Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvers konar bókmenntaverk er Búnaðarbálkur eftir Eggert Ólafsson?

Sveinn Yngvi Egilsson

Hjarðljóð (e. pastoral poetry) hafa frá fornu fari birt eins konar óskamynd af lífinu í formi náttúrulýsinga en boðið um leið upp á gagnrýni á það sem þykir ámælisvert í heiminum. Þar mátti einnig koma að ábendingum um búskaparhætti og hagnýt efni. Rómverska skáldið Virgill (70-19 f.Kr.) orti Georgica eða Búnaðarbálk og lýsti akuryrkju, skógrækt, kvikfjárrækt og býflugnarækt. Upplýsingarskáld 18. aldar endurvöktu þessa alda gömlu hefð sem gerði þeim kleift að samþætta hrifnæm náttúruljóð og harða gagnrýni. Þekktasta verk af því tagi í íslenskum bókmenntum upplýsingartímans er Búnaðarbálkur eftir náttúrufræðinginn og skáldið Eggert Ólafsson (f. 1726).

Dauði Eggerts Ólafssonar. Koparrista úr riti Ólafs Ólafssonar frá 1796.

Búnaðarbálkur var prentaður í Hrappsey 1783 að Eggerti látnum en hann drukknaði 1768 í Breiðafirði ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Guðmundsdóttur (f. 1734). Í kvæðabálknum dregur Eggert upp fjölbreyttar myndir af íslenskri náttúru og nytjum hennar en verkið er samofið gagnrýni hans á sofandahátt landa sinna og skort þeirra á sjálfsbjargarviðleitni og framfaratrú. Fyrirmyndir Búnaðarbálks eru klassísk kvæði eins og Georgica Virgils og Verk og dagar eftir forngríska skáldið Hesíódos (uppi um 700 f.Kr.) en einnig má benda á hliðstæður í ýmsum náttúruljóðum samtímans, meðal annars Die Alpen (1729) eftir Albrecht von Haller (1708-1777) og The Seasons (1726-1730) eftir James Thomson (1700-1748). Þó að verkið kallist á við fornklassíska búnaðarbálka yrkir Eggert á köflum þannig um náttúruna að það vísar fram á við til skálda 19. aldar sem gerðu náttúruna að fagurfræðilegu viðfangsefni og viðmiði allra hluta. Að því leyti má segja að í ljóðabálknum blandist saman boðun upplýsingarinnar og ljóðræna forrómantíkur. Í Búnaðarbálki má finna erindi sem eru hrein náttúrulýrík og lýsa unaðssemdum sveitalífs, sem og ánægjunni af því að fylgjast með fuglum og dýrum jarðar. Maðurinn getur dregið lærdóma af náttúrunni eins og Eggert sýnir með dæmum: „Í þeirra fugla eðlisháttum / ei nema lyst og gleði fann; / þeir átu nær þeir eta máttu, / af þeirra vistum sjórinn rann; / en þegar vatnið yfir flaut, / á meðan sérhver hvíldar naut“ (Eggert Ólafsson, 36).

Kvæðið er 160 erindi og skiptist í þrjá hluta: Eymdaróð, Náttúrulyst og Munaðardælu. Gagnrýnin er hörðust í fyrsta hlutanum, þar sem deilt er á fáfræði og hjátrú með myndmáli ljóss og myrkurs að hætti upplýsingarmanna. Skuggi og þoka einkenna líf hins lata og hjátrúarfulla bónda sem lýst er í kvæðinu og á að vera fólki til varnaðar. Í öðrum og þriðja hluta birtir til og þar er lýst lífi hins góða bónda og konu hans í „sæludal“ kvæðisins. Lögð er áhersla á að rækta garð náttúrunnar og lifa í samræmi við hrynjandi hennar. Hjónin eru fyrirmyndarfólk og bústörfin eru óskamynd af því lífi sem lifa má á Íslandi. Að því leyti er Búnaðarbálkur útópískt verk enda eru staðleysur oft settar fram í þeim tilgangi að sýna hvað betur mætti fara í samtímanum og helst óskamyndin þannig í hendur við hina hörðu gagnrýni sem kemur fram annars staðar í kvæðabálknum.

Frekara lesefni og mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Sveinn Yngvi Egilsson

prófessor í íslenskum bókmenntum

Útgáfudagur

24.11.2022

Spyrjandi

Fjóla Þórisdóttir

Tilvísun

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvers konar bókmenntaverk er Búnaðarbálkur eftir Eggert Ólafsson?“ Vísindavefurinn, 24. nóvember 2022. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84305.

