E-efni eða aukefni eru notuð við framleiðslu matvæla til að hafa áhrif á bragð, lit, geymsluþol og fleira. Aukefnum eru gefin E-númer þegar vísindanefnd Evrópusambandsins (ESB) hefur viðurkennt efnin og ESB sett samræmdar reglur um notkun þeirra. E-merking aukefna er því trygging fyrir því að fjallað hefur verið um efnin með tilliti til heilsufarslegra þátta. Númer aukefna gefa oft til kynna í hvaða tilgangi þau eru notuð. Til dæmis hafa litarefni númer frá 100-199, rotvarnarefni frá 200-299, þráavarnarefni frá 300-399, bindiefni frá 400-499 og svo framvegis.
Hægt er að fá ítarlegar upplýsingar um aukefni á heimasíðu Matvælastofnunar. Þar er meðal annars hægt að komast að því hvaða efni samsvarar hverju aukefnanúmeri, til dæmis að E 440 er pektín, E 330 sítrónusýra og E 104 kínólíngult.
Mynd: HB