Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=


Séð utan úr geimnum er jörðin fallegur bláleitur hnöttur sem gengur á braut um sólina. Mikil hreyfing er á henni, því auk þess sem jörðin gengur hratt eftir braut sinni, eða á um 107 þúsund kílómetra hraða á klukkustund, snýst hún um sjálfa sig. Þessar hreyfingar hafa talsverð áhrif á jörðu niðri og hafa mennskir íbúar jarðarinnar, sem við komum að síðar, miðað við þær tímatal sitt. Umhverfis jörðina gengur allstórt gulleitt tungl, sem snýr alltaf sömu hlið að henni. Tunglið hefur líka mikil áhrif á jörðina, meðal annars með því að toga í höf hennar.

Höfin, sem þekja rúm 70% af yfirborðinu, eru eitt af sérkennum jarðar. Hún er eina reikistjarnan í sólkerfinu þar sem vitað er að vatn finnst í fljótandi formi, en það er talið eitt af frumskilyrðum lífs eins og við þekkjum það. Lífið er annað af sérkennum jarðar, en enn hafa ekki fundist sannanir þess að líf þrífist annars staðar í alheiminum.

En lítum ögn nánar á æviferil og gerð jarðar. Jörðin myndaðist fyrir um fjórum og hálfum milljarði ára. Efnisagnir sem gengu umhverfis sólina, sem var líka að myndast, hnoðuðust þá saman í sífelldum árekstrum. Fyrst eftir myndun var jörðin heit og bráðin vegna orkulosunar sem varð í árekstrunum. Seinna kólnaði ysti hluti jarðar og storknaði en hiti í iðrum hennar hélst við einkum vegna sífelldrar orkulosunar í geislavirkum efnum. Eðlisþung efni sukku inn að miðju hennar, meðan eðlisléttari efni stigu upp að yfirborði, og því er jörðin lagskipt. Frá miðju og út að yfirborði eru um 6370 km og er innst að finna málmkenndan kjarna, þá hálfbráðinn bergmöttul og yst jarðskorpuna. Rafstraumar í kjarnanum mynda segulsvið umhverfis jörðina sem meðal annars verndar okkur fyrir sólvindinum, sem er straumur rafagna frá sólu. Iðustreymi bergbráðarinnar í möttlinum knýr plötuhreyfingar jarðskorpunnar og verður það til þess að yfirborð jarðar tekur stöðugum breytingum. Upp frá yfirborðinu teygir sig lofthjúpur sem er ríkur af súrefni og nitri eða köfnunarefni sem hefur verið myndað af ótal kynslóðum lífvera í milljarða ára.

Fyrstu lífverur komu fram á jörðinni fyrir um 3,8 milljörðum ára. Það voru gerlar í höfunum og mynduðu þeir smám saman súrefni sem varð undirstaða fyrir tilvist flóknari lífvera. Með tímanum þróaðist lífið á jörðinni og varð margbrotnara. Til eru nánast óteljandi gerðir lífvera, einfrumunga og fjölfrumunga, sem lifa og hrærast um alla jörðina, í lofti hennar, láði og legi. Þeirra á meðal eru menn sem má nú kalla ráðandi dýrategund, enda hafa þeir meiri áhrif á jörðina en nokkur önnur tegund lífvera hefur áður gert.

Vistkerfi jarðar er afar viðkvæmt og hefur jörðinni með öllu sínu lífi verið líkt við eina lífveru. Þrátt fyrir að ýmiss konar ferli verji jörðina og lífríki hennar aðsteðjandi hættum, á líkan hátt og ónæmiskerfi manna, á jörðin nú við nokkur alvarleg vandamál að stríða sem ógna henni.

Þó að þessi vandamál kunni að verða leyst má samt fullyrða að jörðin sé komin á miðjan aldur, að minnsta kosti í núverandi mynd. Sólin, aflgjafi jarðar, mun að öllum líkindum taka gríðarmiklum breytingum eftir um fimm milljarða ára, þegar vetniseldsneyti í kjarna hennar þrýtur. Hún mun þenjast út og stækka hundraðfalt og ljósmagn hennar mun aukast tvöþúsundfalt. Hitinn við yfirborð jarðar verður nægur til að bræða járn og er því ljóst að þar munu engar lífverur fá þrifist.

Höfundur

Tryggvi Þorgeirsson

læknir og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

22.8.2000

Spyrjandi

Borghildur Óskarsdóttir

Efnisorð

Tilvísun

Tryggvi Þorgeirsson. „Hver er jörðin?“ Vísindavefurinn, 22. ágúst 2000, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=844.

