Sólin Sólin Rís 05:29 • sest 21:25 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:47 • Sest 05:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:41 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:54 • Síðdegis: 24:11 í Reykjavík

Eru einhver verk sem teljast til heimsbókmenntanna enn óþýdd á íslensku?

Ástráður Eysteinsson

Þótt hugtakið „heimsbókmenntir" sé teygjanlegt og umdeilt, þá er svarið við þessari spurningu ótvírætt „já".

Það var einkum þýska skáldið Goethe sem kom þessu hugtaki í umferð á Vesturlöndum. Hann segir til dæmis á einum stað að skáldskapurinn sé sameign mannkynsins, öllum sé hollt að svipast um meðal fjarlægra þjóða og hann sé einmitt sjálfur að lesa kínverska skáldsögu sem skerpi sýn hans, einnig á það sem nákomnara er.

----

Goethe hefur ekki fyrir því að tilgreina hvaða skáldsaga þetta er og lesandi gæti ætlað að „heimsbókmenntir" séu víður völlur sem lesandi getur kannað og kortlagt á eigin forsendum. Þannig má vissulega skilja hugtakið. Raunin er þó sú að í umræðu um heimsbókmenntir, rétt eins og bókmenntir einstakra þjóða, er oftast tekið mið af hefðarveldi, það er úrvali rita sem þykja af einhverjum ástæðum til fyrirmyndar og mynda gjarnan veigamikinn þátt hinnar viðteknu menningarsögu.

Sé ég spurður hvað við Íslendingar höfum ekki þýtt af heimsbókmenntum Austurlanda, hneigist ég til að benda á verk eins og söguljóðin stóru, Mahabarata og Ramanjana, sem þykja grundvallarverk í indverskri menningarsögu (þau voru komin nokkurn veginn í það form, sem nú þekkist, á fjórðu og fimmtu öld samkvæmt okkar tímatali). Eða á Söguna af Genji, hina þekktu skáldsögu japönsku skáldkonunnar Murasaki Shikibu (d. 1015), en það verk er ritað fyrir árþúsundi og hefur haft mikil áhrif á japanskar bókmenntir.

En þessi dæmi eru sótt beint í hefðarveldi þessara þjóða og eflaust gæti þarlent bókmenntafólk bent á ótal önnur verk sem ættu ekki síður erindi til lesanda á norðurhjara veraldar við upphaf 21. aldar. Á Vesturlöndum hafa undanfarið staðið talsverðar deilur um hefðarveldi, gildi þeirra og samsetningu. Sú umræða hefur gjarnan takmarkast við bókmenntakerfi einstakra þjóða og við stöðu kvenna og minnihlutahópa innan þeirra. Það er þó engu minni ástæða til að endurskoða hefðarveldi heimsbókmenntanna.

Hér á landi er talað um sumar fornbókmenntir okkar á þann veg að ætla mætti að þær ættu sér ótvíræðan sess í heimsbókmenntunum. Við nánari athugun kemur í ljós að þar er á brattann að sækja og bókmenntafólk á Vesturlöndum hefur oft enga hugmynd um þennan fjársjóð. Þetta vekur með manni grun um að ef til vill ættum við að huga að öðrum „minnihlutabókmenntum" sem kunna að vera í sambærilegri stöðu.

Hinsvegar er líka skiljanlegt að mest kapp sé lagt á að þýða á íslensku þær bókmenntir sem átt hafa tryggan sess í hinu vestræna hefðarveldi og því almennt verið taldar til sameiginlegra verðmæta í okkar heimshluta. Á undanförnum árum hafa verið þýdd á íslensku allmörg verk sem þarna hafa átt víst sæti. Helgi Hálfdanarson hefur verið sérlega atkvæðamikill þýðandi slíkra verka um nokkurt skeið og á allra síðustu árum hefur Erlingur E. Halldórsson einnig verið stórtækur.

Í þessu hefðarveldi eru þekktustu verk forngrískra og latneskra bókmennta og síðan taka við verk á þjóðtungum síðari alda og verða gjarnan fyrst fyrir verk Dantes og Boccaccio á Ítalíu, Chaucers og Shakespeares á Englandi, Cervantesar á Spáni og Goethes í Þýskalandi, svo eitthvað sé nefnt.

Um margt má deila í vali verka frá fyrri öldum og deilurnar færast yfirleitt í aukana eftir því sem nær dregur samtímanum og verk eiga sér styttri sögu. Þegar bandaríski bókmenntafræðingurinn Harold Bloom gaf út bók um vestræna hefðarveldið fyrir nokkrum árum, The Western Canon (1994), vakti hún mikla umræðu og margir gagnrýndu hana harkalega. Skiljanlegt er að val Blooms á verkum 20. aldar sé umdeilt og mun ég ekki víkja að svo nýlegum verkum hér. Að öðru leyti er val hans hinsvegar hefðbundið að mestu og því hægt að nýta sér það til að svara þeirri spurningu sem upp er borin.