Sveinn Yngvi Egilsson. (2022, 24. nóvember). Hvers konar bókmenntaverk er Búnaðarbálkur eftir Eggert Ólafsson? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84305

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvers konar bókmenntaverk er Búnaðarbálkur eftir Eggert Ólafsson?“ Vísindavefurinn. 24. nóv. 2022. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84305>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar bókmenntaverk er Búnaðarbálkur eftir Eggert Ólafsson?
Hjarðljóð (e. pastoral poetry) hafa frá fornu fari birt eins konar óskamynd af lífinu í formi náttúrulýsinga en boðið um leið upp á gagnrýni á það sem þykir ámælisvert í heiminum. Þar mátti einnig koma að ábendingum um búskaparhætti og hagnýt efni. Rómverska skáldið Virgill (70-19 f.Kr.) orti Georgica eða Búnaðarbálk og lýsti akuryrkju, skógrækt, kvikfjárrækt og býflugnarækt. Upplýsingarskáld 18. aldar endurvöktu þessa alda gömlu hefð sem gerði þeim kleift að samþætta hrifnæm náttúruljóð og harða gagnrýni. Þekktasta verk af því tagi í íslenskum bókmenntum upplýsingartímans er Búnaðarbálkur eftir náttúrufræðinginn og skáldið Eggert Ólafsson (f. 1726).

Dauði Eggerts Ólafssonar. Koparrista úr riti Ólafs Ólafssonar frá 1796.

Búnaðarbálkur var prentaður í Hrappsey 1783 að Eggerti látnum en hann drukknaði 1768 í Breiðafirði ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Guðmundsdóttur (f. 1734). Í kvæðabálknum dregur Eggert upp fjölbreyttar myndir af íslenskri náttúru og nytjum hennar en verkið er samofið gagnrýni hans á sofandahátt landa sinna og skort þeirra á sjálfsbjargarviðleitni og framfaratrú. Fyrirmyndir Búnaðarbálks eru klassísk kvæði eins og Georgica Virgils og Verk og dagar eftir forngríska skáldið Hesíódos (uppi um 700 f.Kr.) en einnig má benda á hliðstæður í ýmsum náttúruljóðum samtímans, meðal annars Die Alpen (1729) eftir Albrecht von Haller (1708-1777) og The Seasons (1726-1730) eftir James Thomson (1700-1748). Þó að verkið kallist á við fornklassíska búnaðarbálka yrkir Eggert á köflum þannig um náttúruna að það vísar fram á við til skálda 19. aldar sem gerðu náttúruna að fagurfræðilegu viðfangsefni og viðmiði allra hluta. Að því leyti má segja að í ljóðabálknum blandist saman boðun upplýsingarinnar og ljóðræna forrómantíkur. Í Búnaðarbálki má finna erindi sem eru hrein náttúrulýrík og lýsa unaðssemdum sveitalífs, sem og ánægjunni af því að fylgjast með fuglum og dýrum jarðar. Maðurinn getur dregið lærdóma af náttúrunni eins og Eggert sýnir með dæmum: „Í þeirra fugla eðlisháttum / ei nema lyst og gleði fann; / þeir átu nær þeir eta máttu, / af þeirra vistum sjórinn rann; / en þegar vatnið yfir flaut, / á meðan sérhver hvíldar naut“ (Eggert Ólafsson, 36).

Kvæðið er 160 erindi og skiptist í þrjá hluta: Eymdaróð, Náttúrulyst og Munaðardælu. Gagnrýnin er hörðust í fyrsta hlutanum, þar sem deilt er á fáfræði og hjátrú með myndmáli ljóss og myrkurs að hætti upplýsingarmanna. Skuggi og þoka einkenna líf hins lata og hjátrúarfulla bónda sem lýst er í kvæðinu og á að vera fólki til varnaðar. Í öðrum og þriðja hluta birtir til og þar er lýst lífi hins góða bónda og konu hans í „sæludal“ kvæðisins. Lögð er áhersla á að rækta garð náttúrunnar og lifa í samræmi við hrynjandi hennar. Hjónin eru fyrirmyndarfólk og bústörfin eru óskamynd af því lífi sem lifa má á Íslandi. Að því leyti er Búnaðarbálkur útópískt verk enda eru staðleysur oft settar fram í þeim tilgangi að sýna hvað betur mætti fara í samtímanum og helst óskamyndin þannig í hendur við hina hörðu gagnrýni sem kemur fram annars staðar í kvæðabálknum.

Frekara lesefni og mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. ...