg af honum. Þrátt fyrir þetta lendum við gjarnan í ýmsum flækjum þegar við hugsum um tímann. Flest teljum við það augljóst að tíminn líði en fátt verður um svör ef við spyrjum „Hversu hratt líður tíminn?"

Illa gengur að setja fram nákvæmar skilgreiningar á tímanum. Eitt vandamálið er að erfitt er að skilgreina tímann án þess að vísa á einhvern hátt til hans sjálfs í skilgreiningunni. Ef við segjum til dæmis að tíminn sé það sem leiðir okkur gegnum breytingar lendum við í vanda því illa gengur að skilgreina breytingar án vísunar til tíma eða hugtaka sem byggjast á honum (áður, seinna, fyrir, eftir, og svo framvegis). Líklega er spurningum um eðli tímans betur svarað með ýmsum lýsingum á honum en með beinum skilgreiningum (eða tilraunum til slíkra skilgreininga).

Þegar spurt er um eðli tímans þarf m.a. að svara því hvort tíminn sé einungis eitthvað sem upplifanir okkar fela í sér eða hvort hann sé til óháð þeim. Því hefur til dæmis verið haldið fram að runa, þar sem atburðum er raðað með tilliti til þess hvort þeir tilheyri fortíð, nútíð eða framtíð, leiði til þverstæðu og því geti tíminn ekki verið til. Þessum rökum hafa að sjálfsögðu margir andmælt. Flestir virðast telja að tíminn sé eitthvað umfram skynjun okkar á honum.

Þótt við hugsum okkur að tíminn sé til utan huga okkar er því samt ósvarað hvort og í hvaða skilningi hann sé afstæður. Newton leit á tímann sem algildan. Hann taldi að það hvort atburðir gerðust á sama tíma og lengd atburða í tíma væri óháð afstöðu við þá og að tímalengd milli atburða væri óháð afstöðu hluta í heiminum. Afstæðiskenning Einsteins hefur leitt í ljós að Newton hafði rangt fyrir sér um þetta. Hinsvegar dugar afstæðiskenningin ekki til að skera úr um afstæði tímans í tvennum öðrum skilningi. Newton taldi einnig að tímalengd fæli í sér ákveðinn „innri" mælikvarða og að tíminn væri til óháð þeim atburðum sem í honum gerðust. Leibniz leit aftur á móti svo á að tímalengd væri háð „ytri" mælikvarða og að tíminn væri ekkert umfram afstöðu atburðanna.

Enn í dag eru skiptar skoðanir um þessa deilu milli Newtons og Leibniz. Nútímakenningar um algildi tímans eru því ekki kenningar sem brjóta í bága við það sem afstæðiskenningin hefur leitt í ljós, heldur kenningar sem fela það í sér að tíminn sé til óháð þeim atburðum sem eiga sér stað, eða óháð afstöðu hluta í tímarúminu. Samkvæmt slíkum kenningum er tíminn einskonar vettvangur fyrir atburði. Tíminn gæti þá verið til þótt engir hlutir væru til í heiminum og þar með engir atburðir eða breytingar á hlutum. Samkvæmt afstæðiskenningum um tímann er tíminn ekkert annað en atburðir eða breytingar á hlutum í heiminum og innbyrðis afstöðu þeirra.

Gjarnan er sagt að tíminn sé fjórða víddin í tímarúminu. Með tímarúminu er átt við hinar þrjár víddir rúmsins ásamt tímanum; einskonar samfellu þar sem hlutir og atburðir eiga sér stað. Heimspekinga greinir hinsvegar á um það nákvæmlega hvernig þessi fjórða vídd tengist hinum þremur.

Þeir sem aðhyllast svokallaða eilífðarhyggju líta á tímann sem vídd sem ekki er svo ólík víddum rúmsins. Á sama hátt og rúmið er allt til á hverju augnabliki er tíminn allur til samkvæmt eilífðarsinnum. Alveg eins og fjarlægir staðir eiga sér jafnmikla tilvist og sá staður sem við erum stödd á hverju sinni, eiga augnablik og atburðir úr fortíð og framtíð sér jafnmikla tilvist og núið, segja eilífðarsinnar. „Núna" staðsetur okkur í tímavíddinni á sama hátt og „hérna" staðsetur okkur í rúminu en hvorugt felur í sér neina sérstöðu hvað varðar tilvist. „Þarna" og „þá" eru ekkert síður til þótt það vilji ekki svo til að við séum þar stödd.

Nútíðarsinnar álíta á hinn bóginn að fortíð og framtíð séu ekki til í sama skilningi og nútíð. Það sem er til er það sem er til núna og það sem er satt er það sem er satt núna. Það sem var í gær var til þá og það sem verður seinna verður til þá en það á ekki við núna. Ef Gunna er í grænum buxum í dag þá er það satt að hún sé í grænum buxum. Hafi hún verið í rauðum buxum í gær þá er það ekki lengur satt að hún sé í rauðum buxum þótt það hafi verið satt í gær. Gunna getur ekki bæði verið í rauðum buxum og grænum buxum (gefum okkur að hún sé ekki í tvennum buxum í einu) og því getur það ekki bæði verið satt að hún sé í rauðum og að hún sé í grænum buxum.

Eilífðarsinnar hafa tvær leiðir til að svara þessum rökum. Þeir geta tengt alla eiginleika við ákveðnar tímasetningar og sagt að það sé alltaf satt að Gunna sé í rauðum buxum 10. ágúst 2000 og jafnframt alltaf satt að Gunna sé í grænum buxum 11. ágúst og eru þar með lausir við mótsögnina en sitja hinsvegar uppi með fyrirferðarmiklar umsagnir. Hin leiðin er að segja að Gunna í gær sé ekki sama veran og Gunna í dag og þar með sé ekkert athugavert við að segja að önnur sé í rauðum buxum og hin í grænum.

Rafrænar heimildir um tímann:

Time úr Internet Encyclopedia of Philosophy

Britannica.com

Og sjá ennfremur svar Hrannars Baldurssonar við spurningu um tímann....