Af þeim 17 höfundum (á þjóðtungum nútímans) sem Bloom tilgreinir fyrst í bók sinni eru nokkrir sem lítið hafa verið þýddir á íslensku og sumir jafnvel alls ekki. Dante er ofarlega á blaði hjá Bloom, en Guðdómlegan gleðileik hans eigum við einungis að hluta til í þýðingu Guðmundar Böðvarssonar. Einnig vantar okkur Kantaraborgarsögur Geoffrey Chaucers. Bloom hampar hinum franska esseyista Michel Montaigne, en brautryðjandaverk hans á sviði bókmenntalegrar ritgerðasmíðar hafa ekki farið hátt á Fróni. Samuel Johnson fær að fljóta með sem lykilgagnrýnandi en sú staða hans er raunar mjög bundin hinum enskumælandi heimi. Og Bloom er nokkuð fastur í heimi enskunnar, því að næst koma ljóðskáldið William Wordsworth sem ekki hefur verið mikið þýddur og skáldsagnahöfundurinn Jane Austen en einungis ein af skáldsögum hennar hefur verið þýdd. Þá nefnir Bloom skáldsögurnar Middlemarch eftir George Eliot og Bleak House eftir Charles Dickens sem ekki hafa verið þýddar og það má raunar segja um mörg önnur stórvirki raunsæislegrar sagnagerðar á 19. öld.

Ég sæki mér þessi dæmi í bók Blooms til að lesendur fái að sjá nöfn og titla, en einnig til að undirstrika hversu hendingarkennt og staðbundið allt heimsbókmenntalegt val er. Þarmeð er ekki dregið úr mikilvægi hugtaksins, því að það minnir okkur stöðugt á að bókmenntir láta ekki staðar numið innan marka þjóðlanda og tungumála. Íslenskra þýðenda bíður ógrynni heimsbókmennta frá ýmsum tímum, á mörgum tungumálum.


Mynd: Projekt Gutenberg - DE

Höfundur

prófessor í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

15.8.2000

Spyrjandi

Markús Már Sigurðsson, fæddur 1982

Tilvísun

Ástráður Eysteinsson. „Eru einhver verk sem teljast til heimsbókmenntanna enn óþýdd á íslensku?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2000. Sótt 22. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=788.

Ástráður Eysteinsson. (2000, 15. ágúst). Eru einhver verk sem teljast til heimsbókmenntanna enn óþýdd á íslensku? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=788

Ástráður Eysteinsson. „Eru einhver verk sem teljast til heimsbókmenntanna enn óþýdd á íslensku?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2000. Vefsíða. 22. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=788>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru einhver verk sem teljast til heimsbókmenntanna enn óþýdd á íslensku?
Þótt hugtakið „heimsbókmenntir" sé teygjanlegt og umdeilt, þá er svarið við þessari spurningu ótvírætt „já".

Það var einkum þýska skáldið Goethe sem kom þessu hugtaki í umferð á Vesturlöndum. Hann segir til dæmis á einum stað að skáldskapurinn sé sameign mannkynsins, öllum sé hollt að svipast um meðal fjarlægra þjóða og hann sé einmitt sjálfur að lesa kínverska skáldsögu sem skerpi sýn hans, einnig á það sem nákomnara er.

----

Goethe hefur ekki fyrir því að tilgreina hvaða skáldsaga þetta er og lesandi gæti ætlað að „heimsbókmenntir" séu víður völlur sem lesandi getur kannað og kortlagt á eigin forsendum. Þannig má vissulega skilja hugtakið. Raunin er þó sú að í umræðu um heimsbókmenntir, rétt eins og bókmenntir einstakra þjóða, er oftast tekið mið af hefðarveldi, það er úrvali rita sem þykja af einhverjum ástæðum til fyrirmyndar og mynda gjarnan veigamikinn þátt hinnar viðteknu menningarsögu.

Sé ég spurður hvað við Íslendingar höfum ekki þýtt af heimsbókmenntum Austurlanda, hneigist ég til að benda á verk eins og söguljóðin stóru, Mahabarata og Ramanjana, sem þykja grundvallarverk í indverskri menningarsögu (þau voru komin nokkurn veginn í það form, sem nú þekkist, á fjórðu og fimmtu öld samkvæmt okkar tímatali). Eða á Söguna af Genji, hina þekktu skáldsögu japönsku skáldkonunnar Murasaki Shikibu (d. 1015), en það verk er ritað fyrir árþúsundi og hefur haft mikil áhrif á japanskar bókmenntir.

