Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hafa persónulegar dagbækur verið nýttar í rannsóknum á Íslandi í öðrum fræðigreinum en sagnfræði?
Já, dagbækur hafa verið notaðar sem heimildir í margvíslegum rannsóknum innan ólíkra fræðigreina og nýtast þar vel. Þær hafa meðal annars verið notaðar til rannsókna á veðurfarssögu, bæði í landafræði og veðurfræði. Einnig hafa dagbækur verið notaðar í þjóðháttafræði (meðal annars í Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson), málsögu og bókmenntasögu svo að eitthvað sé nefnt.
Hver er elsta dagbók Íslendings sem Háskólabókasafn/ Þjóðminjasafn geymir?
Það fer nokkuð eftir hvernig menn líta á málið. Elsta dagbókin sem varðveitt er í Handritadeild Landsbókasafns er uppskrift af dagbók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík (1705-1799), en frumrit hennar er varðveitt í Kaupmannahöfn. Jón ritaði dagbók sína á árunum 1725-1731, bæði hér á landi og erlendis. Sr. Ólafur Ólafsson gerði þessa uppskrift árið 1907.
Jón Jónsson (1719-1795) prestur á Núpufelli í Eyjafirði hélt dagbók frá árinu 1747 og mun hún því vera elsta dagbókin sem varðveitt er í frumriti í handritadeild Landsbókasafns. Hún er á latínu og í hana er einkum skráð veðurfar og embættisverk. Nokkuð er til af dagbókum lærðra manna frá 18. öld en elstu dagbækur bænda eru frá upphafi 19. aldar. Á þeirri öld hleypur mikill vöxtur í dagbókaritun samfara aukinni almennri skriftarkunnáttu. Frá síðari hluta 19. aldar eru varðveittar dagbækur vinnumanna og lausamanna auk bænda.
Hver er elsta dagbók konu sem Háskólabókasafn/ Þjóðminjasafn geymir?
Elsta dagbók konu og um leið sú eina sem varðveitt er frá 19. öld er rituð af Torfhildi Hólm rithöfundi á árunum 1889-1890. Einungis örfáar dagbækur kvenna eru varðveittar í handritadeild Landsbókasafns, fjórar sem skráðar eru í handritaskrám og nokkrar til viðbótar í aðfangabókum.
Hver er elsta dagbók barns, drengs og stúlku (yngri en 18 ára) sem Háskólabókasafn/Þjóðminjasafn geymir?
Engar dagbækur barna eru varðveittar frá fyrri tíð en nokkuð er um að menn hefji dagbókaritun á unglingsárum og haldi áfram áratugum saman. Þær elstu eru líklega dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821-1869) en hann hélt dagbækur nær samfellt frá árinu 1836, er hann var 15 ára og til dauðadags.
Hversu mikið hafa dagbækur þær sem söfnuðust á Degi Dagbókarinnar þann 15.10.1998 verið rannsakaðar af þeim sem stóðu fyrir átakinu?
Söfnunarátakið Dagur dagbókarinnar var tvíþætt. Í fyrsta lagi voru Íslendingar beðnir um að halda dagbók tiltekinn dag og senda þjóðháttadeild Þjóðminjasafns afraksturinn. Um 6000 dagbókarfærslur bárust og sýnishorn af þeim kom út í veglegri bók er bar nafnið Dagbók Íslendinga. Ekki er mér kunnugt um hvort og þá hvernig starfsmenn Þjóðminjasafnsins hafi unnið frekar úr þeim dagbókum.
Í öðru lagi var kallað eftir eldri persónulegum heimildum á degi dagbókarinnar, hvort sem var dagbókum, bréfum eða öðru. Nokkuð kom inn á handritadeild Landsbókasafns, meðal annars dagbækur Steingríms Hermannssonar fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra, gríðarlegt safn Gunnars J. Friðrikssonar iðnrekanda og dagbækur Auðuns Braga Sveinssonar rithöfundar og kennara til 60 ára, svo að eitthvað sé nefnt.
Hvort sem litið er til þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns eða handritadeildar Landsbókasafns var átakið Dagur dagbókarinnar fyrst og fremst söfnunarátak. Afraksturinn stendur mönnum nú opinn til rannsókna. Hvort og hvernig það hefur verið gert fram til þessa er mér ekki kunnugt um.
Davíð Ólafsson. „Hvernig nýtast persónulegar dagbækur við rannsóknir og fræðistörf?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2000, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=790.
Davíð Ólafsson. (2000, 15. ágúst). Hvernig nýtast persónulegar dagbækur við rannsóknir og fræðistörf? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=790
Davíð Ólafsson. „Hvernig nýtast persónulegar dagbækur við rannsóknir og fræðistörf?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2000. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=790>.