Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:33 • Sest 01:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:46 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:46 í Reykjavík

Færast stjörnurnar á himninum á kerfisbundinn hátt?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Upphafleg spurning var sem hér segir:
Færast stjörnurnar á himninum á kerfisbundinn hátt, sbr. sólargang, séð frá jörðinni, t.d. frá Íslandi?

Langflestar stjörnurnar sem við sjáum á næturhimninum eru fastastjörnur eins og þær eru kallaðar. Sú nafngift stafar ekki af því að þær sýnist vera fastar á einhverjum tilteknum stað, til dæmis yfir einhverju tilteknu kennileiti miðað við ákveðinn sjónarhól. Þvert á móti hreyfast þær einmitt yfir himininn frá austri til vesturs á hverri nóttu svipað og sólin.

Ein stjarna er þó nokkurn veginn kyrr á næturhimninum, alltaf í sömu hæð séð frá sama athugunarstað, og einnig alltaf í norðri. Þetta er Pólstjarnan, og hinar stjörnurnar sýnast vera á hringferð um hana eftir hringum sem eru misstórir eftir því hve langt þær eru frá henni. Sumar þeirra eru nógu nálægt Pólstjörnunni til þess að þær setjast aldrei og er slíkt sérlega algengt hér á norðurslóð þar sem póllinn er hátt á lofti. Þessar stjörnur eru kallaðar pólhverfar.

Aðrar fastastjörnur eru nálægt miðbaug himins sem svo er kallaður, en það er hringur sem er hornréttur á stefnuna til pólsins og liggur um punktana tvo sem eru í hávestur og háaustur á sjóndeildarhringnum. Þessar stjörnur eru líkastar sólinni í göngu sinni um himininn. Þær koma upp í austri og við sjáum það þegar það gerist á nóttunni, og þær setjast í vestri eins og sólin.

Fastastjörnurnar draga nafn sitt af því að þær hreyfast sem ein heild um himininn; þær eru fastar hver miðað við aðra. Þetta er líkast því að himinhvelfingin væri risastór húfa eða kúla með götum fyrir fastastjörnurnar og þessi kúla snerist svo um ás gegnum himinpólana.

Innan um og saman við fastastjörnurnar eru svo nokkrar stjörnur sem við köllum reikistjörnur af því að þær líta annars vegar út svipað og aðrar stjörnur en eru hins vegar á sífelldu flakki innan um fastastjörnurnar. Fimm þessara stjarna eru vel sýnilegar berum augum og hafa verið þekktar frá örófi alda.

Fastastjörnurnar eru svo óralangt í burtu frá okkur að engin leið er að sjá neinn mun á stöðu þeirra eftir því hvar við erum stödd á jörðinni. Hins vegar er ekki ýkja erfitt að sjá slíkan mun á stöðu tunglsins og þegar kemur að reikistjörnunum er hægt að sjá hann með góðum mælitækjum.

Á nítjándu öld komust menn að því að þeir gátu séð breytingu á stöðu nálægra fastastjarna miðað við bakgrunn hinna fjarlægari eftir því hvar jörðin var stödd á braut sinni um sól. Þetta fyrirbæri nefnist hliðrun eða stjörnuhliðrun og er hliðstætt þeirri breytingu sem við getum séð á afstöðu hluta í kringum okkur með því að loka augunum á víxl.

Ekki er heldur öll sagan sögð með því að fastastjörnurnar séu fastar hver miðað við aðra. Þegar betur er að gáð hreyfast sumar þeirra miðað við hinar og verður sú hreyfing sýnileg á löngum tíma, til dæmis með því að stjörnumerking breyta um lögun. Þetta nefnist eiginhreyfing.

Hitt má einnig nefna að möndullinn sem himinkúlan snýst um hreyfist miðað við fastastjörnurnar, einn hring á himinkúlunni á hverjum 26 000 árum. Þetta nefnist pólvelta og veldur því meðal annars að sólin er ekki í sama stjörnumerki á tilteknum árstíma og hún var til dæmis fyrir 2-3000 árum þegar svokölluð stjörnuspeki var að mótast austur í Babýlóníu.

Lesefni:

Þorsteinn Sæmundsson, Stjörnufræði - Rímfræði. Reykjavík: Menningarsjóður, 1972.

Þorsteinn Vilhjálmsson, Heimsmynd á hverfanda hveli I-II. Reykjavík: Mál og menning, 1986-1989.