Tryggvi Þorgeirsson. (2000, 22. ágúst). Hver er jörðin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=844

Tryggvi Þorgeirsson. „Hver er jörðin?“ Vísindavefurinn. 22. ágú. 2000. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=844>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er jörðin?


Séð utan úr geimnum er jörðin fallegur bláleitur hnöttur sem gengur á braut um sólina. Mikil hreyfing er á henni, því auk þess sem jörðin gengur hratt eftir braut sinni, eða á um 107 þúsund kílómetra hraða á klukkustund, snýst hún um sjálfa sig. Þessar hreyfingar hafa talsverð áhrif á jörðu niðri og hafa mennskir íbúar jarðarinnar, sem við komum að síðar, miðað við þær tímatal sitt. Umhverfis jörðina gengur allstórt gulleitt tungl, sem snýr alltaf sömu hlið að henni. Tunglið hefur líka mikil áhrif á jörðina, meðal annars með því að toga í höf hennar.

Höfin, sem þekja rúm 70% af yfirborðinu, eru eitt af sérkennum jarðar. Hún er eina reikistjarnan í sólkerfinu þar sem vitað er að vatn finnst í fljótandi formi, en það er talið eitt af frumskilyrðum lífs eins og við þekkjum það. Lífið er annað af sérkennum jarðar, en enn hafa ekki fundist sannanir þess að líf þrífist annars staðar í alheiminum.

En lítum ögn nánar á æviferil og gerð jarðar. Jörðin myndaðist fyrir um fjórum og hálfum milljarði ára. Efnisagnir sem gengu umhverfis sólina, sem var líka að myndast, hnoðuðust þá saman í sífelldum árekstrum. Fyrst eftir myndun var jörðin heit og bráðin vegna orkulosunar sem varð í árekstrunum. Seinna kólnaði ysti hluti jarðar og storknaði en hiti í iðrum hennar hélst við einkum vegna sífelldrar orkulosunar í geislavirkum efnum. Eðlisþung efni sukku inn að miðju hennar, meðan eðlisléttari efni stigu upp að yfirborði, og því er jörðin lagskipt. Frá miðju og út að yfirborði eru um 6370 km og er innst að finna málmkenndan kjarna, þá hálfbráðinn bergmöttul og yst jarðskorpuna. Rafstraumar í kjarnanum mynda segulsvið umhverfis jörðina sem meðal annars verndar okkur fyrir sólvindinum, sem er straumur rafagna frá sólu. Iðustreymi bergbráðarinnar í möttlinum knýr plötuhreyfingar jarðskorpunnar og verður það til þess að yfirborð jarðar tekur stöðugum breytingum. Upp frá yfirborðinu teygir sig lofthjúpur sem er ríkur af súrefni og nitri eða köfnunarefni sem hefur verið myndað af ótal kynslóðum lífvera í milljarða ára.

Fyrstu lífverur komu fram á jörðinni fyrir um 3,8 milljörðum ára. Það voru gerlar í höfunum og mynduðu þeir smám saman súrefni sem varð undirstaða fyrir tilvist flóknari lífvera. Með tímanum þróaðist lífið á jörðinni og varð margbrotnara. Til eru nánast óteljandi gerðir lífvera, einfrumunga og fjölfrumunga, sem lifa og hrærast um alla jörðina, í lofti hennar, láði og legi. Þeirra á meðal eru menn sem má nú kalla ráðandi dýrategund, enda hafa þeir meiri áhrif á jörðina en nokkur önnur tegund lífvera hefur áður gert.

Vistkerfi jarðar er afar viðkvæmt og hefur jörðinni með öllu sínu lífi verið líkt við eina lífveru. Þrátt fyrir að ýmiss konar ferli verji jörðina og lífríki hennar aðsteðjandi hættum, á líkan hátt og ónæmiskerfi manna, á jörðin nú við nokkur alvarleg vandamál að stríða sem ógna henni.

Þó að þessi vandamál kunni að verða leyst má samt fullyrða að jörðin sé komin á miðjan aldur, að minnsta kosti í núverandi mynd. Sólin, aflgjafi jarðar, mun að öllum líkindum taka gríðarmiklum breytingum eftir um fimm milljarða ára, þegar vetniseldsneyti í kjarna hennar þrýtur. Hún mun þenjast út og stækka hundraðfalt og ljósmagn hennar mun aukast tvöþúsundfalt. Hitinn við yfirborð jarðar verður nægur til að bræða járn og er því ljóst að þar munu engar lífverur fá þrifist....