En þessi dæmi eru sótt beint í hefðarveldi þessara þjóða og eflaust gæti þarlent bókmenntafólk bent á ótal önnur verk sem ættu ekki síður erindi til lesanda á norðurhjara veraldar við upphaf 21. aldar. Á Vesturlöndum hafa undanfarið staðið talsverðar deilur um hefðarveldi, gildi þeirra og samsetningu. Sú umræða hefur gjarnan takmarkast við bókmenntakerfi einstakra þjóða og við stöðu kvenna og minnihlutahópa innan þeirra. Það er þó engu minni ástæða til að endurskoða hefðarveldi heimsbókmenntanna.

Hér á landi er talað um sumar fornbókmenntir okkar á þann veg að ætla mætti að þær ættu sér ótvíræðan sess í heimsbókmenntunum. Við nánari athugun kemur í ljós að þar er á brattann að sækja og bókmenntafólk á Vesturlöndum hefur oft enga hugmynd um þennan fjársjóð. Þetta vekur með manni grun um að ef til vill ættum við að huga að öðrum „minnihlutabókmenntum" sem kunna að vera í sambærilegri stöðu.

Hinsvegar er líka skiljanlegt að mest kapp sé lagt á að þýða á íslensku þær bókmenntir sem átt hafa tryggan sess í hinu vestræna hefðarveldi og því almennt verið taldar til sameiginlegra verðmæta í okkar heimshluta. Á undanförnum árum hafa verið þýdd á íslensku allmörg verk sem þarna hafa átt víst sæti. Helgi Hálfdanarson hefur verið sérlega atkvæðamikill þýðandi slíkra verka um nokkurt skeið og á allra síðustu árum hefur Erlingur E. Halldórsson einnig verið stórtækur.

Í þessu hefðarveldi eru þekktustu verk forngrískra og latneskra bókmennta og síðan taka við verk á þjóðtungum síðari alda og verða gjarnan fyrst fyrir verk Dantes og Boccaccio á Ítalíu, Chaucers og Shakespeares á Englandi, Cervantesar á Spáni og Goethes í Þýskalandi, svo eitthvað sé nefnt.

Um margt má deila í vali verka frá fyrri öldum og deilurnar færast yfirleitt í aukana eftir því sem nær dregur samtímanum og verk eiga sér styttri sögu. Þegar bandaríski bókmenntafræðingurinn Harold Bloom gaf út bók um vestræna hefðarveldið fyrir nokkrum árum, The Western Canon (1994), vakti hún mikla umræðu og margir gagnrýndu hana harkalega. Skiljanlegt er að val Blooms á verkum 20. aldar sé umdeilt og mun ég ekki víkja að svo nýlegum verkum hér. Að öðru leyti er val hans hinsvegar hefðbundið að mestu og því hægt að nýta sér það til að svara þeirri spurningu sem upp er borin.

Af þeim 17 höfundum (á þjóðtungum nútímans) sem Bloom tilgreinir fyrst í bók sinni eru nokkrir sem lítið hafa verið þýddir á íslensku og sumir jafnvel alls ekki. Dante er ofarlega á blaði hjá Bloom, en Guðdómlegan gleðileik hans eigum við einungis að hluta til í þýðingu Guðmundar Böðvarssonar. Einnig vantar okkur Kantaraborgarsögur Geoffrey Chaucers. Bloom hampar hinum franska esseyista Michel Montaigne, en brautryðjandaverk hans á sviði bókmenntalegrar ritgerðasmíðar hafa ekki farið hátt á Fróni. Samuel Johnson fær að fljóta með sem lykilgagnrýnandi en sú staða hans er raunar mjög bundin hinum enskumælandi heimi. Og Bloom er nokkuð fastur í heimi enskunnar, því að næst koma ljóðskáldið William Wordsworth sem ekki hefur verið mikið þýddur og skáldsagnahöfundurinn Jane Austen en einungis ein af skáldsögum hennar hefur verið þýdd. Þá nefnir Bloom skáldsögurnar Middlemarch eftir George Eliot og Bleak House eftir Charles Dickens sem ekki hafa verið þýddar og það má raunar segja um mörg önnur stórvirki raunsæislegrar sagnagerðar á 19. öld.

Ég sæki mér þessi dæmi í bók Blooms til að lesendur fái að sjá nöfn og titla, en einnig til að undirstrika hversu hendingarkennt og staðbundið allt heimsbókmenntalegt val er. Þarmeð er ekki dregið úr mikilvægi hugtaksins, því að það minnir okkur stöðugt á að bókmenntir láta ekki staðar numið innan marka þjóðlanda og tungumála. Íslenskra þýðenda bíður ógrynni heimsbókmennta frá ýmsum tímum, á mörgum tungumálum.


Mynd: Projekt Gutenberg - DE...