Einnig má nefna tölvuforrit eins og Starry Night sem fæst á geisladiski og á vefnum.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

12.2.2000

Spyrjandi

Sumarliði Einar Daðason

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Færast stjörnurnar á himninum á kerfisbundinn hátt?“ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2000. Sótt 16. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=82.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 12. febrúar). Færast stjörnurnar á himninum á kerfisbundinn hátt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Færast stjörnurnar á himninum á kerfisbundinn hátt?“ Vísindavefurinn. 12. feb. 2000. Vefsíða. 16. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Færast stjörnurnar á himninum á kerfisbundinn hátt?
Upphafleg spurning var sem hér segir:

Færast stjörnurnar á himninum á kerfisbundinn hátt, sbr. sólargang, séð frá jörðinni, t.d. frá Íslandi?

Langflestar stjörnurnar sem við sjáum á næturhimninum eru fastastjörnur eins og þær eru kallaðar. Sú nafngift stafar ekki af því að þær sýnist vera fastar á einhverjum tilteknum stað, til dæmis yfir einhverju tilteknu kennileiti miðað við ákveðinn sjónarhól. Þvert á móti hreyfast þær einmitt yfir himininn frá austri til vesturs á hverri nóttu svipað og sólin.

Ein stjarna er þó nokkurn veginn kyrr á næturhimninum, alltaf í sömu hæð séð frá sama athugunarstað, og einnig alltaf í norðri. Þetta er Pólstjarnan, og hinar stjörnurnar sýnast vera á hringferð um hana eftir hringum sem eru misstórir eftir því hve langt þær eru frá henni. Sumar þeirra eru nógu nálægt Pólstjörnunni til þess að þær setjast aldrei og er slíkt sérlega algengt hér á norðurslóð þar sem póllinn er hátt á lofti. Þessar stjörnur eru kallaðar pólhverfar.

Aðrar fastastjörnur eru nálægt miðbaug himins sem svo er kallaður, en það er hringur sem er hornréttur á stefnuna til pólsins og liggur um punktana tvo sem eru í hávestur og háaustur á sjóndeildarhringnum. Þessar stjörnur eru líkastar sólinni í göngu sinni um himininn. Þær koma upp í austri og við sjáum það þegar það gerist á nóttunni, og þær setjast í vestri eins og sólin.

Fastastjörnurnar draga nafn sitt af því að þær hreyfast sem ein heild um himininn; þær eru fastar hver miðað við aðra. Þetta er líkast því að himinhvelfingin væri risastór húfa eða kúla með götum fyrir fastastjörnurnar og þessi kúla snerist svo um ás gegnum himinpólana.

Innan um og saman við fastastjörnurnar eru svo nokkrar stjörnur sem við köllum reikistjörnur af því að þær líta annars vegar út svipað og aðrar stjörnur en eru hins vegar á sífelldu flakki innan um fastastjörnurnar. Fimm þessara stjarna eru vel sýnilegar berum augum og hafa verið þekktar frá örófi alda.

Fastastjörnurnar eru svo óralangt í burtu frá okkur að engin leið er að sjá neinn mun á stöðu þeirra eftir því hvar við erum stödd á jörðinni. Hins vegar er ekki ýkja erfitt að sjá slíkan mun á stöðu tunglsins og þegar kemur að reikistjörnunum er hægt að sjá hann með góðum mælitækjum.

Á nítjándu öld komust menn að því að þeir gátu séð breytingu á stöðu nálægra fastastjarna miðað við bakgrunn hinna fjarlægari eftir því hvar jörðin var stödd á braut sinni um sól. Þetta fyrirbæri nefnist hliðrun eða stjörnuhliðrun og er hliðstætt þeirri breytingu sem við getum séð á afstöðu hluta í kringum okkur með því að loka augunum á víxl.

Ekki er heldur öll sagan sögð með því að fastastjörnurnar séu fastar hver miðað við aðra. Þegar betur er að gáð hreyfast sumar þeirra miðað við hinar og verður sú hreyfing sýnileg á löngum tíma, til dæmis með því að stjörnumerking breyta um lögun. Þetta nefnist eiginhreyfing.

Hitt má einnig nefna að möndullinn sem himinkúlan snýst um hreyfist miðað við fastastjörnurnar, einn hring á himinkúlunni á hverjum 26 000 árum. Þetta nefnist pólvelta og veldur því meðal annars að sólin er ekki í sama stjörnumerki á tilteknum árstíma og hún var til dæmis fyrir 2-3000 árum þegar svokölluð stjörnuspeki var að mótast austur í Babýlóníu.

Lesefni:

Þorsteinn Sæmundsson, Stjörnufræði - Rímfræði. Reykjavík: Menningarsjóður, 1972.

Þorsteinn Vilhjálmsson, Heimsmynd á hverfanda hveli I-II. Reykjavík: Mál og menning, 1986-1989.

Einnig má nefna tölvuforrit eins og Starry Night sem fæst á geisladiski og á vefnum. ...